19.5.2016 | 02:07
Davíð um Buchheit-samning: Miklar fórnir fyrir ekki neitt
Af því að gamlir Icesave-borgunarsinnar hreykja sér enn upp, voga sér jafnvel að umsnúa staðreyndum og halda fram, að fylgismenn Buchheit-samnings eins og Guðni Th. hafi verið saklausir, en Davíð Oddsson sé hins vegar falskur vegna þess að hann hafi líka stutt Icesave-samning Buchheits, þá skal það leiðréttast hér í eitt skipti fyrir öll.
Sannarlega var mikill fengur að öllum liðsstyrk andstæðinga Icesave fram að hinni feginsamlegu seinni þjóðaratkvæðagreiðslu í apríl 2011, m.a. ýmissa lögfræðinga í blaðagreinum og grasrótarmanna og samtaka á vefsíðum, fyrir utan sjálfa undirskriftasöfnunina, sem sannarlega veitti forsetanum styrk til að synja lögunum staðfestingar og skjóta málinu undir úrskurð þjóðarinnar.
En meðal þeirra, sem skorinorðastir voru gegn Icesave-III (Buchheit-samningnum) var aðalritstjóri Morgunblaðsins á þeim tíma: Davíð Oddsson.
Þar sem allar greinar í Morgunblaðinu þriggja ára og eldri eru nú opnar öllum á netinu, þá er sem betur fer hægt að endurbirta hér svart á hvítu, hve góðum rökum blaðið hélt á í Icesave-málinu. Hér er til dæmis snjall baráttu-leiðari úr Morgunblaðinu fjórum dögum fyrir þjóðaratkvæðið um Buchheit-ólögin:
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1373646/
Miklar fórnir fyrir ekki neitt
Fórnarkostnaðurinn vegna Icesave III yrði í senn gríðarlegur og raunverulegur
Skoðanakönnun sem birt var í gær sýnir að fólk hefur ekki tekið skýra afstöðu til þess hvernig greiða ætti Icesave-III-samningana, yrðu þeir samþykktir í kosningunum á laugardag. Spurt var að því hvernig fólk teldi best að ríkissjóður aflaði þeirra rúmlega 26 milljarða króna sem fjármálaráðuneytið telur að þyrfti að greiða á þessu ári, yrðu samningarnir samþykktir. Könnunin sýnir að 55% svara þessu ekki, 21% vill taka lán fyrir kostnaðinum, 16% vilja skera niður og 9% vilja hækka skatta.
En þó að niðurstaðan sé afar óljós um afstöðu fólks til þess hvernig ætti að fjármagna samningana, yrðu þeir samþykktir, má segja að hún sýni um leið að þegar fólk stendur frammi fyrir þessum raunveruleika þykir því enginn kostur góður.
Könnunin gaf þannig óljósar niðurstöður en varpar um leið ljósi á þá staðreynd að þeir peningar sem færu í að greiða löglausar kröfur Breta og Hollendinga yrðu ekki notaðir í annað. Og til að setja þessi útgjöld í samhengi má hafa í huga að útgjöldin í ár yrðu jafnmikil og allur stofnkostnaður Búðarhálsvirkjunar, tvöfaldur rekstrarkostnaður Háskóla Íslands eða tveir þriðjuhlutar rekstrarkostnaðar Landspítalans.
Og þetta er aðeins greiðslan sem liggur fyrir fyrsta árið og ekki yrði komist hjá segðu Íslendingar já á laugardag. Fullkomin óvissa ríkir um framhaldið en töluverðar líkur eru á að þar yrði um margfalt hærri fjárhæðir að ræða.
Tugir eða hundruð milljarða eru óraunverulegar tölur, en þegar þær eru settar í samhengi sést vel hversu ofboðslegar fórnir ríkisstjórnin reynir að telja landsmenn á að færa vegna Icesave-lögleysunnar.
(Tilvitnun í leiðarann lýkur.)
Hér sést ekki aðeins, að talað er um greiðslur vegna samningsins sem illbærilegar, heldur eru kröfur Breta og Hollendinga, sem kalla myndu á þær ofboðslegu fórnir, beinlínis kallaðar löglausar og málinu öllu réttilega gefið nafnið Icesave-lögleysan.
Jón Valur Jensson.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.