Icesave-frumvarpið er nú samþykkt í ósætti úr fjárlaganefnd, til 2. umræðu Alþingis. YFIRLÝSING ÞJÓÐARHEIÐURS – og af ÞÖGGUN

Höskuldi Þórhallssyni, þingmanni Framsóknar, þykir ósættið miður.

„Það liggur fyrir að álit efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar hafa ekki borist nefndinni. Mér finnst þetta vera vanvirðing við þær nefndir, að verið sé að gefa í skyn að álit úr þeirri áttinni skipti ekki máli.“
En hvers vegna var ekki beðið eftir þessu áliti? „Það eru engin haldbær rök fyrir því,“ segir Höskuldur. (Mbl.is.)

Vitaskuld er þetta vanvirða – og ber því enn einu sinni vitni, að alþingismeirihutinn ætlar sér að vinna mál í flumbrugangi, á óvandaðan hátt (eins og í stjórnlagaþings-löggjöfinni) og með óvönduðum meðulum.

Hliðstæða við þá vanvirðu er sú staðreynd, að fjárlaganefnd sendi Þjóðarheiðri, 80 manna samtökum gegn Icesave, EKKI beiðni um álit á Icesave-frumvarpinu. Samt eru þessi samtök margfalt stærri en InDefence-hópurinn, sem að mörgu leyti hefur barizt ágætlega gegn Icesave-frumvörpunum (líka gegn Icesave III), en verið á stundum – ólíkt Þjóðarheiðri – lin á því princípi, að okkur ber ekki að borga neitt. Af ýmsu er ljóst, að Samfylkingarforystan og svikagengið í forystusveit VG eru sér vel meðvituð um, að þau eiga sér enga harðari andstæðinga í þessu máli en Þjóðarheiður.

  • Er það þess vegna, sem þau sjá svo um, að ekki sé leitað álits Þjóðarheiðurs?
  • Er það þess vegna, sem þau sjá svo um, að Rúv birti ekki og minnist ekki einu sinni á yfirlýsingu Þjóðarheiðurs, þótt hún hafi verið send fréttadeildinni þar og ýmsum yfirmönnum, m.a. útvarpsstjóra?

Um hið umdeilda símtal Davíðs og enska seðlabankastjórans sagði Höskuldur: „Ég mun halda áfram að krefjast þess að trúnaði verði aflétt og að Alþingi beiti sér fyrir því – en meirihlutinn hefur úrslitavald. Ef hann vill leyna þessum upplýsingum, þá er það hans mál.“

En lesið þetta líka í frétt Mbl.is (Krefst þess að trúnaði verði aflétt – lbr. jvj):

  • „Á fundinum kom fram mikil óánægja með að formaður og varaformaður skyldu hafa tjáð sig um það sem áttu að vera trúnaðarupplýsingar. Það var farið yfir það. En ég gat ekki merkt að meirihlutinn vildi aflétta þessum trúnaði og mér þykir það miður,“ sagði Höskuldur í samtali við mbl.is.
  • „Það á allt að vera uppi á borðum. Þarna eru upplýsingar sem geta skipt sköpum um afstöðu manna til Icesave-málsins og þær eiga að liggja frammi. Ég held það sé best fyrir framgang málsins og hagsmuni Íslands að þessum trúnaði verði aflétt. Ég tel ekki að það brjóti í bága við nein lög. Og jafnvel þó svo væri, þá eru hagsmunirnir í þessu máli það miklir, að nauðsyn gæti brotið lög ef einhver telur svo vera.“

Hverjir eru það, sem vilja EKKI, að viðtalshlutinn um Icesave-málið verði birtur? Samfylkingar- og VG-meirihlutinn (sem naut um daginn – FYRIR stjórnlagaþingsdóm Hæstaréttar! – 25% fylgis í skoðanakönnun!). Það eru þessir aðilar, sem eiga allt undir, að samtal seðlabankastjóranna verði ekki birt, og þeir segja nei við birtingu.

Á meðan þeir þrjózkast við, í viðleitni til að halda okkur óupplýstum, virðist svarið harla augljóst við spurningunni: Er til skýrari sakbending þessara aðila á sjálfa sig?

En gegn Icesave-frumvarpinu berjumst við í Þjóðarheiðri einarðlega, unz fullum sigri þjóðarinnar verður náð, þvi að saklaus er hún af hinum ólögvörðu, ólögmætu og stjórnarskrárandstæðu kröfum. Hér á eftir verður endað með YFIRLÝSINGU ÞJÓÐARHEIÐURS, sem fyrst var send fjárlaganefnd Alingis, síðan öllum öðrum alþingismönnum, því næst fjölmiðlum og félagsmönnum samtakanna. – Jón Valur Jensson.


YFIRLÝSING: Þjóðarheiður – samtök gegn Icesave 

hvetur til samstöðu Íslendinga gegn Icesave-kröfunum.

 

Fulltrúar erlends valds og framandi hugmyndafræði hafa hreiðrað um sig í óðali Jóns Sigurðssonar. Þrátt fyrir að Íslendingar hafi með eftirminnilegum hætti hafnað forsendulausum kröfum hinna gamalgrónu nýlenduvelda Bretlands og Hollands, er ríkisstjórn landsins ennþá að störfum fyrir hið erlenda vald. Velferðarstjórnin er enn á ný búin að gera samning um Icesave-kröfurnar, sem almenningur hafnaði í þjóðaratkvæðinu 6. marz 2010. Velferðarstjórnin, sem við ófá tækifæri hyllir framandi hugmyndafræði, hefur í þriðja skipti á sex mánuðum gert samning um að almenningur á Íslandi taki á sig forsendulausar drápsklyfjar.


Atlaga ríkisstjórnarinnar að hagsmunum Íslendinga er svo umfangsmikil og harkaleg að lengi mun höfð í minnum. Þjóðarheiður krefst þess að framganga núverandi ríkisstjórnar í Icesave-málinu sæti opinberri rannsókn og ráðherrarnir hljóti dóma fyrir Landsdómi eða almennum dómstólum. Fyrir alla framtíð verður að hindra að valdstjórnin láti sér detta í hug að ganga erinda erlendra hagsmunaaðila. Ströngustu refsingar að lögum verður að krefjast yfir þeim mönnum sem haft hafa forgöngu um Icesave-kúgunina.


Þjóðarheiður – samtök gegn Icesave hefur frá upphafi Icesave-deilunnar barist gegn tilraunum valdstjórnarinnar að koma ólöglegum skuldahlekkjum á almenning í þessu landi. Allir réttsýnir menn skilja að Icesave-kröfurnar eru án lagalegra forsendna. Icesave-kröfurnar eru efnahagslegur hernaður af verstu tegund. Hin gamalgrónu nýlenduveldi eru að sýna smáþjóð mátt sinn. Þjóðarheiður – samtök gegn Icesave skorar á alla Íslendinga að samfylkja liði gegn nýlenduveldunum gömlu og innlendum þjónum þeirra.


Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, hefur sannað að fullveldi þjóðarinnar er í höndum hennar sjálfrar og hann kom í veg fyrir að Ísland yrði gert að skattlandi tveggja gamalgróinna nýlenduvelda. Með þjóðaratkvæðinu 6. marz 2010 var stjórnarskrá lýðveldisins heiðruð. Staðfest hefur verið að stjórnarfar á Íslandi er lýðveldi og ólýðræðislegu þingræði hefur endanlega verið hafnað. Lýðræði byggir á þeirri forsendu að ótakmarkað og endanlegt vald í samfélaginu er í höndum lýðsins – alþýðunnar í landinu. Lýðræðið mun ekki verða látið af hendi.


  

Þjóðarheiður – samtök gegn Icesave.

 


mbl.is Krefst þess að trúnaði verði aflétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ég tek undir þessi orð og þakka framtakið.

Ragnhildur Kolka, 26.1.2011 kl. 15:09

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir vaktina heiðursfólk.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.1.2011 kl. 15:21

3 Smámynd: Pétur Harðarson

Vel orðað og það má vel kvitta undir þetta. Ég er orðinn ansi hræddur um að ríkisstjórnin reyni að koma þessu gegn án þess að ráðfæra sig við þjóðina og ég vona á forsetinn standi vaktina líkt og áður. Nú verða sem flestir að fylgjast með 2. umræðu um þetta mál til að heyra í beinni hvað þingmenn láta út úr sér um þetta.

Pétur Harðarson, 26.1.2011 kl. 16:08

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kærar þakkir fyrir ykkar viðbrögð. Og ég er sammála þér, Pétur.

Jón Valur Jensson, 26.1.2011 kl. 22:58

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 27.1.2011 kl. 01:01

6 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

        Hvar værum við ef ykkar nyti ekki við?  Góða nótt.

Helga Kristjánsdóttir, 27.1.2011 kl. 02:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband