Svo einhliða voru samningarnir að sögn Carls Baudenbacher, forseta EFTA-dómstólsins þegar dómur féll í Icesave-málinu 28. janúar 2013. Framkv.stjórn ESB tók þátt í máli Bretlands og Hollands gegn Íslandi, "og því fylgdi viss pressa," segir hann í afar fróðlegu viðtali við Morgunblaðið í dag, bls. 34-35.
Með þessu er enn betur staðfest en áður, hve sterk réttarstaða Íslands var og hve réttsýn var andstaðan hér við Icesave-samningana, andstætt stefnu Jóhönnustjórnar, sem vildi láta bjóða sér þvílíka uppgjafarsamninga. Þetta voru hennar "Versalasamningar" (við vitum hve illa fór með þá fyrri, urðu jafnvel átylla heimsstyrjaldar!).
Gegn þessu landsöluliði stóð almenningur, grasrótarsamtök eins og InDefence, Þjóðarheiður, samtök gegn Icesave, og Samstaða þjóðar gegn Icesave, sem nutu velvildar og ómetanlegs tilstyrks forseta Íslands, herra Ólafs Ragnars Grímssonar. Þess ber að minnast á þessum tíma, og þar rís nafn Ólafs Ragnars hæst, en einnig Lofts Altice Þorsteinssonar verkfræðings, sem af óþreytandi elju og vísindalegri nákvæmni rannsakaði allan grundvöll málsins í erlendum skjölum, reglugerðum og reglum fjármálastofnana, skrifum beztu fræðimanna vestan og austan hafs og með bréfaskiptum við þá. Og í þriðja lagi ber að heiðra hér leiðtoga og aðra baráttumenn eina stjórnmálaflokksins sem barðist gegn öllum Icesave-samningunum á þingi, en sá leiðandi maður (tengdur InDefence-hópnum) var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, en nú Miðflokksins. Síðasti Icesave-samningurinn frá Alþingi, kenndur við Buchheit, var samþykktur af þremur fjórðu allra alþingismanna, og er alveg ljóst, að ef Framsóknarflokkurinn hefði ekki barizt gegn þeim samningi, hefði forsetinn haft lítið svigrúm sem ekkert til að synja lögunum undirskriftar sinnar, með kannski 90% þingmanna á móti sér.
Mesta hetjan var Ólafur Ragnar Grímsson, sem virkjaði ekki aðeins 26. grein stjórnarskrárinnar til að hafna því að staðfesta þessi Icesave-ólög, heldur hafði einnig barizt glæsilega, víða á erlendum vettvangi virtustu fjölmiðla, í þágu þjóðarinnar og íslenzkra landsréttinda.
Öll var sú barátta réttmæt og í samræmi við ýtrasta lagabókstaf, þótt andstæðingar okkar héldu öðru fram í lágkúrulegri þjónkun sinni bæði við eigin flokka hér heima og við ógnandi ríkisstjórnir Bretlands og Hollands, sem nutu samstöðu sjálfs Evrópusambandsins í málinu (og ekki aðeins í formi meðaðildar ESB að málshöfðun UK og Hollands til EFTA-dómstólsins; hefur sú saga verið rakin á þessu vefsetri og er ávallt tiltæk; menn geta jafnvel smellt hér á mánaðarleg yfirlit vefgreina okkar Þjóðarheiðursmanna, neðst í dálkinum hér til vinstri, t.d. smellt á Janúar 2013, og rakið alla þessa sögu fram og til baka, síðan þessi samtök voru stofnuð í febrúar 2010).
Og ekki ber að gleyma hér sjálfri þjóðinni, sem tvívegis hafnaði Icesave-samningum með stolti og neytti þar réttar síns í þjóðaratkvæðagreiðslum í boði herra Ólafs Ragnars! Ríkissjóður Íslands og þjóðin sjálf hefur verið hreinsuð af lögbrota-ásökun Gordons Brown og fjármálaráðherra hans, Alistairs Darling, ríkisstjórnar Hollands og framkvæmdastjórnar sjálfs Evrópusambandsins! Og það er ekki lítils vert að geta borið hér hreinan skjöld, eins og við gerum, en jafnframt höfum við losnað við yfir 80 milljarða vaxtagreiðslur, sem við hefðum orðið að bera hingað til (meira seinna) vegna Buchheit-samningsins, og ennfremur leyst okkar bankamál með langtum glæsilegri hætti en ýmis ESB-löndin (sjá hér neðst).
Já, við höfum ekki enn tæmt hér alla lærdómana af viðtali Baudenbachers dómara við Morgunblaðið í dag. Dagljóst er af orðum hans, að rétturinn var allur okkar megin: "Ég taldi alltaf að við [dómararnir við EFTA-dómstólinn] hefðum tekið rétta ákvörðun. Eftir á að hyggja get ég staðfest það."
Carl Baudenbacher, forseti EFTA-dómstólsins 2003-2018 (ljósm. Mbl.: Eggert)
Með ákvörðun sinni sýndi EFTA-dómstóllinn fram á sjálfstæði sitt, að sögn Baudenbachers.
Hann er spurður af blaðamanni Morgunblaðsins, Baldri Arnarsyni:
Hver voru viðbrögð Hollendinga og Breta eftir Icesave-dóminn?
Eftir Icesave-dóminn var sá fræðilegi möguleiki að Evrópusambandið mótmælti niðurstöðunni og færi fram á sáttameðferð en ég var ávallt þeirrar skoðunar að dómur EFTA-dómstólsins hefði verið skýr og ef dómurinn væri vel rökstuddur yrði Evrópusambandið aldrei í stöðu til að gera þetta. Það yrði þá enda fyrir álitshnekki.
Og þetta var ekkert smámál fyrir neina hlutaðeigendur; grípum aftur niður í grein Baldurs og svör dómarans fyrrverandi:
Icesave eitt stærsta málið í sögu EFTA-dómstólsins
Baudenbacher segir Icesave-málið eitt það stærsta, ef ekki stærsta sem hafi komið til kasta dómstólsins. Nefna þurfi tiltekin samkeppnismál til samanburðar.
Dómsmálið hafi vakið athygli um allan heim og fjölmiðlar í Bandaríkjunum, Asíu og víðar sagt frá því.
Það var ekki aðeins vegna staðreynda málsins. Það var líka dæmi um smáríki sem þorði að standa á rétti sínum og dæmi um lítinn dómstól sem fór sína eigin leið.
Þessi kafli er einnig rosalega afhjúpandi um málið allt, um góða frammistöðu nokkurra okkar manna fyrir EFTA-réttinum (einn Íslendingur tilgreindur), snilld forseta okkar, fjandskap ESB við okkur í málinu o.fl.:
Á máli Versala-samningsins
Hvernig héldu Íslendingar að þínu mati á Icesave-málinu í upphafi?
Upphaflega voru þeir tilbúnir að semja og fallast á skuldbindingar. Þeir voru undir miklum þrýstingi. Ég sá Icesave-samningana. Þeir voru mjög einhliða og skrifaðir á óviðeigandi máli.
Hvernig þá?
Það var tungutak einræðis. Það var á máli Versala-samninganna. Á vissum tímapunkti áttaði forseti ykkar sig á því að tækifæri væri að skapast fyrir hann og hann kallaði til þjóðaratkvæðagreiðslu, segir Baudenbacher og bætir við að lögfræðingar Íslands í Icesave-deilunni hafi staðið sig vel. Þ.m.t. Tim Ward málflytjandi, Miguel Poiares Maduro, og Kristján Andri Stefánsson. (Leturbr. JVJ)
Hann vitnar svo í nýja bók sína, Judicial Independence, nánar tiltekið tilvitnun í fulltrúa ESB þess efnis að Icesave-málið hefði farið á annan veg ef það hefði farið fyrir Evrópudómstólinn. Þ.e.a.s. tapast.
Hér er undirliggjandi ásökun um að við höfum gert Íslandi greiða.
Með því að fara gegn meginreglunni um einsleitni?
Svar mitt er í bókinni þetta er rangur skilningur á einsleitni, segir Baudenbacher og rifjar upp stuðning dagblaða á borð við Guardian og Financial Times við málstað Íslands.
Skipti sá stuðningur máli. Lög eru lög?
Lög eru lög, en í slíku máli er einnig alltaf pólitísk vídd.
Að lokum ein perla enn:
Fjöldi ríkja hefur glímt við skuldavanda. Gæti Icesave-málið átt við þeirra stöðu?
Eitt af vandamálum sem ríki ESB standa frammi fyrir í þessu efni er að þau björguðu öll bönkum sínum. Og þau eru enn að hluta að borga til baka skuldir en Íslendingar gerðu það ekki. Þeir gátu það ekki og frá efnahagslegum sjónarhóli var það heldur ekki rétt. Ekki allir sparifjáreigendur Icesave-reikninganna voru fátækt fólk. Þar voru líka á ferð stórar stofnanir sem höfðu fjárfest. Annaðhvort erum við í markaðshagkerfi, og þá þurfum við að taka afleiðingum gerða okkar, eða við erum það ekki. (Og dómarinn fyrrverandi fer síðan nánar út í það atriði.)
Hjartans þakkir, Baldur Arnarson, fyrir þetta frábæra viðtal. Morgunblaðið er í fjöldreifingu í dag, þar geta allir lesið það.
Jón Valur Jensson.