Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Ummæli um Icesave í Kryddsíld Stöðvar 2

"Það er engin lagaskylda fyrir hendi til að greiða þetta, fyrir því eru engin lög," sagði Bjarni Ben. jr. "Það liggur alveg fyrir, að það er ekki lagaleg skylda [fyrir því að greiða þessa kröfu]," sagði Sigmundur Davíð, talaði þó um möguleika á að kaupa okkur undan hótunum.

Bjarni sagði ennfremur, aðspurður hvort hann myndi samþykkja nýja Icesave-III-frumvarpið: "Ef við metum það svo, að lagalega og fjárhagslega sé áhættan ..." – og hér náði undirritaður ekki framhaldinu orðréttu, en inntakið var, að ef þetta teldist hugsanlegt með tilliti til áhættu af málsókn – þrátt fyrir að hann endurtæki skýrt fyrirvara sína: "þegar það er engin lagaleg skuldbinding þess að greiða þetta" – þá myndi hann og hans flokkur hugsanlega samþykkja frumvarpið. Fram kom hjá honum aðspurðum, að hann "býst ekki við að segja pass," þ.e. sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson talaði, eins og áður sagði, um hótanir og þar af leiðandi um möguleikann á því að kaupa sig undan þeim. "Hversu mikið erum við tilbúin að borga?" spurði hann.

En þjóðin hefur svarað: EKKERT! Við verðum ekki meiri menn á því að láta undan hótunum rangsleitinna ríkisstjórna, sem láta ekki af kröfum sínum, af því einfaldlega að þær vilja ekki missa anditið, enda værum við með slíkri meðvirkni við yfirgang þeirra ekki aðeins að brjóta okkar eigin stjórnarskrá og reglur ESB), heldur værum við líka að ýta þessu gríðarlega gerviskuldarmáli yfir á næstu og þarnæstu kynslóð.

Hér skal þó minnt á skýrari hluti í máflutningi Sigmundar Davíðs. Hann benti á, að mikil áhætta væri til staðar um kröfuuphæðina í raun, en þegar í ljós komi úrslit fyrir dómstólum í málum kröfuhafa, eftir nokkra mánuði, verði komnar nýjar forsendur til að meta þessa líklegu upphæð. Þess vegna, sagði hann, "eigum við að taka okkur tíma í þetta, ekki láta taka okkur á taugum" með því að flýta afgreiðslu málsins. Ekkert liggi á því. 

Hann sagði einnig: "Það er ekki rétt [hermt], að þetta mál hafi komi í veg fyrir erlendar fjárfestingar" hér á landi.

"Menn verða að gæta að íslenzkum hagsmunum, ekki bara að" óttast hótanir eða láta undan þeim, sagi hann.

Öðrum (Þór Saari, Jóhönnu, Steingrími) náði undirritaður ekki í þessari umræðu.

Gleðilegt nýtt ár, félagsmenn Þjóðarheiðurs, lesendur síðunnar og landsmenn allir! 

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Stormur í vatnsglasi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ívar Páll Jónsson: Loksins lyppast þjóðin niður

Pistill (áður birtur í Mbl. 14. þ.m.)

 

 

"Landið er að rísa.

 

Botninum er náð.

 

Erlend skuldastaða er ágæt, miðað við þjóðir sem við berum okkur saman við.

 

Aukin skuldasöfnun stuðlar að betra lánshæfi ríkisins og auðveldar aðgengi að erlendu fjármagni.

 

Það er allt stopp á meðan Icesave-deilan er ekki leyst.

 

Hallarekstur ríkissjóðs er viðráðanlegur.

 

Gjaldeyrishöftin eru nauðsynleg.

 

Íslenska ríkið tók ekki ábyrgð á bönkunum, öfugt við það írska. Þess vegna er staðan miklu betri hjá okkur."

 

George Orwell þekkti vel hvernig ríkisvaldið hefur tilhneigingu til að hegða sér, til að bæla niður andspyrnu og tryggja sér áframhaldandi vald yfir fólki. Í því er lykilatriði að ná tökum á tjáningunni í samfélaginu.

Ég er ekki að segja að hér hafi myndast alræðisstjórn, sem hefti tjáningar- og ferðafrelsi Íslendinga. Hér er hins vegar við völd ríkisstjórn, sem beitir spunavélinni til hins ýtrasta, til að fólk átti sig ekki á því hvað er í raun og veru í gangi.

Það væri efni í mun lengri grein að rekja öll öfugmælin sem hér voru nefnd í byrjun. Einna augljósasti stjórnarspuninn er þó að hér stöðvist allt atvinnulíf – ekkert fyrirtæki fái lánafyrirgreiðslu, verði ekki samið um að skattgreiðendur taki á sig Icesave-skuldbindingu einkabankans Landsbankans. Þvílík fjarstæða.

Eina dæmið sem spunameistarar valdhafanna geta nefnt um slíkt er að Fjárfestingabanki Evrópu, pólitískt Evrópuapparat, setji þetta skilyrði til þess að lána Landsvirkjun. Þeim hefur yfirsést að þrjú stór íslensk fyrirtæki, Össur, Marel og Icelandic Group, hafa öll fengið lán í erlendum myntum á síðasta rúma árinu.

Nú liggja fyrir Icesave-samningar, sem eru í flestu líkir þeim sem felldir voru í þjóðaratkvæðagreiðslu í marsmánuði. Vextir eru lægri, en áhættan fyrir ríkissjóð er hin sama. Falli gengi krónunnar hækkar krafa Breta og Hollendinga á íslenska ríkið, en krafa þess í þrotabú Landsbankans er föst í krónum. Þarna getur verið um að tefla tuga eða jafnvel hundraða milljarða króna áhættu fyrir ríkissjóð. Augljóslega batnar lánshæfi ríkissjóðs ekki með slíkum samningum, ekki frekar en einstaklings sem tekur á sig tugmilljóna króna lán.

Því miður bendir flest til þess, að þjóðin ætli að kokgleypa spunann í þetta skiptið, eftir langdregna baráttu við andskota sína í stjórnarráðinu. Stjórnarandstaðan lyppast vafalaust niður, langþreytt og þvæld, og þjóðin hrópar í kór fyrir framan firðtjaldið:

STRÍÐ ER FRIÐUR

FRELSI ER ÁNAUÐ

FÁFRÆÐI ER MÁTTUR

Ívar Páll Jónsson.

Ívar Páll er viðskiptablaðamaður á Morgunblaðinu, afar vel upplýstur og hefur ritað þar margar mjög athyglisverðar og í raun ískyggilegar greinar, ekki sízt nú í haust og vetur. Þið takið eftir, að hann er að hafa eftir orð stjórnarsinna þarna í byrjun, í skáletrinu. Þetta er endurbirt með góðfúslegu leyfi höfundar. Til að vekja sérstaka athygli lesenda Þjóðarheiðurs-síðunnar á texta Ívars Páls um Icesave, er hann hafður feitletraður hér. –JVJ.


Jóhanna heldur áfram að skrökva um Icesave

Þótt útlitið sé svart hjá Icesave-stjórninni með e.t.v. eins atkvæðis meirihluta – og Guðfríður Lilja á leið á þing úr fríi, í stað tengdasonar Svavars Gestssonar! – þá vantar ekki, að Jóhanna beri sig mannalega. En hún sagði grófari hluti í kvöldfréttunum, um Icesave, heldur en í Mbl.is-viðtalinu. Þetta sagði hún orðrétt í kvöldfréttum:

  • Það viðurkenna allir, að góður samningur er á borðinu ...!!!

Og hún segist bjartsýn! (sic). Tekst henni það með því að búa sér til sýndarveruleika?

Þetta eru hrein ósannindi, að "það viðurkenni allir", að Icesave-III sé "góður samningur". MARGIR marktækir menn, ekki sízt þeir sem sérfróðir eru á sviði viðskiptamála, hafa varað mjög við áhættu þessa samnings, því að óvissan er svo mikil þar um mörg atriði. Verður birt hér í kvöld, kl. 22.22, eindregin grein færs manns á þá lund – raunar þvílík, að nægir til að snúa mörgum manninum.

Í 2. lagi verður að benda forsætisráðfrúnni á, að fæstir hafa kynnt sér þennan samning i raun.

Í 3. lagi hefur verið bent á, að enn eru margir verstu ágallarnir á Icesave-I og Icesave-II látnir fylgja þessum nýja samningi, þ. á m. að eignir ríkisins eru lagðar að veði.

Í 4. og raunar fremsta lagi hafa ýmsir menn ítrekað það nú sem fyrr – m.a. Vigdís Hauksdóttir alþm., Sigmundur Daði Gunnlaugsson og jafnvel Bjarni Benediktsson – einnig InDefence-menn og að sjálfsögðu við hér í Þjóðarheiðri – að fjárkröfur Breta og Hollendinga styðjast ekki við nein lög, þetta eru ólögvarðar kröfur og ennfremur bent á, að þær fela beinlínis í sér lögbrot (sbr. t.d. skrif norsks þjóðréttarfræðings um það), jafnvel beinlínis stjórnarskrárbrot!

Jóhanna Sigurðardóttir má ekki bjóða þjóðinni upp á ósannindi í þessu máli. 

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Jóhanna blæs á framsóknarsögur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af Icesave-„snillingum“

LEIÐARI Moggans í dag ber heitið: 

Snillingar útnefndir

Fyrir hálfu öðru ári fagnaði Morgunblaðið nýjum Icesave-samningi sem hefði hengt óborganlegar drápsklyfjar á íslenskan almenning. Af einhverjum ástæðum var þáverandi ritstjóri Morgunblaðsins svo hrifinn af Icesave-samningnum fyrsta að hann lét sér ekki nægja að lofsyngja samninginn í blaðinu heldur mætti á aðra fjölmiðla til að kyrja lofsönginn ... Lesið meira af þessum leiðara hér! – eða í blaðinu sjálfu.
 
Nota ber þetta tækifæri til að benda á afar tímabæra Morgunblaðsgrein Lofts Altice Þorsteinssonar, sem nú hefur verið endurbirt hér:  Breytt kröfuröð í þrotabú Landsbankans leysir Icesave-deiluna.

Breytt kröfuröð í þrotabú Landsbankans leysir Icesave-deiluna


(Stórmerk grein eftir Loft Altice Þorsteinsson, sem áður birtist í Mbl. 23. des. sl. og við höfðum sagt hér svolítið frá.)

 

Steinhörð andstaða almennings og umboðsmanns þjóðarinnar – forsetans, hefur hindrað fyrirætlun ríkisstjórnarinnar, að leggja Icesave-klafann á Íslendinga. Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur einnig staðið vaktina, gegn verkamönnum nýlenduveldanna, sem þekktir eru undir nafninu Icesave-stjórnin. 
  
Þrátt fyrir viðleitni ríkisstjórnarinnar, að halda öllum upplýsingum leyndum fyrir almenningi, hefur Icesave-málið þróast og er komið í allt aðra stöðu en fyrir 18 mánuðum. Fram hafa komið merkilegar upplýsingar, sem valda því að hægt er að tala um atburðarás sem leiðir til einnar eðlilegrar niðurstöðu. 
  
Lausn Icesave-deilunnar er fólgin í breyttri kröfuröð við úthlutun fjár úr þrotabúi Landsbankans. Í stað þess að kröfur í þrotabúið verði flokkaðar í tvo flokka samkvæmt neyðarlögunum, er lausnin fólgin í flokkun í fjóra flokka. Með því móti er fullnægt ESB-reglunni um lágmarkstryggingu og jafnframt þeirri kröfu, að innistæðueigendur njóti forgangs fram yfir almenna kröfuhafa. 
  
Neyðarlögin {lög 125/2008} sem sett voru 6. október 2008 hafa einkum tvenns konar afleiðingar. Í fyrsta lagi skiptingar bankanna í nýja og gamla banka, sem búið er að framkvæma. Í öðru lagi var kröfum innistæðueigenda veittur forgangur umfram almenna kröfuhafa. Framkvæmd þessa síðara atriðis hefur ekki farið fram. 
  
 
ESA fellir úrskurði um neyðarlögin
 
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur tekið neyðarlögin til skoðunar í úrskurðum dagsettum 04.12.2009 og 15.12. 2010. Endanlega er orðið ljóst að skipting bankanna og forgangur innistæðueigenda standast alla gagnrýni. ESA viðurkennir að fyrrgreind tvö atriði brjóta hvorki í bága við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, EFTA-samninginn né heldur tilskipanir ESB. 
  
Röksemdafærsla ESA byggist á þeirra staðreynd að Ísland er sjálfstætt ríki. Þjóðréttarleg staða landsins hindrar að hægt sé að hrófla við ákvörðunum Alþingis. Ekki verður gengið framhjá stjórnarskrá lýðveldisins, eins og kom berlega í ljós varðandi þjóðaratkvæðið. Það sem ákveðið er með lögum um kröfuröð í þrotabú, verður ekki véfengt af erlendum ræningjum, þótt um sé að ræða alræmd nýlenduveldi.
 
 
 
Icesave-samningar ríkisstjórnarinnar 
 
Síðan Icesave-kröfurnar komu fyrst fram, hefur ríkisstjórn Íslands verið á hnjánum frammi fyrir nýlenduveldunum. Nú er búið að draga fram þriðja Icesave-samninginn, eftir að þeim fyrsta var hafnað af Alþingi {lög 96/2009} og almenningur hafnaði þeim númer tvö {lög 1/2010} í glæsilegu þjóðaratkvæði 6. marz 2010. 
  
Lög 96/2009 settu margvíslega fyrirvara við ábyrgð á samningi Svavars-nefndarinnar og eins og kunnugt er höfnuðu nýlenduveldin því boði. Þar með slepptu Bretland og Holland eina tækifærinu
 
sem þau munu fá, til að innheimta Icesave-kröfurnar. Í lögunum er meðal annars fjallað um forgang TIF að greiðslum úr þrotabúi Landsbankans, en nálgun laganna er óraunhæf. 
  
Í þessu sambandi má benda á, að tilskipun ESB um lágmarks-tryggingu, er í raun fyrirmæli um kröfu-röð, þar sem lágmarks-tryggingin kemur fyrst til úthlutunar úr þrotabúi. Ef lágmarks-tryggingin hefur ekki forgang, getur staðan hæglega orðið sú að tryggingasjóðirnir fái ekki upp í lágmarkstrygginguna við skipti. Þetta er einmitt það sem mun gerast með Landsbankann, samkvæmt núgildandi lögum um kröfuröð. 
  
  
Breytt kröfuröð stenst lög og leysir vandann 
 
Engum vafa er undirorpið, að lausn Icesave-vandans fyrir Íslendinga er fólgin í þeirri einföldu aðgerð sem hér er reifuð. Einhverjum kann þó að detta í hug, að breyting kröfuraðarinnar sé afturvirk aðgerð og því ólögleg. Svo er sannanlega ekki, því að greiðslur úr þrotabúi Landsbankans hafa ekki ennþá farið fram. Jafnframt er ljóst að nýlenduveldin hafa ekki gildan Icesave-samning til að hnekkja lagasetningu um kröfu-röðina. 
  
Lausn Icesave-deilunnar er fólgin í breytingu á neyðalögunum, þannig að kröfuhöfum er skipt í fjóra hópa. Lagt er til að ákvæðið í neyðarlögunum, um forgang innistæðueigenda haldi sér. Hins vegar njóti þessar kröfur innistæðueigenda ekki jafnstöðu. Kröfuröð innistæðanna verði þannig, að fremst kemur lágmarkstrygging ESB upp á 20.887 evrur, síðan inneignir upp að hámarki tryggingasjóða í Bretlandi og Hollandi, þar næst inneignir yfir hámörkum tryggingasjóðanna.
  
Ef Alþingi hraðar breytingu á neyðarlögunum, þannig að lágmarkstrygging ESB fær forgang, er uppfyllt það skilyrði að útgreiðslur úr þrotabúi Landsbankans munu styðjast við gildandi regluverk ESB. Íslendski tryggingasjóðurinn (TIF) fær þá nægilegt fjármagn úr þrotabúinu til að greiða lágmarkstrygginguna. Bretland og Holland hafa þá engar kröfur á hendur almenningi á Íslandi. 
  
Þegar framangreind breyting á neyðarlögunum hefur verið gerð, munu nýlenduveldin leggja af tilraunir til að beita Íslendinga fjárkúgun. Þess í stað munu þau hefja undirbúning til að verjast kröfum Íslendinga. Krefja verður Breta og Hollendinga bóta fyrir það tjón sem þessi ríki hafa valdið með efnahagsstríði gegn Íslandi og beitingu hryðjuverkalaga. 
 

    Höfundur er verkfræðingur og vísindakennari og 
    situr í stjórn Þjóðarheiðurs – samtaka gegn Icesave.

    Greinin er endurbirt hér með leyfi hans.. 


Bankastjóri Hollandska seðlabankans í erfiðri stöðu.

 

Öll spjót standa á Nout Wellink og það er ekki bara vegna Icesave, heldur ekki síður vegna stærri skulda sem seðlabankanum DNB tókst að leggja á herðar Hollendinga. Rifja má upp, að í Jan de Wit-skýrslunni kemur fram, að bankaeftirlitið í Hollandi (DNB) bar fulla ábyrgð á starfsemi Icesave, á tvennan hátt:

 

1.  DNB vissi, löngu áður en Icesave-starfsemin í Hollandi hófst, að Landsbankinn  var með of veikan efnahag til að ráðlegt væri að heimila honum að safna miklum innlánum í Hollandi. Þeir höfðu upplýsingar frá Bretlandi og vissu nákvæmlega hvað var í vændum.

 

2.  DNB hafði öll þau tök á starfsemi Landsbankans í Hollandi sem þeir vildu beita.

 

Eins og oft hefur komið fram, hvíldi öll eftirlitsskylda á starfsemi Landsbankans í Bretlandi og Hollandi á fjármála-eftirliti þessara landa, þar sem þau voru gisti-ríki Landsbankans. Þrjár ástæður er hægt að tilgreina:

 

1.  Höfuðstöðvar Landsbankans voru utan Evrópusambandsins og í því tilviki leggja tilskipanir ESB ábyrgð á eftirliti með rekstri bankans á gisti-ríkið, en ekki á heima-ríkið.

 

2.  Í gildi er svonefnd »meginregla um gistiríkið«. Sú regla skilgreinir, að þegar um alþjóðlega fyrirtækjasamsteypu er að ræða bera yfirvöld landsins, þar sem meginumsvifin er að finna, sjálfkrafa ábyrgð á eftirlitinu. Alain Lipietz kom þessari reglu inn í umræðuna, með eftirminnilegum hætti.

 

3.  Landsbankinn var með starfsstöðvar (physical presence) í Bretlandi og Hollandi, en af því leiðir að litið var á hann sem innlendan banka. Bankinn var með fullar innistæðu-tryggingar í þessum löndum og eftirlitið var á hendi heimamanna.

 

Nýlega hefur komið fram, að Hollendska þingið hafði samþykkt lög um bankastarfsemi, þar sem litið er svo á að Ísland hafi verið innlimað í Evrópuríkið. Á grundvelli þeirra laga voru Neyðarlögin vanvirt og Hollendsk yfirvöld yfirtóku Landsbankann í Hollandi.  Dómur í þá veru féll 13. október 2008. Fyrr á þessu ári (08. marz 2010) féll aftur úrskurður hjá sama dómstóli, Héraðsrétti í Amsterdam, sem viðurkennir mistök sín og gefur yfirlýsingu um sjálfstæði Íslands og þar af leiðandi þjóðréttarlega stöðu. Neyðarlögin halda því fullkomlega, en Hollendingar munu halda áfram að deila um hver þeirra sé heimskastur.

 

Loftur Altice Þorsteinsson. 


mbl.is Tekist á um Icesave í Hollandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar bíða ennþá eftir yfirlýsingu Alþingis.

Ekki er þolandi að forseti landsins sé settur í þá stöðu að verja hagsmuni Íslendinga, án þess að geta vísað til yfirlýsingar Alþingis um að ríkisábyrgð verði ekki veitt á Icesave-kröfum nýlenduveldanna. Alþingi verður tafarlaust að taka á sig rögg og afgreiða málið svo að sómi sé að.

Kjáninn á BBC spyr:

   »Þú minntist á að ykkur hefði tekist að breiða yfir ágreininginn við Breta
    og Hollendinga vegna hruns Icebank [á við Icesave]. En það er undir þinginu
    komið - er það ekki? - hvort þessar skuldir verði endurgreiddar?«


Hann spyr um »endurgreiðslu á skuldum« og hvort tekist hafi að »breiða yfir ágreining um Icesave«. Hvílíkur hálfviti ! Ólafur Ragnar svarar þessu vel, þegar hann segir:

   »Það er að sjálfsögðu einfaldlega staðreynd að kröfurnar sem Bretar og
    Hollendingar lögðu fram, hvað varðar Ísland árið 2009, að núverandi
    stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa einnig viðurkennt að málið sem þau
    lögðu fyrir Ísland árið 2009 og á fyrri hluta 2010 var í grundvallaratriðum
    ósanngjarnt.« 

Sem betur fer er Ólafur Ragnar Grímsson fastur fyrir og lætur ekki vaða ofan í sig. Hvað dvelur Alþingi að koma til aðstoðar almenningi í Icesave-deilunni og forseta Lýðveldisins ?

Loftur A. Þorsteinsson.


mbl.is Sáu að sér í Icesave-deilunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar Grímsson er maður ársins

  • Forseti Íslands "var svo sannanlega eini embættismaður þjóðarinnar sem stóð vörð um sjálfstæði lands og þjóðar í Icesave-deilunni. Frammistaða hans í erlendum fjölmiðlum var glæsileg og svo árangursrík að það fór ekkert meira í taugarnar á forystufólki ríkisstjórnar Samfylkingar og VG en þegar hann tók málstað þjóðarinnar á erlendu grund. Er ekki eitthvað bogið við það? Er ekki eitthvað bogið við það að þeir, sem báru alla ábyrgð á Svavarssamningnum, ekki einu sinni, heldur tvisvar, skulu ennþá vera að véla um málið eins og ekkert hafi í skorist?
  • Forseti sem stendur með þjóð sinni á erfiðum tímum, þrátt fyrir hótanir úr öllum áttum, hann á heiður skilinn. Hann lengi lifi!"

Þannig ritar Jón Baldur L'Orange í sinni ágætu grein á næstliðnum degi, Herra Ólafur Ragnar Grímsson er maður ársins. Við hvetjum ykkur til að lesa hana í heild!


Tillaga komin fram um hraðvirka lausn á Icesave-málinu

Grein Lofts Altice Þorsteinssonar, verkfræðings og varaformanns Þjóðarheiðurs – samtaka gegn Icesave, á leiðaraopnu Morgunblaðsins í dag, sætir miklum tíðindum. 'Breytt kröfuröð í þrotabú Landsbankans leysir Icesave-deiluna' nefnist hún, brilljant lausn á því máli, getum við sagt, með smá-enskuslettu!

Allir eru hvattir til að lesa þessa grein. Sumt í henni þarf að lesa hægt, til að átta sig á öllu, en leiftrandi er þar margt, réttindi okkar margítrekuð með rökum og síðasti kaflinn, 'Breytt kröfuröð stenst lög og leysir vandann', er glæsilegur og öllum auðskilinn, og við erum þar augljóslega með trompið á hendi, – ef aðeins þingmenn Alþingis, í þetta sinn án flokkadrátta og gagnkvæmra ásakana, bera gæfu til að taka hvatningunni: að gera nokkuð einfalda breytingu á neyðarlögunum, sem leysir jafnvel ráðamenn úr prísund sinna eigin álaga. Niðurstaðan yrði sú, sem Þjóðarheiður og drjúgur meirihluti Íslendinga hefur alltaf talið þá réttu: að við ættum ekkert að borga til hinna erlendu ríkja.

Loftur lýsir hinni hinni nauðsynlegu lagabreytingu í lokakaflanum, ég vísa til hans!

Jón Valur Jensson.


Nýjustu fréttir af forsetanum í tengslum við Icesave-III-frumvarpið

Frétt frá í gærmorgun: "Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, segir í viðtali við Bloomberg-fréttastofuna í dag að ekki sé tímabært að ræða um hvort Icesave fari í þjóðaratkvæði nú. Það sé ákvörðun sem hann muni taka í febrúar. Viðtalið er tekið við forsetann í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, nánar til tekið í Abu Dhabi." – Mbl.is sagði frá.

Forsetinn telur, að Alþingi afgreiði ekki frumvarpið fyrr en í lok janúar eða byrjun febrúar.

  • Í viðtali Marks Barton á sjónvarpsstöð Bloomberg við Ólaf Ragnar hinn 26. nóvember sl. sagði forsetinn að það væri í höndum kjósenda að ákveða hvort greiða ætti skuldbindingarnar. Ef íslenskur almenningur ætti að greiða fyrir gjaldþrot einkabanka þá eigi hann einnig að eiga lokaorðið varðandi greiðslur. (Mbl.is.)

En í Bloomberg-viðtalinu í gær neitaði forsetinn að tjá sig frekar um þessi orð sín og kvað málið "í pólitískum farvegi nú." Þetta sé eitthvað sem hann ræði hvorki við íslenska fjölmiðla né aðra (skv. Mbl.is).

Greinilega fer Ólafur Ragnar varlega í málið, en hann er líka maður til að taka þjóðholla afstöðu og hafna þeim gerræðis-stjórnarháttum, sem að tilefnislausu felast í beinni andstöðu við réttarhyggju Jóns Sigurðssonar forseta og hina fornkveðnu viðmiðun: Með lögum skal land byggja, en með ólögum eyða. 

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Forsetinn tjáir sig um Icesave í Abu Dhabi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband