Framkvæmdastjórn ESB viðurkennir að EES-ríki beri EKKI ábyrgð á innstæðum í föllnum bönkum umfram það sem innstæðutryggingasjóðir geta greitt!

Fréttin Bera ekki ábyrgð á innstæðum upplýsir, að framkvæmdastjórn ESB telur að ríki á EES-svæðinu beri EKKI ábyrgð á innstæðum í föllnum bönkum umfram greiðslugetu innstæðutryggingasjóða". Þar er hún á ÖNDVERÐUM MEIÐI við ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) sem í umdeildu áliti sínu taldi að slík ábyrgð væri í gildi!

Þetta er stórfrétt, sem vonandi fer ekki fram hjá neinum. Þetta er fullkomin játning á því, að íslenzka ríkið ber í raun enga ábyrgð á Icesave-innistæðum í Landsbankanum.

Framkvæmdastjórnin var þarna að svara norska vefmiðilinum ABC Nyheder. Í svarinu kemur fram, að "tilskipun ESB um innstæðutryggingar segi skýrt að bankarnir verði að fjármagna innstæðutryggingakerfið að stærstum hluta" (Mbl.is).

En ekki ætlar þó Evrópusambandið að láta sig í vörn fyrir Breta og Hollendinga í málinu. Skoðum hér "gagnrökin" gegn því að láta Ísland njóta þess sannmælis, sem sjálf tilskipun ESB frá 1994 átti að tryggja okkur:

  • Staðan sögð önnur á Íslandi 
  • Í tilviki Íslands er framkvæmdastjórnin þó á sömu skoðun og ESA og telur að íslenska ríkinu beri að greiða innstæður á Icesave reikningum í Hollandi og Bretlandi. Tvær ástæður séu fyrir því.
  • Annars vegar hafi útfærslan á íslenska innstæðutryggingasjóðnum ekki uppfyllt skilyrði tilskipunarinnar um innstæðutryggingar. Hins vegar verði að horfa til þess að íslenskir innstæðueigendur fengu sínar innstæður tryggðar að fullu ólíkt hollenskum og breskum innstæðueigendum. Það hafi brotið gegn jafnræðisreglunni. 

Þetta er það, sem við er að kljást í deilunni. En Stefán Már Stefánsson prófessor í lögum og sérfræðingur Evrópurétti, hefur ásamt Lárusi L. Blöndal hrl. og Sigurði Líndal lagaprófessor fært fram skýr og afgerandi rök gegn síðustu fullyrðingunni í klausunni hér á undan. Hvað fyrri fullyrðinguna varðar, um "útfærsuna á íslenzka tryggingasjóðnum" og að þar hafi ekki verið "uppfyllt skilyrði tilskipunarinnar um innstæðutryggingar," þá er það ekki skýrt frekar í fréttinni. En staðreyndin er sú, að brezku Icesave-reikningarnir voru ekki aðeins með lágmarkstryggingu í TIF, Tryggingasjóði innstæðuegenda og fjárfesta, hér heima á Íslandi, heldur einnig með miklu meiri tryggingu í brezka tryggingasjóðnum FSCS. Þetta hefur þegar verið staðfest í bréfum frá brezka fjármálaeftirlitinu, FSA, og að Icesave-reikningarnir voru þar með hámarkstryggingu. Hefur verið um þetta ritað hér á vefsetri Þjóðarheiðurs (leitið t.d. að FSCS í leitartækinu hér ofarlega í vinstra dálki! Ennfremur hefur Loftur Þorsteinsson fjallað ýtarlega um þetta mál í greinum í Morgunblaðinu og á vefsíðu sinni. Væntanega verður rætt um þetta í innleggjum hér fyrir neðan nú í dag.)

Hér er reyndar fréttin sjálf í ABC Nyheter: EUs bankgaranti-direktiv – Icesave kan utløse dramatisk bank-strid for EU. Fréttina skrifar norski blaðamaðurinn Thomas Vermes, sem hefur fylgzt mjög vel með þessum málum, var m.a. með afar ýtarlegt og gagnlegt viðtal við framkvæmdastjóra norska tryggingasjóðinn, Arne Hyttnes (sjá hér: Staten har ikke ansvar for bankinnskudd – ríkið ber ekki ábyrgð á bankainnistæðum, segir forstjóri norska tryggingasjóðsins!).

Það er margt afar athyglisvert í þessari ABC Nyheter-frétt, sem er vert að setja hér "á blað" og verður gert hér í annarri bloggfærslu í dag.

Svo er þarna athyglisverð klausa í lok Mbl.is-fréttarinnar:

  • Á vefnum Euobserver er fullyrt, að á leiðtogafundi Evrópusambandsins í júní hafi komið fram, að Icesave-málið svonefnda væri sameiginlegt mál alls sambandsins þótt framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi lýst því yfir, að málið sé eingöngu á milli Íslands annarsvegar og Breta og Hollendinga hins vegar.  

Tengsl Icesave-málsins og ESB eru þannig enn einu sinni að staðfestast!

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Bera ekki ábyrgð á innstæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Þarna er nokkuð athyglisverð frétt á ferðinni.  Loksins er komið fram álit framkvæmdastjórnar ESB um ríkisábyrgð innistæðna.  Það vekur þó óneitanlega athygli að þeir skuli enn vera að reyna að bakka upp vitleysuna í Bretum og Hollendingum, með þeim haldlausu rökum sem þarna eru sett fram. Lítum á rök þeirra. Þeir segja:

"Annars vegar hafi útfærslan á íslenska innstæðutryggingasjóðnum ekki uppfyllt skilyrði tilskipunarinnar um innstæðutryggingar."

Ég minnist þess ekki að ESB hafi lagt fram neina athugasemd við innistæðutryggingasjóðinn hér á landi, frá því hann var stofnaður og til þess tíma er bankarnir hrundu. Sé þetta rétt munað hjá mér, eru athugasemdir þeirra nú, eftir hrun fjölda margra banka í Evrópu og víðar, lýsir það fyrst og fremst óheiðarleika þeirra er stýra ESB.  Ekki var hægt að ætlast til að meintir ágallar Íslenska tryggingasjóðsins væru lagfærðir, þegar ekki var bent á slíka ágalla, af hálfu ESB.

Hinn líðurinn í rökum þeirra er eftirfarandi:

"Hins vegar verði að horfa til þess að íslenskir innstæðueigendur fengu sínar innstæður tryggðar að fullu ólíkt hollenskum og breskum innstæðueigendum. Það hafi brotið gegn jafnræðisreglunni." 

Þetta er ekki rétt.  Allir vita að það voru ekki allar innistæður "tryggðar að fullu", eins og þeir orða það. Margir fjárvörslusjóðir bankanna voru ekki tryggðir og voru ekki bættir umfram það sem innistæður í þeim sjálfum gátu greitt. Var þarna einkum um að ræða sértæka hávaxtasjóði, sem voru vistaðir utan venjulegra innlánsreikninga.  Þar er nákvæmlega samhljómur við Icesave reikningana. Þeir voru ekki venjulegir innlánsreikningar, heldur sértækir hávaxtareikningar, utan reglubundins innlánakerfis.  Vegna þessara samjöfnunar ýmissa sérkjarasjóða hjá bönkunum hér, við sérkjaraþátt Icesave reikninganna, verður ekki betur séð en rök framkvæmdastjórnar ESB eigi sér hvorki lagalegar nér jafnræðislegar forsendur.

Hinu er ekki að neita, að ríkissjóður Íslands lagði fram fjármagn til að bæta innistæðueigendum í innlánsdeildum bankanna hér á landi, þau innlán sem voru í hættu.  Ég hef ekki heyrt þess getið að íslendingum hafi verið bætt innlánatap í öðrum löndum, enda hefur engin heimild til slíks verið samþykkt af Alþingi.

Það er því óravegur milli þess að Íslenska ríki bæti þegnum sínum innistæður á venjulegum innlánsreikningum, eða að farið sé að greiða sérstaka gróðafýknar ásókn þeirra sem tóku áhættu með því að leggja fé sitt inn á illa tryggða hávaxtareikninga, sem vistaðir voru í sérstöðkum ávöxtunarsjóðum.

Framkoma stjórnenda ESB hefur ævinlega verið mér spurning um hvot þar sé á ferðinni einföld heimska, eða yfirgengilegur hroki.

Guðbjörn Jónsson, 28.7.2010 kl. 13:53

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ágætir punktar hjá Guðbirni. Ég vil bæta við eftirfarandi athugasemdum:

Varðandi fyrra atriðið, að útfærsla TIF hafi verið ófullnægjandi:

TIF var uppbygður á nákvæmlega sama hátt og aðrir tryggingasjóðir í Evrópu. Reyndar má færa rök fyrir því að fjármögnun sjóðsins hafi verið traustari en hjá öðrum, í hlutfalli við stærð bankakerfis, því hann var þó fjármagnaður með raunverulegum peningum en ekki "inneignarnótum" eins og t.d. hinn breski FSCS. Ef IceSave hefði verið í bresku dótturfélagi, þá hefði FSCS ekki heldur getað staðið undir öllum innstæðum frekar en TIF gat það.

Það er rétt að aldrei voru gerðar athugasemdir við TIF af hálfu ESB, en ekki heldur af hálfu FSA (breska fjármálaeftirlitsins). Samkvæmt tilskipun um skyldu þjóðríkja til að hafa eftirlit með fjármálastarfsemi var FSA hinsvegar skylt að ganga úr skugga um trausta stöðu og að allar tryggingar væru í lagi áður en starfsemi IceSave var heimiluð þar í landi. Það má því færa rök fyrir því að með því að heimila starfsemina hafi FSA óbeint verið að samþykkja að TIF væri í lagi. Ef svo væri ekki hefði FSA hinsvegar átt að banna IceSave og þá hefðu engar innstæður tapast.

Varðandi seinna atriðið, um meinta mismunun innstæðueigenda:

Yfirlýsing um ríkisábyrgð á innstæðum Íslendinga hefur aldrei verið lögfest og hefur því enga lagastoð. Einu áhrifin sem slík fölsun hefur er á trúverðugleika kerfisins (sem var hvort eð er enginn) og ríkisstjórnarinnar (sem hrökklaðist frá völdum skömmu síðar). Þegnar fullvalda ríkis geta varla talist ábyrgir fyrir ólöglegum athöfnum spilltra stjórnmálamanna, sérstaklega ekki þegar þessir sömu þegnar hafa tekið sig saman og steypt hinum spilltu af valdastólum.

Síðast þegar ég gáði er Ísland fullvalda ríki, og því er ekkert í alþjóðlögum sem skyldar það til að gera þegna annara ríkja jafn réttháa og sína eigin. Sá sem mótmælir því er um leið að segja að Ísland sé ekki fullvalda ríki. Vísað hefur verið til jafnræðisreglu EES-samningsins, en á móti má halda því fram að neyðarréttur fullvalda þjóðríkja sé milliríkjasamningum yfirsterkari. Ef ESB túlkar það sem samningsbrot þá verður svo að vera, en á móti má benda á að hið meinta brot var aldrei lögfest og mun því aldrei verða fullframið í reynd.

Loks má nefna að hin meinta mismunun var aldrei á grundvelli þjóðernis eins og haldið hefur verið fram, heldur landfræðilegrar staðsetningar starfsstöðva fjármálafyrirtækjanna. Yfirlýsingin náði til allra innstæðna á Íslandi, en alveg óháð því hvert væri þjóðerni reikningseigenda. Viðskiptavinir IceSave voru líka allir undir sama hatt settir burtséð frá þjóðerni, jafnvel þeir Íslendingar sem kunna að hafa verið í viðskiptum þar (sem ég veit reyndar ekki um).

Áfram Ísland !

Guðmundur Ásgeirsson, 28.7.2010 kl. 17:04

3 Smámynd: Elle_

Þakka ykkur báðum góðar færslur, Guðbjörn, Guðmundur.

Elle_, 28.7.2010 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband