31.5.2010 | 20:31
Jarðbráðarstjórnin
Eldstöðin í gjöfulum byggðum Suðurlands rumskaði. Kvikan braust úr iðrum hennar og sundraðist í fínan og hvimleiðan öskusalla til skaða fyrir nærliggjandi byggðir. Kviku kýs ég að nefna jarðbráð en erlent heiti er Magma.
Bændur munu standast þessa raun. Það má líkja þessu við að landvættir hafi minnt á sig. Minnt á það að okkar kynslóð hefur landið að láni og ber ábyrgð á að skila því betra og gjöfulla til Íslendinga framtíðar, fremur en annarra þjóða.
Síðan sýndi almættið sitt blíðasta bros með einstakri veðurblíðu og eldurinn hjaðnaði.
Nú liggur mikið við að hreinsa upp óþverrann, sem jarðbráðarjarlarnir í Magma og taglhnýtingar þeirra hafa sóðað yfir þjóð vora. Nýjasta er að eignast rétt til helmingshlutar í nýju virkjanafélagi í Skaftafellssýslum. Hafa þeir tryggt sér forkaupsrétt að síðari hlutanum glottandi í leyni ? Verða þetta nokkurs konar Skaftáreldar af manna völdum ? Einnig ágirnast þeir orku í Hrunamannahreppi.
Hverjir stjórna þessu landi ?
Er það ríkisstjórnin eða Magma ?
Hverja getur fólkið kosið ?
Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og fleiri styðja erlenda eign eða yfirráð auðlinda þjóðarinnar.
VG stendur í orði á móti, en síður á borði, enda glúpnaði Steingrímur fyrir Magma-óhræsinu.. Hann heldur líkast til ekki stólnum nema hlýða Samfylkingarinnar vilja.
Í Reykjavík rugla einhverjir um að reka flugið frá Reykjavík, en Ólafur F. Magnússon er líklega heiðarlegur. Framsókn er í óvissu. Hverra manna eru Gnarrverjar ?
Gnarrnum lætur vel að vinna fyrir Jón Ásgeir. Systkynin Heiða Kristín og Snorri Helgabörn Péturssonar unnu að Besta flokks laginu. Heiða er kosningastjórinn.
Helgi er Samfylkingarframbjóðandi í Garðabæ.
Sitja einhverjir í aftursætinu og vilja grípa í stýri Orkuveitunnar ?
Hverfandi eiginfé kom frá Magma til kaupanna á HS Orku. Hitt greiddu þeir með yfirtöku lána Reykjanesbæjar og 7 ára kúluláni Orkuveitunnar. Endurfjármögnun lána verður létt með verðmætan samning í hendi. Framhaldið verður hlutafjárauki og sterk staða til framkvæmda.
Eigendur og stjórnendur gjaldþrota Glitnis og endurlífgaðs Íslandsbanka hafa um fjölda ára unnið að innrás bankans í orkulindir. Árni Magnússon stýrir. Söluskrifstofan í New York vinnur einnig að markaðssetningu íslenskra sjávarauðlinda. Glitnisfélagið Geysir Green Energy seldi hlut sinn í HS orku til Magma. Getur verið að einhverjir þessara manna húki undir sænsku skúffunni og bíði þess að opna skúffur sínar í Panama eða Tortóla og kaupa hlutabréf í Magma ? Koma svo með vel þvegið illa fengið fé til uppbyggingar Íslands.
Margir telja þetta ekki skipta höfuðmáli. Aðalatriðið sé að þjóðin fái vel greitt fyrir afnot auðlindanna. Verður það svo ? Einnig vinnu við byggingu virkjananna. Koma ekki verktakar frá Kína ? Viljum við endurreisa landið á þennan hátt? Er ekki eðlilegra að mennirnir skili fénu? Síðan tekur steininn úr þegar þeir selja virkjanirnar með tilheyrandi vinnslusamningum til erlendra auðhringa.
Atburðarásin er hröð og þaulskipulögð. Þegar áfangar eru kynntir sýnist of seint að snúa af braut. Sérstaklega þegar þeir sem eiga að stjórna landinu virðast vera lyddur og landafhendingarmenn.
Jarðfræðingurinn og heimsfræðingurinn Dr. Helgi Pjeturss sá það fyrir á sínum tíma að illa færi fyrir íslenskri þjóð ef hún sinnti því ekki að kynna sér nýja þekkingu varðandi innstu rök tilverunnar. Þess má geta að í Hrunamannahreppi og reyndar Hreppunum báðum gerði Helgi uppgötvun, sem markaði tímamót í skilningi á jarðfræði Íslands. Lesa má um Helga á netinu.
Páll Ragnar Steinarsson frá Hlíð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Höfundur er félagi í Þjóðarheiðri samtökum gegn Icesave. Greinin, sem birtist upphaflega í nýlegu 10. tbl. Bændablaðsins, er birt með góðfúslegu leyfi höfundar.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjármál, Sveitarstjórnarkosningar, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:38 | Facebook
Athugasemdir
Ég hef það á tilfinningunni þegar ég les áhyggjur pistilshöfundar af hugsanlegu plotti Besta flokksins að hann eigi erfitt með að sjá að einhverjir geti tekið þátt í stjórnsýslu nema að hafa einhvern sérstakan áhuga á að koma auðlindum í hendur einhverra vina og vandamanna.
Þetta sýnir mér bara hversu óskaplega við,- þessi þjóð erum orðin skemmd eftir áratuga pólitíska spillingu.
Nú er bara að bíða og sjá. Sjálfur hef ég enga trú á því að Jón Gnarr og félagar hafi nokkurn hug á að auðgast af störfum sínum í borgarstjórn.
Árni Gunnarsson, 2.6.2010 kl. 13:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.