Ekki hætta á beinu, erfiðu dómsmáli, heldur seinvirkri klækjaatlögu í gegnum Eftirlitsstofnun EFTA

Staðhæfingar Icesave-stjórnar-minnihlutans*, að Bretar og Hollendingar muni steypa sér yfir okkur með lögsókn fyrir dómstólum, segi þjóðin NEI við Icesave-3, eru orðin innantóm. Það staðfesta Lárus Blöndal og Stefán Már Stefánsson.

Sá síðarnefndi var á athyglisverðum fundi með Framsóknarmönnum í dag (fór því miður fram hjá undirrituðum, en vel er sagt frá honum hér á Mbl.is, sjá tengil neðar); þar kom ýmislegt fram, sem hér verður rætt.

Hvað Lárus varðar, mátti fyrst, á mánudaginn var, 21/2, skilja hann svo í viðtali við Mbl. (s. 4: 'Snýst um að fara dómstólaleiðina') að hann teldi brezka og hollenzka lögsókn vofa yfir okkur, ef við höfnuðum Icesave-III, en daginn eftir, í fyrradag, var hann aftur í frétt þar – aðalfrétt á forsíðu: Býst ekki við bótamáli' – og hafði þá aðra eða skýrari sögu að segja. Þar segist hann „ekki reikna með því að Bretar og Hollendingar höfði bótamál hér heima, þótt það sé vissulega möguleiki, heldur muni niðurstaða EFTA-dómstólsins, sem er aðeins ráðgefandi og óbindandi, og vísan í EES-samninginn verða notuð til þess að þrýsta á Íslendinga um greiðslu."

Látið vera, lesendur góðir, að hrökkva í hræðslugírinn vegna þeirra orða Lárusar, þetta er nefnilega alls ekki svo auðvelt mál viðfangs fyrir þá sem vilja sækja á okkur í þessu máli, eins og fram mun koma hér á eftir. En skoðun fyrst það, sem Stefán Már hafði fram að færa í fyrirlestri sínum í dag.

  • Ef Icesave-samningnum verður hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu er líklegast að ESA [Eftirlitsstofnun EFTA] fari af stað með samningsbrotamál gegn Íslendingum fyrir EFTA-dómstólnum. Gera verður ráð fyrir að Íslendingar gætu tapað því máli.
  • Þetta segir Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands en hann hélt fyrirlestur á opnum fundi Landsambands framsóknarkvenna og Sambands ungra framsóknarmanna um Icesave-deiluna í dag. (Mbl.is.)

Frábært framtak hjá Framsóknarmönnum, en hefðu mátt auglýsa það betur! – En Stefán heldur áfram:

  • Sú málsókn [ESA] sé líklegasta niðurstaðan þar sem ESA hafi þegar gert grein fyrir viðhorfi sínu í áminningarbréfi til íslenskra stjórnvalda. Stefán segist algerlega ósammála þeirri túlkun á tilskipun um innistæðutryggingar sem þar kemur fram, en gera þurfi ráð fyrir þeim möguleika að EFTA-dómstólinn grípi sama agnið.

Stefán Már hafði áður gert grein fyrir sínum hörðu gagn-athugasemdum við þá túlkun í Morgunblaðinu á liðnu ári. Steingrímur J. Sigfússon hjálpaði nú ekki til með því að vanrækja það hlutverk sitt að senda ESA rökstutt svar með höfnun sinni á slöppum röksemdum stofnunarinnar, og er það ekki eina vanrækslusynd hans í sambandi við icesave. – En Stefán Már bætir við (leturbr. hér):

  • Ef Ísland tapi því máli þá sé sá dómur bindandi [annað sagði Lárus! – aths. jvj], en ekki sé hægt að koma fram neinum viðurlögum. Íslendingum beri þá sjálfum að koma málum í lögmætt horf og skilgreina sjálfir skyldur sínar í þeim efnum. Þá vakni ýmsar spurningar hvernig það eigi að gerast, hvaða fjárhæðir ætti að greiða og hvenær. Þá mætti hugsa sér að fara þyrfti í annað samningsbrotamál til að athuga hvort Íslendingar hefðu fullnægt skyldum sínum.

Hér viljum við undirritaðir í stjórn Þjóðarheiðurs taka fram nokkur atriði:

  1. EFTA-dómstóllinn hefur ekki dómsvald yfir okkur, það er ekki grundvöllur til að framfylgja dómum þar hér á landi, ef við höfnum Icesave-III-samningnum, af því að Ísland er ennþá sjálfstætt ríki, og lögspekingar virðast sammála um þetta. Hins vegar stefna Icesave-flokkarnir hér á landi að því að afsala dómsvaldinu í þessu máli, það reyndu þeir síðast með Icesave-III-ólögunum!
  2. Þótt Bretar og Hollendingar fengju að sjá einhverja dómsniðurstöðu hjá EFTA-dómstólnum, sem væri þeim að skapi, væru þeir ekki þar með komnir með neitt fé né skuldarviðurkenningu frá okkur í hendur, heldur yrðu þeir að höfða mál hér heima til að reyna að fá því framgengt; á meðan við höfum lögsöguna, þurfum við ekki að óttast annað.
  3. Alls óvíst er, að ríkisstjórnir nefndra landa teldu sér hag í því að fara í mál við okkur vegna þessa, því að mikið er í húfi fyrir evrópska bankakerfið, að því verði ekki raskað með því að eitt ríkjanna á EES-svæðinu verði dæmt til að ábyrgjast banka sína.
  4. Tekið gæti mörg ár að fá dómsniðurstöðu í því máli og alls ekkert sjálfgefið, að dómurinn yrði okkur í þungbærara lagi, þótt niðurstaða EFTA-dómstólsins hefði orðið okkur andræður.
  5. Einmitt þessi mörgu ár gætu verið okkur það skjól sem fjármálaráðherrann taldi sig finna í annarri "lausn" með Icesave-I-svikaplagginu, en var vitaskuld ekkert skjól. Þetta dómsmál yrði langt ferli, og meðan landið væri í því dómsferli, væri fráleitt, að Bretland og Hollandi gætu haldið uppi refsiaðgerðum og alþjóðlegum þrýstingi gegn okkur – meðan þetta er í lögformlegu ferli, geta þeir ekki verið þekktir fyrir slíkt. Ef það kæmi upp grunur um það að þeir væru að beita óþverra-bolabrögðum, þá myndum við upplýsa um málið fyrir umheiminum og lítillækka þá, af því að það getur getur ekkert réttarríki hagað sér þannig, meðan málið er á rettu athugunarstigi.
  6. Á þeim drjúga tíma, sem þetta dómsmál tæki, yrði líka orðið ljóst, hvað í alvöru kemur út úr þrotabúinu.
  7. Við þurfum ennfremur áður, í tæka tíð, að aðlaga okkur betur til að glíma við málið, með breytingu á Neyðarlögunum (sjá Mbl.grein Lofts um það), það er hægt að breyta þeim, þannig að lágmarksfjárhæðin fái forgang, ennfremur með bfreytingu á lögunum um tryggingasjóðinn, við höfum lögsögu til þess.

Lítum nú aftur á fleiri atriði í málflutningi dr. Stefáns Más:

  • Þá ræddi Stefán Már um hugsanlegar afleiðingar þess fyrir Ísland að fara ekki eftir hugsanlegum dómi EFTA-dómstólsins um samningsbrot. Segir hann að Ísland færi ekki á koll við að tapa málinu en það hefði óþægindi í för með sér.
  • „Mér dettur ekki í hug að íslenska ríkið gerði ekki að minnsta kosti eitthvað, en ef Ísland gerir ekki nóg eða ekkert í raun, þá erum við með það yfir okkur að við séum að brjóta alþjóðalög. Ég sé það fyrir mér í viðskipta- og pólitísku samstarfi okkar,“ segir Stefán Már. (Mbl.is.)

Vissulega er það mögulegt, en þarna verður samt að gera ráð fyrir því, að frumkvæðið þarf að vera Breta og Hollendinga, vilji þeir fá niðurstöðu í samræmi við dóm, því að EFTA-dómstóllinn kveður ekki upp neinn dóm um höfuðstóls-fjárhæðir í málinu og þaðan af síður um vexti. Það frumkvæði yrðu brezk og hollenzk stjórnvöld að taka með málssókn hér á landi, önnur leið er þeim ekki fær. Þá yrðu líka íslenzk lög látin gilda um málið og endanleg túlkun Hæstaréttar á því, hvað EFTA-dómstóls-úrskurðurinn fæli í sér, ætti hér úrslitaorðið. Við mættum alveg treysta því, að dómur Hæstaréttar yrði ekki mótaður af fjandsamlegum anda gegn réttindum þjóðarinnar eða tillitsleysi við hag hennar.

Ísland færi ekki á koll er eina millifyrirsögnin í frétt Mbl.is af fyrirlestri Stefáns. Það er alveg í samræmi við það, sem hér er fram komið. Lagaleg staða okkar er sterk, það er engin ríkisábyrgð á bönkum hér né á Tryggingasjóði innstæðueigenda, hann er sjálfseignarstofnun sem haldið er uppi með árlegum iðgjöldum fjármálastofnana landsins án baktryggingar annars staðar.

Á fyrirlestrinum fekk Stefán þá undarlegu spurningu utan úr sal, "hvort EES-samningum gæti verið sagt upp, ef Íslendingar hafna Icesave-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu." – Hann sagði ekkert samningsbrot felast í því, „enda höfum við aðeins verið að fara eftir stjórnskipulagslegum reglum landsins." Auðvitað geti samningnum verið sagt upp eins og alltaf, en hugsanleg höfnun samningsins sé ekki samningsbrot sem gefi tilefni til þess. (Mbl.is).

Þarna fengu menn það á hreint: Það er enginn dómsdagur yfirvofandi, þótt þjóðin neyti réttar síns til að fella Icesave-III-lagasetninguna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fráleitt er að spá neinum refsiaðgerðum og efnahagslegum hamförum á þessu ári né jafnvel því næsta vegna þessa máls – það færi einfaldlega í vinnuferli dómstóla, að siðaðra manna hætti, og á meðan það ferli er í gangi, mun líka vera unnt að semja sérstaklega um aðrar lausnir, séu menn ginnkeyptir fyrir því – það hefur komið skýrt fram í álitum Reimars Péturssonar hrl. nú í vikunni – í Kastljósi og í fréttaskýringu Mbl. daginn eftir) og Völu Andrésdóttur Withrow, lögfræðings í Bandaríkjunum, í snarpri, umtalaðri grein á vefsíðu hennar á Moggabloggi (vala.blog.is: Icesave afturgangan).

Jón Valur Jensson, Loftur Altice Þorsteinsson. 

* Ríkisstjórnin nýtur nú um stundir um 25% fylgis í skoðanakönnunum.


mbl.is Samningsbrotamál líklegast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Hvet alla til að lesa þessa bloggfærslu eftir hann Ómar Geirsson, en ein staðfestingin þar á að Íslandi ber ekki að greiða fyrir þessa ólögvörðu kröfu frá ríkisstjórnum breta og hollendinga.

http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1145611/

Halldór Björgvin Jóhannsson, 24.2.2011 kl. 15:22

2 identicon

Því má bæta við, að almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda er fjögur ár. Þess vegna má ætla að í október 2012 byrji kröfur vegna Icesave að fyrnast. Málshöfðun fyrir EFTA-dómstólnum rýfur ekki fyrningu. Þess vegna verða nýlenduveldin að hefja mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mjög fljótlega og líklega áður en nokkur dómur gæti fallið fyrir EFTA-dómnum.

EFTA-dómurinn hefur því enga merkingu, nema sem hótun. Nýlenduveldin eru fallin á tíma og eiga enga von í Icesave-málinu, nema til komi Undanlátsleið ríkisstjórnarinnar. Gegn henni beita þjóðhollir Íslendingar Lögsöguleiðinni.

Dómur EFTA-dómstólsins ekki aðfararhæfur hér

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 24.2.2011 kl. 16:52

3 Smámynd: Júlíus Björnsson

Icesave tryggir UK í öðru  samhengi hefðbundnum hráefniskvóta háðan á lágmarksverðum í framtíðinni.

Sennilega líka arði af Nauðsynjavörugeiranum hér líka. Þetta er víst svaka gróðastía, hér þótt svo muni ekki vera í örðum ríkjum heims hvað varðar almenna launþega.

UK og Skotum líka munar um hvert pund í auknar ráðstöfunar tekjur.

Júlíus Björnsson, 24.2.2011 kl. 18:58

4 identicon

Þetta er í fyrsta skipti sem að ég dett inn á þessa síðu ykkar. Það er með ólíkindum að lesa þetta. Það er allt í góðu að segjast ekki vilja greiða þessa skuld. Það má líka deila um hvort Ísland beri að greiða samkvæmt tilskipuninni. Það er hins vegar slæmt fyrir ykkar málstað þegar þið farið með rangt mál, hvort sem það er af ásetningi eða þekkingarleysi.

Ég veit að ég mun ekki sannfæra þá sem að lesa þetta en vona bara að aðrir átti sig á því að nánast allt sem sagt er hér er kolrangt.

Nokkrar athugasemdir við punkta 1, 2 og 3 hjá ykkur:

1. Með því að gerast aðilar að evrópska efnahagssvæðinu samþykkti Ísland að Eftirlitsstofnun EFTA hefði eftirlit með framfylgd Íslands á samningnum og að EFTA-dómstóllinn hefði úrskurðarvald um sama efni. Framsalið á dómsvaldinu átti sér stað 1993. Icesave-samningurinn felur ekki í sér frekara framsal á dómsvaldi.

Ríkin þrjú hafa hins vegar samþykkt að leita til Fasta gerðardómsins í Haag, ef upp kemur ágreiningur um túlkun Icesave-samningsins. Fasti gerðardómurinn myndi ekki dæma um það hvort Ísland beri ábyrgð samkvæmt innistæðutryggingakerfinu, þar sem Ísland væri búið að samþykkja að greiða. Gerðardómur myndi eingöngu horfa á Icesave-samninginn og ákvæði þess.

2. Það er rétt að Ísland gæti neitað að fara að niðurstöðu EFTA-dómstólsins. Með því væri hins vegar komið fordæmi um að ríki gæti ákveðið að fara eftir EES-samningnum, sem myndi leiða til þess að EES-samningnum yrði sagt upp, þar sem ekkert væri þá því til fyrirstöðu að Noregur og Lúxemborg gerðu einnig eins og þeim sýndist. Evrópusambandið myndi ekki halda áfram að hleypa slíkjum ríkjum inn á markaðssvæði sitt.

3. Ríkisstjórnir þessara landa hafa ekkert um það að segja, hvort mál verði höfðað eða ekki. Eftirlitsstofnun EFTA mun höfða mál fyrir EFTA-dómstólnum, án þess að leita álits Breta eða Hollendinga.

Þetta eru bara þrjú atriði, en alls ekki það eina sem er rangt í þessari færslu ykkar. Það tæki allt of langan tíma að rekja allar rangfærslurnar hérna!

Guðmundur (IP-tala skráð) 24.2.2011 kl. 19:24

5 Smámynd: Júlíus Björnsson

Evrópusambandið myndi ekki halda áfram að hleypa slíkjum ríkjum inn á markaðssvæði sitt.

Þetta er spurning um langtíma hagsmuni EU og markmið hennar í öðru samhengi.

Júlíus Björnsson, 24.2.2011 kl. 19:46

6 Smámynd: Elle_

EFTA dómstóllinn yrði að dæma að lögum, Guðmundur, og með lögin okkar megin um enga ríkisábyrgð höfum við tæplega mikið að óttast.  Og vissulega ekki gömlu Grýlu ICESAVE-STJÓRNARINNAR um endalausar ísaldir og Kúbu norðursins.  Miðað við Stefán Má Stefánsson í fréttinni óttast ég ekkert.  Og svakalega yrði það nú gleðilegt ef við losnuðum úr EES-samningnum sem við vorum pínd inn í með pólitísku valdi.

Elle_, 24.2.2011 kl. 20:51

7 identicon

Því ber að fagna að ESB-sinni skuli reyna að rökræða um Icesave-kúgunina. Ekki ferst Guðmundi þetta þó burðuglega.

1.     Guðmundur skilur ekki muninn á eftirlitsstofnun og dómstóli. ESA er eftirlitsstofnun og getur gefið álit, en lengra nær það ekki. ESA er búin að fjalla um heldstu álitamál sem varða Icesave og finnur engin rök fyrir framvísun málsins til EFTA-dómstólsins. ESA tekur skýrt fram að lögsaga Íslands sé í fullu gildi, enda er sjálfstæði allra landa viðurkennt innan samningsins um Evrópska efnahagssvæðisins. Icesave-lögin fela í sér stórkostlegt afsal lögsögu og þar með sjálfstæðis. Allir skilja þetta nema þessi einstaki Guðmundur. Samkvæmt Icesave-samningunum er dómstólnum í Haag ætlað að dæma eftir lögum Bretlands. Skýrara getur framsal lögsögunnar ekki verið. Ekki er bara um að ræða þau atriði sem falla undir samninginn sem slíkan heldur öll atriði sem Icesave-málið varða.

2.     Ekkert væri jafn ánægjulegt og að EES-samningnum væri sagt upp, því að hann er orsök allra okkar efnahagslegu erfiðleika. Ísland þarf raunar ekki að neita neinum úrskurði EFTA-dómstólsins, því að dómstóllinn hefur ekki lögsögu hérlendis og dómar hans hafa ekkert réttarfarlegt gildi. Engin aðfararheimild fylgir því niðurstöðum hans.

3.     Algerlega virðist hafa farið framhjá Guðmundi hvernig nýlenduveldin misbeita aðstöðu sinni til að koma Íslandi á kné. Að halda því fram að Bretland og Holland komi ekkert að ákvörðunum ESA, lýsir sama kjánaskapnum og annað sem Guðmundur segir. Eins og ég hef útskýrt áður, mun EFTA-dómstóllinn ekki fá Icesave-málið til umfjöllunar, því að kröfurnar eru forsendulausar.

 

 

Loftur Altice þorsteinsson (IP-tala skráð) 24.2.2011 kl. 20:58

8 Smámynd: Elle_

Og Guðmundur er ekki skráður í póstinn sem neinn Guðmundur.  Nei, við vissum vel að þrýstingurinn frá Evrópusambandssinnum og hollustumönnum ICESAVE-STJÓRNARINNAR hæfist nú þegar forsetinn skrifaði ekki undir kúgunina. 

ESA: NEYÐARLÖG BRUTU EKKI Í BÁGA VIÐ EES-SAMNINGINN.

Elle_, 24.2.2011 kl. 21:08

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Þú ert seinheppinn Guðmundur.

Stefán Már tók valdsvið EFTA dómsins fyrir í Speglinum í kvöld.  Hann benti á fordæmi Þýska stjórnlagadómsstólsins þar sem hann gerði fyrirvara við dóma þar sem Evrópudómurinn fór út fyrir valdsvið sitt.

Það er ekki um það rifist að EFTA dómurinn hafi vald til að kveðu upp úrskurð um þetta svokallaða samningsbrot.  En síðan kemur til kasta íslenskra dómsstóla að meta skaðabótakröfuna sem yrði háð á  grundvelli EFTA dómsins.

Ef EFTA dómurinn dæmir Ekki eftir lögum, þá verður kröfunni vísað frá.  Með lögfræði.  Og ef EES samningnum yrði sagt upp á þeim forsendum, hver gréti það, því aðeins einræðisríki, eða einræðisbandalög eins og Sovétríkin sálugu, fóru ekki eftir lögum, heldur skriðdrekum.

Og líkurnar að ESA höfði mál á þeim forsendum sem stofnunin gaf upp í áliti sínu eru engar, því lögfræðin var engin, og niðurstaðan röng.  Nokkrum dögum seinna hæddi ESB stofnunina með því að lýsa yfir að "Ekki" ríkisábyrgð, þýddi ekki ríkisábyrgð.

Ef stofnunin höfðar mál á forsendum vanefnda, þá verður hún að útskýra þær vanefndir, og síðan af hverju athugasemdir voru ekki gerðar þegar Íslendingar settu lögin um tryggingasjóðinn.   Þú sækir ekki ríki vegna þinna eigin mistaka.  Íslensk stjórnvöld gátu ekki vitað þegar lögin voru sett að um vanefndir væri að ræða, þau settu lögin í fullkomnu samræmi við lög ESB, og enginn gerði athugasemdir. 

Ef athugasemdir eftir á eru dómtækar, þá er ljóst að þá er hægt að dæma menn fyrir allt.  Meira að segja Stalín var ekki svo heimskur að setja lögin eftir á, hann notaði því pyntingar til að láta menn játa.  Bretar eru ekki heldur svo heimskir að halda að hægt sé að dæma vegna breytinga eftir á, þess vegna notuðu þeir Stalíns aðferðina, að fá fram játninguna með "hótunum".

Það er aðeins örfáir Íslendingar sem trúa lögskýringum ESA, aðrir hlæja að þeim.  Og það með réttu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.2.2011 kl. 21:10

10 identicon

Getur verið að ESB-sinnar séu enn að flagga gamla plagginu frá ESA sem sett var fram 26. maí 2009 til að hræða þessa auðtrúa aumingja ? Álit ESA frá 15. desember 2010 hafnar öllum kærum sem settar hafa verið fram á hendur almenningi á Íslandi varðandi Icesave, en heldur þó eftir einu litlu atriði til að ríkisstjórnin geti haldið áfram að stilla sér upp sem fuglahræða.

Ef Ísland væri ekki með hreinan skjöld, væri þá ESA ekki búið að vísa Icesave-málinu til EFTA-dómstólsins ? Að sjálfsögðu og ESA rökstyður niðurstöðu sína svo vel, að jafnvel ESA sjálft étur sínar eigin hótanir.

15.12.2010: http://www.eftasurv.int/media/decisions/571071.pdf

25.05.2009: http://www.eftasurv.int/press--publications/press-releases/internal-market/nr/1253

15.12.2010: http://altice.blogcentral.is/blog/2010/12/15/neydarlogin-eru-byggd-a-traustum-thjodrettarlegum-grunni/

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 24.2.2011 kl. 21:52

12 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

    Guðmundur datt inn á síðuna okkar í fyrsta sinni. Rétt eins og Elle fylltist ég fögnuði,væri okkur sagt upp EES.     Ég kannast við stílinn hans Guðmundar!!!!!
     

Helga Kristjánsdóttir, 24.2.2011 kl. 22:58

13 Smámynd: Júlíus Björnsson

EES er trojuhestur sem ætlað er veikja efnahagsvarnir ríkja sem þjást að veikum elítum sem auðveldlega fyllast af ofurgræðgi. Menn þurfa ekki frekar en þjóðverjar að nýta sér allt frelsið sem er í boði, til að velja og hafna þarf sérstaka persónuleika eins og þá í Kommissioninni í Brussel: skilgreint með lögum að þér þurfi að vera sérstakir persónuleikar: ekki ómerkilegir. 

Júlíus Björnsson, 25.2.2011 kl. 02:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband