Færsluflokkur: Ferðalög

Sukkið og óráðsían í Icesave-samningamálum: 128.000 kr. @ tímann hjá Lee Buchheit og fundað í Túnis!

Ótrúlegir hlutir eru komnir í leitirnar vegna þess að blaðamaður Mbl. fylgdi því hraustlega eftir að fá umbeðnar upplýsingar um kostnað vegna Icesave-samninganefndar undir forystu Buchheits. Ráðuneytið gaf sig ekki fyrr en úrskurðarnefnd í upplýsingamálum kvað upp sinn úrskurð 29. desember sl., um 11 mánuðum eftir að blaðamaðurinn, Rúnar Pálmason, bað fyrst um upplýsingarnar.

Og hér gefur á að líta: 

  1. Til að "fá" þann samning, sem Buchhheit hrósaði (mælti með eigin verki!) og hefði kostað okkur óafturkræfar vaxtagreiðslur sem nema myndu á hverjum 36 dögum andviði fyrirhugaðs ríkisfangelsis á Hólmsheiði, rukkaði hann ríkið um 128.000 fyrir hvern unninn lögfræðiráðgjafartíma sinn!
  2. Samningamennirnir íslenzku, Lárus Blöndal og Jóhannes Karl Sveinsson, rukkuðu ekki aðeins fyrir starf sitt í nefndinni, heldur einnig (eins og Buchhheit) fyrir blaðamanna- og kynningarfundi sína og (Lárus) fyrir símafundi við ráðuneytismenn og fulltrúa stjórnarandstöðunnar, einkum Bjarna Benediktsson. En kunningsskapur var með Lárusi og Bjarna fyrir (þess get ég hér, JVJ), og má ætla, að Lárus hafi haft sín áhrif á Bjarna til að snúa þingflokki sjálfstæðismanna til að taka sína vit-lausu, óþjóðhollu ákvörðun í trássi við vilja landsfundar flokksins.
  3. Þrjár milljónir rukkaði Lee Buchheit vegna Túnisferðar vegna Icesave, en alls nam ferðakostnaður hans 7,5 milljónum króna.
  4. Hæstu greiðslurnar vegna þessarar nefndar, sem vann að Icesave-III-samningnum, eru til Hawkpoint Partners, lögfræðistofu í Lundúnum, vegna sérfræðiráðgjafar, upp á 143 milljónir króna, og eru þeir reikningar "lítt sundurliðaðir, aðeins talað um þóknanir samkvæmt samkomulagi" (Mbl. í dag, bls. 12: Tók tæplega ár að fá gögnin; einnig er málið forsíðufrétt Mbl.). "Töluverður kostnaður féll til vegna ferðalaga og þannig rukkar Hawkpoint t.d. alls um 3,7 milljónir króna vegna flugferða, þar af 1,6 milljónir vegna flugferða 14. janúar 2010 en ekki kemur fram hvert var flogið eða hversu margir farseðlar voru keyptir." (Rúnar Pálmason í sömu grein.) 
  5. Lögfræðistofa Buchheits rukkaði alls um 86,4 milljónir kr.
  6. Steingrímur kvað heildarkostnað vegna Buchheit-nefndarinnar 369 milljónir (í ræðu á Alþingi 11. apríl 2011).
  7. Hér er ekki verið að tala um kostnað vegna Svavarsnefndarinnar, en Steingrímur sagði á Alþingi 11. apríl 2011, að sá kostnaður næmi 77,5 milljónum. Enn hefur ekkert verið upplýst um, hvað Svavar fekk þar í sinn hlut. Skv. Icesave-I-samningnum var ennfremur undirgengizt að borga Bretum um eða yfir tvo milljarða króna vegna lögfræðikostnaðar þeirra!

Ráðuneytið (eða Steingrímur J.) hafði synjað blaðamanninum um upplýsingar, en varð að lúffa fyrir úrskurðarnefnd í upplýsingamálum. Ekki var "gagnsæi" stjórnsýslunnar sjálfgefið hjá fjármálaráðherranum þá fremur en oft áður, heldur var þetta dregið út með töngum.

Svo er sami ráðherra búinn að taka stól Árna Páls Árnasonar, sem hafði haldið uppi góðum vörnum og kynningarstarfsemi í Icesave-málinu erlendis í sumar. Við í Þjóðarheiðri – samtökum gegn Icesave – höfum enga ástæðu til tiltrúar á Steingrím J. Sigfússon í þessu máli, nema síður sé, og vörum við framhaldi málsins undir handarjaðri hans. Þjóðin hefur ekki efni á því að vera andvaralaus í þessu máli.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Til Túnis vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varaþingmaður Hræðslufylkingarinnar missir jafnvægið, misnotar SVÞ

Varaþingmaður Samfylkingarinnar*, Margrét Kristmannsdóttir, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, misnotar þau samtök í dag með makalausum stóryrðum um Icesave, "segir brýnasta verkefni þjóðarinnar og stjórnvalda að tryggja samþykkt Icesave-samninganna í þjóðaratkvæðagreiðslunni," eins og frá segir í frétt Rúv.

"Því ætti ný könnun viðskiptablaðsins um jafnar fylkingar með og á móti Icesave að fylla fólk skelfingu," segir hún, en fólk er einmitt mjög rólegt yfir þessu, ánægt með, að þokast hafi í rétta átt í niðurstöðum skoðanakönnunar MMR fyrir Viðskiptablaðið. (Auðvitað tekur tíma að vinda ofan af massífum heilaþvotti Rúvara og 365-fjölmiðla í Bretavinnu þeirra, auk allra útsendara ríkisstjórnarinnar, sem fengið hafa forgangs-aðgang að ríkisfjölmiðlunum.)

En Margrét skefur ekki af því – nú liggur mikið við: „Ef Icesave verður fellt, þá mun engin ríkisstjórn hjálpa okkur upp úr þeirri stöðu,“ segir hún; afgreiðsla Icesave-málsins snúist um lífskjör okkar á komandi árum – eins og við vitum það ekki og höfum ekki fyllstu ástæðu til að snúast gegn einmitt þessari hættulegu ólagasmíð! En hver er þessi varaþingmaður stjórnarliða til að nota tækifærið í dag til pólitískra árása?

  • Hún skorar á alla atvinnurekendur að beita sér í málinu þannig að lífvænleg rekstarskilyrði fyrirtækja verði tryggð á komandi misserum. (Ruv.is.)
Það er sem sé blásið til bardaga með rakalausum hætti! – en fyrir hvern?

Margrét Kristmannsdóttir, Samtök verslunar og þjónustu, SVÞ, PFAFF  Skyldi formaður SVÞ hafa gegnt kalli formanns síns, Jóhönnu Sigurðardóttur, að nú yrði að bjarga málunum í stjórnarherbúðunum, af því að hætt sé við, að þjóðin hafni Icesave?

Margrét hefur látið mata sig; hún kemur ekki með neinn rökstuðning og sýnir með þessu, að hún er eins og hver annar þægur páfagaukur sem hefur eftir það, sem hann heyrir í kringum sig. Margrét ætti að skipta um umhverfi, sleppa því að mæta í Samfó-klúbbinn hennar Jóhönnu í eina – tvær vikur, en hlusta þess í stað á lögfræðinga og hagfræðinga sem geta uppfrætt hana um málin. Undirritaður mælir með því, að hún panti sér viðtöl hjá Ólafi Ísleifssyni og Gunnari Tómassyni, áður en hún lætur meira út úr sér af hamfaraspám um afleiðingar þess að hafna ólögvörðu lygaskuldarkröfunni frá Lundúnum og Amsturdammi.

Jón Valur Jensson. 

* http://www.samfylkingin.is/Frettir/ID/191/Framboslistar_i_Reykjavik_samykktir


mbl.is Skjaldborg um kerfi sem allir tapa á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að leggja þjóðinni orð í munn.

Ef ekki væru efnahagsþrengingar og Icesave-della að tröllríða samfélaginu, væri blessaður drengurinn hann Magnús Orri Schram búinn að lengja mitt líf um nokkrar vikur. Samfylkingarmenn eru svo ósköp fyndnir, en gallinn er sá, að útlendingar þekkja ekki eðli samfylkingarmanna. Þeir halda örugglega að þeir séu málsvarar þjóðar sinnar, eins og aðrir stjórnmálamenn.

Þjóðin hefur sagt að hún vilji ekki borga Icesave-skuldina, engin lagaleg skylda hvílir á okkur þess efnis. Samt getur bullið í vinstri mönnunum orðið til þess að við þurfum að greiða, "hin tæra vinstri stjórn" hefur hótað að sitja áfram, hvort sem við viljum eður ei.

En strákræfillinn hann Magnús Orri, hann kveðst jafnvel tapa á ferðinni. Og hann er látinn dvelja á þriggja stjörnu hóteli. Mér finnst það afskaplega hlægilegt, að pilturinn skuli nefna þetta, jú, hann hefur lengt líf mitt um nokkrar mínútur og hafi hann kæra þökk fyrir frá mér og mínum nánustu.

En alvara málsins er sú, að þingmaður skuli enn og aftur endurtaka það, að við skulum borga þvingaðar skuldir og ólögmætar. Einnig er það undarlegt, að þar sem mig minnir að dagpeningar þingmanna nálgist tuttuguþúsund á dag, þá þurfi hann að borga með sér. Er blessaður strákurinn svona ölkær eða mikil eyðslukló? Ég veit það ekki, en hitt veit ég þó, að þriggja stjörnu hótel eru boðleg hverjum sem er. Menn nýkomnir af unglingaskeiði þurfa ekki að halda að þeir séu eitthvað merkilegir þótt þeir hafi slysast á þing, vegna þess að Steinunn Valdís ákvað að segja af sér.

Jón Ríkharðsson


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband