Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2016

Ekki króna úr ríkissjóði vegna Icesave - endurbirt góð grein Guðm. Ásgeirssonar

Samkvæmt frétt á vef slitastjórnar gamla Landsbankans, voru síðustu eftir­stöðvar forgangs­krafna í slitabú bankans vegna Icesave greiddar að fullu [11. jan. sl.]. Þar með liggur fyrir að ekki ein króna hefur verið lögð á herðar skatt­greiðenda vegna málsins og mun það aldrei gerast úr þessu. Öll upphæðin sem um er að tefla hefur nú verið greidd af slitabúi gamla bankans, fyrir utan 20 milljarða sem hafa verið greiddir af sjálfseignarstofnuninni Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta.

Þessar málalyktir eru nákvæmlega þær sem stefnt var að með undir­skrifta­söfnun kjósum.is þar sem skorað var á forseta Íslands að hafna lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave, í kosningabaráttu sömu aðila í aðdrag­anda þjóðar­atkvæða­greiðslu um ákvörðun forseta, og málsvörn Íslands gegn Eftir­lits­stofnun EFTA fyrir EFTA-dómstólnum þar sem fullnaðar­sigur vannst fyrir hönd Íslands.

Þau málsrök sem urðu til þess að málið vannst að lokum voru að mestu leyti þau sömu og færð höfðu verið af aðstandendum þeirra hreyfinga sem stóðu að undirskriftasöfnuninni og sem mæltu gegn ríkisábyrgð í aðdraganda þjóðar­atkvæðagreiðslunnar. Það má því segja að íslenskar grasrótar­hreyfingar hafi haft betur, ekki aðeins gegn Bretum og Hollend­ingum, heldur einnig Eftirlits­stofnun EFTA sem höfðaði málið og framkvæmda­stjórn Evrópu­sambandsins sem stefndi sér inn í málið til meðalgöngu í fyrsta skipti í sögu EFTA-dómstólsins gagngert í því skyni að taka undir málstað andstæðinga Íslands.

Fyrir utan það að vera afar merkileg útkoma í lögfræðilegum skilningi, er fyrst og fremst ánægjulegt að málinu sé lokið á farsælan hátt. Það gæti jafnvel verið tilefni til að halda upp á daginn með því að kveikja á kertum.

Þessi grein Guðmundar birtist fyrst á Moggabloggi hans 12. jan. sl. og er endurbirt hér, með góðfúslegu leyfi hans, að ósk Þjóðarheiðurs, samtaka gegn Icesave.


mbl.is Icesave greitt að fullu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumingja Oddnýju brá, þegar Árni Páll sagði sannleikann!

Oddný Harðardóttir veit sem er, að smán­arleg meðferð Icesave-málsins af hálfu hennar flokks varð eins og mylnu­steinn um háls hans í kosning­unum 2013, á sama tíma og málið lyfti Framsóknarflokknum hátt í hug margra og í atkvæða­tölum þá, enda hafði hann einn flokka í heild staðið vakt­ina og tekið loka­áhlaupið með þjóð­inni gegn því sem eftir var af Icesave-samningunum. 70% þingmanna greiddu með sínum afvegaleidda hætti atkvæði með Buchheit-samningnum, illu heilli, en forsetinn studdur þjóð og einum flokki vann þar frækinn sigur, eins og sýndi sig snemma árs 2013 í réttlátum úrskurði EFTA-dómstólsins.

En fyrrverandi ráðherrann Oddný Harðardóttir vissi upp á sig ærna skömmina og "vildi [því] ekki tjá sig efn­is­lega um þau atriði sem Árni [Páll Árnason, formaður hennar] nefn­[di] í bréfi sínu" í gær, þar sem hann eðlilega útlistaði ýmis mistök sem hann kvað hafa verið gerð af hálfu Samfylkingarinnar, en þar var Icesave-málið einna efst á blaði.

Til hamingju, Árni Páll.

Samúðarkveðja, Oddný og þín stöðu hross í flokknum gráa og guggna.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Bréf Árna Páls kom á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Elíasson, píanóleikari og tónlistarmaður, MBA í viðskiptafræðum frá HÍ, ritaði í Eyjugrein:

"Þar sem Steingrímur virðist alls ekki ætla að viðurkenna mistökin í Ice­save-málinu, þá er rétt að rifja upp nokkur lykil­atriði:

  1. Hefðu Íslendingar sam­þykkt fyrstu Icesave-samningana þá stæði skuld Íslands við Breta og Hollendinga  nú í 230 milljörðum í erlendri mynt og ættu fyrstu greiðslur að hefjast á þessu ári.

Þessi upphæð hefði lagst ofan á þær greiðslur sem Bretar og Hollendingar hafa nú fengið úr þrotabúi Landsbankans. Um er að ræða umsaminn vaxtakostnað (5,6% af u.þ.b.700 milljörðum) sem hefði safnast upp á þeim tíma sem tók að koma eigum bankans í verð. Með því að fella fyrstu Icesave samningana, sluppu Íslendingar við að greiða þessa óréttmætu kröfu Breta og Hollendinga.

2. Þvert á venjur og reglur sem gilda um fall einkabanka, gerðu Icesave samningarnir ráð fyrir að íslenska þjóðarbúið tæki á sig ábyrgð á að borga kröfu Breta og Hollendinga í þrotabú Landsbankans, óháð því hvað fengist úr þrotabúinu.

Þótt komið hafi í ljós að þrotabúið hafi náð að selja eigur upp í alla upphæðina, þá var gríðarleg áhætta sem fylgdi samningunum. Ef sala eigna bankans hefði ekki dugað þá hefði mismunurinn, auk 230 milljarðanna, verið greiddur af Íslendingum.

3. Það er nú almenn grundvallarregla sem er búið að leiða í lög, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, að almenningur eigi ekki að bera kostnað af falli fjármálafyrirtækja. Vandséð er af hverju annað ætti að gilda hérlendis. http://ec.europa.eu/finance/bank/crisis_management/ "

Þetta eru markverð skrif Ólafs, sem var einn aðalmaðurinn í InDefence-hópnum. Greinin hefst á þessum orðum: "Hún er leiðinleg þessi tilhneiging manna að geta ekki viðurkennt að hafa haft rangt fyrir sér." Dæmi um þetta telur hann greinarskrif Steingríms J. Sigfússonar í Kjarnanum um Icesave-málið. "Þar gerir hann lítið úr ávinningnum af því að Icesave-málið hafnaði fyrir dómstólum og fullnaðarsigur vannst í því fyrir Íslendinga." En Ólafur telur Stein­grím, með hliðsjón af ýmsu, vel hafa "efni á því að viðurkenna mistök sín".

Það hefur Steingrímur þó enn ekki gert í Icesave-málinu og eykur því aðeins fremur en minnkar ábyrgð sína.

Geta má þess, að Buchheit-samningurinn hefði einnig orðið okkur kostnað­ar­samur, eins og áður hefur verið rakið hér á síðu Þjóðarheiðurs. Um 75 milljarða væri hann búinn að kosta okkur og það í erlendum gjaldeyri og féð óendurkræft.

-JVJ.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband