27.3.2011 | 22:29
Áður en varir, er búið að kjósa. Vandarðu val þitt?
Á morgun verða Icesave-ólögin send inn á hvert heimili landsins. 9. apríl nálgast! En hver eru aðalatriði þessa máls? Teljum upp þau helztu.
- Nánast allir eru orðnir sammála um, að krafa Breta og Hollendinga er ólögvarin, sbr. það tilskipunarákvæði ESB, 94/19/EC, sem sýnir og sannar sakleysi íslenzka ríkisins og þjóðarinnar í Icesave-málinu
- Þá er ennfremur ljóst og viðurkennt af ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) í des. 2010, að um málið gilda íslenzk lög, ekki ensk eða hollenzk.
- Samkvæmt því eiga kröfuhafar vegna Icesave-innistæðna upp að markinu 20.887 evrur (3.390.000 kr.) að njóta forgangs við kröfur í þrotabúið.
- Þetta er ekki virt í kröfum brezkra og hollenzkra stjórnvalda, þau ætla sér að gera kröfur vegna innistæðna YFIR þessu marki sömuleiðis að forgangskröfum og hirða þannig 49% af þrotabúi Landsbankans í það; ef þeir gerðu þetta ekki, væri krafan engin á hendur Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF), því að eignasafn Landsbankans myndi þá duga fyrir raunverulegu forgangskröfunum. "Ragnars H. Hall-ákvæðið" heitir sú krafa okkar (en ekki svikulla íslenzkra stjórnvalda), sem minnir á og hamrar á þessum rétti TIF. (Nú hefur aumingja Ragnar H. Hall reyndar heykzt á þessari eigin kröfu sinni og gerzt samstarfsmaður stjórnvalda með því að agítera fyrir ólögvarða, R.H.Hall-ákvæðislausa Icesave-III-samningnum!)
- Bretar og Hollendingar krefjast vaxta af kröfunni. Það er óvenjulegt. Þar að auki eiga þeir engan rétt á slíkri kröfu á hendur ríkissjóði Íslands né skattborgurum hér á landi, í mesta lagi á hendur TIF. Í 3. lagi er vaxtakrafan margföld á við það, sem Bretum ætti í mesta lagi að vera heimilt, ef höfuðstóls-krafan væri á annað borð gild (en það er hún ekki). Hún er margföld á við það leyfilega, vegna þess að brezki ríkissjóðurinn lánaði brezka tryggingakerfinu á margfalt lægri vöxtum en þeim 3,3%, sem TIF er krafinn um í hliðstæðu tilfelli, og slíka mismunun banna jafnræðisreglur á EES-svæðinu (Bretland er þar eins og Ísland).
- Þessir vextir eru ekkert smámál. Steingrímur J. Sigfússon er tilbúinn með penna sinn að morgni mánudagsins 11. apríl ef þið segið JÁ 9.apríl til að skrifa upp á að taka 26.100.000.000 kr. af gjaldeyrisforða Íslendinga og afhenda brezkum og hollenzkum stjórnvöldum sem einungis fyrstu vaxtagreiðslu okkar! Þetta er 26,1 milljarður og það áður en nokkuð er byrjað að borga af sjálfum höfuðstólnum, sem enginn veit hver er! og allt vegna ólögvarinnar kröfu! Ennfremur er þess að geta, að 26,1 milljarður er ekki allt og sumt, sem fer í þetta, því að "TIF er ætlað að greiða um 20 milljarða, sem líka er gjaldeyrir og mjólkun á hagkerfinu," eins og undirritaður var minntur á í bréfi Lofts, varaformanns Þjóðarheiðurs. Þannig fara þá um 46 milljarðar úr íslenzku hagkerfi á einu bretti í vikunni næstu eftir Icesaveökosningarnar, EF þjóðin segir ekki NEI!
- Í þrotabúi Landsbankans eru eignir, sem skilanefndir reiknar upp í topp, en teljast verða vafasamar. A) Þar er fyrirtæki Jóns Ásgeirs, Iceland Foods, sem skilanefndin og íslenzka Icesave-III-samninganefndin reikna á 200 milljarða, enda væri mikill áhugi á henni og hún alveg að fara að seljast, þannig var talað báðum megin við síðustu áramót. Síðan er það reyndar komið í ljós, að hæsta tilboð í hana er 120 milljarðar. Ennfremur er skilanefndin nú farin að tala um að hún búist við, að Iceland Foods seljist undir árslokin, enda væri verið að laga til í bókhaldinu til að gera þessa verzlanakeðju útgengilegri. Jafnvel við, ófaglært fólk í þessu, sjáum í gegnum svona sýndarmennsku.
- Önnur stór eign er B) skuldabréf upp á 310320 milljarða, skuld nýja Landsbankans (NBI) við þann gamla, og skal allt greiðast í dollurum, pundum og evrum. En fram er komið, að nýi bankinn verður í miklum erfiðleikum með að útvega nægan gjaldeyri til að standa skil á afborgunum skuldabréfsins. Verði vanhöld á greiðslum, lendir tjónið á TIF og (samkvæmt Icesave-III-samingnum og vegna hans eins) á ríkissjóði Íslands og okkur skattgreiðendum.
- Kostnað vegna allra tafa á greiðslum úr þrotabúinu yrðum við einir að bera, þ.e.a.s. ef við samþykkjum Icesave-samninginn, og sá kostnaður yrði verulegur og er ekki reiknaður inn í hinar uppgefnu leikaraskaps-tölur frá skilanefnd/samninganefnd, jafnvel ekki vegna þeirra tafa sem þegar eru orðnar.
- Gengisáhætta er mikil vegna Icesave-samningsins. Gegn henni má hamla með gjaldeyrishöftum, en einnig þau hafa kostnað í för með sér. Nú hafa gjaldeyrishöftin verið framlengd frá 31. ágúst nk. til ársins 2015, og má þá kalla það m.a. fórnarkostnað vegna Icesave-samningsins þó ekki vegna þess að þjóðin ætlar að hafna honum!
Í VINNSLU
Jón Valur Jensson.
Icesave-lögin fara í póstdreifingu á morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Löggæsla | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 28.3.2011 kl. 13:20 | Facebook
Athugasemdir
NEI; NEI; NEI.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.3.2011 kl. 01:22
Ég ætla sjálf að dreyfa til vinkvenna minna,staðreyndum,svona aðal áríðandi. Ef ég get sníkt1 frá ykkur ljósrita ég þau. en hér hef ég ekki prentara. Lesið comment Guðmundar 2 Guðmundss,á bloggi Pallvill. Ætlaðiað finna þetta í samningnum,en Guðm. er með þetta á hreinu.
Helga Kristjánsdóttir, 28.3.2011 kl. 01:49
Þakka þér ábendinguna ... og baráttuandann, Helga!
Þakka þér, Jóna Kolbrún. Við segjum öll stórt NEI.
Afsakið, lesendur, að vegna þreytu komst ég ekki lengra með þennan pistil í gærkvöldi. Hér þarf að bæta meira við, en ég kemst ekki í það næstu klukkutímana.
Jón Valur Jensson, 28.3.2011 kl. 12:00
Hvort sem samningurinn verður samþykktur eða ekki, þá er það nær öruggt að þeir sem ekki fengu greiddar sínar innistæður upp í topp úr bresku og hollensku tryggingarsjóðunum muni sækja sinn rétt fyrir dómstólum.
Máli sínu til stuðnings munu þeir veifa áminningarbréfi ESA, um mismunun íslenskra stjórnvalda. Til að styðja við áminningarbréfið munu þeir láta þess getið að íslensk stjórnvöld hafa ekki svarað bréfinu efnislega, með gagnrökum og hljóta því að vera sammála efni þess. Einnig hafi þau í þrígang samþykkt að gangast í ábyrgð vegna Icesave.
Verði samningurinn samþykktur þá virkjast eftirfarandi atriði:
"Grein 10.9 Lög sem gilda. SAMNINGUR ÞESSI OG MÁL, KRÖFUR EÐA ÁGREININGUR SEM RÍS VEGNA HANS EÐA Í TENGSLUM VIÐ HANN, HVORT HELDUR ER INNAN EÐA UTAN SAMNINGA (e. CONTRACTUAL OR NON-CONTRACTUAL), SKULU LÚTA ENSKUM LÖGUM OG TÚLKAST SKV. ÞEIM.“
Í stuttu máli, þá verður skorið úr um lögmæti neyðarlaganna íslensku, fyrir breskum dómstólum, skv. breskum lögum.
Að samþykkja lögsögu dómstóla erlends ríkis til þess að túlka og dæma um lögmæti íslenskra laga, heitir á góðri íslensku, fullveldisafsal.
Kristinn Karl Brynjarsson, 28.3.2011 kl. 15:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.