Fyrir vikið er það nokkuð sérstakt þegar reynt er að fegra inngöngu í Evrópusambandið með þeim rökum að aðild Íslands að regluverki sambandsins, sem tekið hefur verið upp að hluta til hér á landi í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES), hafi leitt til þess að lagarökum Breta og Hollendinga hafi verið hafnað. Raunveruleikinn er sá að aðild landsins að EES-samningnum og illa hannað regluverk Evrópusambandsins gerði útrás stóru bankanna þriggja, Landsbanka Íslands, Kaupþings og Glitnis, mögulega með þeim hætti sem staðið var að henni og sem síðan leiddi til Icesave-deilunnar við brezk og hollenzk stjórnvöld. Regluverkið átti þannig stóran þátt í að skapa Icesave-málið.
Þegar ráðamenn í Brussel stóðu síðan frammi fyrir því að bankahrunið á Íslandi hefði afhjúpað fataleysi regluverks Evrópusambandsins um innistæðutryggingar þegar virkilega á reyndi, svo vísað sé í ævintýri H.C. Andersen, ákváðu þeir að aðildarríki EES skyldu bera ábyrgð á einkareknum innistæðutryggingasjóðum innan landamæra þeirra. Þrátt fyrir að tekið væri skýrt fram í tilskipun sambandsins um innistæðutryggingar að opinberum aðilum væri óheimilt að veita slíka bakábyrgð til þess að tryggja að bankar í minni ríkjum stæðu ekki lakar að vígi en samkeppnisaðilar þeirra í stærri ríkjum sem gætu stærðar sinnar vegna veitt bönkum sínum mun öflugari stuðning ef á þyrfti að halda.
Þannig kaus Evrópusambandið að túlka eigið regluverk á annan hátt eftir fall íslenzku bankanna en gert hafði verið áður og fram kom í því efnislega. Nokkuð sem dómstóll sambandsins myndi að öllum líkindum leggja blessun sín yfir ef á reyndi. Með öðrum orðum ákvað Evrópusambandið í raun að fórna Íslendingum þegar þjóðin stóð hvað höllustum fæti til þess að fela gallana í eigin regluverki. Væntanlega hefur réttlætingin verið sú að fórna mætti minni hagsmunum fyrir meiri. Vert er í því sambandi að rifja upp að ef Ísland væri hluti af Evrópusambandinu væri það minnsta ríki þess. Hætt er þannig við að innan þess yrðu íslenzkir hagsmunir seint taldir vega þyngra en aðrir.
hjortur@mbl.is
Hjörtur J. Guðmundsson
Tekið hér úr opnum gagnabanka Morgunblaðsins.