Bloggfærslur mánaðarins, október 2015
23.10.2015 | 20:42
Landsfundarsamþykktir til þess eins að þingflokkur Sjálfstæðisflokks sturti þeim niður?
Tvisvar sveik flokksforystan þjóðina í Icesave-málinu, svo aftur um ESB-umsókn. Bjarni Ben., helztu vopnabræður auk þrælslundaðra þingmanna (fáar undantekn.) kusu með fyrirvarasamningnum* og Buchheit-samningnum líka (með alræmdu "ísköldu mati" Bjarna, ÞVERT GEGN landsfundarsamþykkt sem hafnaði eindregið Icesave-samningum).
Sú spurning vaknar því: Til hvers eru landsfundir flokksins að koma saman að gera samþykktir sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins óvirðir svo með öllu?
Það er sniðugt að setja núna upp sátta- og eindrægni-svipinn til að draga úr líkum á gagnrýni á forystu flokksins fyrir svik við síðasta landsfund, svik sem voru e.k. déja vu eða endurtekning með Icesave-málið í huga, og samt fær þessi formaður að hanga á valdastóli.
Jafnvel eftir að Evrópusambandið hafði veitzt harkalega að þjóðarhagsmunum okkar í tveimur meginmálum: 1) með því að herja endalaust** og af ótrúlegri óbilgirni*** á okkur vegna hinna ólögvörðu krafna Breta og Hollendinga um ríkisábyrgð á Icesave-reikningum einkabanka og 2) með þeirri ofsafrekju sinni að vilja banna okkur að mestu leyti veiðar á makríl í okkar eigin fiskveiðilögsögu (rúml. 2% af makrílveiðum í NA-Atlantshafi vildu þeir "leyfa" okkur að veiða, þótt hann væri einkum hér!), -- jafnvel eftir þessa bitru reynslu af fjandskap Evrópusambandsins létu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sér detta í hug að gera það til þjónkunar þessum Brussel-herrum að svíkjast um að uppfylla kröfu landsfundar flokksins 2013 um að hætt skyldi við hina ólögmætu Össurarumsókn um "aðild" að þessu valdfreka stórveldabandalagi.
Íhaldssamir menn og þjóðræknir, þeir, sem virða lög og reglur og þjóðarhagsmuni, munu ekki með léttu loka augunum fyrir því, að Bjarni Benediktsson hefur með aðgerðum sínum kosið ábyrgðarlausa tækifærisstefnu í stað trúnaðar við félagsmenn í flokknum.
Og jafnvel verra er, ef forystan gerir þetta Evrópusambandinu til þægðar. Ein af tillögunum, sem liggja fyrir landsfundi, er um stjórnarskrárbreytingar. Þar er ætlunin að láta samþykkja heimild til framsals ríkisvalds og binda jafnframt svo um hnútana, með sérstöku ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, að slíkar megi ekki halda um samninga um þjóðréttarmál! Það gengur vart hnífurinn milli þessarar hugsunar og stefnu hins ólögmæta "stjórnlagaráðs" undir áhrifastjórn ESB-vinarins Þorvaldar Gylfasonar að leyfa slíkt fullveldisframsal (í 111. grein tillagna "ráðsins"), en banna um leið (í þeirra 67. grein), að þjóðin geti krafizt þjóðaratkvæðagreiðslu um að hætta við þjóðréttarsamning eins og þann sem innsiglar inntöku í Evrópusambandið!
Það er illa komið fyrir þessum Sjálfstæðisflokki, ef hann samþykkir tillögu á borð við þessa. Bæði forysta hans og utanríkisráðherrann Gunnar Bragi hafa brugðizt í ESB-umsóknarmálinu og virðast jafnvel sýna Brusselvaldinu vaxandi meðvirkni á ýmsum sviðum (m.a. með nýjum og stórvarasömum reglum um tollavernd landbúnaðarvara, sbr. H É R).
* Allir þingmenn Sjálfstæðisflokks greiddu þá atkvæði með Icesave-samningnum fyrir utan Illuga Gunnarsson, sem var fjarstaddur, og hina sönnu sjálfstæðismenn Birgi Ármannsson og Árna Johnsen, sem sögðu nei. Þetta var undir lok ágústmánaðar 2009. Sjálfur var undirritaður svo reiður meirihluta þingmanna Sjálfstæðisflokksins að samþykkja fyrirvaralögin, að ég sagði mig þá úr flokknum, eftir 37 ára félagsaðild, sbr. þessa grein.
** Undir lokin kaus ESB að láta kné fylgja kviði með því að eiga meðaðild að kærumáli Breta og Hollendinga gegn okkur í EFTA-dómstólum (þar sem þessir aðilar töpuðu allir smánarlega, og við þurftum ekki einu sinni að borga eigin málskostnað!).
*** Óbilgirnin birtist ekki hvað sízt í "gerðardómi" sem Evrópusambandið skipaði fulltrúa þriggja stofnana sinna í: framkvæmdastjórnar ESB, Evrópska seðlabankanns og ESB-dómstólsins í Lúxemborg. Árni M. Mathiesen hafði þá sem ráðherra vit á að skipa EKKI fulltrúa Íslands í gerðardóminn, og það var eins gott, því að þessir þrír fulltrúar dæmdu allir Íslendinga seka og greiðsluskylda um Icesave-kröfurnar! -- og gerðu það þvert gegn tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar!
Jón Valur Jensson.
Ekki landsfundur deilna og átaka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt 24.10.2015 kl. 04:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)