19.3.2011 | 09:00
Icesave-III: „Þetta getur sprungið í andlitið á okkur“ (Jón Lárusson)
Af hinum afar kærkomnu þremur viðtals-þáttum á ÍNN um Icesave frá Samstöðu þjóðar gegn Icesave hafði undirritaður sízt heyrt af dúndurefninu frá Jóni Lárussyni, sérfræðingi í afleiðuviðskiptum. Þar saxar hann niður lið fyrir lið málflutninginn um að við megum treysta því, að eignasafn Landsbankans geti farið langt í að standa undir öllum bótakröfum Breta og Hollendinga á hendur Tryggingasjóði innstæðueigenda og (skv. löglausa Icesave-III-samningnum) ríkissjóði okkar.
Icesave-samningssinnar hafa nánast farið hamförum að gera sem mest úr eignasafninu. Grófustu ýkjurnar eru þær, að við getum jafnvel komið út í gróða! En það getur aldrei orðið, því að þeir 26 milljarða vextir, sem greiddir yrðu bara á þessu ári (og meira seinna) eru óafturkræfir, það liggur í eðli máls, vegna þess að vaxtagreiðslur koma svo langt á eftir forgangskröfum, þegar skipt er úr búinu, eins og Jón lýsti.
Málið er einmitt á hinn veginn, að allt bendir nú til, að þrátt fyrir allar fullyrðingarnar um verðmæti eignasafns gamla Landsbankans séu það miklu fremur ofmetið og á hraðri niðurleið. Gildi eignabúsins er ekki fast í hendi, fyrr en búið er að selja, það er aðeins matsverð, sem menn hafa verið að ræða, en Jón rekur þessi mál í viðtalinu, og það stendur naumast steinn yfir steini eftir athugun hans á málinu, rétt eins og skoðun hans á gengishorfum krónunnar, og þetta er H É R ! að finna, í sjónvarpsviðtalinu við Hall Hallsson blaðamann, sem eins og hinir tveir er félagi í Samstöðu.
Jóni er augljóslega mikið til lista lagt á sviði markaðs- og gengismála, menn heyra það fljótt, þegar komið er áleiðis inn í þetta viðtal við hann, að þar talar maður sem er gjörkunnugur hlutabréfa- og verðbréfamarkaði og já, það er svo, að einmitt sá markaður hefur afgerandi þýðingu fyrir útkomu þrotabúsins á endanum og þar með fyrir hlutskipti Íslendinga, ef þeir láta glepjast til að samþykkja nýja Icesave-samninginn.
Þátturinn er sá nýjasti frá Samstöðu á ÍNN-stöðinni, og með Jóni situr þar einnig fyrir svörum Loftur Þorsteinsson, varaformaður Þjóðarheiðurs, en báðir eru þeir í Samstöðu þjóðar gegn Icesave, sem stóð fyrir hinni farsælu undirskriftasöfnun á Kjósum.is.
Rökföstum málflutningi Lofts eru lesendur þessarar síðu vel kunnugir, en það er líka ferskt og áhrifaríkt að hlusta á hann ræða málið í þessu sjónvarpsviðtali við Hall.
Dúndurefni þetta getur sprungið í andlitið á okkur
Ég, sem þetta rita, hafði hins vegar allengi átt nafna minn Lárusson að bloggvin, áður en ég fekk að sjá til hans í reynd, þ.e. að kynnast þessum kraftmikla rökhyggjumanni í þeirri frábæru netsútsendingu sem H É R ! er um að ræða (ÍNN-þætti frá því á miðvikudaginn var, 16. marz).
Hann gengur frá Icesave-samningsmönnunum með sinni framgöngu þarna, ég fæ ekki betur séð. Hann rekur það, sem blasir við, í ljósi núverandi þróunar á alþjóðamarkaði, og það er hrollvekjandi að hlusta á hvað gerist, þegar hlutirnir skrúfast þar niður, eins og teikn eru nú um á Bandaríkjamarkaði, sem hefur hér ráðandi áhrif. Hann rekur það lið fyrir lið, hvernig þetta hefur að líkindum áhrif til að lækka verðmæti eignasafnsins og rýra gengi krónunnar og brýtur loks niður greiðslugetu okkar. Hlustið vel, unz seinni hlutinn í millifyrirsögninni hér fyrir ofan er kominn í ljós!
Hér eru lokaorð viðtalsins, sem ættu að draga forvitni ykkar inn í þann mikla rökstuðning, sem á undan hafði farið:
- Hallur Hallsson: Þetta hefur verið afar áhugaverð umræða. Það, sem í raun og veru þú [Loftur] ert að segja og þið báðir, er, að við erum að spila hér rússneska rúllettu og það eru skot nánast í öllum hólfum?
- Jón Lárusson: Já, það eru 5 hólf af 6 hlaðin. Þá er spurningin: Hittirðu á þetta eina tóma?
- Hallur: Þannig að líkurnar eru á móti okkur? þú ert að segja það?
- Jón: Ja, ég er bara að segja það, að innheimturnar úr búi Landsbankans eru langt frá því að vera í höfn.
Ímyndið ykkur ekki, að málavextirnir, sem Jón rakti svo vel í viðtalinu, hafi verið í einhverjum léttúðugum westra-stíl, heldur bar hann allt merki sérfræðings á sviði kauphallar- og gengismála. Sjáið sjálf og sannfærizt!
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 22.3.2011 kl. 03:29 | Facebook
Athugasemdir
Jón: „Ja, ég er bara að segja það, að innheimturnar úr búi Landsbankans eru langt frá því að vera í höfn.“
Þetta passar bara við það sem t.d. þú hefur verið að blogga um áður fyrr um innheimturnar úr þrotabúin, Iceland keðjan sem er aðal eign þrotabúsins metin á 200 milljarða er með hæsta og eina boð upp á 120 milljarða það er 60% endurheimta.
Sorglegt hvað það eru margir sem ekki sjá í gegnum lygarnar hjá ríkisstjórninni þar sem þær hafa verið margar og fólk ætti að vera tilbúið að ríkisstjórnin segir ekkert satt í þessum málum.
Og forsendurnar sem ríkisstjórnin gefur sér til að kostnaðurinn verði bara í kringum 50-75 milljarðar af Icesave eru fáránlegir,
Voru það ekki Indefence menn sem reiknuðu það út að ef krónan fellur um 1% og endurheimtur úr þrotabúinu falla um 15% þá er skuldin komin í vel á yfir 250 milljarða, það sjá allir sem eru með augun opin að það eru allar líkur á að þetta gerist miðað við ofangreind atriði.
Ég segi NEI við Icesave áður fyrr, nú og alla tíð!!
Halldór Björgvin Jóhannsson, 19.3.2011 kl. 11:25
Kærar þakkir, Halldór Björgvin. Í þetta sinn svara ég eftir minni um orð InDefence-manna eða GAMMA-manna: talað var þar um 1% lækkun gengis á hverjum ársfjórðungi. En það er nú ekki mikið, miðað við gengissögu okkar!*
Nei, menn tala ekki um 97%, heldur "um 90%" endurheimtur (Jóhannes Karl hrl., á Íslandsbanka-fundinum á Kirkjusandi í vikunni) eða nákvæmar: 89%. (Já, sú tala er enn í gangi, a.m.k. sá ég hana enn setta fram fyrir innan við 10 dögum.)
Svo er það Landsbankabréfið, upp á um 310–320 milljarða, en það bréf er mjög ótryggt (nema þeir ætli sér kannski að pína þetta undan nöglunum á íbúðalána-skuldurum). Þar á ofan eru svo þau mál, sem Jón Lárusson fjallar svo um með sínum stórmerka hætti í þessu ÍNN-viðtali, sem vísað var í hér ofar.
* Sbr. líka orð Jóns Lárussonar um gengishorfurnar í viðtalinu!
Jón Valur Jensson, 19.3.2011 kl. 16:20
Eignasafn Landsbankans líkist því miður ketti Schrödingers, sem var lokaður inni í kassa, svo að enginn gat vitað, hvort hann var lífandi eða dauður. Almenningur hefur litla hugmynd um, hvað er í þessu eignasafni, hvers virði það kann að vera og hvenær hægt verður að selja það eða innheimta. Þess vegna er gætilegt og nauðsynlegt að gera ráð fyrir miðlungi góðum eða slökum heimtum. Þar við bætast svo þær almennu ástæður til varfærni, sem Jón Lárusson gerði í viðtalinu grein fyrir (og er engin sérvizka eða kosningaræða, því að svipaðar spár um nýja niðursveiflu hafa að undanförnu verið í fréttum víða um heim).
Ég sé ekki nema fjórar nokkurn veginn gildar ástæður til að segja já við Icesave: 1) Hræðsla eða stimamýkt við Breta og Hollendinga, 2) Ást á Evrópusambandinu, 3) Ditto á núverandi ríkisstjórn eða 4) Hræðsla við hugsanlegt þingrof og kosningar.
Sigurður (IP-tala skráð) 19.3.2011 kl. 16:35
Mín reynsla af heimtum var sú að að rándýr Lögfræðistofa og endurskoðunarstofa fékk vafa safn til innheimtu, og tók svo gjald fyrir. Ég var fljótur að losa mig svona innheimtu. Því það var engin vandi að velja það greiddist og kostaði nánast ekkert að innheimta og skila svo öllu hinu þegar vonlaust var innheimta það. Ég tók þetta að mér og skilin voru mikið betri. Svo til öryggis afskrifað ég allt sem myndi ekki greiðast niður til að gefa ekki vitalausa mynd af eiginfé.
Reglan um hlutafélög eins Hafskip var að 20% -30% myndu vera nettó skil. Þar sem þetta eru allt veðbréf þá átti vera eðlilegt að skil væru örugg og góð að lítið væri um afföll. Hinsvegar má álykta að lánsformin séu í samræmi við Íslensk lánsform. Alþjóða umhverfð fram til 2017 og lengur liggur fyrir í hinum vestræna heimi: neyslu samdráttur, framleiðslu samdráttur og negatífur raunhagvöxtur. Fjármagn streymir til Asíu.
Allt óhagstætt. Hinsvegar ef UK vill ekki taka áhættuna og ekki hluta henni né Holland, þá efast ég ekki um þeirra fjármálviti. Enda væri það virðingarleysi þeir hljóta að rannsakað áreiðleikann ofan í kjölinn.
Skilanefndir eru ekki hlutlausar og reyna gefa sem besta ímynd af sér á öllum tímum. Íslenskar örugglega ekki greitt eftir afköstum, heldur tímakaupi.
Júlíus Björnsson, 19.3.2011 kl. 16:53
Ég tel að mestu máli skiptir núna að þeir sem eru óákveðnir varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna um UPPGJÖF III, kjósi gegn þessu klöfum sem jásinnar vilja leggja á þjóðina.
Birgir Viðar Halldórsson, 20.3.2011 kl. 10:07
Ég hef sterka tilfinningu fyrir að fleiri séu að vakna ti vitundar og að þjóðin okkar muni nú hafa þetta af að kjósa áframhaldandi líf í landinu.Er ekki í vafa um að þetta geysilega öfluga vel menntaða og duglega fólk sem tekið hefur höndum saman vítt og breitt um netið muni skila þessu í höfn.Mér finnst ef litið er til baka frá því að byrjað var að safna undirskriftunm hefur ótrúlega mikið áunnist. Miklu meira en nokkurn hefði getað grunað.Tek það fram að eg get því miður ekki hrósað sjálfri már neitt í þessu sambandi.Það eru aðrir sem hafa unnið störfin.Það bærast sífellt fleiri við sem draga vagninn. Stjórnvöld vita nú að það eru sjómenn á Íslandi þökk sé Þjóðarheiðti sem dæmi um árangur
Eldri kynslóðin sem ekki hefur netið er algerlega einangruð frá umræðunni um iceave nema lygum og blekkingaspuna RUV.Þetta er sú kynslóð sem vildi og fannst sjálfsagt að fylgjast með og taka virka þátt í þjóðfélagsmálum og umræðu.Nú er það í einangrað og skiljanlegt að það sé passað vel því það fólk mun fylgja hagsmunum þjóðarinnar.Mesta hættan er ef það heyrir ekkert nema hræðsluáróðurinn.
Vi sem viljum ekki samþykkja erum líklega meira em helmingur þjóðarinnar.Það á ekki að líðast að við höfum ekki aðgang að ríkisfjölmiðlinum.Við erum eigendur hans. Og svona í lokin legg ég það til að þeir kjósa með Iceave setji banka og reikningsnúmer sitt aftan á kjörseðilinn
Sólrún (IP-tala skráð) 20.3.2011 kl. 15:31
Kærar þakkir fyrir innlegg ykkar og umræðuna, Sigurður, Júlíus, Birgir Viðar og Sólrún.
Ég er mjög meðvitaður um þessa erfiðari aðstöðu eldri kynslóðarinnar, þeirra sem tölvulausir eru, til að fylgjast með umræðunni, Sólrún. En þeir hafa þó margir Útvarp Sögu. Þótt þar séu sumir þáttagerðarmenn og tilkallaðir álitsgjafar Icesave-sinnar (t.d. Höskuldur Höskuldsson og Egill Jóhannsson í viðskiptaþættinum, Tryggvi Agnarsson hrl. o.fl.), auk sumra innhringjenda, er þar öruggur meirihluti andstæðinga Icesave og eindreginna gagnrýnenda ólaganna (t.d. Arnþrúður og Pétur, Jón G. Hauksson í viðskiptaþættinum, við Eiríkur Stefánsson í stuttum pistlum okkar (þótt himinn og haf sé milli okkar í ESB- og stjórnlagaþingsmálum), sem og sterkur meirihluti hlustenda í hinum þriggja klst. innhringiþáttum hvern dag, undir styrkri stjórn Péturs og Arnþrúðar, og það hefur tvímælalaust veruleg áhrif. Stöðin hafði fyrir um 3-4 misserum 30% hlustun á landsvísu og 40% á höfuðborgarsvæðinu og hefur fjölgað endurvarpsstöðvum síðan, auk þess að vera á netinu.
Jón Valur Jensson, 20.3.2011 kl. 21:39
Eg mun benda fólki á á Útvarp Sögu
Segjum nei við Iceave og fáum það heim fyrir íslenska dómstóla
Látum ekki blekkjast til að gefa ríkisábyrgð sem nú er ekki til staðar
Notum aðferð Helga Hóseassonar ef Ruv úthýsir okkur :)
gegn hlutdrægni ríkisfjölmiðilsins
Sólrún (IP-tala skráð) 21.3.2011 kl. 17:49
Heyr, heyr, Sólrún!
Jón Valur Jensson, 22.3.2011 kl. 02:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.