Fallinn er frá Loftur Altice Þorsteinsson verkfræðingur, sem um árabil var öflugasti fulltrúi Þjóðarheiðurs, samtaka gegn Icesave, og þjóðinni afar verðmætur í baráttunni gegn Icesave-samningum þeirrar ríkisstjórnar sem hér sat 2009-13.
Loftur verður jarðsunginn á morgun, þriðjudaginn 6. marz, kl. 15.00, frá Áskirkju við Vesturbrún.
Loftur var einn almikilvægasti maðurinn í þeirri öflugu grasrótarhreyfingu sem barðist gegn Icesave-samningunum við brezku og hollenzku ríkisstjórnirnar. Með sínum eigin rannsóknum og viðamiklum bréfaskiptum við erlend yfirvöld, m.a. fjármálaeftirlit Bretlands og Hollands, Englandsbanka, Seðlabanka Hollands og fjármálasérfræðinga, bæði við efnahags- og háskólastofnanir og við meiri háttar blöð eins og Financial Times og þýzk og hollenzk blöð, tókst Lofti að afla sér mjög mikilvægra upplýsinga, sem hann vann skipulega úr og birti opinberlega, m.a. á eigin bloggsíðu, altice.blog.is, og vefjunum thjodarheidur.blog.is og kjosum.is og samstada-thjodar.blog.is, sem og í mörgum greinum í Morgunblaðinu, og þessar upplýsingar höfðu víðtæk áhrif í hreyfingunni allri og meðal þjóðarinnar og fengu m.a. viðurkenningu þáverandi viðskiptaráðherra, Árna Páls Árnasonar, á fundi hans og Kristrúnar Heimisdóttur, aðstoðarmanns hans, og þriðju ráðuneytispersónunnar með fjórum fulltrúum Þjóðarheiðurs og Samstöðu þjóðar, eins og undirritaður var sjálfur vitni að sem einn þeirra.
Þá er ótalið hér ósíngjarnt (og ævinlega ólaunað) framlag Lofts til félagsmálahreyfinga sem börðust í Icesave-málinu: Þjóðarheiðurs, þar sem hann var frá upphafi varaformaður og einn allra atorkumesti skriffinnur vefsins thjodarheidur.blog.is sem fjallaði nánast daglega um málið misserum saman, einnig með samráðsfundum stjórnar sömu samtaka við fulltrúa InDefence-samtakanna (sem áttu heiðurinn af fyrri undirskriftasöfnuninni gegn Icesave-samningunum) og síðar með þátttöku hans meðal leiðandi manna í Samstöðu þjóðar gegn Icesave, regnhlífarsamtökum þar sem meðlimir úr nefndum samtökum o.fl. tóku þátt og lögðu m.a. drögin að hinni vel heppnuðu undirskriftasöfnun á vefnum Kjosum.is, með áskorun á forsetann, sem á endanum hafnaði seinni Icesave-löggjöfinni (Buchheit-samningnum) og ruddi því þannig braut, að fengnu samsinni verulegs meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu, að málið fór fyrir EFTA-dómstólinn, þar sem Íslendingar voru að endingu 100% sýknaðir af kröfum Breta og Hollendinga og þurftu ekki einu sinni að borga eigin málskostnað!
Ef undirritaður ætti að nefna einhvern einn Íslending, sem hefði átt að heiðra í þessu efni, þá var sá maður Loftur Altice Þorsteinsson. Þá var hann ennfremur ötull baráttumaður gegn Evrópusambands-aðild og skrifaði um það vekjandi greinar á vef Samstöðu þjóðar og í Morgunblaðið. Má vænta hér síðar yfirlits um greinaskrif hans þar.
Loftur var fæddur 25. júní 1944 í Reykjavík og vann lengst af verkfræðistörf og gegndi trúnaðarstörfum fyrir félög þeirra, eins og sjá má í Verkfræðingatali.
Hann féll frá eftir langvinna baráttu við hinn illvíga MS-sjúkdóm. Þrátt fyrir lamandi áhrif sjúkdómsins var hann lengst af mjög hress vitsmunalega, eins og sjá mátti í blaðagreinum hans og skrifum á vef Samstöðu þjóðar ekki síður en þessum vef svo lengi.
Heiður þeim, sem heiður ber. Lengi lifi minningin um þenna mikla hugsjóna- og baráttumann í brjóstum okkar sem þekktum hann.
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Fullveldi og sjálfstæði Íslands, Viðskipti og fjármál | Breytt 6.3.2018 kl. 01:01 | Facebook
Athugasemdir
Leitt að heyra og votta ég aðstandendum mína samúð. Loftur var mikill baráttumaður og mikill missir fyrir okkur sem berjumst fyrir sjálfstæði Íslands.
Valdimar Samúelsson, 5.3.2018 kl. 20:58
Rétt mælirðu, Valdimar, og hjartans þökk fyrir þín orð og þína baráttu jafnan í þessu máli.
Jón Valur Jensson, 6.3.2018 kl. 23:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.