Staðfesta alls þorra þjóðarinnar – sem fylgja þarf eftir

Það er tímabært að rifja hér upp ágæta yfirlýsingu, sem Þjóðarheiður sendi frá sér eftir þjóðaratkvæðið 6. marz 2010.

 

 

Þjóðarheiður – samtök gegn Icesave óskar Íslendingum til hamingju með úrslit þjóðaratkvæðisins.

1.   Þau úrslit, þar sem 98,1% þeirra, sem tóku afstöðu, sögðu NEI við Icesave-lögunum frá 30.desember, eru merkur atburður í sögu þjóðarinnar. Því ber að fagna að svo afgerandi meirihluti lét andstöðu sína í ljós. Það er mikilvægur áfangi í varnarbaráttu almennings gegn yfirgangi erlendra ríkja.

2.   Um leið og samtökin gleðjast yfir staðfestu meirihluta þjóðarinnar, fordæma þau stjórnvöld fyrir linkind gagnvart erlendri ásælni. Ríkisstjórnin hefur gerst sek um þau afglöp að láta undir höfuð leggjast að tala máli okkar, og hún hefur ekki komið þjóðinni til varnar gegn kúgun annarra ríkja.

3.   Þjóðaratkvæðagreiðslan var nýtt upphaf að baráttu meirihluta Íslendinga fyrir algerri höfnun á kröfum Bretlands og Hollands. Þessi árangur hefði ekki náðst án baráttu hins þögla meirihluta, sem sýndi styrk sinn á þessum merka degi, 6. marz 2010.

4.   Réttur almennings til að hafna ólögmætum álögum hefur nú verið staðfestur. Þrautseig þjóð, sem stendur bjargföst á lagalegum grundvallaratriðum og heldur þeim fram af rökvísi, verður ekki sigruð.Jón Sigurðsson forseti hefði verið hreykinn af þjóð sinni á þessum tímamótum.

5.   Sérstakar þakkir hlýtur forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, sem sannaði að fullveldi þjóðarinnar er í höndum hennar sjálfrar og kom í veg fyrir að Ísland yrði gert að skattlandi tveggja gamalla nýlenduvelda. Með þjóðaratkvæðinu var stjórnarskrá lýðveldisins heiðruð. Framvegis þarf að koma í veg fyrir að ólýðræðislegu þingræði verði flaggað sem eðlilegu stjórnarfari á Íslandi. Lýðræðið á sér þann grundvöll að fullveldið er hjá þjóðinni. Það mun ekki verða látið af hendi.

6.   Þjóðarheiður hafnar alfarið gjaldskyldu ríkisins vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Þar skiptir engu hve langt ráðamenn okkar voru reiðubúnir að ganga, þvert á móti ákvæðum stjórnarskrárinnar, til að láta ríkissjóð borga gríðarlegar fjárfúlgur vegna máls þessa á fyrri stigum þess, undir óbilgjörnum þrýstingi frá ríkjum sem notuðu sér neyð landsins til að beygja ráðamenn okkar til hlýðni.

7.   Nú skiptir mestu að hvika hvergi frá rétti okkar og lagalegri stöðu. Samtökin Þjóðarheiður standa eitilhörð gegn öllum samningaumleitunum við Breta og Hollendinga vegna hinnar ólögvörðu kröfu þeirra að veitt verði ríkisábyrgð vegna erlendra skulda banka í einkaeigu.

8.   Allar samningaviðræður ríkisins við Bretland og Holland eru misráðnar og hafa leitt til langvarandi deilna og reiptogs sem hefur sett Alþingi Íslendinga í gíslingu, á sama tíma og fjölskyldur og atvinnuvegir glíma við mestu efnahagskreppu síðari áratuga.

9.   Samkvæmt skoðanakönnun, sem MMR gerði og var birt 8. marz, telja um 60% landsmanna að Íslendingum beri alls ekki að ábyrgjast kröfur Bretlands og Hollands. Heilbrigð skynsemi segir okkur að almenningur í þessu landi hafi engar skyldur til að greiða himinháar kröfur frá ríkissjóðum 250 sinnum stærri þjóða. Það eru tryggingasjóðir og bankar í þessum löndum sem bera ábyrgð á umræddum kostnaði með iðgjöldum sínum. Kröfugerð Bretlands og Hollands á okkar hendur er hrein fjárkúgun.

10.  Lög nr. 96 frá 28. ágúst 2009 gefa Bretum og Hollendingum færi á því að skuldsetja lýðveldið vegna Icesave með því að þeir fallist á þá fyrirvara sem settir eru í lögunum. Því er brýnt að umrædd lög verði felld úr gildi. Ríkisábyrgð á Icesave-skuld Landsbankans samræmist hvorki stjórnarskrá, evrópskum lögum, þjóðarhag né almennu réttlæti.Þjóðarheiður krefst þess að lög nr. 96/2009 verði afnumin og Alþingi fari þannig að þjóðarvilja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband