30.12.2010 | 22:23
Ívar Páll Jónsson: Loksins lyppast þjóðin niður
Pistill (áður birtur í Mbl. 14. þ.m.)
"Landið er að rísa.
Botninum er náð.
Erlend skuldastaða er ágæt, miðað við þjóðir sem við berum okkur saman við.
Aukin skuldasöfnun stuðlar að betra lánshæfi ríkisins og auðveldar aðgengi að erlendu fjármagni.
Það er allt stopp á meðan Icesave-deilan er ekki leyst.
Hallarekstur ríkissjóðs er viðráðanlegur.
Gjaldeyrishöftin eru nauðsynleg.
Íslenska ríkið tók ekki ábyrgð á bönkunum, öfugt við það írska. Þess vegna er staðan miklu betri hjá okkur."
George Orwell þekkti vel hvernig ríkisvaldið hefur tilhneigingu til að hegða sér, til að bæla niður andspyrnu og tryggja sér áframhaldandi vald yfir fólki. Í því er lykilatriði að ná tökum á tjáningunni í samfélaginu.
Ég er ekki að segja að hér hafi myndast alræðisstjórn, sem hefti tjáningar- og ferðafrelsi Íslendinga. Hér er hins vegar við völd ríkisstjórn, sem beitir spunavélinni til hins ýtrasta, til að fólk átti sig ekki á því hvað er í raun og veru í gangi.
Það væri efni í mun lengri grein að rekja öll öfugmælin sem hér voru nefnd í byrjun. Einna augljósasti stjórnarspuninn er þó að hér stöðvist allt atvinnulíf – ekkert fyrirtæki fái lánafyrirgreiðslu, verði ekki samið um að skattgreiðendur taki á sig Icesave-skuldbindingu einkabankans Landsbankans. Þvílík fjarstæða.
Eina dæmið sem spunameistarar valdhafanna geta nefnt um slíkt er að Fjárfestingabanki Evrópu, pólitískt Evrópuapparat, setji þetta skilyrði til þess að lána Landsvirkjun. Þeim hefur yfirsést að þrjú stór íslensk fyrirtæki, Össur, Marel og Icelandic Group, hafa öll fengið lán í erlendum myntum á síðasta rúma árinu.
Nú liggja fyrir Icesave-samningar, sem eru í flestu líkir þeim sem felldir voru í þjóðaratkvæðagreiðslu í marsmánuði. Vextir eru lægri, en áhættan fyrir ríkissjóð er hin sama. Falli gengi krónunnar hækkar krafa Breta og Hollendinga á íslenska ríkið, en krafa þess í þrotabú Landsbankans er föst í krónum. Þarna getur verið um að tefla tuga eða jafnvel hundraða milljarða króna áhættu fyrir ríkissjóð. Augljóslega batnar lánshæfi ríkissjóðs ekki með slíkum samningum, ekki frekar en einstaklings sem tekur á sig tugmilljóna króna lán.
Því miður bendir flest til þess, að þjóðin ætli að kokgleypa spunann í þetta skiptið, eftir langdregna baráttu við andskota sína í stjórnarráðinu. Stjórnarandstaðan lyppast vafalaust niður, langþreytt og þvæld, og þjóðin hrópar í kór fyrir framan firðtjaldið:
STRÍÐ ER FRIÐUR
FRELSI ER ÁNAUÐ
FÁFRÆÐI ER MÁTTUR
Ívar Páll Jónsson.
Ívar Páll er viðskiptablaðamaður á Morgunblaðinu, afar vel upplýstur og hefur ritað þar margar mjög athyglisverðar og í raun ískyggilegar greinar, ekki sízt nú í haust og vetur. Þið takið eftir, að hann er að hafa eftir orð stjórnarsinna þarna í byrjun, í skáletrinu. Þetta er endurbirt með góðfúslegu leyfi höfundar. Til að vekja sérstaka athygli lesenda Þjóðarheiðurs-síðunnar á texta Ívars Páls um Icesave, er hann hafður feitletraður hér. –JVJ.
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:24 | Facebook
Athugasemdir
Bæta má við, að Landsvirkjun fékk lánað hjá Evrópska fjárfestinga-bankanum 10 milljarða Króna (70 milljónir Evra) 21. september 2010.
Hér er staðfesting á láninu:
Loftur Altice Þorsteinsson, 31.12.2010 kl. 00:19
Bretar vita að Iesave er ekki okkar skuld. Verði hún samþykkt,þá eru skilaboðin þessi ,,sínum þeim tennurnar, þeir lyppast niður og láta allt yfir sig ganga.,, Við munum fá að kenna á meira óréttlæti,fleiri kröfum frá þeim,þá verða engir eftir til að berjast fyrir þjóð vora.
Helga Kristjánsdóttir, 31.12.2010 kl. 01:44
Já enn Jóhanna forsætisráðherra segir að íslendingar séu fyrirmynd annara þjóða í endurreisnarstarfi! Vandmálið er bara að 90% af þjóðinni skilur ekki hverslagst snillingur er þarna á ferðinni...
Ef ég væri hún myndi ég strax banna alla aðra flokka nema hennar... Icesave verður borgað og það er löngu ákveðið af yfirvöldum... Jóhanna veit að Icesave or skuld Íslendinga og eins og allir vita, þá veit hún best... málið er útrætt.
Óskar Arnórsson, 31.12.2010 kl. 13:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.