19.5.2010 | 20:16
Gylfi Magnússon heldur áfram að predika Icesave ... Mótmæli.
Í 18-fréttum Rúv sagði frá ferðalagi Gylfa Magnússonar um Norðurlönd. Þessi ókjörni ráðherra er í norskum fréttum sagður telja "mjög lítið bera á milli" hjá samningsaðilum til að ná Icesave-samningum, en hann talar þar ekki fyrir munn þjóðarinnar! Enn er á dagskrá Icesave-stjórnvaldanna að borga kröfuna og greiða vexti af öllu saman. Þessu hafnaði þjóðin í raun 6. marz, 98,1% þeirra, sem tóku afstöðu, sögu NEI við Icesave-lögunum frá 30. desember. Tveimur dögum síðar birtist skoðanakönnun, þar sem 60% aðspurðra töldu, að við bærum alls enga ábyrgð á Icesave-greiðslunum.
Þess vegna er það ótrúlegt, að Gylfi fari um Norðurlönd og að ekki heyrist eitt einasta orð af því, að hann hafi beðið stjórnvöld þar að standa með Íslendingum í vörn þeirra gegn ofurkröfum Breta og Hollendinga, hvað þá að hann hafi höfðað til almennings í þeim löndum, en hjá þjóðunum sjálfum njóta Íslendingar margfalt meiri skilnings og stuðnings en meðal ráðamanna. Nei, Gylfi mætir samvinnuþýður á fundum með þeim einum, sem að hans sögn eru allir á því, að Íslendingar eigi að borga. Þannig ræðir hann við menn hjá norska seðlabankanum, en sniðgengur viljandi Arne Hyttnes, forstjóra hins norska tryggingasjóðs innistæðueigenda, enda fengi erindi Gylfa engan hljómgrunn hjá Hyttnes!
Oftraust stjórnarflokkanna hér á landi á, að Íslendingar muni fljótt rífa sig upp úr kreppunni, hefur nú fengið alvarlega viðvörun í formi gríðarlegs samdráttar í pöntunum erlendra aðila á ferðum og ráðstefnum hér á landi. Uppgangur ferðaþjónustunnar átti að vera helzta vonarljósið um auknar gjaldeyristekjur sem Icesave-stjórnin vill leggja hramminn á til að borga Bretum og Hollendingum ólöglega vexti af gerviláni ! en sú von um tekjuaukningu hefur beðið mikið afhroð þetta árið vegna eldgossins.
Mótmæli
Við erum farin að ræða það okkar á milli stjórnarmenn og fleiri í félaginu, að nú verðum við að endurnýja mótmælastöður við Alþingi vegna þessa máls, því að ljóst er, að ráðamenn (Gylfi, Össur, Steingrímur) stefna enn ótrauðir að því að láta leggja þessa ólögvörðu kröfu á þjóðina. Hafið samband við okkur með bréfi eða símtali til stjórnarmanna eða í thjodarheidur@gmail.com til að láta vita af vilja ykkar til að taka þátt í skipulagðri, en virðulegri mótmælastöðu. Þetta þarf að undirbúa vel.
JVJ.
Meginflokkur: Fjármál | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.