Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013

Fv. ráðherrar með vonda Icesave-samvizku reyna að réttlæta gerðir sínar og ráðast á þann sem sízt skyldi: sjálfan forsetann!

Það var gott að skýr rödd Sigrúnar Magnúsdóttir, þingflokksformanns Framsóknar, heyrðist á Alþingi í dag um lágkúrulega gagnrýni Steingríms J. Sigfússonar og Össurar Skarphéðinssonar á herra Ólaf Ragnar Grímsson, sjálfan forseta landsins. „Það er ekki lýðræðinu eða stjórnskipun vorri til framdráttar að ráðast á forseta Íslands með þessum hætti,“ sagði hún meðal annars.

Á þingi í dag sagði Sigrún að tilgangur þeirra væri eflaust að réttlæta störf sín og framgöngu í landsdómsmálinu og segir ýmislegt hafa verið "dregið fram úr skúmaskotum" í minningabók þeirra kumpána, "en forkastanlegust er aðför þeirra að forseta lýðveldisins. Það er ef til vill skiljanlegt að þeim svíði að hafa ekki komið fram vilja sínum að láta undan Bretum í Icesave-málinu. En þar bjargaði frumkvæði forsetans og grasrótarsamtökin InDefence okkur frá verulegu tjóni,“ sagði Sigrún og bætti við:

  • „Væri ekki frekar ástæða til að þakka honum fyrir árvekni og djörfung? Það er ekki lýðræðinu eða stjórnskipun vorri til framdráttar að ráðast á forseta Íslands með þessum hætti.“

Ætli við getum ekki verið sammála því, að það bæti ekki stjórnmálaumræðuna í landinu, eins og Sigrún sagði.

Sannarlega vann forseti Íslands kraftaverk með gjörðum sínum, studdur miklu grasrótarstarfi og framlagi manna og samtaka til fjölmiðla- og netumræðunnar um Icesave-málið. InDefence vann þar ómetanlegt starf í fyrstu áföngunum, meðal annars með afgerandi sterkri undirskriftasöfnun sinni, auk afar vandaðrar, faglegrar gagnrýni á Svavarssamninginn og afbrigði hans, en þessi samtök tóku hins vegar ekki beinan þátt í baráttunni gegn Buchheit-samningnum, þá var það Samstaða þjóðar gegn Icesave, sem tryggði sigurinn með forsetanum, ekki sízt með vel heppnaðri undirskriftasöfnun á vefnum Kjósum.is. Og allan tímann barðist félagsskapur grasrótarmanna, stofnaður í lok febrúar 2011, Þjóðarheiður – samtök gegn Icesave, af mikilli einbeitni gegn öllum Icesave-svikasamningunum, í 1. lagi með rannsóknum á málinu, sem birtust gjarnan á þessum vef, thjodarheidur.is, og á vefsíðu Lofts Þorsteinssonar verkfræðings (altice.blog.is, sem blog.is eyddi síðar öllum með hverjum stafkrók vegna félagspólitískrar einsýni í allt öðru máli) og fleiri félagsmanna Þjóðarheiðurs; í 2. lagi með beittum hvatningar- og gagnrýnisgreinum um málið á sömu vefjum; í 3. lagi með fundarhöldum félagsmanna og í 4. lagi með starfi ýmissa leiðandi manna Þjóðarheiðurs innan regnhlífarsamtakanna Samstöðu þjóðar gegn Icesave, en frumkvöðlar að stofnun þess félagsskapar voru einmitt stjórnarmenn Þjóðarheiðurs og Fullveldissamtakanna.

Rétt skal vera rétt og ekki þagað um þessa mikilvægu vinnu Þjóðarheiðurs og Samstöðu þjóðar gegn Icesave, sem studdu málstað Íslands og styrktu þá undirstöðu sem forseti landsins byggði á. 

En það er spurning, hvort Steingrími og Össuri sé við bjargandi í Icesave-málinu fremur en öðru. Nú standa þeir í því í bókum sínum nýútkomnum að þvo hendur sínar af óhæfuverkum og sneiða jafnvel að þeim, sem sízt skyldi, forseta Íslands. Framganga Steingríms J. í því máli var með ólíkindum frökk og frek í Kastljósi gærdagsins. Ekki hafa þeir fært umræðuna á hærra plan, svo mikið er víst. Það er eðlilegt að Sigrúnu Magnúsdóttur mislíki:

  • „Á góðum stundum tala og töluðu þessir stjórnmálamenn um nauðsyn þess að gera stjórnmálaumræðuna hófstilltari, málefnalegri og opnari. Öllum þessum gildum er kastað fyrir róða til þess að koma höggi á forseta Íslands,“

sagði hún í þingræðu sinni í dag. En hróður forsetans mun lengi uppi fyrir að hafa bjargað þjóðinni tvívegis með synjun undirskriftar Icesave-laganna og gefið okkur færi á að hafna þeim í þjóðaratkvæðagreiðslum.

Miðað við aprílbyrjun þessa árs hefðum við verið búin að borga 65 milljarða króna skv. Buchheit-samningi Steingríms, allt í erlendum gjaldeyri, og meira myndi bætast við! Síðan þá hefði þetta enn versnað:

Daníel Sigurðsson véltæknifræðingur, félagsmaður í Þjóðarheiðri og einn margra, sem rituðu í blöðin um Icesave-málið, ritaði nýlega á vefsíðu Samstöðu þjóðar:

  • Hinn 1. júlí 2013, við 2. ársfjórðungsgreiðslu skv. Icesave III-samningnum, væri vaxtakrafan komin í yfir kr. 67 milljarða í beinhörðum gjaldeyri sem ríkissjóður væri búinn að sjá af í þetta svarthol ef þjóðin hefði ekki hafnað þessum ólögvarða samningi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl 2011.
  • Ekki er búið að greiða úr þrotabúi gamla Landsbankans nema sem svarar til um helmings af fjárhæðum forgangskrafna, þannig að ef heldur sem horfir hefðu vextir haldið áram að "tikka" vægðarlaust um ókomna tíð ef þjóðin hefði ekki tekið ráðin af vanhæfri ríkisstjórninni.  
  • Fyrir þessa upphæð mætti lækka skuldir tæplega 17 þúsund skuldum vafinna heimila í landinu um 4 milljónir hvert. Það þvertók hin lánlausa fráfarandi ríkisstjórn fyrir að kæmi til greina. Þvert á móti barðist hún um á hæl og hnakka fyrir því að koma byrðunum af hinum ólögvarða Icesave III-samningi á herðar almennings.
  • Þjóðin hefur nú ekki aðeins hrist af sér þennan ólánssamning heldur einnig höfund hans, sjálfa ríkisstjórnina."

Tilvitnun lýkur í skrif Daníels, en sannarlega endaði þetta mál eins og bezt varð á kosið! En Sigmar Kastljósmaður hefði gjarnan mátt spyrja hinn kokhrausta Steingrím í þættinum í gær, hvar hann hafi ætlað sér að taka þessa 67 milljarða í beinhörðum gjaldeyri til að borga samningsvinum sínum Bretum og Hollendingum! Hvernig væri hér umhorfs, hefði Steingrími, Össuri og Jóhönnu orðið að ósk sinni?

Jón Valur Jensson.
mbl.is „Lýðræðinu ekki til framdráttar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband