24.6.2016 | 11:35
Guðni Th. Jóhannesson sendir okkur þrumu úr heiðskíru lofti
Rifjað er upp, að í riti sínu, The History of Iceland, var Guðni Th. Jóhannesson með gagnrýni á Ólaf Ragnar forseta og málsvörn hans fyrir Íslands hönd í Icesave-málinu. Hefði dr. Guðni sýnt meiri snarpleika en Ólafur í vörn fyrir landsins rétt í málinu, væri kannski hægt að skilja þetta, en þegar staðreyndirnar voru þvert á móti þær, að Guðni gekk öðrum framar í því að gleypa við Svavarssamningnum og mæla vinnulötum Svavari og nefnd hans bót, þá kemur þetta eins og þruma úr heiðskíru lofti.
Lengi verður í minnum höfð frækileg vörn Ólafs Ragnars fyrir málstað Íslands í Icesave-málinu. Óumbeðinn fór hann utan til að glíma við öflugustu fréttamenn BBC og annarra fjölmiðla og hafði betur!
En Guðni heldur því fram, að málfutningur forsetans hafi þarna "í vissum tilvikum verið misvísandi og afvegaleiðandi". Og hann virðist sýta það, að málflutningur þessi hafi tryggt honum stuðning til að sitja sem forseti sitt fimmta kjörtímabil. Og þetta stendur hér eftir, að hinn kokhrausti Icesave-samninga-stuðningsmaður Guðni segir forseta Íslands hafa "afvegaleitt" erlenda blaðamenn, þegar umræðan um Icesave stóð sem hæst!
Eðlilega var hann spurður út í þetta af Morgunblaðinu (maðurinn sem sjálfur gerði sitt til að afvegaleiða almenning!):
Aðspurður hvað hann hafi átt við í textanum, segir Guðni það oft flókið að útskýra mál sitt þannig að erlendir fréttamenn skilji til hlítar. Þess vegna hafi Ólafur stundum þurft að leiðrétta eða útskýra orð sín upp á nýtt. Ólafur hafi afvegaleitt umræðuna, viljandi eða óviljandi ...
Dr. Guðni var í nógum vandræðum fyrir í Icesve-málinu (sbr. þá Fréttablaðsgrein undirritaðs, sem tengill var gefinn á hér ofar), en Jón Baldur Lorange segir um þetta:
"Þarna vegur Guðni að forsetanum með lúalegum hætti, og minnir þetta óneitanlega á árásir Icesave-sinna og vinstri stjórnarinnar á forsetann á síðasta kjörtímabili.
Allir viðurkenna í dag að Ólafur Ragnar Grímsson hafi stigið fram á ögurstundu af glæsibrag og haldið uppi þeirri málsvörn sem Ísland þurfti svo sárlega á að halda, þegar ríkisstjórn Íslands skilaði auðu. Sú málsvörn skilaði Íslandi farsælli niðurstöðu."
Fær nokkur um það efazt? Er það ekki einmitt dr. Ólafur Ragnar Grímsson, sem stendur uppi með heiðurinn af því að hafa verið bezti varnarmaður þjóðarinnar, fremur en sá dr. Guðni, póstmódernískur (en helzt til villugjarn) sagnfræðingur, sem nú hyggst verða eftirmaður hans þrátt fyrir sína fortíð í slæmri álitsgjöf um eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar á síðari tímum?
Jón Valur Jensson.
Ólafur fór stundum á ystu nöf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Löggæsla | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:22 | Facebook
Athugasemdir
Sigurður Ragnarsson las um þetta efni á bls. 2 í Morgunblaðinu í gær, 23. júní, vitnar í það á Facebókarsíðu minni og bætir við: "Þar segir ennfremur:
„Ólafur fór stundum á ystu nöf í því að lýsa afstöðu íslenskra stjórnvalda og lagatæknilegum hliðum málsins. Stundum þurfti hann að útskýra aftur hvað hann hafði meint, eftir viðtöl,“ segir Guðni sem segist fyrst og fremst hafa átt við tilvik sem gerst hafi á erlendri grundu, en geti þó ekki sett fingurinn á eitt stakt tilfelli. - Orð hans í þessari bók hefði ég að vísu frekar viljað sjá á ensku" (segir Sigurður), "þau sömu orð og Guðni skrifaði. En mér finnst ekki málefnalegt, að dósentinn skuli ekki geta nefnt eitt einasta dæmi (sett fingurinn á eitt stakt tilfelli, eins og hann orðar það). Ef skrif hans áttu að vera fræðileg, er slík framsetning einfaldlega glötuð. En þótt svo hafi ekki átt að vera, dregur það umræðu niður á öllu lægra plan að geta ekki rökstutt nákvæmlega gagnrýni sína." (Tilvitnun lýkur.)
Jón Valur Jensson, 24.6.2016 kl. 14:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.