Breytt kröfuröð í þrotabú Landsbankans leysir Icesave-deiluna


(Stórmerk grein eftir Loft Altice Þorsteinsson, sem áður birtist í Mbl. 23. des. sl. og við höfðum sagt hér svolítið frá.)

 

Steinhörð andstaða almennings og umboðsmanns þjóðarinnar – forsetans, hefur hindrað fyrirætlun ríkisstjórnarinnar, að leggja Icesave-klafann á Íslendinga. Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur einnig staðið vaktina, gegn verkamönnum nýlenduveldanna, sem þekktir eru undir nafninu Icesave-stjórnin. 
  
Þrátt fyrir viðleitni ríkisstjórnarinnar, að halda öllum upplýsingum leyndum fyrir almenningi, hefur Icesave-málið þróast og er komið í allt aðra stöðu en fyrir 18 mánuðum. Fram hafa komið merkilegar upplýsingar, sem valda því að hægt er að tala um atburðarás sem leiðir til einnar eðlilegrar niðurstöðu. 
  
Lausn Icesave-deilunnar er fólgin í breyttri kröfuröð við úthlutun fjár úr þrotabúi Landsbankans. Í stað þess að kröfur í þrotabúið verði flokkaðar í tvo flokka samkvæmt neyðarlögunum, er lausnin fólgin í flokkun í fjóra flokka. Með því móti er fullnægt ESB-reglunni um lágmarkstryggingu og jafnframt þeirri kröfu, að innistæðueigendur njóti forgangs fram yfir almenna kröfuhafa. 
  
Neyðarlögin {lög 125/2008} sem sett voru 6. október 2008 hafa einkum tvenns konar afleiðingar. Í fyrsta lagi skiptingar bankanna í nýja og gamla banka, sem búið er að framkvæma. Í öðru lagi var kröfum innistæðueigenda veittur forgangur umfram almenna kröfuhafa. Framkvæmd þessa síðara atriðis hefur ekki farið fram. 
  
 
ESA fellir úrskurði um neyðarlögin
 
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur tekið neyðarlögin til skoðunar í úrskurðum dagsettum 04.12.2009 og 15.12. 2010. Endanlega er orðið ljóst að skipting bankanna og forgangur innistæðueigenda standast alla gagnrýni. ESA viðurkennir að fyrrgreind tvö atriði brjóta hvorki í bága við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, EFTA-samninginn né heldur tilskipanir ESB. 
  
Röksemdafærsla ESA byggist á þeirra staðreynd að Ísland er sjálfstætt ríki. Þjóðréttarleg staða landsins hindrar að hægt sé að hrófla við ákvörðunum Alþingis. Ekki verður gengið framhjá stjórnarskrá lýðveldisins, eins og kom berlega í ljós varðandi þjóðaratkvæðið. Það sem ákveðið er með lögum um kröfuröð í þrotabú, verður ekki véfengt af erlendum ræningjum, þótt um sé að ræða alræmd nýlenduveldi.
 
 
 
Icesave-samningar ríkisstjórnarinnar 
 
Síðan Icesave-kröfurnar komu fyrst fram, hefur ríkisstjórn Íslands verið á hnjánum frammi fyrir nýlenduveldunum. Nú er búið að draga fram þriðja Icesave-samninginn, eftir að þeim fyrsta var hafnað af Alþingi {lög 96/2009} og almenningur hafnaði þeim númer tvö {lög 1/2010} í glæsilegu þjóðaratkvæði 6. marz 2010. 
  
Lög 96/2009 settu margvíslega fyrirvara við ábyrgð á samningi Svavars-nefndarinnar og eins og kunnugt er höfnuðu nýlenduveldin því boði. Þar með slepptu Bretland og Holland eina tækifærinu
 
sem þau munu fá, til að innheimta Icesave-kröfurnar. Í lögunum er meðal annars fjallað um forgang TIF að greiðslum úr þrotabúi Landsbankans, en nálgun laganna er óraunhæf. 
  
Í þessu sambandi má benda á, að tilskipun ESB um lágmarks-tryggingu, er í raun fyrirmæli um kröfu-röð, þar sem lágmarks-tryggingin kemur fyrst til úthlutunar úr þrotabúi. Ef lágmarks-tryggingin hefur ekki forgang, getur staðan hæglega orðið sú að tryggingasjóðirnir fái ekki upp í lágmarkstrygginguna við skipti. Þetta er einmitt það sem mun gerast með Landsbankann, samkvæmt núgildandi lögum um kröfuröð. 
  
  
Breytt kröfuröð stenst lög og leysir vandann 
 
Engum vafa er undirorpið, að lausn Icesave-vandans fyrir Íslendinga er fólgin í þeirri einföldu aðgerð sem hér er reifuð. Einhverjum kann þó að detta í hug, að breyting kröfuraðarinnar sé afturvirk aðgerð og því ólögleg. Svo er sannanlega ekki, því að greiðslur úr þrotabúi Landsbankans hafa ekki ennþá farið fram. Jafnframt er ljóst að nýlenduveldin hafa ekki gildan Icesave-samning til að hnekkja lagasetningu um kröfu-röðina. 
  
Lausn Icesave-deilunnar er fólgin í breytingu á neyðalögunum, þannig að kröfuhöfum er skipt í fjóra hópa. Lagt er til að ákvæðið í neyðarlögunum, um forgang innistæðueigenda haldi sér. Hins vegar njóti þessar kröfur innistæðueigenda ekki jafnstöðu. Kröfuröð innistæðanna verði þannig, að fremst kemur lágmarkstrygging ESB upp á 20.887 evrur, síðan inneignir upp að hámarki tryggingasjóða í Bretlandi og Hollandi, þar næst inneignir yfir hámörkum tryggingasjóðanna.
  
Ef Alþingi hraðar breytingu á neyðarlögunum, þannig að lágmarkstrygging ESB fær forgang, er uppfyllt það skilyrði að útgreiðslur úr þrotabúi Landsbankans munu styðjast við gildandi regluverk ESB. Íslendski tryggingasjóðurinn (TIF) fær þá nægilegt fjármagn úr þrotabúinu til að greiða lágmarkstrygginguna. Bretland og Holland hafa þá engar kröfur á hendur almenningi á Íslandi. 
  
Þegar framangreind breyting á neyðarlögunum hefur verið gerð, munu nýlenduveldin leggja af tilraunir til að beita Íslendinga fjárkúgun. Þess í stað munu þau hefja undirbúning til að verjast kröfum Íslendinga. Krefja verður Breta og Hollendinga bóta fyrir það tjón sem þessi ríki hafa valdið með efnahagsstríði gegn Íslandi og beitingu hryðjuverkalaga. 
 

    Höfundur er verkfræðingur og vísindakennari og 
    situr í stjórn Þjóðarheiðurs – samtaka gegn Icesave.

    Greinin er endurbirt hér með leyfi hans.. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Árið 2010 er senn á enda,allt frá hruni hef ég og aðrir sótt styrk til stjórnarmanna Þjóðarheiðurs. Þessir einlægu ættjarðar vinir,hafa nótt sem nýtan dag, staðið vaktina í vörn,þegar sótt hefur verið hart að okkur. Vinnan sem þau hafa lagt á sig er ómæld og það sem er óvanalegt  hún er sjálfboðaliðs vinna. Ég get ekki áréttað þetta án þess að nefna í sömu andrá Indepens hópinn. Í pistli Lofts Altice stendur; Ef Alþingi hraðar breytingu á nyðarlögunum osfrv; Í mínum huga ætti það að vera ehv.,sem stjórnin sæktist eftir til að ljúka þessu endanlega,án íþyngjandi útláta skattgreiðanda. En ég tortryggi sífellt stjórnina,sem lítur ekki einu sinni á tillögur síns eigin flokkssystkyns,Lilju,þótt menntuð sé í hagfræði,með sérgrein í Hruni,(leiðr.ef rangt er)hvað þá ef tillaga kemur frá andsöðu flokkunum.    Kæru félagar þið hafið haldið lífinu í mér þessi ár,má því kanski segja að þið hafið sitthvað á samviskunni. Að draga andann er lífræðilegur bruni,að þola tryggðarrof æðstu ráðamanna þessa lands er það skelfilegasta. Þessir firrtu lúðar ætla síðan að draga einn af öllum mönnum fyrir landsdóm,ó guð,hvernig funkerar réttlætið. Hér læt ég þessu lokið að sinni,óska ykkur öllum vinir mínir gleðilegs nýs árs,þakka ykkur fyrir árið sem er að líða.Kær kvðja. 

Helga Kristjánsdóttir, 30.12.2010 kl. 03:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband