Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Nei við dáðleysi og ESB-daðri

Eftir Daníel Sigurðsson
Daníel Sigurðsson

"Hinn 1. apríl hefði óafturkræf vaxtakrafa, skv. Icesave III-samningnum, verið komin í um 65 milljarða."

Eins og sannast hefur í Icesave-málinu er stjórnarflokkunum ekki treystandi fyrir hagsmunum þjóðarinnar í komandi viðureign stjórnvalda við vogunarsjóði og erlenda banka sem eiga langmest í „snjóhengjunni“ svokölluðu sem telur allt að 1.000 milljarða. Efnahagslegt sjálfstæði Íslands er um að tefla.

Forseti Íslands og þjóðin sáu til þess að Icesave-grýluna dagaði uppi fyrir EFTA-dómstólnum í eigin jarðarför.

Hinn 1. apríl hefði óafturkræf vaxtakrafa, skv. Icesave III-samningnum, verið komin í um 65 milljarða. Og þar sem höfuðstóll kröfunnar er enn risavaxinn, þrátt fyrir um helmings lækkun vegna útgreiðslna úr þrotabúinu, hefðu vextir haldið áfram að „tikka“ vægðarlaust um ókomna tíð.

Fyrir þessa upphæð mætti minnka skuldir 16 þúsund heimila í landinu um 4 milljónir fyrir hvert.

Samfylkingin hefur svo til að bíta höfuðið af skömminni reynt að knýja fram nýja stjórnarskrá þar sem þjóðaratkvæði í máli sem þessu yrði aðeins ráðgefandi og í ofanálag með heimild til fullveldisafsals til erlendra stofnana.

Samningsafglöp núverandi stjórnvalda varðandi danska FIH-bankann, sem var í íslenskri eigu, segir svo sína sögu en þar stefnir í um 40 milljarða tap í stað gróða.

Orðrétt sagði Gylfi nokkur Magnússon, fyrrverandi ráðherra, í viðtali 9. þ.m. á RÚV er fréttamaður vísaði í Icesave-málið til samanburðar: „þetta er af sömu stærðargráðu og þessar vaxtagreiðslur sem var verið að takast á um undir það síðasta og raunar aðeins hærri upphæð ef eitthvað er“.

Þessi leiksýning í boði RÚV, þar sem þessi falsspámaður fékk tækifæri til að draga líkið af 32 milljarða kanínu „Já-hópsins“ upp úr kúbönskum hatti sínum, verður að teljast vanvirðing við þjóðina á þessum tveggja ára afmælisdegi seinni þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Lars nokkur Christensen frá Danske Bank prýddi forsíðu Fréttablaðsins hinn 19. þ.m. Þar varaði hann við því að íslensk stjórnvöld beittu löggjafarvaldinu til að komast yfir eignir þrotabúa bankanna. Þessi spekingur, sem Fréttablaðið mærir og titlar sem „Íslandsvin“, vílar ekki fyrir sé að rangtúlka lagalegan rétt Íslands.

Í þessu drottningarviðtali segir hann að lífeyrissjóðir á Norðurlöndum eigi hlut í snjóhengjunni. Hann þagði hins vegar yfir því að Danske Bank á sjálfur þarna verulegra hagsmuni að gæta. Þessi spekingur ætti að halda sig á heimavígstöðvunum þar sem Danske Bank er haldið á floti af danska ríkinu. Þjóðin má þó prísa sig sæla að Samfylkingin náði ekki að opna aftur skjá allra landsmanna fyrir tunguliprum og kjaftagleiðum dönsku kratavitringunum, fyrrverandi ráðherrum Dana, þeim Mogens Lykketoft og Uffe Elleman Jensen, sem kallaðir voru á skjáinn til að reyna að hafa vit fyrir íslensku þjóðinni í Icesave-málinu. Þar boðuðu þeir ísöld á Íslandi ef þjóðin segði NEI.

Danska húsnæðiskerfið er nú að hruni komið og eignamyndun helmings einstaklinga engin, sem er í sjálfu sér ekki fréttnæmt fyrir okkur nema fyrir þær sakir að formaður Samfylkingarinnar er að bjóða upp á þennan sama möguleika ef tekst að véla Ísland inn í ESB.

Höfundur er véltæknifræðingur.

Greinin er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi þessa félaga okkar í Þjóðarheiðri.
Hún birtist fyrst í Morgunblaðinu í morgun.
Um önnur skrif eftir hinn glögga Daníel á þessu vefsetri, sjá HÉR!
 

ESB-innistæðutryggingasjóður fyrir bí ?! - og horft hingað heim!

Mjög er athyglisvert að Angela Merkel kanzlari er farin að leggjast gegn hugmyndum um eitt innistæðutryggingakerfi fyrir allt Evrópusambandið eins og þó hafði verið stefnt á. "Í það minnsta um sinn" virðist hún afhuga slíku nýju kerfi og viðraði þessar áhyggjur sínar í Dresden sumardaginn fyrsta.

  • Fréttaveitan Reuters segir að ástæðan sé ótti ráðamanna í Þýskalandi við það að þýskum skattgreiðendum verði í gegnum slíkt kerfi gert að greiða fyrir mistök banka í öðrum ríkjum innan Evrópusambandsins. (Mbl.is.)

Já, ekki ætlar hún að taka á sína þjóð mistök banka í öðrum löndum, þrátt fyrir meinta samstöðu, jafnrétti og bræðralag "ESB-borgara" í þessu Evrópusambandi!

Hitt gátu þeir í Brussel, útsendarar voldugustu ESB-ríkjanna þar, þrýst á áhrifaðila eins og AGS og gegnum þær á ríkisstjórnir Norðurlanda um að knébeygja litla þjóð í norðri, að hún tæki á sig ólögvarðar kröfur Hollendinga og Breta um greiðslu innistæðna í einkabanka, sem tryggingasjóðir í Bretlandi og Hollandi áttu að bera ábyrgð á, en íslenzka þjóðin enga! Þetta síðastnefnda var endanlega staðfest með EFTA-dómstóls-úrskurðinum í febrúar sl.

Margsinnis hefur verið varað hér við því nýja innistæðutrygginga-kerfi, sem til hefur staðið í ESB að taka upp þar og á EES-svæðinu. En Árni Páll, leiðtogi Samfylkingar, er nú ekki meiri gæfumaður í þessum efnum en svo, að hann hefur agiterað fyrir þessu fyrirbæri! Samt yrði það kerfi stórhættulegt okkur, lágmarksinnistæðu- tryggða upphæðin yrði 100.000 evrur í stað 20.887 evra og gerð ríkistryggð! og greiðsluskyldan höfð með nánast engum fyrirvara!

Frábæra grein er að finna í Mbl. í dag eftir einn af okkar félögum i Þjóðarheiðri – samtökum gegn Icesave, þ.e. Daníel Sigurðsson véltæknifræðing. Greinin kemur inn á ýma hluti, ekki sízt ESB (sjá aths. hér neðar), en hér er til hennar vísað og mönnum bent á að lesa hana vegna þess mikilvæga fróðleiks, sem þar kemur fram um Icesave-málið (og í leiðinni vikið þar að Kúbu-Gylfa Magnússyni).

65 milljarða króna, óafturkræfa, væri búið að borga Bretum og Hollendingum skv. Buchheit-samningnum (ICESAVE III), í beinhörðum, erlendum gjaldeyri, hinn 1. apríl sl., og áfram tikkar teljarinn, meðan þrotabú Landsbankans hefur ekki lokið útgreiðslum sínum. Upphæðin hefði aldrei endurgreiðzt, sama hvað komið hefði út úr þrotabúinu í framhaldi af þessu – svo "glæsilegur" var þessi Buchheit-samningur sem vinstri flokkarnir og tíu þingmenn Sjálfstæðisflokks undir forystu hins "ískalda" Bjarna Ben. báru ábyrgð á að samþykkja í Alþingi!

En í dag getur þjóðin haldið upp á það að hafa völdin, um hálfan sólarhring vegna næstu fjögurra ára, og þá verður bæði horft fram á veg og til baka, meðal annars um þá hluti, sem hér hafa verið ræddir. Sem betur fer höfðum við stjórnarskrána með sinni 26. grein og ábyrgðarfullan forseta, þegar að okkur var sótt með hundraða milljarða króna kröfu Svavarssamningsins og 65 milljarða plús-kröfu Buchheit-samningsins, og sem betur fer tókst að ná breiðri þjóðarsamstöðu, í baráttunni og þjóðaratkvæðagreiðslunum, þótt innri eyðingaröflin sæktu þá að okkur, þau sem fengið hafa áminningu um ábyrgð sína í nýlegum greinum hér á vefsetrinu og munu áfram fá, m.a. Gylfi Magnússon, sem enn heldur uppi vanþekkingar-blekkingum og fær á baukinn hjá Daníel í hans frábæru grein.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vilja ekki eitt innistæðutryggingakerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinaþjóðir? - spurt að gefnu tilefni vegna íhlutunar Elleman-Jensens og Carls Bildt í Icesave-málinu

"Í Icesave-málinu kom í öllu falli vel í ljós hverra vinir Norðurlöndin og ESB voru og gilti þá einu þó að „vinaþjóðirnar“ Bretland og Holland héldu uppi löglausum kröfum á hendur Íslandi sem að auki hefðu sett þjóðina í gjaldþrot hefðu jámenn fengið að ráða." Þannig ritar Arnar Sigurðsson, sem starfar á fjármálamarkaði, í Morgunblaðið í dag. Grein hans er hér: Vinaþjóðir?mm

Þar fjallar hann fyrst og frest um Evrópusambandsmálið og tekur Þorstein Pálsson sérstaklega á teppið vegna skrifa hans í þeim efnum, en hér víkur hann einnig að Icesave-málinu:

  • "Þorsteinn virðist telja að upphefðin komi að utan og telur óþarft að minnast á hlut stórmennisins Carls Bildt í að kúga Íslendinga til undirgefni gagnvart Bretum og Hollendingum. Carl Bildt fór fyrir hópi norrænna vinaþjóða Breta og Hollendinga í ræðu og riti með því að skilyrða lán frá AGS við að Íslendingar undirgengjust löglausar kröfur sinna vinaþjóða. Á sama tíma sagði Uffe Elleman-Jensen að veruleikaskynið virtist hafa yfirgefið Íslendinga og tók undir með varaformanni VG um að forseti þjóðarinnar væri fífl. „Þetta segi ég, sem hef lengi verið Íslandsvinur. Ímyndið ykkur þá hvernig aðrir upplifa þessar aðstæður.“
  • Það er sjálfsagt að eiga í samstarfi við vini sína og gaman þegar erlend fyrirmenni klæðast íslenskum lopapeysum en Icesave-málið sýnir að enginn lítur jafn vel eftir hagsmunum íslensku þjóðarinnar og hún sjálf," segir Arnar í framhaldi af þessu. 

Vel mælt um þetta og fleiri mál hjá honum, sjá Morgunblaðið í dag. En af orðunum hér ofar má sjá, hve freklega langt ýmsir norrænir leiðtogar eins og Elleman-Jensen og Carl Bildt gengu, þegar þeir þjónuðu Bretum og Hollendingum í Icesave-málinu. Og ekki voru þeir hænufeti framar í skilningi á lagalegu réttlæti heldur en Icesave-dindlarnir í íslenzkri stjórnmálastétt og viðskiptalífi eða álitsgjafarnir rugluðu í háskólasamfélaginu og í fjölmiðlum -- sbr. greinar hér á síðunni (efnisyfirlit um NÝJUSTU FÆRSLUR í dálkinum til vinstri, neðar) og væntanlega grein um nýjustu aulayfirlýsingar Gylfa Magnússonar.

Jón Valur Jensson.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband