12.4.2010 | 16:28
Vanhæfi viðskiptaráðherra og FME var meðal höfuðorsaka Icesave-klúðurs stjórnvalda
Þetta má ráða af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Forstjóri FME, Jónas Fr. Jónsson, og menn í viðskiptaráðuneytinu héldu í fáfræði sinni, að ríkið væri ábyrgt fyrir Icesave-reikningum! Þetta notfærðu Bretar sér og Hollendingar, gengu á lagið og knúðu á um það með blekkingar-orðalagi, í 1. lagi hvort ráðherrann ætlaði ekki að standa við skuldbindingar gagnvart Tryggingasjóðnum (TIF) og í 2. lagi AÐ hann færi að lofa ríkisstuðningi við TIF og í 3. lagi fullum stuðningi, þótt hann ætti raunar enginn að vera samkvæmt tilskipun Evrópubandalagsins 94/19/EC!
Lesið þetta úr skýrslunni:
- Við fall bankanna haustið 2008 voru embættismenn óvissir um lagalega ábyrgð á innstæðum bankanna, dygði tryggingasjóðurinn ekki. Forstjóri FME og menn í viðskiptaráðuneytinu virðast hafa talið ábyrgð fyrir hendi. Bankastjórar Seðlabankans töldu hins vegar ekki um ótvíræða lagaskyldu að ræða.
Þarna voru Davíð og menn hans greinilega betur upplýstir en evrókratinn Björgvin G. Sigurðsson og sjálfur yfirmaður Fjármálaeftirlitsins á Íslandi!
Þetta kemur enn betur fram hér (leturbr. og hornklofar frá undirrituðum):
- Hins vegar verður ráðið af svörunum að forstjóri Fjármálaeftirlitsins hafi litið svo á að af tilskipun ESB leiddi að ríkinu bæri að aðstoða TIF þannig að sjóðurinn gæti greitt lágmarkstrygginguna [!!!]. Sama viðhorf virðist hafa verið innan viðskiptaráðuneytisins. Bankastjórar Seðlabankans töldu ekki að um svo ótvíræða skyldu eða ríkisábyrgð væri að ræða, og ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins hafði uppi sjónarmið um að fara ætti varlega í að lýsa yfir að ríkið bæri ábyrgð á lágmarkstryggingunni.
- Fram kom við athugun rannsóknarnefndarinnar að þrátt fyrir þessi mismunandi viðhorf var ekki leitað sérstaklega eftir lögfræðilegu mati eða ráðgjöf sérfræðinga utan ráðuneytanna um þetta atriði fyrr en eftir fall bankanna. Þá hafa ekki komið fram gögn sem sýna að umrætt atriði hafi verið sérstaklega kannað á þessum tíma af hálfu þeirra starfsmanna ráðuneytanna sem komu að málinu umfram athugun á texta innstæðutryggingatilskipunarinnar, segir í skýrslunni. (5. bindi, 17. kafla, s. 308)
Makalaust klúður! En sem betur fer átti íslenzk þjóð sér varnir gegn enn frekara undanhaldi vanhæfra stjórnvalda. Vörnin fólst í 1. lagi í valdi Alþingis, sem samþykkti EKKI Svavarssamninginn fyrirvaralausan, í 2. lagi í baráttukrafti þjóðarinnar sjálfrar, sem jafnan lét í ljós eindregna (2/33/4) andstöðu við alla Icesave-samninga og lagasetningu og tók með eftirminnilegum hætti þátt í áskorunar-herferð InDefence-manna, í 3. lagi í valdi forseta Íslands sem í samræmi við 26. grein stjórnarskrárinnar beitti málskotsrétti sínum og þjóðarinnar og í 4. lagi í hinni geysiöflugu þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem 98,1% þeirra sem afstöðu tóku sögðu NEI við 30. des.-ólögunum (og tveimur dögum seinna kom í ljós í skoðanakönnun hartnær 60% andstaða aðspurðra gegn allri ábyrgð Íslendinga á Icesave-greiðslum til Bretlands og Hollands).
En það, sem skiptir þó umfram allt máli og er einn undirstöðuþáttur í baráttunni fyrir rétti og hagsmunum lands og þjóðar í þessu efni, er lagalegar forsendur málsins og þá ekki aðeins lögin frá 1999 um tryggingasjóð innistæðueigenda og tilskipun 94/19/EC, heldur allt eins okkar eigin stjórnarskrárákvæði um það, hvernig gera megi fjárhagssskuldbindingar fyrir hönd ríkisins. Af þeim er alveg ljós, að hvorki skussinn Björgvin G. Sigurðsson, vanhæfur Jónas Fr. Jónsson, starfsmenn viðskiptaráðuneytis né Árni Mathiesen gátu gefið út neinar Icesaveskuldar-ábyrgðar-viðurkenningar án beinnar aðkomu og samþykktar Alþingis.
Á þessum grunni höldum við áfram baráttunni. Rétturinn er okkar. Aldrei að víkja.
Jón Valur Jensson, formaður Þjóðarheiðurs.
Ráðherra óviss um lögin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Fjármál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Allt frá því að bankarnir hrundu og raunar miklu fyrr, samanber tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur á Alþingi um fulla ríkisábyrgð á bönkunum, hefur öllum mátt vera ljós mismunandi afstaða til ríkisábyrgðar. Löngun Samfylkingarinnar til að undirgangast forsendulausar Icesave-kröfur Bretlands og Hollands er okkar stærsta vandamál.
Viðhorf ráðherra Sjálfstæðisflokks var annað og það sést greinilega ef skoðuð er álitsgerðin sem unnin var í Fjármálráðuneytinu í nóvember 2008. Allar götur síðan hafa Íslendingar verið að hlaða upp rökum fyrir þeirra staðreynd, að fullkomnir forsendubrestir eru á kröfum nýlenduveldanna. Um álitsgerð Fjármálráðuneytis fjallaði ég til dæmis 17.10.2009:
http://altice.blog.is/blog/altice/entry/966413/
Samfylkingin heldur hins vegar áfram baráttu sinni fyrir skuldsetningu almennings og Rannsóknarnefnd Alþingis tekur að hluta til undir þær röngu forsendur sem Samfylkingin heldur til streytu.
Einnig má benda á þá villu nefndarinnar, að stjórnkerfinu hafi ekki verið ljóst fyrr en á árinu 2008, að stórkostleg vá var fyrir höndum. Þetta var ráðherrum ljóst strax í febrúar 2006, þegar samráðsnefndinni um "fjármála-stöðugleika og viðbrögð" var sett á stofn. Um þetta atriði fjallaði ég hér 24.03.2009:
http://altice.blog.is/blog/altice/entry/836642/
Loftur Altice Þorsteinsson, 12.4.2010 kl. 17:18
Kærar þakkir fyrir þessar fróðlegu, efnisega öflugu viðbætur, Loftur.
Jón Valur Jensson, 12.4.2010 kl. 19:02
Ég tek undir með Lofti að það var enginn vilji hjá Björgvini G og Ssmfylkingunni til að standa með íslensku þjóðinni varðandi Icesave. Til þess var þrá þeirra eftir mjúkum faðmi ESB of mikil.
Ragnhildur Kolka, 12.4.2010 kl. 23:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.