6.9.2013 | 09:49
Minnt á sannindi í Icesave-máli
Ný frétt á Mbl.is staðfestir réttmæti hinna þungvægu áherzlna Lofts Altice Þorsteinssonar verkfræðings á beina lagaskyldu brezka innistæðutrygginga-sjóðsins FSCS að ábyrgjast bankainnistæður þar í landi, líka á íslenzku bönkunum og þar með Icesave-reikningunum meðtöldum.
- Tryggingasjóður innistæðueigenda í Bretlandi (FSCS) ... bætir breskum sparifjáreigendum tapið sem þeir urðu fyrir þegar íslensku bankarnir féllu ... Kostnaður sjóðsins vegna íslensku bankanna þriggja nemur 4.488 milljónum punda eða 851 milljarði íslenskra króna. (Mbl.is.)
Áherzlur Lofts í þessu máli, byggðar á afar miklum bréfaskiptum hans við FSCS, brezka og hollenzka seðlabankann, fleiri stofnanir og sérfræðinga, birti hann bæði á þessum vef og sínum eigin, altice-blog.is, en þáverandi stjórnvöld hunzuðu ábendingar hans með öllu og keyrðu á að gera hina óforskömmuðu Icesave-samninga sína. Það var ekki fyrr en á síðustu metrunum nánast hjá ríkisstjórn Jóhönnu sem aðilum í viðskiptaráðuneytinu, Kristrúnu Heimisdóttur lögfræðingi og með henni Árna Páli Árnasyni o.fl., var að verða þetta ljóst: að Bretarnir voru sjálfir í ábyrgð vegna þeirra íslenzku banka, sem þeir höfðu veitt starfsleyfi þar í landi.
Það fór jafnvel svo, að blog.is EYDDI öllum hinum mikilsverða vef Lofts, altice.blog.is, og var það þeim til algerrar skammar að brjóta þannig gegn höfundarrétti hans og þurrka út allar hans dýrmætu upplýsingar! Honum hefur jafnvel verið neitað um afrit af þeim vefgreinum sínum! Allt var það vegna einnar bloggfærslu hans, sem kom þessum málum ekkert við og fól ekkert í sér sem lögbrot gæti kallazt.
En lítum aftur á aðalatriði sigursins í Icesave-málinu:
Jafnvel samkvæmt Buchheit-samningnum hefðum við orðið að borga ÓAFTURKRÆFA VEXTI af því, sem ekkert var og engin þjóðarskuld. Þetta hefði allt lent á herðum þjóðarinnar vegna ólögvarinnar kröfu Breta og Hollendinga, alveg án tillits til þess, hvort þrotabú Landsbankans hefði átt fyrir þessu! Grasrótarbaráttunni lauk með því, að þessum síðasta Icesave-sneypusamningi Steingríms og Jóhönnu var synjað undirskriftar af forsetans hálfu og HAFNAÐ af þjóðaratkvæðagreiðslu. Einmitt sú útkoma ein sér gaf okkur síðan færi á að heyra og njóta sýknu-úrskurðarins frá EFTA-dómstólnum snemma á þessu ári. Án þjóðaratkvæðagreiðslunnar væru menn enn hér að bulla um meinta "sekt okkar" í þessu máli, á sama tíma og þjóðin væri að strita við að borga hinar þungbæru greiðslur skv. þessum þræla- og nauðungarsamningum, sem Steingrímur undirskrifaði og vesalir þingmenn vinstri flokkanna samþykktu þvert gegn lögum og rétti.
Miðað við aprílbyrjun þessa árs hefðum við verið búin að borga 65 milljarða króna skv. Buchheit-samningi Steingríms, allt í erlendum gjaldeyri, og meira myndi bætast við! Síðan þá hefði þetta enn versnað:
Daníel Sigurðsson véltæknifræðingur ritar nýlega á þá sömu vefsíðu Samstöðu þjóðar:
- Hinn 1. júlí 2013, við 2. ársfjórðungsgreiðslu skv. Icesave III-samningnum, væri vaxtakrafan komin í yfir kr. 67 milljarða í beinhörðum gjaldeyri sem ríkissjóður væri búinn að sjá af í þetta svarthol ef þjóðin hefði ekki hafnað þessum ólögvarða samningi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl 2011.
- Ekki er búið að greiða úr þrotabúi gamla Landsbankans nema sem svarar til um helmings af fjárhæðum forgangskrafna, þannig að ef heldur sem horfir hefðu vextir haldið áram að "tikka" vægðarlaust um ókomna tíð ef þjóðin hefði ekki tekið ráðin af vanhæfri ríkisstjórninni.
- Fyrir þessa upphæð mætti lækka skuldir tæplega 17 þúsund skuldum vafinna heimila í landinu um 4 milljónir hvert. Það þvertók hin lánlausa fráfarandi ríkisstjórn fyrir að kæmi til greina. Þvert á móti barðist hún um á hæl og hnakka fyrir því að koma byrðunum af hinum ólögvarða Icesave III-samningi á herðar almennings.
- Þjóðin hefur nú ekki aðeins hrist af sér þennan ólánssamning heldur einnig höfund hans, sjálfa ríkisstjórnina."
Tilvitnun lýkur.
Jón Valur Jensson.
579 milljarðar endurheimst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Fjármál, Löggæsla, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:35 | Facebook
Athugasemdir
Á það má benda að Landsbankinn var með fullar innistæðu-tryggingar í Bretlandi og Hollandi. Þar voru því fyrir hendi tryggingar sem voru hærri en lágmarkstrygging ESB. Minna má á að tilskipanir ESB tala um innistæðu-trygginga-kerfi í fleirtölu og ekkert bannar bönkum að vera með margfaldar tryggingar. Þess skal getið, að Landsbankinn fekk starfsleyfi í Bretlandi í desember 2001 og hann fekk viðbótartryggingu hjá FSCS fyrir Icesave í júlí 2006 (FSA No. 207250). Aðild Landsbankans að tryggingasjóðnum FSCS var til dæmis staðfest með yfirlýsingu FSA frá 8. marz 2010:
Nánar hér: thjodarheidur.blog.is/blog/thjodarheidur/entry/1302366/!
JVJ.
ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE, 6.9.2013 kl. 10:40
Þetta var úr yfirýsingu samtakanna Samstöðu þjóðar, og er Loftur Altice aðalhöfundur hennar. ––JVJ.
ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE, 6.9.2013 kl. 10:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.