Íslendingar afþakka dýrkeypta lögfræðiráðgjöf

Fréttablaðið birti 17. marz 2011 álit átta lögfræðinga á Icesave-lögunum, undir fyrirsögninni Dýrkeyptur glannaskapur. Ekki virðast lögfræðingarnir hafa hugsað lengi né djúpt um Icesave-kröfur Bretlands og Hollands, því að skrif þeirra einkennast af innihalds-lausum upphrópunum og fullyrðingum af sömu tegund og eru einkennandi fyrir málflutning ríkisstjórnarinnar. Ég vil andmæla málflutningi lögfræðinganna um leið og ég afþakka þeirra dýrkeyptu lögfræðiráðgjöf.



1.
    Lögfræðingarnir fullyrða að
ef landsmenn hafna Icesave-III í þjóðaratkvæðinu 09. apríl 2011 verði ekki lengra komist til lausnar Icesave-deilunnar með samningum. Þetta er sannanlega röng fullyrðing, því að á öllum stigum dómsmáls er hægt að taka upp samninga. Það er einungis ef Icesave-III verður samþykkt sem búið verður að loka öllum undankomuleiðum. Ísland verður þá háð mikilli efnahagslegri áhættu í marga áratugi.

2.   
Lögfræðingarnir virðast telja að samninganefnd ríkisstjórnarinnar hafi verið að gæta hagsmuna almennings, þegar þeir undirgengust forsendulausar kröfur Breta og Hollendinga. Allir landsmenn vita að ríkisstjórnin hefur gengið erinda þessara tveggja ríkja og gegn því sem rétt er og sanngjarnt. Ríkisstjórnin hefur meira að segja gengið svo langt í þjónkun sinni við hið erlenda vald, að hún hefur í þrígang samþykkt að afsala lögsögu Íslands. Með Icesave-III hefur þó ríkisstjórnin sett nýtt heimsmet í flónsku. Bretlandi og Hollandi er fært sjálfdæmi í Icesave-deilunni í heild sinni, með að ríkisstjórnin samþykkti að ágreiningsmál fari fyrir gerðardóm. Gerðardómurinn mun starfa fyrir luktum dyrum, nýta sér lög Bretlands ef með þarf og rétta í London. Niðurlæging Íslands verður fullkomin ef Icesave-II verður samþykkt.

3.   
Lögfræðingarnir halda fram þeirri fjarstæðukenndu fullyrðingu, að með því að landsmenn undirgangist Icesave-klafann sé endanleg niðurstaða Icesave-málsins í höndum Íslendinga. Getur verið að lögmennirnir hafi ekki litið á Icesave-samningana ? Með lögum 13/2011 er lokað öllum glufum sem kunna að finnast til sangjarnrar lausnar Icesave-deilunnar. Geirneglt er að öll áhætta og kostnaður eru lögð á herðar Íslendinga. Lögmennirnir virðast ekki bera mikla virðingu fyrir dómstólum, ef þeir halda að fullkomið afsal lögsögu hafi engar afleiðingar.

4.   
Lögfræðingarnir sýna fullkominn glannaskap, þegar þeir fullyrða um mikinn kostnað atvinnulífs og samfélags af Dómstólaleiðinni. Ekki er hægt að ræða við þessa menn um heiður og sæmd, en þeir ættu að skilja að tuga eða hundraða milljarða Icesave-baggi hlýtur að sliga alla landsmenn. Samningaleiðin er tafarlaus uppgjöf en Dómstólaleiðin felur í sér möguleika til gagnsóknar. Að nefna alþjóðlegu matsfyrirtækin til stuðnings uppgjöfinni er fullkomið narr og kjánaskapur.

5.    Lögfræðingarnir eru svo illa að sér að þeir virðast ekki hafa heyrt af úrskurði ESA frá 15. desember 2010, að minnsta kosti nefna þeir hann ekki á nafn. Með þeim úrskurði ógilti ESA veigamestu hótanirnar frá 26. maí 2010. Ólíkt hótunarbréfinu frá 26. maí, sem lögfræðingarnir hampa, er álit ESA frá 15. desember vel rökstutt og niðurstaðan ótvíræð. ESA úrskurðaði sem sagt að engir samningar, lög eða tilskipanir hefðu verið brotin, varðandi mikilvægustu atriði málsins: Fullkomlega var löglegt að veita innistæðueigendum forgang. Einnig úrskurðaði ESA að framkvæmd FME á millifærslum úr gömlu bönkunum yfir í þá nýgju var fullkomlega eðlileg. Lagasetning og réttarframkvæmd Neyðarlaganna er því traust, svo framarlega sem lögsögu Íslands er ekki varpað fyrir borð með Icesave-III-samningunum. 

6.    Lögfræðingarnir fullyrða að ef ekki verður gefið eftir fyrir gömlum og úreltum hótunum Per Sanderud, muni ESA ákæra Ísland fyrir EFTA-dómstólnum. Sannleikurinn er sá að örsmáar líkur eru fyrir slíkri ákæru, enda tilefnið ekkert. Flestar stofnanir ESB og sérfræðingar á vegum Evrópuríkisins hafa gefið yfirlýsingar um afdráttarlaust bann við ríkisábyrgðum á innistæðu-trygginga-kerfum Evrópska efnahagssvæðisins. Í þessu sambandi má nefna að yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, um að allar bankainnistæður á Íslandi séu ríkistryggðar, er fullkominn þvættingur. Einungis Alþingi með samþykki fullveldishafans-almennings getur veitt slíkar tryggingar.  

7.    Lögfræðingarnir slá um sig með slagorðum eins og »kokhreysti« og »barnaskapur«. Líklega álíta þeir að þetta séu sterk lögfræðirök. Nær öruggt má telja að ESA mun ekki ákæra Ísland fyrir EFTA-dómstólnum, þar sem engar forsendur eru fyrir sektardómi. Vangaveltur lögfræðinganna um sektarlíkur út frá fyrri ákærum ESA eru því varla svara verðar. ESA hefur að sögn unnið 27 mál fyrir EFTA-dómstólnum en hvað hefur ESA fallið frá mörg hundruð ákærum ? Forseti ESA virðist vera í skítverkum fyrir hagsmuni Bretlands og Hollands. Hvernig væri að Íslandi gerði kröfu um að þessum erindreka yrði vísað úr starfi ?   

8.    Eins og flestum nema lögfræðingunum er orðið ljóst, hefur EFTA-dómstóllinn það verkefni að fjalla um brot á EES-samningnum. Svo lengi sem Ísland heldur lögsögu yfir Icesave-málinu eru það bara Íslendskir dómstólar sem geta fellt sektardóma. Þeir dómar verða að byggja á löggjöf Íslands og engin maður með réttu ráði gefur andstæðingum sínum sjálfdæmi, eins og fyrirhugað er að gera með Icesave-lögunum. Hvað gerir þessa átta lögfræðinga að algjörum kjánum ?

Loftur A. Þorsteinsson.


mbl.is Þeir sem hafa áhyggjur af EFTA eiga hafna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Libertad

Þegar ég las greinar í málpípum ríkisstjórnarinnar, Fréttablaðinu og DV í dag, kom í ljós, að þeir sem vilja samþykkja IceSave hafa engin gild rök fyrir samþykki, einungis tilfinningahlaðin sjúkdómseinkenni Stokkhólmsheilkennis. Það er með ólíkindum, að nokkur skuli vilja leggja nafn sitt við viðhorf eins og: "Segjum JÁ, því að við verðum að greiða skuldir óreiðumanna, annars verður öll þjóðin stimpluð af alþjóðasamfélaginu sem óreiðufólk".

Þetta er jafnvel enn verra en viðhorfið: "Ég er orðin(n) hundleið(ur) á IceSave, þess vegna segi ég Já", sem er nógu slæmt samt.

En þessar náhirðir Reynis Traustasonar og Ólafs Stephensens geta hamazt eins og rjúpur við staurinn þangað til þær verða bláar í framan. Enginn, sem hefur sjálfstæða hugsun, tekur mark á þeim.

Libertad, 8.4.2011 kl. 18:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband