Ríkisábyrgð á Icesave var beinlínis bönnuð skv. EES-samningnum og reglum sem Ísland var skuldbundið að hlíta. Eftir Guðmund Ásgeirsson

Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þeir sem reyna að halda því fram að það hefði verið "betra" að samþykkja samning um ríkisábyrgð vegna Icesave, þ.á m. höfundur nýbirtrar greinar, Friðrik Jónsson, virðast flestir eiga það sameiginlegt að annaðhvort gleyma eða kjósa að líta vísvitandi framhjá stað­reyndum málsins. Ekki síst því algjöra grundvallaratriði að slík ríkisábyrgð var beinlínis bönnuð samkvæmt EES-samningnum og reglum sem Ísland er skuldbundið samkvæmt honum til að hlíta.

Þar að auki var aldrei veitt heimild á fjárlögum fyrir því að skuldbinda ríkissjóð með slíkri ríkisábyrgð, sem braut því í bága við stjórnarskrá, burtséð frá þeim almennu lögum sem hafnað var í þjóðar­atkvæða­greiðslum. Með því að hafna slíkum ólögum í tvígang var meirihluti kjósenda því í raun ekki að gera neitt annað en að framfylgja stjórnarskránni.

Enn fremur stóð tvennskonar ómöguleiki í vegi fyrir slíkri ríkisábyrgð. Í fyrsta lagi hefðu kröfur á hendur ríkissjóði samkvæmt ríkisábyrgð­ar­samningunum orðið gjaldkræfar í erlendum gjaldeyri, sem var ein­faldlega ekki til í ríkissjóði og var því útilokað að efna þær kröfur. Samningur sem er ómögulegt að efna getur aldrei öðlast raunverulegt gildi. Í öðru lagi hefði ríkið ekki heldur getað beitt skattlagningu til að fjármagna greiðslur samkvæmt samningunum, þar sem heimild til slíkrar skattlagningar var ekki fyrir hendi í lögum þegar hin umræddu atvik urðu. Vegna stjórnarskrárvarins banns við afturvirkni skatta hefði því ekki heldur mátt færa neina slíka heimild í lög eftir að þau atvik urðu.

Loks er markleysa að halda því fram að einhver meintur kostnaður vegna "tafa" á úrlausn málsins hafi hlotist af því illnauðsynlega ferli sem leiddi til synjunar ríkisábyrgðar af hálfu kjósenda og staðfestingar EFTA-dómstólsins á því að sú synjun hafi ekki aðeins verið réttmæt heldur það eina rétta. Hafi slíkar tafir orðið einhverjar, voru þær þvert á móti bein afleiðing hinna ófyrirleitnu tilrauna þáverandi stjórnvalda og borgunarsinna í hópi stuðningsmanna þeirra, til þess að brjóta ekki aðeins stjórnarskrá heldur líka EES-samninginn, og stofna þannig þjóðréttarlegum hagsmunum Íslands í stórhættu. Ef stjórnvöld hefðu strax farið hina einu réttu og löglegu leið, að hafna öllum hugmyndum um ólöglega ríkisábyrgð, hefðu engar tafir þurft að verða á því. Þegar brennuvargar kveikja í húsi og reyna svo að hindra aðkomu slökkviliðs að brunastað, er ekki við slökkviliðið að sakast þó tefjist að slökkva eldinn, heldur brennuvargana!

Samkvæmt staðreyndum málsins er þar af leiðandi algjör markleysa að velta sér upp úr því með endalausum "hvað-ef?" spurningum, hvort það hefði verið "hagstæðara" að samþykkja slíka ríkisábyrgð heldur en að hafna henni af þeirri einföldu ástæðu að sá "valkostur" að sam­þykkja hana var í raun aldrei fyrir hendi sem lögmætur valkostur í neinum skilningi. Allar fullyrðingar um annað eru einfaldlega skáld­skapur, sem er sorglegt hversu margir hafa látið blekkjast af.

Umræða um þjóðfélagsmálefni á Íslandi yrði mun markvissari og gagnlegri, ef hún væri byggð á staðreyndum, frekar en röngum fullyrðingum og skáldskap sem á sér enga stoð í veruleikanum.

Góðar stundir. Lifið heil. Áfram Ísland.

Guðmundur Ásgeirsson.


mbl.is Steingrímur og Bjarkey leiða lista VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Frábær er þessi grein Guðmundar Ásgeirssonar. Heilar þakkir! smile

Í kjölfar forsetaframboðs Guðna Th. Jóhannessonar, sem hafði, ólesinn eða óglöggur í lögum, bullað býsna ábyrgðarlaust um Icesave-málið í júní 2009 og enn 2011, hafa ýmsir gamlir Icesave-greiðslusinnar nýlega stigið fram með réttlætingu sína á jafnvel Svavarssamningnum illræmda!

Guðmundur, einn leiðtoga í Hagsmunasamtökum heimilanna, tekur þennan málflutning til athugunar og hrekur hann í yztu æsar. Guðmundur gegndi mikilvægu lykilhlutverki í starfi Samstöðu þjóðar gegn Icesave, sem stóð að undirskriftasöfnuninni á vefnum Kjósum.is með áskorun á forsetann að hafna Buchheit-lögunum.

Jón Valur Jensson, 21.6.2016 kl. 05:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband