Leiðin út úr vandanum: "... Í fjórða lagi þarf að tilkynna Bretum og Hollendingum að ríkið muni ekki greiða Icesave-skuld þrotabús Landsbankans ..."

Hafið þið lesið jafn-þrumugóða greiningu í örstuttu máli á ríkisfjármálum og efnahagsástandi Íslands og þessa hér á eftir? Þar er með djörfum hætti tekið á megin-vanda og -verkefnum lýðveldisins og ekki hikað við að leggja öxina að rót hinna sýktustu trjáa í garði okkar. –Ég fagna því að geta birt þessa snjöllu grein hér á síðu Þjóðarheiðurs – samtaka gegn Icesave. –JVJ.

Leiðin út úr vandanum

Pistill [Morgunblaðið, 4. janúar 2011]

  Ívar Páll Jónsson, viðskiptablaðamaður á Mbl.
 
Sá sem þetta ritar hefur hér á þessum vettvangi reynt að benda á þau vandamál sem að þjóðarbúinu steðja. Mikil skuldasöfnun ríkissjóðs, gjaldeyrishöft sem koma í veg fyrir að hagkerfið lagi sig að aðstæðum, ábyrgð ríkissjóðs á krónueignum erlendra aðila á Íslandi, skuldir þjóðarbúsins í erlendri mynt sem ekki er til gjaldeyrir til að standa straum af, skortur á erlendri fjárfestingu vegna stjórnmálaóvissu og hafta; allt eru þetta aðkallandi vandamál sem núverandi stjórnvöld virðast ekki ráða við.
    

Til þess að finna varanlegar lausnir þarf að grípa til róttækra og sársaukafullra aðgerða. Í fyrsta lagi þarf að gera upp við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og segja upp samvinnunni við sjóðinn. Seðlabankinn skuldar honum 140 milljarða króna í gjaldeyri. Þessa fjárhæð þarf að reiða af hendi og einnig gera upp við erlend ríki. Hætt er við að gjaldeyrir Seðlabankans fari langleiðina með að klárast við þetta útflæði.

Í annan stað þarf að afnema gjaldeyrishöftin í einu vetfangi, um leið og ríkið neitar að nota gjaldeyrisforðann til að bjarga erlendum krónueigendum. Líklega yrði þetta til þess að gengi krónunnar lækkaði umtalsvert, með tilheyrandi verðbólguskoti og hækkun erlendra lána. Það er sársauki sem við verðum að þola. Ef bankarnir þola ekki afnám haftanna verða þeir að fara á hausinn, sem myndi þýða að fjölmargir töpuðu innistæðum.

Í þriðja lagi þarf að leita nauðasamninga hjá öðrum erlendum lánardrottnum íslenska ríkisins – einkaaðilum sem eiga skuldabréf á ríkið – og gera þeim ljóst að ekki sé til fé til endurgreiðslu samkvæmt skilmálum.

Í fjórða lagi þarf að tilkynna Bretum og Hollendingum að ríkið muni ekki greiða Icesave-skuld þrotabús Landsbankans. Ef þeir telji sig eiga kröfu á íslenska ríkið geti þeir leitað réttar síns fyrir íslenskum dómstólum.

Í fimmta lagi þarf að vinda almennilega ofan af hallarekstri ríkissjóðs, því skuldir ríkisins eru nú 109% af landsframleiðslu. Hætt er við því að vaxtagreiðslur verði ríkissjóði ofviða, hækki vextir svo nokkru nemi. Lækka þarf skatta og hefja alvöru niðurskurð, þrátt fyrir þrýsting sérhagsmunahópa.

Víst væru ofangreindar aðgerðir harkalegar. Grundvallarhugsunin á bakvið þær er hins vegar sú, að með öllu er óréttlætanlegt að láta skattgreiðendur standa straum af óráðsíu einkaaðila. Þeir, sem skuldsetja sig of mikið í erlendri mynt, verða að gjalda þess með því að verða gjaldþrota. Með höftunum höldum við gengi krónunnar óeðlilega háu og flytjum meira inn og minna út en ella. Skuldasöfnunin heldur áfram, og eftir því sem við bíðum lengur verður höggið þyngra sem við þurfum óhjákvæmilega að taka á okkur.

Ef við förum þessa leið fullyrði ég að við yrðum skotfljót að ná okkur á strik á ný. Fjárfesting myndi snaraukast, útflutningur (í krónum talið) sömuleiðis og lífskjör yrðu betri á Íslandi en víðast annars staðar.

ivarpall@mbl.is

 

Ívar Páll Jónsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Arnórsson

Súpergrein! og virkilega gaman að lesa eitthvað sem er svona vel og skynsamlega hugsað. Maður fær bara vonargeisla í sig aftur og hugsar að kanski sé til fólk í alvöru lagi í landinu.

Ég sé Icesave þvæluna sem hugsana-legan vírus í þjóðarheilanum:

"Icesave er skuld sem varð til vegna þess að sauðheimskir íslenskir þingmenn byrjuðu á að tala um að "leysa málið".

"Icesave er fjárhagslegt "Geirfinnsmál". Mál sem er búið til frá grunni í kjaftakerlingalandinu og við öll hjálpuðusum að skapa þessa Icesave ófreskju"

Þetta er klassískt "lúkasarmál". Ekkert á bakvið það nema aragrúi fólks sem allir vilja sýna gáfur sýnar um allt landið, hafa skoðun og fá útrás fyrir hneykslunargirni sýna."

Englendingar vita af þessari þörf íslendinga, að hafa vit á öllu, ólíkar skoðanir á engu, blanda málum saman, gera lýgi að sannleika eins og hópur krakka á gelgjuskeiði...

Óskar Arnórsson, 10.1.2011 kl. 09:37

2 Smámynd: Elle_

Sammála Óskar að greinin hans sé super.  Væri nær að ICESAVE-STJÓRNIN hlustaði á hann, Lilju Mósesdóttur, Michael Hudson og nokkra enn.  NEI, þau hlusta á AGS og ICESAVE sinnaða hagfræðinga eins og Gylfa Magnússon, Þorvald Gylfason og Þórólf Matthíasson.  

Elle_, 11.1.2011 kl. 00:31

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Gylfi er orðinn ráðgjafi ,vona að ég sé að kalla embætti hans réttu nafni.Við höfum ekki með nokkru móti getað fellt okkur við þær hugmyndir hagfr.3ja Gylfa Magnúss.,Gylfa Magnúss og Þórólfs Matthíasson. auk þess sem þeir félagar vilja að við borgum svikasamning Icsave. Samtök okkar er stofnað kringum Icesave, þjóðin veit að okkur ber ekki að borga hann.Ég var fyrr í kvöld að lesa hugmyndir Halldórs Jónssonar,hann er alltaf með skemmtilegar færslur.En greinilega þörfnumst við sterkrar stjórnar,sem vinnur heil fyrir þjóðina til áframhaldandi fulveldis.  Er ekki Ivar Páll vonarstjarna?

Helga Kristjánsdóttir, 11.1.2011 kl. 05:20

4 identicon

Enn um Icesave:

Nýr Icesave samningur betri

Indefense samtökin telja núverandi Icesave samning talsvert betri en þá sem áður voru gerðir - samningaleiðin geti verið skásti kosturinn. Fjárlaganefnd hefur umfjöllun sína um málið á morgun. Hópur lögfræðinga telur of áhættusamt að fara með málið fyrir dóm.

 Fjárlaganefnd Alþingis kemur saman á morgun, þar sem byrjað verður að fjalla um Icesave samninginn sem lokið var við í desember. Nefndin hefur kallað eftir umsögnum fjölmargra. Í morgun var búið að skila inn sjö, þar á meðal frá Indefense samtökunum, sem áttu þátt í að knýja fyrri samning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Álit samtakanna er að núverandi samningur sé mun betri en þeir sem áður voru gerðir og þótt þau telji enn að engin greiðsluskylda sé fyrir hendi, þá kunni hagsmunir allra að fela í sér að betra sé að semja. Indefense telur að talsverð áhætta sé enn fyrir hendi, en þeirri áhættu megi mæta með því að fella svokallað Ragnars Hall ákvæði inn í samninginn, þannig kveði samningurinn beinlínis á um forgangsrétt íslenska innistæðutryggingasjóðsins til eigna úr þrotabúi Landsbankans, eins og segir í umsögn Indefense. Fjárlaganefnd bað fjóra lögfræðinga, Stefán Már Stefánsson lagaprófessor, Stefán Geir Þórisson hæstaréttarlögmann, Dóru Guðmundsdóttur sérfræðing í Evrópurétti og Benedikt Bogason héraðsdómara, að skila áhættumati, færi Icesave deilan fyrir EFTA dómstólinn - samkvæmt heimildum fréttastofu telur þessi hópur vafa leika á um hvort greiðsluskylda sé fyrir hendi, en jafnframt að ekkert meini Alþingi að taka ákvörðun um Icesave samninginn. Hópurinn telur einnig að áhættan af því að fara með málið fyrir dóm sé of mikil, skárri kostur væri að semja.

frettir@ruv.is

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 11.1.2011 kl. 22:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband