Allir lesi þessa Morgunblaðsgrein!

Afar merk og athyglisverð grein eftir hæstaréttarlögmann, Björn Ólaf Hallgrímsson, birtist í Mbl. í dag: Icesave – Samninganefnd á villigötum? 

Í greininni hvetur hann til þess, að ekki verði samið við Breta og Hollendinga í samfloti, enda sé réttarstaða Hollendinga allt önnur "og mun lakari en Breta." Vill hann því semja fyrst við Hollendinga, en gerir þó öllum ljóst með skýrum orðum, að hann hafi "lengi verið þeirrar skoðunar að hvorug þessara þjóða eigi kröfu á Íslendinga að kröfurétti. Er ég ekki einn um þá skoðun," segir hann og er þar vitaskuld sammála okkur í Þjóðarheiðri – samtökum gegn Icesave og fjölda færustu lögfræðinga.

Björn telur hins vegar möguleika á, að Bretar og Hollendingar eigi einhverja skaðabótakröfu  á hendur okkur "vegna saknæmrar háttsemi eða athafnaleysis stjórnvalda og embættismanna, sem íslenska ríkið ber þá ábyrgð á eftir reglum um húsbóndaábyrgð," en vitað er, að ef svo væri, gæti þar aldrei orðið um neitt viðlíka tölur að ræða eins og í tilfelli þeirra ólögvörðu krafna, sem ríkisstjórnir þessara þjóða hafa gert á hendur okkur. Með þessu er ekki sagt, að samtökin Þjóðarheiður hafi ályktað, að skaðabótakröfur af þessu tagi eigi neinn rétt á sér, enda er margt sem mælir gegn þeim, og Björn Ólafur tekur sjálfur fram ýmislegt, sem draga myndi úr réttarstöðu þessara ríkisstjórna í slíku máli gegn okkur. Hann segir:

  • En að ýmsu fleiru en saknæmri háttsemi er að hyggja, þegar réttarstaðan að skaðabótarétti er metin, s.s. nauðsynlegum skilyrðum um vávæni háttseminnar eða athafnaleysisins og orsakarsamhengi við tjónið.

Og ennfremur:

  • Að því gefnu að öll skilyrði bótaábyrgðar væru uppfyllt, kemur loks til skoðunar eigin sök tjónþolanna, Hollendinga og Breta. Þeir kunna sjálfir að bera hluta sakarábyrgðar á því hvernig fór. (Orð Björns sjálfs.)

Þá bendir hann sérstaklega á mun lakari réttarstöðu Hollendinga í þessu efni, enda hafi Icesave-reikningarnir komið seinna til þess lands og verið mun umfangsminni en í Bretlandi, og þar að auki hafi verið tilkomnar nýjar og strangari reglur, sem gerðu "skyldur móttökulandanna (í þessu tilviki Hollands) til fyrirbyggjandi rannsókna og eftirlits" miklu meiri en í tilfelli Bretlands.

Miklu ýtarlegar rökstyður hann þetta í grein sinni, og menn ættu að lesa grein hans alla í heild, hún snertir svo mikil lífshagsmunamál okkar Íslendinga.

Jón Valur Jensson. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

heyr heyr!

Guðrún Sæmundsdóttir, 28.8.2010 kl. 21:03

2 identicon

Komið þið sæl; gott Þjóðarheiðurs fólk, æfinlega !

Skapsmunir mínir; í garð Fjórða ríkisins (ESB), eru með þeim hætti, að ég tel hyggilegast, að segja sem minnst - þó svo; grein Björns Ólafs Hallgrímssonar, sé hin merkasta.

Með beztu kveðjum /

Óskar Helgi 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 29.8.2010 kl. 01:42

3 Smámynd: Elle_

Þakka ykkur, Guðrún og Óskar Helgi.  Kannski hyggilegast að segja ekki allt sem mann d-a-u-ð-l-a-n-g-a-r þegar maður er í vondu skapi út af pólitíkusum, Óskar Helgi? 

Elle_, 30.8.2010 kl. 15:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband