Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Fótum kippt undan falsfrétt Fréttablaðsins um málssókn ESA gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum

 

Kolbeinn Óttarsson Proppé er hæfileikamikill maður, en mislagðar eru honum hendur í fréttamennskunni. Hátt er fall fréttar, sem slegið er upp á forsíðu að morgni, en hrakin hefur verið fyrir hádegið! Forseti ESA bar "frétt" "Fréttablaðsins" til baka strax í morgun! Sjá um þetta tengilinn hér neðar. Þar geta menn einnig tengt sig inn á bloggskrif Gísla Bergsveins Ívarssonar og Páls Vilhjálmssonar um málið.

JVJ. 

 


mbl.is Engin ákvörðun hjá ESA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur vanmetur tjón af hryðjuverkalögunum ekki síður en mikla vexti sem "hefðu hlaðist upp" vegna Icesave

Kostnaður Íslands væri "þegar orðinn um 40 milljarðar króna," "hefði síðasti Icesave-samningur verið samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu og ríkisábyrgð verið veitt á greiðslum Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta (TIF) á greiðslum til ríkissjóða Bretlands og Hollands," segir Þórður Gunnarsson viðskiptablaðamaður í fróðlegri grein í viðskiptablaði Morgunblaðsins sl. fimmtudag, 15. september.

Hann segir þar einnig:

  • "Samkvæmt samningum átti að greiða Bretum og Hollendingum 26 milljarða strax eftir veitingu ríkisábyrgðar, vegna tímabilsins frá gjaldþroti Landsbankans og fram að árslokum 2010 (þar af hefðu 20 milljarðar komið frá TIF).
  • Áfallnir vextir 1,75 milljarðar á mánuði
  • Þar sem útgreiðslur hafa ekki hafist úr þrotabúi Landsbankans, hefðu talsverðar vextir fallið til vegna þessa. Miðað við núverandi gengisskráningu Seðlabanka Íslands nema áfallnir vextir, samkvæmt Icesave-samningi númer III, um 1,75 milljörðum króna á mánuði. Á fyrstu átta mánuðum ársins hefðu því áfallnir vextir numið um 14 milljörðum króna, sem ríkissjóður Íslands hefði þurft að standa undir."

Miðað við kostnaðaráætlun um byggingu nýs gæzluvarðhalds- og öryggisfangelsis á Hólmsheiði, upp á 2,1 milljarð króna (sjá hér) – fé sem ríkissjóður hefur ekki ráð á að reiða fram á byggingartímanum og verður því að fela verkið einkaaðilum og leigja síðan byggingarnar af þeim – þá nema þessar vaxtagreiðslur, sem verið hefðu, ef Icesave-III hefði verið samþykkt, á hverjum 36 dögum jafngildi heils slíks fangelsis fullbúins! – og það mánuð eftir mánuð og ár eftir ár!

Og vissi Steingrímur ekki hitt, að þessir vextir væru ÓAFTURKRÆFIR, þó að meira en nóg myndi reynast vera í eignasafni Landsbankans?! Þar myndi aldrei reynast svo mikið fé, að allar kröfur fengjust greiddar og sízt vextir, enda komast þeir ekki nálægt því að teljast forgangskröfur.

En lítum aftur á grein Þórðar:

  • Matið breytist með hverri fréttatilkynningu
  • Þegar Icesave-samningurinn var kynntur í desember miðuðust kostnaðarforsendur við að útgreiðslur hæfust í júní á þessu ári. Uppfært mat sem samninganefndin kynnti í mars gerði ráð fyrir því að útgreiðslur hæfust í ágúst á þessu ári. Í nýjustu frétt fjármálaráðuneytisins af þrotabúi Landsbankans segir loks að vonir séu bundnar við að útgreiðslur hefjist seint á þessu ári. Mat stjórnvalda á því hvenær útgreiðslur úr búinu hefur því breyst með hverri fréttatilkynningu, en ekki er útséð með hvenær greiðslur hefjast.

Öll hefði þessi frestun útgreiðslna úr búinu leitt til meiri kostnaðar vegna Icesave-III-samningsins heldur en ráðuneytið og matsaðilar höfðu reiknað með.

Bætum nú við smá-upprifun ofangreinds með því að skoða undirfyrirsagnir greinar Þórðar (sem sjálf nefnist Vextir hefðu hlaðist upp):

• Áætlanir gerðu ráð fyrir að útgreiðslur úr búi Landsbankans hæfust í júní • Útgreiðslur ekki hafnar • Hefði síðasti Icesave-samningur verið samþykktur væri kostnaður Íslands orðinn 40 milljarðar króna 

Þjóðin og forsetinn reyndust velja rétt, en Steingrími skjátlaðist enn einu sinni. Samt fór hann fram með rakalausar fullyrðingar í öndverðum þessum mánuði (sjá þessa grein HÉR) og barði sér á brjóst, því að betur hefðu (að hans mati) Íslendingar samþykkt Icesave-III!! Þetta varð reyndar upphaf mikilla yfilýsinga, orðahnippinga og árekstra milli forsetans og ýmissa ráðherra, eins og allir vita, því að herra Ólafur Ragnar lét það ekki viðgangast, að með þessum hætti væri staðreyndum umsnúið og ráðizt um leið á ákvörðun hans og þjóðarinnar í vetur (sbr. hér: Ólafur Ragnar: Rannsaka á hvernig ríki ESB gátu stutt kröfur Breta og Hollendinga, sem hann segir fáránlegar).

Mál þetta mun seint fjara út. Ráðherrar og flokkar hafa enn ekki bitið úr nálinni með það. 

Ný sýndarmennsku-yfirlýsing?

En nú hefur Steingrímur enn á ný gengið fram með yfirlýsingu, sem virðist, í fljótu bragði séð, ætlað að bæta ímynd hans í tengslum við bankamálin, enda virðist ekki vanþörf á, sbr. til dæmis Icesave og nú síðast SpKef-málið, þar sem álitið er, að ríkið hafi tapað 30 milljörðum króna (já, á síðarnefnda málinu! – sjá hér: Landsbanki metur kostnað ríkisins vegna SpKef á 30 milljarða – og að margra mati vegna ákvarðana fjármálaráðherrans).

Hin nýja yfirlýsing Steingríms eða ráðuneytis hans gengur út á, að "beint tjón, vegna þess að Bretar beittu hryðjuverkalögum til að frysta eignir Landsbankans, hafi verið á bilinu tveir til níu milljarðar króna og líklegasta gildið sé um 5,2 milljarðar fyrir fyrirtækin í landinu."

Allt í einu virðist Steingrímur þannig kominn með bein í nefið til að snúa vörn í sókn og krefja Breta um bætur vegna hinnar stórskaðlegu beitingar hryðjuverkalaga þeirra gegn íslenzlum bönkum og lýðveldinu sjálfu ...

En ekki er allt sem sýnist. Í 1. lagi gerði Steingrímur EKKERT í þessu máli í meira en tvö og hálft ár, eftir að hann náði sæti fjármálaráðherra. En í 2. lagi eru þessar tölur hans um skaða Íslands vegna hryðjuverkalaganna sennilega margfalt vanmat. (Að vísu er tekið fram í matinu, að "flest bendi til þess að óbeint tjón sé mun hærra".)

Hér erum við að vísu komin út fyrir Icesave-málið. Þó var ítrekað minnt á það hér á vefsetrinu, bæði af stjórnarmönnum og almennum félagsmönnum Þjóðarheiðurs, að ráðherrum okkar og Alþingi stæði miklu nær að krefja Breta um skaðabætur vegna hryðjuverkalaganna heldur en hitt, að borga þeim eitt einasta penný vegna Icesave-skulda einkabanka.

Þar að auki, með orðum skarpgreinds verkfræðings, sem skrifaði okkur Lofti og öðrum í Þjóðarheiðri í gær: "Skaði Íslands af efnahagsárás Breta sem hófst haustið 2008 nemur þúsundum milljarða, ekki einstöku milljörðum." – Á sama máli er bæði undirritaður og nefndur Loftur Þorsteinsson. Ef við höfum á réttu að standa, skuldar fjármálaráðherrann þjóðinni skýringar á þessu frumhlaupi sínu.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Milljarða tjón vegna hryðjuverkalaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hún sagði það! - Hver? - Hún Álfheiður! - Hvað? - „Forsetinn á að fara á þing!“

Og þetta er sami forsetinn og mælti svo skörulega í sjónvarpsviðtali í gær um Icesave-gloríur innlendra og (sjá HÉR!) erlendra ráðamanna. Lítum nú á orð forsetans sem hann beindi á þeim ráðamönnum hér sem ábyrgir voru. Byrjum rólega, haltu þér, Steingrímur, já og þið, Álfheiður og Jóhanna.

Forsetinn taldi, að skynsamlegra hefði verið að bíða þess, að þrotabú Landsbankans yrði gert upp, heldur en hitt að „fallast á fáránlegar kröfur Breta og Hollendinga um að íslenzk þjóð gengist í ábyrgð fyrir Icesave-skuldinni“.

Og svo sagði hann fleiri sannleiksorð:

  • „Það var ekki gert heldur var bara látið undan þessum þrýstingi. Menn beygðu sig fyrir þessu ofbeldi af hálfu Evrópuþjóðanna og samþykktu fyrst samning sem var svo óheyrilegur að ekki aðeins hrópaði íslenska þjóðin hann af heldur hlupu Bretar og Hollendingar frá honum strax nokkrum mánuðum eftir að ákveðið var að setja á þessa þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Hér var það ekki barnið, sem sagði sannleikann um keisarann, heldur forsetinn sem sagði sannleikann um afglöp þeirra sem hann fól stjórnartaumana eftir hálfgert byltingarástand í landinu. Eins og segir í leiðara Morgunblaðsins í dag:

  • Það er vissulega sérstætt og orkar tvímælis þegar þjóðhöfðingi, sem er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum, setur svo harkalega ofan í við réttkjörin stjórnvöld landsins. En forsetanum er nokkur vorkunn þegar fjölmiðlar lepja afkáralegar útleggingar fjármálaráðherrans athugasemdalaust upp og aðrir réttbærir aðilar verða ekki til að grípa til andsvara eða fá ekki tækifæri til þess. 

Þarna er í leiðaranum vísað til nýlegrar viðleitni Steingríms til að snúa sannleikanum um Icesave á hvolf í sjónvarpinu fyrir helgina. Meira þungaviktarefni er um málið í leiðaranum.

En lesið fréttina á Mbl.is (tengill neðar). 

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Vill forsetann í framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar: Rannsaka á hvernig ríki ESB gátu stutt kröfur Breta og Hollendinga, sem hann segir fáránlegar

Forseti Íslands sagði í Rúv-viðtali í dag að góðar endurheimtur í þrotabúi Landsbankans staðfesti að stjórnvöld hér hafi látið undan þrýstingi og beygt sig undir ofbeldi Breta og Hollendinga í Icesave-málinu. Rannsóknarefni væri fyrir ESB hvernig ríki sambandsins gátu stutt fáránlegar kröfur Breta og Hollendinga.

Orðrétt sagði hann m.a., að hann hefði alltaf haldið því fram að eignir bankans myndu duga fyrir Icesave-skuldinni, en ...

  • „Það var ekki gert heldur var bara látið undan þessum þrýstingi. Menn beygðu sig fyrir þessu ofbeldi af hálfu Evrópuþjóðanna og samþykktu fyrst samning sem var svo óheyrilegur að ekki aðeins hrópaði íslenska þjóðin hann af, heldur hlupu Bretar og Hollendingar frá honum strax nokkrum mánuðum eftir að ákveðið var að setja þessa þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig að það sem er að gerast núna er bara einfaldlega sýn á það að ef haldið hefði verið á málinu af skynsemi frá upphafi þá var bara algjör óþarfi að setja íslenska þjóð og samstarf okkar við Evrópuríkin í þessa spennitreyju.“

Og feitletrum líka þetta úr frétt Mbl.is af þessu viðtali:

  • Ólafur Ragnar sagði að réttast hefði verið að bíða og sjá hvað kæmi út úr eignum Landsbankans, frekar en að fallast á fáránlegar kröfur Breta og Hollendinga um að íslenska þjóðin gengist í ábyrgð fyrir Icesave-skuldinni.
Við þökkum herra Ólafi varðstöðu hans í þessu máli. Ekki veitir af!

Lokaorð Ólafs Ragnars í viðtalinu voru þessi:

  • "... það, sem Financial Times og Wall Street Journal sögðu allan tímann að væri réttur málstaður Íslendinga, hefur reynzt vera þannig. Og ég held að við eigum heldur ekki að gleyma því, að Financial Times og Wall Street Journal, þessi tvö helztu viðskiptablöð heims, þeir sáu í gegnum þetta gerningaveður Breta og Hollendinga; þeir studdu málstað Íslendinga allan tímann. Og ég spyr mig sjálfan mig að því – og ég hef sagt við ýmsa forystumenn á vettvangi Evrópusambandsins: Fyrst Financial Times og Wall Street Journal sáu þetta, sáu í gegnum þetta gerningaveður, hvers vegna í ósköpunum stóð þá á því, að Evrópusambandið sá ekki í gegnum þetta gerningaveður?"

Vel mælt!

Jón Valur Jensson. 

mbl.is Beygðu sig undir ofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Mikil áhætta óháð heimtum - Áhættan af Icesave var alltaf mikil": Hefðum þurft að greiða 26 milljarða þetta ár

Steingrímur J. sneri öllu á hvolf um Icesave í sjónvarpinu í gærkvöldi, með slóttugum gervisvip, ólíkt reiðisvipnum í þinginu, er hann gumaði af stjórnarafrekum í gærmorgun. En Örn Arnarson blm. á frábæra úttekt á Icesave-pakkanum á 23. bls. Morgunblaðsins í dag. Þar kemur í ljós, að sannleikurinn er öndverður við það, sem refurinn í ráðherrastóli reyndi að telja okkur trú um á skjánum.

Sem sé: Jafnvel þrátt fyrir að útlit sé nú fyrir, að endurheimtur þrotabús Landsbankans verði umfram forgangskröfur (og dugi þannig fyrir forgangskröfum vegna Icesave), "er ekki þar með sagt að íslensk stjórnvöld hefðu komist hjá því að taka á sig stórfelldan kostnað hefðu lögin um ríksábyrgðina verið samþykkt. Kostnaður ríkisins vegna ríksábyrgðarinnar hefði eftir sem áður getað hlaupið á tugum eða hundruðum milljarða vegna vaxtagreiðslna auk möguleikans á óhagstæðri gengisþróun og töfum á greiðslum úr þrotabúinu," segir Örn, sem er viðskiptablaðamaður á Mbl.

Miklu nánar þar í grein hans! Menn ættu að fá sér þetta laugardagsblað, ekki verra að Sunnudagsmoggi fylgir. (Og ræðum þetta mál betur en undrritaður samantektarmaður hefur tíma til hér og nú.)

PS. Og allir ættu að vita, að það er enginn peningur til fyrir þessum 26 milljörðum, sem Steingrímur hefði þurft að borga. Þeir hafa ekki einu sinni efni á að byggja temmilega lítið fangelsi fyrir 53 fanga. 

Jón Valur Jensson. 


Er Evrópusambandið að reyna að múta Íslendingum?

Við vitum að ESB stóð að baki Bretum og Hollendingum á ýmsum stigum Icesave-lygaskuldarmálsins, sbr. skrif hér á vefsetrinu. Á sama tíma og Árni Páll tygjar sig til "samninga" um Icesave á vit þeirra (í hverra umboði?!) berst fregn af 4,6 milljarða styrkjum ESB til Íslands árin 2011–2013!

Já, 4.600 milljónir, hvorki meira né minna, eða svo er okkur sagt. Þetta er tuttuguföld sú upphæð, sem ESB dælir í gegnum Athygli hf. (sbr. umfjöllun undirritaðs HÉR) til að auglýsa og "kynna" þetta stórveldasamband sem nær yfir 42,5% Evrópu.

Þjóðarheiður – samtök gegn Icesave hefur ekkert á stefnuskrá sinni um andstöðu við Evrópusambandið, en það væri fróðlegt að sjá viðhorf félagsmanna til þeirrar spurningar, hvort ofangreind mál séu eitthvað sem við eigum líka að láta okkur varða "í ræðu og riti" og í baráttu okkar fyrir réttlæti Íslandi til handa.

Endilega ræðum þetta hér á síðunni, sem verður opin að vanda í tvær vikur. Á aðalfundi félagsins, sem verður boðað til innan skamms, verður þetta eflaust meðal umræðumála þar.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Ísland fær 28 milljónir evra í styrki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband