27.6.2014 | 22:49
Nýtt að frétta af ógáfulegri, stórhættulegri ESB-tilskipun: ríkisábyrgð á allt að 100.000 evra bankainnistæðum!
Það væri ljót hefnd ESB-liðsins ef því tækist að koma þessari nýju tilskipun á hér, eftir að hafa tapað fyrir okkur og réttlætinu í Icesave-deilunni. Fráleitt er að leggja þessa ábyrgð (nær fimmfalt meiri en átti að hvíla á tryggingasjóðunum) á ríkið og þar með á herðar landsmanna. Ný kreppa gæti riðið yfir og hefði þá enn hrikalegri afleiðingar, ef þessi ESB-regla væri orðin regla hér!
- Tilskipun Evrópusambandsins um að hækka beri innistæðutryggingar úr rúmlega 20.000 evrum í 100.000 evrur, sem samþykkt var nýlega, var rædd á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í gær, en Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, óskaði þess að málið yrði rætt þar, í ljósi þess að til stendur að þessi tilskipun verði tekin upp í EES-samninginn. Var samþykkt að málið yrði tekið upp á ný í byrjun ágúst þegar sérfræðingar fjármálaráðuneytis gætu farið yfir þessi mál með nefndinni, en þeir eru nú í sumarleyfi. (Mbl.is)
Ennfremur segir í þessu viðtali Stefáns Gunnars Sveinssonar við GÞÞ:
- Guðlaugur Þór segir að væri þessi tilskipun Evrópusambandsins leidd í lög hér á landi myndi það þýða að engin leið væri fyrir íslenska ríkið að standa við skuldbindingar tryggingarsjóðs, færi svo að einn bankinn kæmist í þrot.
- Ég fæ ekki séð hvernig við gætum lifað með þessu, segir Guðlaugur Þór. Þar kæmi til að erfiðara yrði að fara hina svonefndu íslensku leið, og láta tryggingarsjóð fá forgangskröfur, þar sem þeir sem fjármagna banka væru nú varari um sig og hefðu sérvarin skuldabréf með veðum, svo að þeir myndu ekki lenda í svipuðum sporum og kröfuhafar gerðu eftir hrunið 2008. Hitt atriðið sem stæði í veginum væri það að í tilskipuninni væri nú tryggt að ríkisábyrgð yrði á innistæðunum, þannig að ríkið yrði að tryggja fjármögnun tryggingarsjóðsins.
Engin ríkisábyrgð var á Icesave-reikningum Landsbankans, skv. eldri EES-tilskipuninni (eins og sýndi sig í EFTA-dómsúrskurðinum í janúar á liðnu ári), en nú hyggst ESB koma á beinni ríkisábyrgð á öllu saman, jafnt þótt sjálf tryggingarfjárhæðin sé hækkuð úr 20.887 evrum upp í 100.000 evrur!
Nú hljóta loks að renna tvær grímur á einhverja, hvort EES-samningurinn sé jafn-ágætur og sumir vilja vera láta. Og var það reyndar ekki hann sem bauð upp á alla útrás okkar meintu 21. aldar "víkinga" og þar með bankahrunið hér?
Ekki nægir ESB þetta, heldur er biðtími greiðslna á tryggingunni minnkaður niður í fáeina daga! Alþingismönnum ber skylda til að hafna slíkum reglum, það hlýtur að vera öllum ljóst sem fylgdust með Icesave-málinu og stóðu þá sem nú með þjóðarhagsmunum okkar Íslendinga.
Jón Valur Jensson.
Ný tilskipun rædd í byrjun ágúst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Löggæsla | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:54 | Facebook
Athugasemdir
Það má þakka Guðlaugi Þór fyrir að vekja máls á þessu. En hvort þetta vekur einhvern ugg meðal sanntrúaðra EES-sinna er mér til efs. Verum minnug þess hvernig Jóhönnustjórninn lagði allt undir til að koma Icesave klefanum á okkur.
Ragnhildur Kolka, 29.6.2014 kl. 14:44
Icesave klafinn - átti það að vera.
Ragnhildur Kolka, 29.6.2014 kl. 14:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.