27.8.2016 | 12:52
Lýðræðishalli í Sjálfstæðisflokknum! segir Styrmir. Sá halli birtist átakanlega í Icesave-málinu
Framlag Styrmis í Vikulok Rásar 1 í dag vekur mikla athygli. Lýðræðishalla í hans eigin flokki, sem og í lífeyrissjóðunum, líkir hann við gjána í bandarísku samfélagi milli örfárra ríkra og ráðandi og hins vegar alls þorra almennings:
Vitnaði hann í Robert Reich, vinnumálaráðherra í tíð Bills Clinton, og sagði skiptinguna í þjóðfélaginu þannig að öðrum megin væri gríðarlegur fjöldi en hinum megin fámennur hópur. Málið snerist ekki um pólitík heldur þessa fámennu hópa sem væru komnir í þá aðstöðu að stjórna heilu samfélögunum; embættismenn og aðra áhrifamenn t.d.
Sagði Styrmir átökin snúast um að hinir mörgu þyldu ekki yfirráð hinna fáu. (Leturbr. hér.)
Hann sagðist á því að það væri lýðræðishalli í Sjálfstæðisflokknum og sagði það úrelt kerfi að kallaður væri saman landsfundur sem kysi forystu flokksins. Hann sagði að allir flokksbundnir sjálfstæðismenn, miklu meiri fjöldi en þeir sem sæktu landsfund, ættu að kjósa forystuna og um stefnumörkun flokksins.
Þetta ætti einnig við um lífeyrissjóðina; þar byggju menn enn við það gamla kerfi að stjórn væri valin af vinnuveitenda- og launþegasamtökum en ekki af félagsmönnum sjálfum. (Mbl.is sagði hér, að nokkru, frá Vikulokaþættinum fyrir hádegið í dag.)
Í tveimur stórum málum hefur fámenn forysta Sjálfstæðisflokksins tekið öll ráð úr höndum æðstu stofnunar flokksins, landsfundar, sem yfirleitt er haldinn á tveggja ára fresti, einkum stuttu fyrir kosningar. Þetta varð opinberlega ljóst í bæði Icesave-málinu og ESB-umsóknarmálinu. Í því síðarnefnda sveikst Bjarni Benediktsson ásamt fleiri ráðherrum flokksins aftan að þeirri stefnu sem landsfundur hafði markað undir vorið 2013, að hætta bæri við umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið. Sú stefna var þar skýr og ljós og ekki komin undir neinu skilyrði um undangengna þjóðaratkvæðagreiðslu þar um (ekki frekar en Jóhanna, Össur og Steingrímur og þeirra taglhnýtingar höfðu tekið í mál að hafa þjóðaratkvæði um umsóknina). Einungis kvað landsfundur á um, að ef einhvern tímann aftur yrði sótt þarna um inngöngu, skyldi þjóðin spurð álits á því í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Í Icesave-málinu hélt Bjarni Benediktsson linlega á spöðunum með því að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um Icesave-II (fyrirvarasamninginn), en landsfundur fjallaði síðan um framtíð málsins með þeim hætti, að við Íslendingar hefðum enga gjaldskyldu í því kröfumáli brezkra og hollenzkra stjóirnvalda og að því bæri að hafna öllum Icesave-samningum.
Með þessa stefnumörkun grasrótar flokksins (um 1700 manns) ákvað Bjarni Ben. og meirihluti þingmanna flokksins að fara samt sínu fram, með beinum stuðningi við Icesave-III (Buchheit-samninginn), meðan blekið var varla þornað á yfirlýsingu landsfundar! Enn á ný sannaðist ofríki hinna fáu gagnvart stefnu hinna mörgu.
En þá var það grasrót almennings og ekki sízt ötul mótspyrnusamtök, Samstaða þjóðar gegn Icesave, sem börðust ötullega í málinu, einkum með undirskriftasöfnun á vefnum Kjósum.is, og náðu þvílíkum árangri, að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, tók af skarið með því að synja lögunum um Buchheit-samninginn undirskriftar sinnar.
Það sama vildi reyndar Guðni Th. Jóhannesson ekki á þeim tíma, mælti þvert á móti með samningum, eins og margir aðrir áhrifagjarnir á þeim vetrardögum, þegar sviptingar fóru um samfélagið og reykmökkur áróðurs lagðist hér yfir stofnanir og hagsmunaaðila, þar á meðal yfir Fréttastofu Rúv og 365-fjölmiðla og ráðamenn í Valhöll.
Þvert á móti þessu var það einarðleg afstaða Ólafs forseta og meirihluta þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu 2011 sem tryggði rétt okkar og hagsmuni, eins og berlega kom í ljós eftir lögsókn Breta og Hollendinga fyrir EFTA-réttinum, sem úrskurðaði í janúar 2013 um fullan rétt Íslands til að þvertaka fyrir alla greiðsluskyldu vegna Icesave-reikninga einkabankans Landsbankans.
Þetta var augljós staðfesting á réttsýni landsfundar Sjálfstæðisflokksins í málinu, þetta var því vindication of his right judgment, as well as of our national rights, eins og orða mætti þetta á ensku.
SAMT féllu Bjarni & Co. aftur í þá freistni nokkrum misserum síðar að óhlýðnast landsfundi flokksins í afgerandi mikilvægu máli, ESB-málinu, eins og lýst var hér ofar. Lýðræðishallinn, sem Styrmir Gunnarsson talaði um í morgun, var þannig ítrekað staðfestur innan þessa flokks, og geldur hann enn fyrir það í skoðanakönnunum.
Styrmir Gunnarsson er hins vegar einn þeirra sjálfstæðismanna, sem í báðum þessum málum báru hreinan skjöld, stóðu vörð um rétt okkar og þjóðarhagsmuni og fylgdu þar með eftir stefnu grasrótar flokksins á tveimur landsfundum hans.
Jón Valur Jensson.
Framboð Þorsteins og Pawels erfið fyrir Sjálfstæðisflokkinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.