ICEsave er algjörlega klúður Evrópusambandsins

Það var Evrópusambandið sem setti tilskipunina um innstæðutryggingar.  Í þeirri tilskipun var ekki gert ráð fyrir meiri háttar hamförum á fjármálamarkaði, en þó sleginn sá varnagli að aðildarríki væru ekki í ábyrgð ef þau hefðu innleitt tilskipunina á fullnægjandi hátt.

Það var Evrópusambandið sem setti lög og reglugerðir sem leyfðu fjármálafyrirtækjum að starfa óháð landamærum, á hinum svokallaða innri markaði, og í þeim lögum og reglugerðum var girt fyrir geðþóttaákvarðanir einstakra aðildarríkja til að hindra slíkt, hvort sem það var af hálfu gistiríkis eða heimaríkis.

Það var því ekki hægt að hindra starfsemi íslensku bankanna erlendis og það varð að setja lög um að þeir borguðu í innlendan tryggingasjóð.

Í því liggur meinið, bankakerfi smáríkja gat orðið það stórt að þau gátu ekki bakkað þau upp ef hamfarir ættu sér stað, eins og riðu yfir fjármálakerfi hins vestræna heims á haustmánuðum 2008.

Aðeins tilviljun réð því að Íslendingar lentu í þessari stöðu, allar smærri þjóðir hins evrópska efnahagssvæðis gátu lent í sömu stöðu.

 

Í þessu er vandinn fólginn, en klúðrið liggur í viðbrögðum Evrópusambandsins. Í panikinni sem ríkti á haustmánuðum 2008 þá kannaðist það ekki við sín eigin reglugerðarmistök, og í stað þess að kljást við ICEsave á sameiginlegum grunni, þannig að allir tryggingarsjóðir evrópska efnahagssvæðisins hefðu tekist á við tjónið út frá hlutfallslegri stærð, þá var ákveðið að túlka ríkisábyrgð út úr tilskipuninni um tryggingasjóði og klína vandanum á íslenska þjóð.

Lausn sem hefði gengið í lögleysu einræðisríkja, en gengur ekki upp hjá lýðræðisþjóðum, því hvorki er hægt að breyta lögum eftir á, og túlka það út úr þeim sem aldrei stóð í þeim, né heldur að gera þegna sjálfstæðrar þjóðar að skuldaþrælum með tilvísun í yfirþjóðlega reglugerð.  Slíkt stangast á við grundvallarmannréttindi sem tryggð eru í alþjóðalögum og reglum.

 

Þetta klúður er smám saman að renna upp fyrir framkvæmdarstjórn ESB.  Hún gerir sér grein fyrir hún er með tapað mál í höndunum og smátt og smátt er reynt að vinda ofan af því.  Það er engin tilviljun að í svari til norsku fréttaveitunnar ABC er staðfest að tilskipun ESB um innlánstryggingar feli ekki í sér ríkisábyrgð.  Það er ekki reynt að ljúga því sem ekki er til staðar og stendur skýrt að ekki sé.

Aðeins er reynt að ljúga að íslensk stjórnvöld hafi ekki innleitt tilskipun ESB á réttan hátt og séu því í ábyrgð fyrir innstæður.  Þetta er lygi vegna þess að rökstuðningurinn er lygi.

Fullyrt er að íslenski tryggingasjóðurinn hafi ekki verið í samræmi við stærð og áhættu bankakerfisins.  Það er vissulega réttmæt skoðun en gallinn er sá að íslenski tryggingasjóðurinn var nákvæmlega í samræmi við tilskipunina, það var tilskipunin sem gerði ekki ráð fyrir stærð eða áhættu bankakerfis.  

Það voru engin ákvæði í tilskipuninni sem íslensk stjórnvöld slepptu að uppfylla, framkvæmdastjórn ESB getur ekki vitnað í eina einustu setningu í tilskipun sinni sem tókst á við þessa áhættu og íslensk stjórnvöld brugðust að uppfylla.

Og gallinn við lygi er sá, að lygarinn festist alltaf meir og meir í lygavef sínum.  Þegar íslensk stjórnvöld benda á að þau hafi talið sig vera í góðri trú, því engar athugasemdir hafi borist við íslensku lögin, þá fellur framkvæmdastjórnin í þá gryfju að bulla eins og hún þekki ekki samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Þetta er haft eftir Chantel Huges í tíufréttum Ruv hinn 3. ágúst síðastliðinn:

"Chantel Huges segir að það sé ekki á verksviði Evrópusambandsins að bera fram slíkar kvartanir.  Það eigi Eftirlitsstofnun EFTA að gera." 

Það sem blessuð manneskjan hugsar ekki í útí er að það er til lítils að gera samning um skyldur og ábyrgð ef sá, sem þarf að uppfylla skyldurnar, sér alfarið um að túlka framkvæmd sína.  Vissulega segir í 5. gr. um ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að stofnunin "eigi að tryggja að EFTA-ríkin standi við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum," en hvað ef ESA væri alltaf ánægð þó EFTA-ríkin gerðu ekkert nema það sem þeim þóknaðist, hvað þá?

Hefði ESB þá ekkert um málið að segja???

Og á því tekur 109. gr. EES-samningsins, þar er skýrt tekið fram um sameiginlega ábyrgð og samvinnu framkvæmdarstjórnar ESB og ESA á eftirliti gagnvart framkvæmd EES-samningsins.

Orðalagið er svo skýrt að það er ekki einu sinni hægt að hártoga það.

"109. gr.

1. Annars vegar skal eftirlitsstofnun EFTA fylgjast með efndum á skuldbindingum samkvæmt samningi þessum og hins vegar framkvæmdastjórn EB sem starfar samkvæmt stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu og samningi þessum.

2. Til að tryggja samræmt eftirlit á öllu Evrópska efnahagssvæðinu skulu eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn EB hafa samstarf sín í milli, skiptast á upplýsingum og ráðgast hvor við aðra um stefnu í eftirlitsmálum og einstök mál.

3. Framkvæmdastjórn EB og eftirlitsstofnun EFTA skulu taka við umkvörtunum varðandi beitingu (framkvæmd) samnings þessa. Þær skulu skiptast á upplýsingum um kvartanir sem borist hafa.

4. Hvor þessara stofnana um sig skal rannsaka allar kvartanir sem falla undir valdsvið hennar og koma kvörtunum sem falla undir valdsvið hinnar stofnunarinnar til hennar.

5. Komi upp ósamkomulag milli þessara tveggja stofnana um það til hvaða aðgerða skuli gripið í tengslum við kvörtun eða um niðurstöðu rannsóknar getur hvor þeirra sem er vísað málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar sem skal fjalla um það í samræmi við 111. gr. "

 

Staðreyndirnar tala alltaf sínu máli.

Það þarf annarlega hagsmuni til að snúa þeim á hvolf.

Munum það þegar við heyrum íslenska fylgismenn Evrópusambandsins fullyrða að krafa Breta og Hollendinga sé réttmæt og styðjist við lög og reglur Evrópusambandsins.  

Vissulega eru það hagsmunir fjárkúgara að ljúga til um staðreyndir, en hvaða hagsmunir reka íslenska stuðningsmenn þeirra áfram????

Við erum jú að ræða um kröfu sem er um 2/3 af þjóðarframleiðslu Íslands og mun endanlega ganga frá efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar gangi hún eftir.

Hvaða hagsmuna er þetta fólk að gæta þegar það vill með lygum sínum leggja framtíð þessarar þjóðar í rúst????

Eru ekki til lög sem banna slíka hegðun????

Ómar Geirsson

Þessi grein birtist snemma í morgun á vefsíðu Ómars (HÉR! – ásamt umræðum þar).

Í stuttu máli má draga efni þessa pistils saman í þessar höfuðáherzlur Ómars:

  • Kjarninn er að það eru engin rök á bak við fullyrðingar ESB, enginn texti í lagagrein sem þeir geta vísað í. Og aumt var yfirklórið með að skella skuldinni á ESA.
  • Mætti halda að þetta fólk þekkti ekki samninginn um EES, þó það sé alltaf að fullyrða að Ísland standi ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt honum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þetta er mjög góður pistill og þarfur. Það er annars merkilegt að enginn fylgismana ESB sér neitt athugavert við málflutning ESB og ESA.

Ef við göngum útfrá þeiri fosemdu að innleiðing innistæðutrygginga hafi verið illa unnin af okkar hálfu, þá er það áfellisdómur yfir ofangreindum aðilum, þeir eru að dæma sig vanhæfa.

Íslensku bankarnir voru starfandi á umráðasvæði ESB og það eitt að eftirlit sambandsins sé svona lélegt, ef við gefum okkur að þeir hafi rétt fyrir sér varandi stofnun innistæðutrygginga, þá lýsir það vanhæfni ESB til að hafa eftirlit með framkvæmd skuldbindinga aðildarríkja.

Benda má á að ESB gerði engar athugasemdir við Icesave reikninganna meðan allt lék í lyndi. Það var ekki fyrr en hrunið kom, þá kom ýmislegt skrítið upp á yfirborðið.

Svo er til fólk hér á landi sem trúir því að ESB aðild muni bæta stjórnsýsluna hér á landi.

Jón Ríkharðsson, 7.8.2010 kl. 11:18

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Til að koma í veg fyrir misskilning, þá skal því haldið til haga að ég persónulega álít ekki að ranglega hafi verið staðið að innleiðingu innistæðutrygginga af Íslands hálfu. Ég gaf mér ákveðnar forsemdur til að rökstyðja mitt mál.

Við höfum allan rétt okkar megin að mínu mati.

Jón Ríkharðsson, 7.8.2010 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband