Nei við dáðleysi og ESB-daðri

Eftir Daníel Sigurðsson
Daníel Sigurðsson

"Hinn 1. apríl hefði óafturkræf vaxtakrafa, skv. Icesave III-samningnum, verið komin í um 65 milljarða."

Eins og sannast hefur í Icesave-málinu er stjórnarflokkunum ekki treystandi fyrir hagsmunum þjóðarinnar í komandi viðureign stjórnvalda við vogunarsjóði og erlenda banka sem eiga langmest í „snjóhengjunni“ svokölluðu sem telur allt að 1.000 milljarða. Efnahagslegt sjálfstæði Íslands er um að tefla.

Forseti Íslands og þjóðin sáu til þess að Icesave-grýluna dagaði uppi fyrir EFTA-dómstólnum í eigin jarðarför.

Hinn 1. apríl hefði óafturkræf vaxtakrafa, skv. Icesave III-samningnum, verið komin í um 65 milljarða. Og þar sem höfuðstóll kröfunnar er enn risavaxinn, þrátt fyrir um helmings lækkun vegna útgreiðslna úr þrotabúinu, hefðu vextir haldið áfram að „tikka“ vægðarlaust um ókomna tíð.

Fyrir þessa upphæð mætti minnka skuldir 16 þúsund heimila í landinu um 4 milljónir fyrir hvert.

Samfylkingin hefur svo til að bíta höfuðið af skömminni reynt að knýja fram nýja stjórnarskrá þar sem þjóðaratkvæði í máli sem þessu yrði aðeins ráðgefandi og í ofanálag með heimild til fullveldisafsals til erlendra stofnana.

Samningsafglöp núverandi stjórnvalda varðandi danska FIH-bankann, sem var í íslenskri eigu, segir svo sína sögu en þar stefnir í um 40 milljarða tap í stað gróða.

Orðrétt sagði Gylfi nokkur Magnússon, fyrrverandi ráðherra, í viðtali 9. þ.m. á RÚV er fréttamaður vísaði í Icesave-málið til samanburðar: „þetta er af sömu stærðargráðu og þessar vaxtagreiðslur sem var verið að takast á um undir það síðasta og raunar aðeins hærri upphæð ef eitthvað er“.

Þessi leiksýning í boði RÚV, þar sem þessi falsspámaður fékk tækifæri til að draga líkið af 32 milljarða kanínu „Já-hópsins“ upp úr kúbönskum hatti sínum, verður að teljast vanvirðing við þjóðina á þessum tveggja ára afmælisdegi seinni þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Lars nokkur Christensen frá Danske Bank prýddi forsíðu Fréttablaðsins hinn 19. þ.m. Þar varaði hann við því að íslensk stjórnvöld beittu löggjafarvaldinu til að komast yfir eignir þrotabúa bankanna. Þessi spekingur, sem Fréttablaðið mærir og titlar sem „Íslandsvin“, vílar ekki fyrir sé að rangtúlka lagalegan rétt Íslands.

Í þessu drottningarviðtali segir hann að lífeyrissjóðir á Norðurlöndum eigi hlut í snjóhengjunni. Hann þagði hins vegar yfir því að Danske Bank á sjálfur þarna verulegra hagsmuni að gæta. Þessi spekingur ætti að halda sig á heimavígstöðvunum þar sem Danske Bank er haldið á floti af danska ríkinu. Þjóðin má þó prísa sig sæla að Samfylkingin náði ekki að opna aftur skjá allra landsmanna fyrir tunguliprum og kjaftagleiðum dönsku kratavitringunum, fyrrverandi ráðherrum Dana, þeim Mogens Lykketoft og Uffe Elleman Jensen, sem kallaðir voru á skjáinn til að reyna að hafa vit fyrir íslensku þjóðinni í Icesave-málinu. Þar boðuðu þeir ísöld á Íslandi ef þjóðin segði NEI.

Danska húsnæðiskerfið er nú að hruni komið og eignamyndun helmings einstaklinga engin, sem er í sjálfu sér ekki fréttnæmt fyrir okkur nema fyrir þær sakir að formaður Samfylkingarinnar er að bjóða upp á þennan sama möguleika ef tekst að véla Ísland inn í ESB.

Höfundur er véltæknifræðingur.

Greinin er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi þessa félaga okkar í Þjóðarheiðri.
Hún birtist fyrst í Morgunblaðinu í morgun.
Um önnur skrif eftir hinn glögga Daníel á þessu vefsetri, sjá HÉR!
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband