Ísland braut EKKI gegn tilskipun Evrópusambandsins!

ESA, eftirlitsstofnun EFTA (ekki óháð, hlutlaus stofnun), segir að "samkvæmt tilskipuninni" 94/19/EC "hafi Ísland verið skuldbundið til að greiða um 2,1 milljarð punda" til brezkra Icesave-reikningshafa. En þetta er ANDSTÆTT tilskipuninni! Hún kveður skýrt á um, að ríki beri enga ábyrgð á innistæðum í einkabönkum, ef það ríki hefur séð svo um, að þar hafi verið stofnaður sjálfstæður innistæðutryggingasjóður sem bankar og fjármálastofnanir hafi haldið við með iðgjöldum sínum. 

Um rök lögspekinga fyrir því, að þetta eigi fullkomlega við um það ástand og skipulag, sem hér á Íslandi var um að ræða á árunum 2000–2008, og að þess vegna beri okkur ekki að borga Icesave-reikningana, sjá afar góðan neðanmáls-viðauka hér á eftir.* (Hliðstæð krafa hollenzkra stjórnvalda hljóðar upp á 1,34 milljarð evra, "að mati ESA", skv. frétt Mbl.is, en það sama verður í raun að segja um hana og brezku kröfuna – hvorug stenzt skoðun.)  

Þá segir ESA "að Ísland hafi brotið gegn Evróputilskipun um innstæðutryggingar með því að gera greinarmun á innistæðueigendum í íslenskum útibúum bankanna og útibúum þeirra erlendis þegar gripið var til neyðarráðstafana í kjölfar bankahrunsins í október 2008" (Mbl.is), en þessi staðhæfing er löngu afsönnuð af okkar færustu lögfræðingum, þar sem þeir hröktu það, að útgreiðslan til innlendra sparifjáreigenda hafi skuldbundið ríkið til að gera það sama við Icesave-innistæður upp að 20.887€ markinu.**

Vel að merkja er þetta álit ESA ekki dómur.

Málið C-222/02: Eitthvað sem sannar á okkur sök?

Málið "Paul and others" – Case C-222/02 – sem sumir hafa vísað til, er ekki sambærilegt við Icesave-málið. Þessum dómi undirréttar, Bundesgerichtshof, var einfaldlega hnekkt. Evrópudómstóllinn staðfesti með því þá réttarstöðu, sem einnig okkur ber að njóta.

Eða hefur nokkur heyrt nefnt, að Hæstiréttur hafi snúið við úrskurði héraðsdóms? Auðvitað hefur það oft skeð og eftir dóm Hæstaréttar hefur héraðsdómurinn enga merkingu. Þetta skeði einmitt með dóm C-222/02, sem fyrst var felldur í Bundesgerichtshof (þýzkum undirrétti) og síðan fór fyrir fullskipaðan Evrópudómstóllinn (European Court of Justice).***

Evrópudómstóllinn fjallaði eðlilega um undirstöðu-atriði málsins, en ekki bara um hvort almannahagsmunir á sviði innistæðu-trygginga gengu framar einkahagsmunum, sem var efni dómsmálsins. Þannig komst dómurinn að eftirfarandi niðurstöðu varðandi ábyrgð aðildarríkjanna:

  • 31. That interpretation of Directive 94/19 is supported by the 24th recital in the preamble thereto, which states that the directive may not result in the Member States' or their competent authorities' being made liable in respect of depositors if they have ensured the compensation or protection of depositors under the conditions prescribed in the directive.

Og síðan varðandi almannaheill-einkahagsmuni, sem er eðlilega samhljóða niðurstöðu dómsins:

  • 32. The answer to the first question must therefore be that, if the compensation of depositors prescribed by Directive 94/19 is ensured, Article 3(2) to (5) thereof cannot be interpreted as precluding a national rule to the effect that the functions of the national authority responsible for supervising credit institutions are to be fulfilled only in the public interest, which under national law precludes individuals from claiming compensation for damage resulting from defective supervision on the part of that authority.

Dómurinn staðfestir þannig Tilskipun 94/19/EB og allar aðrar yfirlýsingar frá Evrópusambandinu, um að ekki má gera ríki Evrópska efnahagssvæðisins ábyrg fyrir greiðslum úr innistæðu-trygginga-kerfunum. Skylda ríkjanna er hins vegar fólgin í að koma trygginga-kerfunum á legg, í samræmi við Tilskipun 94/19/EB. Þetta var gert hérlendis og það hefur enginn ábyrgur aðili dregið í efa.

Það er áhugavert rannsóknarefni, hvers vegna sumir einstaklingar leggja sig í líma við að rangtúlka augljósar reglur Evrópuréttar. Þessar reglur styðjast við traustar forsendur, sem varða samkeppnisreglur Evrópusambandsins, tryggingafræðilegar staðreyndir og stjórnarskrárbundin fyrirmæli. Samt hamast þessir kjánar við að réttlæta beitingu hryðjuverkalaga gegn Íslendskum hagsmunum og efnahags-hernaði Breta og Hollendinga gegn Íslendskri þjóð.

  • Íslensk stjórnvöld hafa tvo mánuði til að bregðast við athugasemdum ESA. Fallist ESA ekki á sjónarmið íslenskra stjórnvalda má gera ráð fyrir að stofnunin sendi frá sér rökstutt álit, en það getur verið undanfari málsmeðferðar fyrir EFTA-dómstólnum. (Mbl.is.)

Þessu þarf vitaskuld að verjast með okkar beztu lagarökum.

En meginniðurstaða þessarar samantektar er: Ísland braut EKKI gegn tilskipun Evrópubandalagsins. Þvert á móti er sú tilskipun (auk ákvæða í stjórnarskrá lýðveldisins) meðal helzta varnarraka okkar í þessu óvelkomna Icesave-máli.

Loftur Þorsteinsson og Jón Valur Jensson.

* Neðanmálsgreina-viðauki:

Í greininni ýtarlegu, Lagarök um Icesave (Mbl. 14. jan. 2010), eftir þrjá lögspekinga, þ.e. Sigurð Líndal (einn okkar alvirtustu lögfræðiprófessora), Stefán Má Stefánsson, prófessor í Evrópurétti og höfund margra bóka þar um, auk hins bráðskýra Lárusar L. Blöndal hrl. (sem stjórnvöld völdu sjálf í síðustu Icesave-viðræðunefndina sem farið hefur til Lundúna á þessu ári) byrjuðu á því að tíunda fyrst niðurstöður Stefáns og Lárusar í fyrri greinum (níu talsins) um málið:

"Niðurstaða okkar var sú að íslenska ríkið bæri ekki ábyrgð á innistæðum í útibúum íslenskra banka erlendis við hugsanlegt gjaldþrot íslensku bankanna heldur aðeins viðkomandi tryggingarkerfi sem hér á landi er Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun lögum samkvæmt. Jafnframt bentum við á að umrædd tryggingarkerfi væri í fullu samræmi við ákvæði tilskipunar 94/19/EB um innlánatryggingakerfi. Þessar niðurstöður voru einkum byggðar á eftirfarandi:

  1. Hlutverk tryggingakerfanna samkvæmt tilskipuninni væri ekki að takast á við allsherjar bankahrun eins og gerst hefði hér á landi. Ef svo hefði verið hefði þurft að greiða gífurlegar fjárhæðir inn í Tryggingasjóðinn, t.d. á árinu 2008, sem næmi mörgum tugum prósenta af heildarinnlánum það ár. [...]
  2. Bent var á að ákveðnar reglur væru um inngreiðslur í sjóðinn samkvæmt lögum nr. 98/1999 um innistæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Heildareign innistæðudeildar sjóðsins skyldi nema að lágmarki 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á næstliðnu ári. Engin ákvæði væru um það í viðkomandi tilskipunum hvernig fjármagna ætti sjóðinn nema það að fjármálafyrirtækin sjálf eiga að sjá um fjármögnunina. [...]
  3. Þá var bent á að væru reglur tilskipunarinnar túlkaðar með þeim hætti að greiða ætti framangreindar fjárhæðir að fullu til innstæðueigenda hvernig sem á stæði gæti það bakað smáum ríkjum gífurlegar fjárhagslegar skuldbindingar sem settu fullveldisrétt þeirra í hættu. Smáríki væru mun útsettari fyrir þessari hættu en stærri ríkin því að bankastofnanir þeirra ættu í útrás mun auðveldara með að ná óhóflegu hlutfalli af tekjum viðkomandi þjóðarbús heldur en í stærri ríkum. Slíkur mismunur milli minni og stærri ríkja varðandi áhættu í útrás gæti hvorki verið tilgangur tilskipunarinnar né leitt af henni.
  4. Loks þótti athyglisvert að hvergi væri í tilskipuninni kveðið á um sérstaka ábyrgð aðildarríkjanna á skuldbindingum Tryggingarsjóðsins, t.d. í tengslum við þær 20.000 ECU sem þar eru nefndar í 7. gr. hennar. Reyndar væri þvert á móti sagt í aðfararorðum tilskipunarinnar að aðildarríki beri ekki ábyrgð á gagnvart innistæðueigendum ef það hefur komið á fót innlánatryggingarkerfi í samræmi við tilskipunina.

Þessar röksemdir leiða samanlagt til þess að íslenska ríkið beri enga ábyrgð á innistæðum útibúa innlendra banka við gjaldþrot þeirra. Ábyrgð ríkissjóðs verður því ekki á því byggð að ákvæði umræddrar tilskipunar hafi verið brotin. Ábyrgð ríkisins í tengslum við fyrrgreinda tilskipun felst einungis í því að innleiða reglur um hana og að sjá að öðru leyti um að staðið sé við skuldbindingar samkvæmt tilskipuninni. Hafi vanhöld orðið á því getur ríkið orðið skaðabótaskylt ef reglunum um bótaábyrgð er að öðru leyti fullnægt. Ábyrgð ríkisins nær hins vegar ekki lengra en þetta." (Hér lýkur tilvitnun í grein lögfræðinganna þriggja. Feitletrun hér var mín, jvj.)

  • Innskot JVJ:  Þessi setning í áliti ESA: "Finally, the Authority considers that the Fund forms part of the Icelandic State within the meaning of the EEA Agreement although it is, in Icelandic law, constituted as a private foundation, cf. Article 2 of Act No. 98/1999," er jafn-öfugsnúin og heildarniðurstaða álits ESA í þessu máli. Dírektív (eða tilskipun) Evrópubandalagsins 1994/19/EC, sem hér var leitt í lög í árslok 1999, tiltekur, að ríki geti ekki verið gert skuldbundið um innistæðu-tryggingar, ef stofnaður hefur verið tryggingasjóður. Til þess sjóðs mátti ríkið EKKI leggja fé skv. þeirri tilskipun. Hann ER sjálfseignarstofnun og má þó, vegna tekjulinda sinna, kallast "á framfæri" bankanna, en ekki ríkisins!

Þetta úr grein þremenninganna er ennfremur gott til umhugsunar:

  • "Þá er einnig rétt að rifja upp að haustið 2008 ákváðu Írar að bæta á næstu tveimur árum ríkisábyrgð við þá ábyrgð sem Tryggingarsjóður innlána, sambærilegur þeim sem við höfum hér á landi, veitti innlánaeigendum. Þessi ákvörðun náði þó einungis til sex tilgreindra írskra banka. Við þessar fréttir kom fram sú afstaða Breta og fleiri aðildarríkja ESB að Írum væri þetta óheimilt þar sem þetta fæli í sér ríkisaðstoð sem skekkti samkeppnisstöðu banka á Evrópusambandssvæðinu. Ætti þetta bæði við almennt við um samkeppnisstöðu banka í Evrópu en einnig alveg sérstaklega á Írlandi þar sem ekki fengu allir bankar þessa ríkisábyrgð. Er þetta mál nú til skoðunar hjá ESB. Reyndar hafa ríki sem harðlega gagnrýndu þessa ákvörðun Íra síðan tekið upp ríkisábyrgð að hlut eða öllu leyti á innlánum í tengslum við hrunið. Má um þetta m.a. vísa til Bloomberg-fréttaveitunnar sem flutti af þessu fréttir t.d. þann 1. október 2008 og Independent-fréttaveitunnar sem fjallaði um þetta degi seinna og Guardian þann 5. október 2008. Sýnir þetta að afstaða stærstu aðildarríkjanna í ESB virðist í lok september 2008 hafa verið sú að ekki væri heimilt að tryggja innlán með ríkisábyrgð þar sem það hefði áhrif á samkeppnisstöðu á fjármálamarkaði."
** Sjá kaflann ýtarlega: 'Um mismunun á grundvelli þjóðernis', í fyrrnefndri grein lögfræðinganna þriggja: Lagarök um Icesave (Mbl. 14. jan. 2010), sjá einnig eldri grein, sérstaka, eftir próf. Stefán Má Stefánsson og Lárus L. Blöndal: Mismunun og Icesave, í Mbl. 6. júlí 2009.
 

Þarna eru báðir dómarnir, undirréttar Bundesgerichtshof og Evrópudómstóllsins (European Court of Justice). Bundesgerichtshof felldi sinn úrskurð 16. maí 2002 og Evrópudómstóllinn 12. október 2004. Málsgreinarnar, sem vísað var til (31 og 32), er þarna að finna. 


mbl.is Ísland braut gegn tilskipun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir fróðlega grein félagar.

Loftur, ég bíð spenntur eftir krufningu þinni á úrskurði ESA.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.5.2010 kl. 09:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband