Daníel Sigurðsson: Af hverju nei við Icesave?

Af hverju nei við Icesave?

 

Hávær kórinn í kringum Icesave I og II að okkur beri lagaleg skylda að greiða kröfur Breta og Hollendinga er nú þagnaður, en áfram klifað á meintri siðferðilegri skyldu okkar gagnvart „alþjóðasamfélaginu“ („félagi“ sem nú er í „trúboði“ yfir Líbíu með fulltingi klerkastjórnarinnar í Íran).
 

Eftir að íslenskir bankar tóku að dansa með á peningamörkuðum „félagsins“, sem eðalkratinn Jón Baldvin gerði kleift með EES-samningnum, lauk íslenska samkvæmisdansinum sviplega þegar risabankinn Lehman Brothers féll af sviðinu og tók Landsbankann og Kaupþing með sér með aðstoð terrorkratanna Browns og Darlings sem stóðu vaktina. Linntu þeir ekki látum fyrr en íslensk orðspor höfðu verið skrúbbuð burt af sviðinu.

Skyndilega birtist svo refurinn Darling í drottningarviðtali í Kastljósi á dögunum þar sem hann leit út eins og sauðmeinlaus enskur prestur hjá Sigrúnu Davíðsdóttur, sem þreifaði á dólgnum með silkihönskum í boði RÚV. Í þessu langa hjali var ekki tekist á um kjarna málsins: Efnahagsstríð Breta gegn Íslendingum með al-Qaeda-hryðjuverkalögunum, sem hafa valdið Íslendingum gífurlegum skaða. Þetta voru þakkirnar fyrir það að með íslensku neyðarlögunum færast Icesave-innistæðurnar úr almennum kröfum í forgangskröfur á silfurfati, en ella stæðu Bretar frammi fyrir því að fá nánast ekkert úr þrotabúinu upp í tapaðar innistæðurnar!

Nei, sólin mun ekki hætta að koma upp þó svo að vér mörlandar neitum að kaupa okkur stundarfrið frá breskum alþjóðalögbrjótum.

Við hljótum að sópa öllum falsrökum fyrir borð eins og þeim að með Icesave III séu Íslendingar komnir með samning samsvarandi þeim sem bundu enda á þorskastríðin við Breta. Þessi sögutúlkun er blekking. Þetta voru uppgjafarsamningar sem gáfu þessu fyrrum stórveldi kost á að bjarga andlitinu, í niðurlægjandi ósigri fyrir Íslendingum í öll þrjú skiptin frá fjórum sjómílum upp í 200, sem fólst í því að leyfa þeim að dorga smávegis um tíma í lögsögu Íslands.

Icesave-samningurinn er með öfugum formerkjum. Hann tryggir B&H fullan sigur en ekki öfugt. Íslendingar fá sem „andlitsbjörgun“ skárri vexti en með Hitchcock-hrollvekjunni Icesave II, en þó aðeins fram til ársins 2016. Minni hrollvekjan Icesave III felur í sér að íslenska ríkið ber fulla ábyrgð á kröfunni auk vaxta og lögsagan flyst frá Íslandi til B&H.

Ósigur Íslendinga blasir við ef Icesave III verður samþykktur. En það er ekki við samninganefnd Lees Buchheit að sakast, sem vann í umboði ríkisstjórnar sem leynt og ljóst var gengin til liðs við málstað andstæðingsins!

Þessi ólögvarði samningur dregur dám af hinum illræmda Versalasamningi sem þröngvað var upp á Þjóðverja eftir fyrri heimsstyrjöldina og kostaði nýja. Í fyrra voru Þjóðverjar að greiða Englandsbanka síðustu greiðsluna 91 ári eftir undirritun og jafngildir heildargreiðslan skipsförmum af gulli. Samt áttu Þjóðverjar síst meiri sök á stríðinu en sigurvegararnir.

Icesave-krafan slagar upp í hundruð milljarða ríkismarka kröfu Versalasamningsins miðað við höfðatölu. Því er ekki að undra að Icesave III gildi til ársins 2046!

Í þorskastríðunum hafði Ísland „alþjóðasamfélagið“ á móti sér í byrjun í öll skiptin. En Ísland vann áróðursstríðin hægt og bítandi með stjórnmálamenn í brúnni sem hvikuðu hvergi enda með einarða þjóð að baki sér. Sigurinn er þó, að öllum ólöstuðum, fyrst og fremst að þakka lífshættulegum aðgerðum hugrakkra áhafna varðskipanna gegn bresku togurunum sem voru undir herskipavernd Breta sem reyndu að sigla niður varðskipin.

Í hildarleiknum um 50 og 200 sjómílurnar réðu hinar frægu togvíraklippur Íslendinga verulegu um úrslitin. Við þessu vopni áttu Bretar ekkert svar nema fallbyssur sem þeir gátu ekki réttlætt gagnvart umheiminum að beita, ekki frekar en Kaninn kjarnorkuvopnum í Víetnamstríðinu.

Frammistaða Íslendinga vakti aðdáun umheimsins en ekki öfugt. Það sama mun gerast nú ef við segjum nei.

Ég þekki umræðuna í Þýskalandi og Þjóðverja mjög vel, enda hef ég búið og starfað í Þýskalandi samtals meira en sjö ár, síðast fjóra mánuði í fyrra. Nei mun vekja mikla aðdáun Þjóðverja nema kannski sumra býrókratanna.

Íslendingar hafa hægt og bítandi verið að ná vopnum sínum og vinna áróðursstríðið.

Á erlendum vettvangi hefur forsetinn verið drjúgur. Hann mun varla liggja á liði sínu ef þjóðin segir nei. Nær hálf þjóðin ber mikið traust til hans nú skv. könnun en ekki nema um 17% til forsætisráðherra og er það ekki að undra.

Stóru bresku fjölmiðlarnir (F.T. og W.S.J.) standa nú með Íslendingum gegn Icesave!

Ef við reynumst mýs en ekki menn og segjum  munu peningamógúlarnir bresku ekki slaka á kverkatakinu fyrr en síðasta pundið er greitt.

Heimtur úr þrotabúinu eru óskrifað blað og gengi krónunnar þarf ekki að falla mikið til að risavaxinn höfuðstóll kröfunnar rjúki upp.

Ekki er að furða að B&H afþökkuðu eingreiðslutilboð upp á um 50 milljarða. Þeir vita sem er að eftir margfalt hærri upphæð er að slægjast.

Með nei er gjaldeyrisáhættan úr sögunni og dómstólaleið breytir engu þar um.

Með nei er allt að vinna en engu að tapa.

 

Höfundur er véltæknifræðingur.

Greinin birtist í Mbl. mánudag 4. þ.m. og er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi höfundar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já það er nefnilega það Daníel.

Þetta er glæsileg grein og skrifuð af góðum ausfirðingi  :)

Þeir sem samþykkja að borga  Iceave setji

banka og reikningsnumer sitt aftan á kjörseðilinn !!!!

Sólrún (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 16:03

2 identicon

Takk fyrir þetta Sólrún.

 Já, og þegar já-sinnarnir hafa skráð þetta sem þú nefnir aftan á kjörseðilinn þá láti þeir vinsamlegast vísakortið og handbæra seðla flakka með kjörseðlinum ofan í kjörkassann! 

Daníel Sigurðsson (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 23:11

3 Smámynd: ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE

Góðar tillögur, ekki sízt þessi frá Sólrúnu.

Við ættum eiginlega að segja öllum jámönnum, að þannig fari þeir að þessu!

ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE, 8.4.2011 kl. 00:14

4 identicon

Mig dreymdi svo vel fyririceave

að ég er viss um að það verður ekki samþykkt

En eg býst við að  B&H  seu alveg til í 

að taka við frjálsum framlögum

hvenær sem er....:)

Sólrún (IP-tala skráð) 8.4.2011 kl. 04:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband