ESB-innistæðutryggingasjóður fyrir bí ?! - og horft hingað heim!

Mjög er athyglisvert að Angela Merkel kanzlari er farin að leggjast gegn hugmyndum um eitt innistæðutryggingakerfi fyrir allt Evrópusambandið eins og þó hafði verið stefnt á. "Í það minnsta um sinn" virðist hún afhuga slíku nýju kerfi og viðraði þessar áhyggjur sínar í Dresden sumardaginn fyrsta.

  • Fréttaveitan Reuters segir að ástæðan sé ótti ráðamanna í Þýskalandi við það að þýskum skattgreiðendum verði í gegnum slíkt kerfi gert að greiða fyrir mistök banka í öðrum ríkjum innan Evrópusambandsins. (Mbl.is.)

Já, ekki ætlar hún að taka á sína þjóð mistök banka í öðrum löndum, þrátt fyrir meinta samstöðu, jafnrétti og bræðralag "ESB-borgara" í þessu Evrópusambandi!

Hitt gátu þeir í Brussel, útsendarar voldugustu ESB-ríkjanna þar, þrýst á áhrifaðila eins og AGS og gegnum þær á ríkisstjórnir Norðurlanda um að knébeygja litla þjóð í norðri, að hún tæki á sig ólögvarðar kröfur Hollendinga og Breta um greiðslu innistæðna í einkabanka, sem tryggingasjóðir í Bretlandi og Hollandi áttu að bera ábyrgð á, en íslenzka þjóðin enga! Þetta síðastnefnda var endanlega staðfest með EFTA-dómstóls-úrskurðinum í febrúar sl.

Margsinnis hefur verið varað hér við því nýja innistæðutrygginga-kerfi, sem til hefur staðið í ESB að taka upp þar og á EES-svæðinu. En Árni Páll, leiðtogi Samfylkingar, er nú ekki meiri gæfumaður í þessum efnum en svo, að hann hefur agiterað fyrir þessu fyrirbæri! Samt yrði það kerfi stórhættulegt okkur, lágmarksinnistæðu- tryggða upphæðin yrði 100.000 evrur í stað 20.887 evra og gerð ríkistryggð! og greiðsluskyldan höfð með nánast engum fyrirvara!

Frábæra grein er að finna í Mbl. í dag eftir einn af okkar félögum i Þjóðarheiðri – samtökum gegn Icesave, þ.e. Daníel Sigurðsson véltæknifræðing. Greinin kemur inn á ýma hluti, ekki sízt ESB (sjá aths. hér neðar), en hér er til hennar vísað og mönnum bent á að lesa hana vegna þess mikilvæga fróðleiks, sem þar kemur fram um Icesave-málið (og í leiðinni vikið þar að Kúbu-Gylfa Magnússyni).

65 milljarða króna, óafturkræfa, væri búið að borga Bretum og Hollendingum skv. Buchheit-samningnum (ICESAVE III), í beinhörðum, erlendum gjaldeyri, hinn 1. apríl sl., og áfram tikkar teljarinn, meðan þrotabú Landsbankans hefur ekki lokið útgreiðslum sínum. Upphæðin hefði aldrei endurgreiðzt, sama hvað komið hefði út úr þrotabúinu í framhaldi af þessu – svo "glæsilegur" var þessi Buchheit-samningur sem vinstri flokkarnir og tíu þingmenn Sjálfstæðisflokks undir forystu hins "ískalda" Bjarna Ben. báru ábyrgð á að samþykkja í Alþingi!

En í dag getur þjóðin haldið upp á það að hafa völdin, um hálfan sólarhring vegna næstu fjögurra ára, og þá verður bæði horft fram á veg og til baka, meðal annars um þá hluti, sem hér hafa verið ræddir. Sem betur fer höfðum við stjórnarskrána með sinni 26. grein og ábyrgðarfullan forseta, þegar að okkur var sótt með hundraða milljarða króna kröfu Svavarssamningsins og 65 milljarða plús-kröfu Buchheit-samningsins, og sem betur fer tókst að ná breiðri þjóðarsamstöðu, í baráttunni og þjóðaratkvæðagreiðslunum, þótt innri eyðingaröflin sæktu þá að okkur, þau sem fengið hafa áminningu um ábyrgð sína í nýlegum greinum hér á vefsetrinu og munu áfram fá, m.a. Gylfi Magnússon, sem enn heldur uppi vanþekkingar-blekkingum og fær á baukinn hjá Daníel í hans frábæru grein.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vilja ekki eitt innistæðutryggingakerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, hún er frábær og alger ljómi greinin hans Daníels Sigurðssonar í Mbl. í dag, þar sem hann víkur að Icesave-málinu á minnisstæðan hátt og upplýsandi – að 65 óafturkræfu milljarðagreiðslunum sem búið væri að borga (bara hingað til) af Buchheitsamningum, ef hann hefði verið samþykktur, að blekkingum Gylfa Magg., sem sá heldur enn uppi um Icesave, að því hvernig ríkisstjórnarflokkarnir bitu höfuðið af skömminni með árás sinni á fullveldið með stjórnarskrárstefnu sinni, að afglöpum núv. stjórnvalda gagnvart danska bankanum og að óförum þess húsnæðiskerfis Dana, sem sumir hér eru að benda á sem fyrirmynd fyrir Íslendinga! Greinin heitir Nei við dáðleysi og ESB-daðri.

Jón Valur Jensson, 27.4.2013 kl. 12:35

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

HÉR og HÉR má sjá myndir af baráttumönnum Samstöðu þjóðar gegn Icesave (regnhlífarsamtaka þar sem menn úr Þjóðarheiðri o.fl. samtökum áttu fulltrúa). Myndirnar eru teknar þegar kynnt var niðurstaðan úr undirskriftasöfnuninni á vefum Kjosum.is, en til hennar tók forseti Íslands tillit, þegar hann vísaði Buchheit-lögum Alþingis til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Jón Valur Jensson, 27.4.2013 kl. 12:49

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þessi afstaða Þjóðverja birtist í reynda á því hvernig var tekið á hruninu á Kýpur, þar var farin íslenska leiðin, eignir bankanna látnar standa undir tryggingu innstæðna eftir því sem hægt var, en annað látið blakta í vindinum og jafnvel á hausinn.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.4.2013 kl. 17:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband