Einkennileg ummæli utanríkisráðherra.

Örvænting utanríkisráðherra er mikil um þessar mundir, þjóðin hefur aðra skoðun en hann á ESB. Sem sannur samfylkingarmaður reynir hann ýmis sálfræðitrikk máli sínu til stuðnings. Athyglisvert var að lesa viðtalið við hann í Fréttablaðinu sl. laugardag, en þar sagði hann orðrétt: "Ég er líka þeirrar skoðunar að aðild að Evrópusambandinu treysti stoðir okkar sem fullvalda ríkis". Þetta er eitt það alvitlausasta sem ráðherra í þessari ríkisstjórn hefur sagt og er þó af mörgu að taka.

Það þarf mjög trúgjarnan einstakling til að gleypa þetta hrátt. Það að vera fullvalda þýðir að viðkomandi ríki ræður sínum málum. Með aðild að ESB er nauðsynlegt að skerða fullveldið. Þetta hefur lengi verið vitað. Einnig er mönnum frjálst að hafa sínar skoðanir. Utanríkisráðherra er vafalaust á þeirri skoðun, að við getum ekki ráðið fram úr okkar vandamálum sjálf, þess vegna þurfum við ESB. En að bera þá vitleysu á borð fyrir almenning, að ESB-aðild þýði aukið fullveldi, það er eins og að reyna að róa niður geðsjúkling sem svipta á sjálfræði, og segja honum að hann fái með þessu styrkari stoð undir eigin sjálfræði.

En ríkisstjórn sem vill auka lánshæfismatið með því að skuldsetja þjóðina um hundruð milljarða, ásamt því að hefja vegferð að norrænu velferðarkerfi með því að skattpína fólk, hún er varla á vetur setjandi.

Það nægir að kynna sér aðstæður hjá Grikkjum, Ítölum og Spánverjum til að sjá hversu miklu ESB bjargar. Við bárum gæfu til þess að halda krónunni og vera utan Evrópusambandsins. Þess vegna eru stoðir útflutningsgreinanna eins sterkar og raun ber vitni. Bankahrunið hefði orðið þótt við hefðum verið í ESB, persónueiginleikar fjármálafursta og útrásarvíkinga hefðu ekki breyst. Evran hefði gert það að verkum, að útflutningsverðmætin hefðu minnkað verulega, vegna þess að verð á mörkuðum hefur staðið í stað og jafnvel lækkað.

Ég er þakklátur fyrir fullveldið og krónuna, en hvorugt er fullkomið. Breyskleiki mannsins kom fyrst í ljós þegar Adam og Eva létu höggorminn plata sig til að borða eplið. Síðan þá hafa liðið mörg ár, en maðurinn er enn jafnbreyskur. Við þurfum alltaf að vega og meta kosti og galla.

Jón Ríkharðsson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband