25.3.2010 | 13:28
Indriði H. Þorláksson veldur uppnámi í VG með ásökunum og Icesave-fordómum í Smugugrein sem síðan er dregin til baka!
Ýmsir líta á þetta sem leið Steingríms J. til að "senda Ögmundi Jónassyni tóninn í gegnum aðstoðarmann sinn." Ólafur Arnarson segir á Pressunni: "Titringurinn, sem greinin olli innan VG, hlýtur að hafa mælst á jarðskjálftamælum við Fimmvörðuháls." Grein Ólafs er afar fróðleg og nefnist Bullið frá Indriða fjarlægt í bili (smellið og lesið!).
Þjóðarheiður samtök gegn Icesave eru óflokkspólitísk samtök, og hér munum við ekki velta okkur upp úr innanflokksátökum í Vinstri hreyfingunni grænum samtökum. Fram hjá hinu verður ekki litið, hvernig greinarskrif Indriða H. opinbera fordóma hans og óbilgjarna stefnu í Icesave-málinu. Hér er ekki um að ræða einhvern óbreyttan flokksmann, því að Indriði var aðalsamningamaður fjármálaráðherrans í fyrstu Icesave-samninganefndinni, maðurinn sem undirritaði þann samning fyrir hönd ráðherrans og sá sem síðan hefur varið það samkomulag ítrekað í fjölmiðlum og beitti sér meira að segja eindregið gegn fyrirvörunum í frumvarpinu breytta í ágúst 2009, sem þó kvað á um, að við Íslendingar ættum að borga það sem okkur ber engin skylda til að borga!
Indriði er þannig lykilmaður í þessu og fleiri málum, ugglaust í sambandi við hina breyttu stefnu VG gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (sbr. HÉR um þveröfuga stefnu Steingríms), og ennfremur hefur hann gengið fram fyrir skjöldu með baráttu fyrir inngöngu Íslands í ESB.
Ólafur Arnarson er hagfræðingur, fjölmiðlamaður og fjármálaráðgjafi. Hann ritaði fyrstu bókina, sem beinlínis var skrifuð um bankahrunið, Sofandi að feigðarósi (JPV útgáfa, apríl 2009), en hún var lengi metsölubók.
Það er því fróðlegt og ekki sízt fyrir lesendur þessarar vefsíðu að sjá svör Ólafs við grein Indriða, sem olli þvílíku fjaðrafoki, að hún hefur síðan verið fjarlægð, "en það sem er einu sinni komið á netið, hverfur ekki svo auðveldlega," eins og Ólafur segir og vísar þannig í grein Indriða, þar sem henni hefur verið borgið fyrir framtíðina til að sjá og býsnast yfir, sem margir gera, þeirra 48 sem áttu þar athugasemdir, meðan Indriði hafði ekki dregið greinina til baka ugglaust vegna þrýstings í VG.
En áður en við vitnum í Ólaf, lítum fyrst á athugasemd nr. 3 á eftir grein Indriða (sem nefnist 'Baráttan við stórkapitalismann eða hverjum er verið að borga Icesave skuldina?'). Þessi athugasemd er frá sjálfum Ögmundi Jónassyni, sem segir m.a.:
- "Málflutningur Indriða H. Þorlákssonar gengur út á að sýna fram á að vegna þess að almúgafólk tapaði sparnaði sínum í íslenskum bönkum beri íslenskum skattgreiðendum að borga brúsann. Nú veit ég ekkert hverjir það voru almennt sem settu sparnað sinn í Icesave þótt reyndar vilji svo til að ég þekki til nokkurra slíkra einstaklinga! Þeir hafa fengið sitt borgað en eins og kunnugt er greiddu breska og hollenska ríkið innistæðueigendum [* sjá aths. neðar, jvj] og kröfðu okkur íslenska skattgreiðendur - svo um endurgreiðslu á vöxtum, svo miklum að leiðangurinn átti að skila arði! Um þetta hefur síðan verið togast í samningaviðræðum. Eftir því sem liðið hefur á þetta ferli hefur fjölgað í þeim hópi heima og heiman sem telja að skattgreiðendum beri ekki að borga með þessum hætti og að við höfum látið gabba okkur í þessu efni auk þess sem við höfum verið beitt þvingunum.
- Nú síðast lýsti framkvæmdastjóri norska innistæðutryggingasjóðsins yfir þessari skoðun. Það breytir því ekki að við eigum við ramman reip að draga því Bretar og Hollendingar hafa sótt liðstyrk víða og óspart beitt ESB og AGS. Í ljósi þessa höfum við þurft að meta aðstæður og reyna að komast að málamiðlun sem báðir geti unað við ..."
o.s.frv. en Ögmundur er, vel að merkja, enn á kafi í málamiðlunum í þessu máli, ólíkt um 60% aðspurðra í nýlegri skoðanakönnun MMR, sem telja, að Íslendingum beri alls ekki að ábyrgjast Icesave-reikningana en þessi er einmitt afstaða Þjóðarheiðurs, sem þar með fráskilur sig frá stefnu hvers einasta þingflokks á Alþingi í málinu.
En þannig talar Ólafur Arnarson um Icesave-málið í Pressugrein sinni:
- Það merkilegasta við grein Indriða, jafnvel þótt ekki séu undanskilin gífuryrði hans um þá, sem ekki hafa viljað kyngja orðalaust þeim hryllingssamningum, sem Svavar Gestsson og Indriði skiluðu þjóðinni um Icesave, er að greinin er bull. Í henni hnýtur hver staðreyndavillan um aðra. Annað hvort þekkir Indriði ekki málið betur, sem er all sérstakt með mann í hans stöðu, eða hann er svona hraðlyginn.
- Indriði segir að 350 þúsund manns hafi átt 700 milljarða inni á Icesave-reikningum, eða sem nemur 2 milljónum á mann að jafnaði. Þetta sé minna en meðaltalseign Íslendinga inni á banka. Þetta hafi verið sauðsvartur almúgi; gamalmenni, verkafólk og námsmenn. Þarna stendur ekki steinn yfir steini hjá Indriða. Inneign á Icesave-reikningum nam miklu meira en 700 milljörðum króna. 700 milljarðar er aðeins sá hluti, sem hann samdi um að við Íslendingar greiðum.
- Þá lætur Indriði þess ógetið, að jafnvel börn vita að áhætta af hávaxtareikningum er meiri en af lágvaxtareikningum. Icesave-reikningar Landsbankans voru með hæstu vöxtum bæði í Bretlandi og Hollandi og þeir, sem lögðu fé sitt inn á þá voru með vitað að taka meiri áhættu en þeir þurftu til að fá hærri vexti. Allt tal um ríkisábyrgð er út í hött.
- Indriði heldur því fram, að íslenskum innistæðueigendum í Landsbankanum hafi verið greiddar sínar innistæður en ekki breskum og hollenskum. Þetta er rangt. Það hefur ekki þurft að borga út neinar innistæður til Íslendinga. Þær voru fluttar yfir í nýja Landsbankann og ekki hefur reynt á hvort greiða þurfi þær út. Breskir og hollenskir innistæðueigendur í Icesave hafa fyrir löngu fengið innistæður sínar greiddar. Icesave-málið snýst um það, hvort íslenskur almúgi greiði háa vexti og taki á sig alla ábyrgð til þess að ríkissjóðir Bretlands og Hollands hagnist verulega á Icesave, eins og Indriði vill.
- Þar sem Indriði hefur hvað eftir annað grafið undan málstað Íslands í Icesave-málinu með yfirlýsingum við fjölmiðla hérlendis sem erlendis og ávallt fengið óskoraðan stuðning fjármálaráðherrans, er ljóst að Indriði talar fyrir hönd síns yfirboðara.
- Spurningin, sem eftir stendur, er sú hvort aðstoðarmaðurinn Indriði Þorláksson er dæmi um dómgreindarskort fjármálaráðherra eða eitthvað annað verra?
Án efa verða miklar umræður um greinarskrif Indriða H. Þorlákssonar, svör manna við þeim og uppnámið mikla í VG.
* Það var reyndar Englandsbanki (e.t.v. með aðstoð brezkra banka) ekki ríkissjóður Bretlands sem lánaði FSCS (brezka tryggingasjóðnum) til að greiða út lágmarkstrygginguna, sem þar nam allt að 50.000 pundum á hvern einstaklingsreikning. Sú trygging á reyndar öll að fjármagnast með iðgjöldum brezkra banka, iðgjöldum sem þeir hafa þegar greitt í formi skuldabréfa til FSCS, skuldabréfa sem FSCS leysir síðan út í þeim bönkum.
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:23 | Facebook
Athugasemdir
Íslenski þáttur hrunsins upptaka einokunar stöðuleika vísitölu um 1982 til veðleiðréttinga allra útlána, líka híbýlalána almennings, í stað einföldunarinnar að við leiðréttingar höfuðstóls þessa útlánaflokks við nýbyggingarkostanað og meðalverð híbýla á 30 ára tímabilum eins og allar þjóðir EU og Norður Ameríku gera almennt í grunni.
Þroskaða stöðugleika formúla er:
Launavístala = híbýlavísitala + neysluvísitala + sparnaðarvísitala + skatta vísitala.
Stétt með stétt tryggir þetta en betur.
Sértaka einföldunnar formúlan hér á landi er:
Launavísitala = neysluvísitala + neysluvístala + lífeyrisbindingarvísitala + skattavístala.
Stöðuleiki Launa vístölu rofnar að sjálfsögðu þegar neysluvísitala er sama og híbýlavístala. Í meir en eitt ár.
Hér er eftir að leiðrétta höfuðstóla launþega áður en farið er út í að réttlæta aumingja styrki við aðra sjálfstæða fjármálmarkaði.
Þegar Íslensk stjórnvöld breyta öðruvísi en flest önnur þarf að rökstyðja það vel.
Þjóðverja höfundar EU stjórnskipunarlaganna vita manna mest að hver sjálfstæð stjórnsýslu efnahagseining ber ábyrgð á sínum neytendum og mörkuðum eingöngu.
Stjórnsýslugeirinn og Fjármálgeirinn eru þjóðartekju kostnaður lítt ábyrgra og reynslulausra sannanlega.
Alla aðra geira á að endurreisa fyrst.
Júlíus Björnsson, 25.3.2010 kl. 14:41
Mjög þarft hjá þér Jón Valur að rekja svona ýtarlega þann ágreining sem ritsmíð Indriða opinberaði að veldur nú draugagangi hjá VG. Ég sjálfur fjalla um ritsmíðina frá öðru sjónarhorni og hefst pistill minn á eftirfarandi málsgrein:
Loftur Altice Þorsteinsson, 25.3.2010 kl. 21:11
Indriði H. Þorláksson hefur undarlegan málstað þarna. Engan málstað. Hann vill að almúgafólk á Íslandi verði gert að vinna fyrir skuldum sem það skuldar ekki og vegna þess að almúgafólk í öðrum löndum hafi tapað peningum, sem það þó fékk bætta frá bönkunum í gegnum tryggingasjóðina þar (DNB og FSCS). Hann leynir þessum seinni hluta vel þó, -eins og hinir hollustumenn rukkaranna.
Hann skirrist ekki við að skrifa brenglusögur. -Eða getur verið að hann bara viti akkúrat ekkert um Icesave málið, um bæturnar úr tryggingsjóðunum og um EKKI RÍKISÁBYRGÐ í EEA/EU Directive 94/19 EC? Hvað var hann annars að gera með Svavari-ég-nenni-þessu-ekki-lengur við að semja um Icesave ef hann vissi ekki nóg????? Hvað er Indriði verja?? Ólöglegu rukkanirnar eða sig sjálfan? Og á almúginn í landinu að borga fyrir hans glötun? Nei, Indriði, þú verður að fara að hætta að verja þessa kúgun.
Elle_, 26.3.2010 kl. 17:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.