30.11.2010 | 01:03
InDefence-menn ræða Icesave-málið í Útvarpi Sögu
Icesave er til umræðu NÚNA, kl. 12 e.m., í endurteknum þætti á Útvarpi Sögu frá liðnum degi. Eiríkur S. Svavarsson og Jóhannes Þ. Skúlason úr InDefence-hópnum sitja þar fyrir svörum í þætti Markúsar Þórhallssonar. HLUSTIÐ á þáttinn!
Þeir nefna í byrjun, að það er ekkert á dagskrá að gefast upp í þessu máli. Hve satt!
Eiríkur: Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar 6. marz var nánast á borð við það, hve margir greiddu lýðveldisstofnun atkvæði sitt 1944. Og niðurstaðan snerist ekki bara um það að hafna háum vöxtum.
Þá kom hann einnig að þessu: Lögbundin greiðsluskylda er í raun ekki fyrir hendi. Í 2. lagi segir hann líka liggja fyrir, að ábyrgðin á þessu máli eigi að skiptast milli samningsaðila. (Hér er hann að lýsa afstöu InDefence, ekki Þjóðarheiðurs.)
Minnzt er á aðkomu og ummæli forseta Íslands í þættinum. Jóhannes: Forsetinn minnti á sínum tíma á skilmála Alþingis í fyrri samþykt þingsins um málið; meðal þeirra séu Brussel-viðmiðin, sem InDefence-hópuinn leggi líka áherzlu á.
Eiríkur: Það var tigangur InDefence með fréttatilkynningu á föstudaginn var, að þeir vilja sjá þessar nýju tillögur og taka svo afstöðu til þeirra fá þetta upp á borðið, svo að við getum metið tillögurnar, kosti þeirra og galla, það er fyrst og fremst það sem við erum að biðja um núna, sagði hann.
Um tíma, áður en komið var að núverandi samningaviðleitni, var talað um að kostnaðurinn gæti orðið 170 milljarðar auk vaxta (segir annar þeirra). Jón Daníelsson komst að því, að það gætu þó verið um og yfir 500 milljarðar sem fallið gætu til, sagði hann.
Og áfram skal haldið að greina frá málflutningi tvímenninganna í þættinum:
Hér hefur verið mikill áróður fyrir því, að ekkert gæti gengið hér í lánamálum fyrirtækja, ef ekki yrði samið; enginn myndi vilja tala við okkur, fullyrt var, að við yrðum"Kúba norðursins" o.s.frv. Þvert gegn þessu bendir Nannar InDefence-maðurinn á, að skuldatryggingarálag Íslands hefur farið hríðlækkandi, það er t.d. miklu lægra en Írlands núna. Eins hefur Landsvirkjun lýst því yfir, að hún sé búin að endurfjármagna öll sín lán.
3. dæmi er Marel, sem er eitt af okkar mikilvægustu útflutningsfyrirtækjum, og þeir voru að ljúka sínum lántökum. Dæmið um fjármögnun þess sýnir, hver varasamur þessi málflutningur er, sem að var vikið. Þetta er stórfyrirtæki og alveg príma dæmi um þetta. Það er slegizt um að lána þeim! Það eru 6 bankar sem lána þeim, og það eru hollenzkir bankar. Ef það eru einhverjir, sem ættu að vera tregir til þess vegna Icesave, þá eru það Hollendingar! En þeir bjóða m.a.s. svo lága vexti sem 3,2%, sem er mun betra en íslenzka ríkið fær það er t.d. að fjármagna sig núna með 5,6% vöxtum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum!
Jóhannes: Ég held því fram, að þetta (Icesave) hafi ekki valdið okkur vandræðum. Þó að Orkuveita Reykjavíkur hafi verið í vandræðum með sín mál, er það fyrst og fremst vegna þess að það fyritæki er sjálft í djúpum skít, forsvarsmenn þess hafa talað um það á þann veg, og það eykur ekki tiltrú lánveitenda.
Hve stórt er Icesave-málið fyrir Breta Hollendinga? spyr Markús.
Eiríkur: Ekki mjög stórt mál, þótt það hafi verið það fyrir þá einstaklinga sem áttu þarna inneignir. En Financial Times benti á, að þetta væri í raun mjög litill hluti af þjóðarframleiðslu Breta, sem þarna var verið að krefja Íslendinga um með mjög vafasömum aðferðum. Ég hef, sagði Eiríkur, sjaldan séð stjórnvöld skömmuð svona harkalega í skrifum þess virðulega blaðs.
740 milljarðar punda er heildarpakki brezka ríkisins gagnvart bönkum sínum, en hér er (eða var) um 2,3 milljarða punda að ræða vegna Icesave. En þeir beittu hér hryðjuverkalögum gagnvart okkur! Upphaf InDefence-hópsins var einmitt að rekja til beitingar þessara hryðjuverkalaga í okt. 2008. Menn eru nú að tala um að fara í mál við Breta vegna þessa.
Minntu á Aftenposten-viðtal við brezkan ráðherra sem baðst afsökunar á hryðjuverkalögunum.
Ísland og Seðlabankinn voru sett á lista brezka stjórnarráðsins yfir hryðjuverkaríki, ásamt Norður-Kóreu!
InDefence-menn ræddu við brezka stjórnsýslumenn um málið snemma í þessu ferli, en þeir voru harðir og sögðu: "Fyrst semjum við um Icesave. Svo afléttum við hryðjuverkalögunum." Þeir brugðust ekki vel við, þegar InDefence-menn sögðu, að þetta væri eins og fjárkúgun. Þeir voru ekki vanir svona ódiplómatísku orðalagi! En samninganefnd okkar vann undir þessari hótun og gerði [Svavars-]samninginn. En það átti aldrei að reyna að semja við þá fyrr en eftir að þeir myndu aflétta hryðjuverkalögunum, sagði annar hvor InDefence-maðurinn í ÚS-þættinum.
Menn eru að tala um, að þessar fjárhæðir séu komnar langt niður. Engu að síður eru þetta 60 milljarðar. Það eru 740.000 kr. á hverja 4 manna fjölskyldu, og það væru peningar sem væru að falla á einstaklinga vegna einkafyrirtækis sem féll.
Bara þessar vikurnar eru menn að deila um að ná 30 milljarða viðbótargreiðslum vegna fjárlaga.
Icesave-vextirnir skv. Icesave-2-lögunum voru 40 milljarðar á hverju ári. Veltu því fyrir þér (sagði Jóhannes við Markús heyrðist mér! JVJ.) hvað hefði gerzt, ef við hefðum samið um þessa 5,55% vexti, þ.e. 40 milljarða á ári ofan á allt annað hjá okkur nú. Okkur tekst ekki einu sinni að ná niður 30 milljörðum á ári nú þegar.
60 milljarða tala menn um nú, en verða að hyggja betur að, sagði sami viðmælandi. Það verður að koma fram, hvernig til standi að þessar greiðslur verði. Þær geta t.d. auðveldlega breytzt í 100 milljarða, ef gjaldeyrishöftin verða afnumin.
Endursögn þáttarins lokið, og skal viðurkennt, að þetta er ágripskennt; undirritaður er ekki hraðritari á tölvuna!
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjármál, Útvarp, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 02:02 | Facebook
Athugasemdir
Ég hlusta aldrei á útvarp Sögu, ég á ekki útvarp...
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 30.11.2010 kl. 01:27
Þakka þér innleggið, Jóna Kolbrún. Ég gæti kannski útvegað þér útvarp, annars er þetta líka spurning um, hvaða útvarpstæki ná sendingum ÚS og hvar í bænum.
Nú er ég búinn að pikka þetta allt niður og fara yfir það, a.m.k. í 1. yfirferð, og þannig sérðu betur, hvað rætt var í þættinum.
Kær kveðja.
ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE, 30.11.2010 kl. 02:06
Úpps! – Þetta átti að vera undirritað með mínu nafni: Jóns V.J.
ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE, 30.11.2010 kl. 02:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.