Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Fróðlegur Ólafur Ragnar Grímsson í viðtali við Loga í Sjón­varpi Sím­ans í gærkvöldi

Ólafur Ragnar afhenti Þjóðskjalasafni 250 kassa af dagbókum... Ólaf­ur ræddi "Ices­a­ve-málið í viðtal­inu og hvernig [nánast] öll Evr­ópa ásamt Banda­ríkj­un­um sner­ist gegn okk­ur vegna máls­ins. Rifjaði hann upp hvernig hann hefði nán­ast einn varið málstað Íslands í fjöl­miðlum er­lend­is."

Hér má gera þá athugasemd, að Færeyingar veittu okkur vel þegna aðstoð með láni sínu, og einnig voru pólsk og rússnesk stjórnvöld fús til hjálpar, en ríkisstjórn Geirs Haarde heldur sein til að þiggja það.

Önnur athugasemd: Loftur Altice Þorsteinsson, verkfræðingur og varaformaður Þjóðarheiðurs, var geysiöflugur að verki við að skrifa í erlenda fjölmiðla um málstað Íslands í Icesave-málinu, auk þess að leita gagna víða í tryggingasjóðum, hjá seðlabönkum og stjórnvöldum og að hafa samráð við fróðustu viðskipta­blaðamenn, hagfræðinga o.fl. sérfræð­inga, en það var síðar en sú fyrsta björgunar­viðleitni sem forsetinn okkar var strax farinn að vinna að á árinu 2008. Loftur var vara­formaður Þjóðar­heiðurs, samtaka gegn Icesave, frá stofnun, í febrúar 2010, og mun mikið af starfi hans erlendis að þessu máli hafa átt sér stað eftir þann tíma, en auðveldara væri um það að fullyrða, ef afar vandaður Moggabloggvefur hans (altice.blog.is) væri enn til staðar, en vinstri­sinnaður forráðamaður Blog.is hjá Árvakri tók þá ótrúlegu ákvörðun að þurrka út gervallan bloggvef Lofts vegna óskylds máls og í raun algerlega að ósekju! --Loftur átti einnig fjölda greina í Morgun­blaðinu um Icesave-málið sem og hér á þessu bloggsetri og á vefnum Samstaða þjóðar.

Áfram segir Ólafur Ragnar frá:

Hann sagðist einnig hafa farið á lokaða fundi með helstu seðlabanka­stjór­um og fjár­málaráðherr­um heims á ár­legri viðskiptaráðstefnu Alþjóðaefna­hags­ráðsins í Dav­os í Sviss þegar Ices­a­ve-málið var í há­marki. Sagði hann það hafa verið mikla prófraun að sitja á móti þeim á klapp­stól­um í lokuðu her­bergi og flytja málsstað Íslands.

Eft­ir einn slík­an fund hafi Dom­in­ique Strauss-Khan, þáver­andi fram­kvæmda­stjóri Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins, komið til hans og sagt að þetta væri allt rétt hjá hon­um. Það væri stórt vanda­mál í stjórn sjóðsins að Evr­ópu­rík­in væru á móti því að hjálpa Íslandi þótt starfs­fólk sjóðsins vildi það." (Mbl.is, feitletr.jvj).

Það var ágætt að þetta kom fram. En þrátt fyrir andstöðu Evrópuríkjanna (sem lesa ber hér sem andstöðu ESB-ríkjanna fyrst og fremst, Noregs þó líka), þá skipti verulegu máli, að ráðamenn Kína tóku ekki sömu afstöðu, heldur beittu sér á sjálfstæðan hátt með Íslandi, eins og forsetinn segir hér í raun frá í fyrsta sinn með ýtarlegum hætti, og er vert að sú frásögn geymist hér á vef Þjóðarheiðurs:

"Kín­verj­ar stóðu með Íslandi gegn of­sókn­um Evr­ópu­ríkja

Ólaf­ur sagði einnig frá því þegar hann skrifaði for­seta Kína bréf og óskaði kurt­eis­lega eft­ir sam­ræðu um ein­hvers kon­ar aðstoð vik­urn­ar eft­ir hrun. Bréfið var af­hent sendi­herra Kína á Bessa­stöðum á laug­ar­dags­kvöldi. Að sögn Ólafs hófu hann og Geir H. Haar­de, þáver­andi for­sæt­is­ráðherra, í kjöl­farið að skrifa bæði for­sæt­is­ráðherra og for­seta Kína bréf vik­um sam­an, sem sendi­herr­ann svaraði svo munn­lega. Þetta hafi leitt til þess að gerður var gjald­eyr­is­skipta­samn­ing­ur á milli seðlabanka ís­lands og seðlabanka Kína. Sagði hann ýmis Evr­ópu­ríki hafa litið upp í kjöl­far heim­sókn­ar seðlabanka­stjóra Kína til lands­ins og hugsað með sér að það væri eins gott að fara að sinna Íslend­ing­um aft­ur.

Þá sagðist hann hafa fengið að heyra það frá seðlabanka­stjór­an­um í heim­sókn sinni til Kína árið 2016, hvernig for­seti Kína hefði gefið þau fyr­ir­mæli að full­trúi Kína í stjórn Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins skyldi ávallt styðja Ísland gegn of­sókn­um Evr­ópu­ríkja.

„Hvort sem mönn­um lík­ar það bet­ur eða eða verr í umræðunni um Kína, þá skal því haldið til haga að þegar Banda­rík­in og öll ríki Evr­ópu voru á móti okk­ur þá voru Kín­verj­ar til­bún­ir, á mjög fágaðan hátt að senda þau skila­boð til um­heims­ins að Ísland skipti máli, án þess að hafa óskað eft­ir neinu í staðinn."

Fleira bitastætt er í þessu viðtali Loga við Ólaf Ragnar og verður bætt við hér síðar. En Ólafur Ragnar hefur einnig tekið þá góðu ákvörðun að láta dagbækur sínar og minnisbækur, sem hann hélt í sinni forsetatíð, renna til Þjóðskjalasafns Íslands, og hér er hann sjálfur höfðinginn:

Ólafur Ragnar afhenti Þjóðskjalasafni 250 kassa af dagbókum til varðveislu.
Ólaf­ur Ragn­ar af­henti Þjóðskjala­safni 250 kassa af dag­bók­um til varðveislu. mbl.is/Golli
 

mbl.is Dagbækur Ólafs varpa ljósi á Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur B. Eggertsson: Mér finnst algert ábyrgðarleysi af stjórnarandstöðunni að þvælast fyrir Icesave-málinu. Það væri feigðarflan að ætla sér aðra tafsama samningalotu ...!

Sjáið hér hvernig maðurinn, sem vill hafa fjárhagslegt forræði borgarinnar, beitti sér þvert gegn þjóðarhag og þjóðarrétti í Icesave-málinu:

"Allar ríkisstjórnir frá hruni hafa metið það svo eina leiðin í Icesave-málinu séu samningar. Allt annað í endurreisninni (aðgangur að erlendu lánsfé og þar með framkvæmdir og fjárfesting), vaxtakjör (og þar með endur­fjár­mögnun allra fyrirtækja) ofl. ofl. hangir á þessu. Mér finnst algert ábyrgðarleysi af stjórnar­andstöðunni að þvælast fyrir málinu. Það væri feigðarflan að ætla sér aðra tafsama samningalotu. Það er margt erfitt og skítt – og það er ekki fyrir fólk sem hræðist óvinsælar ákvarðanir að vinna að því að loka fjárlagahallanum. Það er hins vegar forsenda vaxtalækkunar og ég held að það sé samstaða um að það sé forgangsverkefni. Það er enginn hrifinn af skattahækkunum, frekar en efnhagshruninu sem er ástæða þeirra – eða efnahagsstefnunni sem kom okkur í þessa þröngu stöðu – eða hvað. Frestur á erfiðum ákvörðunum eykur fyrst og fremst vaxtakostnaðinn og mín skoðun er sú að okkar kynslóð verður að hreinsa til – en ekki ýta þessum vanda yfir á börnin okkar. Það er engin tilviljun að allar ríkisstjórnir frá hruni hafa metið það svo eina leiðin í Icesave-málinu séu samningar. Margt í endurreisninni hangir á því að þeir takist, svo sem aðgangur að erlendu lánsfé (og þar með framkvæmdir og fjárfesting), skapleg vaxtakjör (og þar með endurfjármögnun allra fyrirtækja) og þannig mætti áfram telja. Það væri að mínu mati feigðarflan að ætla okkur í aðra tafsama samningalotu fyrir óljósan eða engan ávinning. Valkosturinn við fyrirliggjandi samninga er fyrst og fremst ávísun á tafir og þar með aukinn vaxtakostnað þjóðarbúsins í dag og til framtíðar. Í Icesave, einsog í rústum fjármála ríkisins þarf sterk bein til að hreinsa til – en það er ekki annað í boði ef ekki á að ýta þeim vanda sem sem við stöndum frammi fyrir yfir á börnin okkar." (!!!)

Þetta ritaði Dagur B. Eggertsson, þáverandi varaformaður Samfylking­ar­innar, á vef ungra jafnaðarmanna á Politik.is 18. desember 2009 og kallaði grein sína Úr vörn í sókn á Íslandi (!). Með þessu gekk hann þvert gegn hagsmunum og lagalegum rétti þjóðarinnar í Icesave-málinu, eins og sannaðist með úrskurði EFTA-dómstólsins 28. janúar 2013, þar sem íslenzka ríkið var sýknað af öllum kröfum brezku og hollenzku ríkisstjórnanna í því máli og okkur ekki gert að greiða eitt einasta pund eða evru í málskostnað.

Merkilegt, að tvær gulrætur notaði Dagur til að reyna að véla þjóðina til að kjósa yfir sig Icesave-samningana: að þeir myndu stuðla að lægri vöxtum og "að loka fjárlaga­hallanum"! Hefur þó í 1. lagi hvergi orðið vart við að Dagur borgarstjóri hafi lagzt gegn vaxtaokurstefnu Seðlabankans, bankanna og ríkisstjórna Fimm- og Sjöflokksins, þótt þetta sé meðal helztu ástæðna fyrir húsnæðisvandræðum ungs fólks í borginni. 

Í 2. lagi var Dagur þarna að samþykkja Icesave-samninga Steingríms J. og Jóhönnu, sem fólu m.a. í sér ólöglega vexti skv. EES-jafnræðisreglum vegna brezkra ríkislána til bankakerfisins þar í landi með langtum lægri vöxtum. (Sbr. opna Mbl.grein undirritaðs hér: Ólögmætir vextir á Icesave-kröfum – og allar eignir ríkisins undir?)

Mestu skiptir svo hitt, að okkur bar aldrei nein skylda til að borga Icesave-skuldir hins einkavædda Landsbanka. Allt málið var húmbúkk og einn ranglætis-tilbúningur Breta, Hollendinga og vanhæfra sjórnmálamanna á Alþingi, sem létu fremur teygjast af þrýstingi fyrrnefnda heldur en að hlusta á eigin þjóð og vísra manna ráð og þær grasrótarhreyfingar, sem að endingu og eftir mikla baráttu báru hér sigur úr býtum með stuðningi forseta Íslands, herra Ólafs Ragnars Grímssonar.

Já, það var sama hvert litið var í Samfylkingunni, þar fannst ekki einn réttlátur í Icesave-málinu og sízt hjá forystunni, enda lá henni á að troða okkur í Evrópusambandið. En allir þingmenn hennar nema einn fram að kosningunum 29. okt. 2016 féllu þá með háum hvelli út af þingi.

Enn er þó Dagur B. Eggertsson, fyrrv. varaformaður þar, við stjórnvölinn í Reykjavík. Nú má spyrja: Verðskuldar hann, með ofangreind skrif hans í huga, traustsyfirlýsingu kjósenda í komandi borgarstjórnarkosningum? Þurfum við mann í þjónustu okkar, sem sýndi jafnvel hinum allsendis ranglátu Icesave-II-samningnum slíka trúgirni og opinbera orðaþjónustu?

Jón Valur Jensson. (Eldri grein með sömu fyrirsögn er hér bætt og aukin.)


Matteo Renzi er til fyrirmyndar, ekki eins og Steingrímur J. og Jóhanna!

Forsætisráðherra Ítalíu gerir það sem Jóhanna og Stein­grímur áttu að gera þegar yfir­gnæfandi meiri­hluti hafnaði í tveimur þjóðar­atkvæða­greiðslum hinu stefnu­mark­andi, þjóðhags­lega skelfi­lega Icesave-máli: Þau áttu að segja af sér eins og hann!

Kröfugerð Breta og Hollendinga var ólögvarinn, ólög­mætur átroðn­ingur á okkar þjóð, en þessir ógæfu­sömu leiðtogar, sem laglega hafa tapað sínum trú­verðug­leika í eftir­leiknum, vildu ekki kannast við kall samvizk­unnar og skyldunnar.

Matteo Renzi er greinilega öðruvísi maður, ekki límdur við ráðherrasætið.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Renzi mun segja af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave og Guðni Th. Jóhannesson

"Gjör rétt, þol ei órétt" (Jón Sigurðsson forseti).

Guðni studdi Svavars­samn­inginn svo snemma sem 19. júní 2009, sagði þá í blaðinu Grape­vine: „Það getur verið að okkur líki Icesave-samn­ingurinn illa, en hinn kost­urinn er miklu verri og kannski er þetta það bezta sem við eða einhver annar gæti fengið.“

Hér eru orð Guðna Th. á frummálinu, svo að enginn velkist í vafa um þá van­hugsun sem fólgin var í meðmælum hans með þeim stórháskalega samningi sem m.a. gaf Bretum fullt dómsvald um öll ágreiningsefni um samninginn og um afleiðingar þess að við gætum ekki staðið við hann (þær afleiðingar gátu m.a. verið stórfelld upptaka ríkiseigna); en Guðni talar: „We might not like the Icesave deal, but the alternative is much worse, and maybe this is the best we or anyone else could get.“

Alveg er makalaust að á framboðsvori 2016 hefur okkar sami Guðni bent ásakandi fingri á Ólaf Ragnar Grímsson með þeim orðum að hann hafi skrifað undir Icesave-samninginn síðsumars 2009.

Hver er Guðni að gagnrýna forsetann? Sjálfur var hann gagnrýnis­laus meðmæl­andi upphaflega Svavarssamningsins. Skilmálalaust mælti hann með honum, sagði aðra valkosti "miklu verri"!

En stjórnarandstaðan á Alþingi 2009 sætti sig ekki við þann smánarsamning og vann að því ötullega að skeyta við hann ýtarlegum fyrirvörum sem drógu svo úr gildi hans fyrir Breta og Hollendinga, að þeir urðu alls ófúsir til að meðtaka hann í slíkri mynd; ekki lagaðist málið fyrir þá, þegar forsetinn hnykkti á þessu við undirritun laganna 2. sept. 2009 með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis.

Niðurstaðan er einföld: Svavar Gestsson, Steingrímur J., Jóhanna og Össur flögguðu sínum óbreytta Svavarssamningi við Breta og Hollendinga. Guðni Th. (yfirlýstur femínisti) var þeim sammála á sjálfum hátíðisdegi kvenna 19. júní, með hans orðum: "kannski er þetta það bezta sem við eða einhver annar gæti fengið," um leið og hann tók fram, til að hafa þetta alveg á hreinu, að aðrir kostir væru "miklu verri".

Hefði þetta fólk fengið að ráða, hefðum við aldrei fengið að sjá sýknudóminn sem kveðinn var upp í EFTA-réttinum 28. janúar 2013.

Árvekni Guðna var nánast engin: Í sama Grapevine 19.6. 2009 dró hann upp kolsvarta mynd: "augljóslega, ef Ísland myndi segja, að við ætluðum ekki að samþykkja þetta [Icesave-samninginn], þá myndi það gera okkur nánast eins einangruð og Norður-Kóreu eða Búrma (obviously, if Iceland were going to say, we´re not going to accept this, that would pretty much make us as isolated as countries as North Korea or Myanmar)." Þvílík hrakspá! Þurfum við á slíkri spásagnargáfu að halda á Bessastöðum? 

Hann greiddi Buchheit-samningnum atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl 2011, lýsti því sjálfur yfir og reyndi eftir á að skýla sér á bak við að 40% kjósenda hefðu kosið eins og hann! Ekki líktist hann þá Jóni Sigurðssyni sem vildi "eigi víkja" frá rétti okkar. Leiðtogar eiga að vera leiðandi kjarkmenn sem standa með rétti þjóðar þegar að honum er sótt.

Einnig Buchheit-samningurinn fól í sér samningslega viðurkenningu Jóhönnu­stjórnar á því, að íslenzka ríkið hefði verið í órétti í Icesave-málinu (þvert gegn öllum staðreyndum um lagalega réttarstöðu okkar skv. tilskipun ESB 94/19/EC og innfærslu hennar í ísl. lög nr. 98/1999). En sá samn­ingur væri nú búinn að kosta okkur hartnær 80 milljarða í einbera vexti, óafturkræfa og það í erlendum gjaldeyri.

Einungis atbeini forsetans og höfnun þjóðarinnar á Icesave-lögunum í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum varð okkur til lausnar: því að Bretar og Hollendingar með ESB í liði með sér höfðuðu þá málið gegn Íslandi fyrir EFTA-réttinum og steinlágu á því bragði. Svo hrein var samvizka okkar af því máli, að við fengum fortakslausan sýknudóm og þurftum ekki að borga eitt penný né evrucent og engan málskostnað!

Það er þung byrði fyrir ungan mann að hafa tekið eindregna afstöðu gegn laga­legum rétti þjóðar sinnar og ekki þorað að biðjast afsökunar. Hitt er meira í ætt við fífldirfsku að voga sér samt að sækjast eftir sjálfu forsetaembættinu hjá sömu þjóð nokkrum árum síðar! Því á ég fremur aðra ósk þessum málvini mínum til handa: um frjósöm ár við sífellt betri fræðimennsku og akademísk störf.

Jón Valur Jensson.

Höfundur, formaður Þjóðar­heiðurs, samtaka gegn Icesave, sat í fram­kvæmda­ráði Samstöðu þjóðar gegn Icesave, sem stóð að undirskrifta­söfnun á Kjósum.is með áskorun á forsetann að hafna Buchheit-lögunum.

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu á Jónsmessudag. Höfundur þakkar ritstjórunum birtinguna. Greinin er hér stafrétt eins og hún var send blaðinu og með þeirri mynd, sem send var með henni, en hugsan­lega tóku Frétta­blaðs­menn aðra mynd, eldri, fram yfir þessa af tækni­legum ástæðum.


mbl.is „Enginn glæpur verið framinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumingja Oddnýju brá, þegar Árni Páll sagði sannleikann!

Oddný Harðardóttir veit sem er, að smán­arleg meðferð Icesave-málsins af hálfu hennar flokks varð eins og mylnu­steinn um háls hans í kosning­unum 2013, á sama tíma og málið lyfti Framsóknarflokknum hátt í hug margra og í atkvæða­tölum þá, enda hafði hann einn flokka í heild staðið vakt­ina og tekið loka­áhlaupið með þjóð­inni gegn því sem eftir var af Icesave-samningunum. 70% þingmanna greiddu með sínum afvegaleidda hætti atkvæði með Buchheit-samningnum, illu heilli, en forsetinn studdur þjóð og einum flokki vann þar frækinn sigur, eins og sýndi sig snemma árs 2013 í réttlátum úrskurði EFTA-dómstólsins.

En fyrrverandi ráðherrann Oddný Harðardóttir vissi upp á sig ærna skömmina og "vildi [því] ekki tjá sig efn­is­lega um þau atriði sem Árni [Páll Árnason, formaður hennar] nefn­[di] í bréfi sínu" í gær, þar sem hann eðlilega útlistaði ýmis mistök sem hann kvað hafa verið gerð af hálfu Samfylkingarinnar, en þar var Icesave-málið einna efst á blaði.

Til hamingju, Árni Páll.

Samúðarkveðja, Oddný og þín stöðu hross í flokknum gráa og guggna.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Bréf Árna Páls kom á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gat Buchheit ekki gert betur?

Buchheit er mættur hingað og gerir sig breiðan. En hefði hann ekki getað betur? Í Icesave-málinu lék enginn vafi á, að til óþurftar var hann, vill þó ekki kannast við það! Loftur Altice Þorsteinsson ritaði um nýjustu framgöngu karlsins af skarpari glöggskyggni en maður á að venjast í klappkór Buchheits:

  • Ef kr.900 milljarðar eru 40%, þá eru 60% kr.1350 milljarðar sem er sú upphæð sem ætlunin er að hleypa hrægömmunum með úr landi. Ég hef haldið því fram að hægt sé og eðlilegt að taka alla þessa peninga af hrægömmunum. Ég stend við þau ummæli.
  • Loftur Altice Þorsteinsson.

Og aftur, og hér kemur Icesave-málið við sögu:

  • Hrægammarnir keyptu kröfurnar á þrotabúin á 6% nafnverðs. Lee Buchheit samdi við þá um 60% hlut. Þetta er sami Lee Buchheit og samdi við nýlenduveldin um ólöglegu Icesave-kröfurnar. Bara Svavar Gestsson getur gert aumari samninga en Buchheit!
  • Vandamál Buchheits var ekki að semja við hrægammana, heldur að pakka samningnum inn þannig að almenningur léti blekkjast og héldi að hann hefði gert góðan samning.
  • Buchheit hefur vafalaust lagt sig fram við innpökkunina, enda fær hann 2% umboðslaun hjá hrægömmunum!
  • Við höfum oft heyrt barnalegar hótanir um lögsókn nýlenduvelda og hrægamma. Ekkert er að óttast, ekki frekar en í Icesave-deilunni. Samfylkingar-flokkarnir eru auðvitað logandi hræddir, eins og venjulega.
  • Loftur Altice Þorsteinsson.

Lofti, sem frá upphafi var varaformaður Þjóðarheiðurs og vann geysimikið starf í þágu Íslendinga vegna Icesave-málsins, einkum með bréfaskiptum við erlenda sérfræðinga og stofnanir (eins og viðurkennt var í ráðuneytum, er á leið) og verðskuldar flestum fremur Fálkaorðuna, færi ég þakkir fyrir þessi innlegg í umræðuna.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Buchheit fylgdi ný nálgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færeyingar reyndust okkur bezt í Icesave-atgangi fjandsamlegra ríkja; skömmin er mikil þeirra ráðamanna sem standa ekki með þeim

Pét­ur Sig­ur­g­unn­ars­son er sannur Íslendingur, en hann færði skip­verj­um á Næremberg, færeysku skipi, 70 ham­borg­ara og meðlæti "eft­ir að hafa frétt af því að skip­inu hefði verið neitað um þjón­ustu í ís­lenzk­um höfn­um."

Það er laukrétt hjá Pét­ri að Fær­eyingar voru fyrstir til að hjálpa okkur þegar tvö aflóga nýlenduveldi þrengdu að hag og öryggi íslenzkrar þjóðar frá haustinu 2008.

Reynum að hafa þann manndóm, eins og Pétur, að sýna Færeyingum fulla samstöðu.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is „Skammast mín að vera Íslendingur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegna rangfærslna um seldar Icesave-kröfur

Ótrúlegt er hvað sumir geta verið illa að sér um eitt stærsta deilumál þessarar þjóðar, eða er bara um að ræða yfirklór þeirra sem beittu sér fyrir landráðum í Icesave-deilunni ?

 

Kröfur Bretlands og Hollands á hendur almenningi á Íslandi áttu sér engar lagalegar forsendur og það staðfesti EFTA-dómstóllinn, með hætti sem veitt var eftirtekt um allan heim.

 

Kröfur innistæðueigenda voru á Landsbankann og tryggingasjóðir í Bretlandi og Hollandi keyptu þær kröfur, eins og þeim var skylt samkvæmt lögum og reglugerðum í þessum löndum. Það að tryggingasjóðirnir selja nú þessar kröfur til óþekktra aðila og á óþekktu gengi, hefur ekkert með Icesave-kúgunina að gera.

 

Icesave-deilan snérist því ekki um þessar kröfur sem erlendir aðilar áttu og voru gerðar verðmætar með Neyðarlögunum. Sá hluti Neyðarlaganna, sem veitti þessum kröfum forgang, var settur til að létta byrðum af erlendum bönkum. Byrðum sem voru þó ekki þyngri en svo að ekki þurfti að hækka trygginga-iðgjöldin um eitt Pund eða eina Evru.

 

Til að kóróna Icesave-glæpinn, gerðu nýlenduveldin kröfu á almenning á Íslandi að vextir væru greiddir af hinum löglausu og siðlausu kröfum. Þessi vaxta-krafa væri núna orðin yfir 75 milljarðar króna og stækkar með degi hverjum.

 

http://samstadathjodar.123.is/

 

Stuðningsmenn Icesave-stjórnarinnar ættu að hafa vit á að þegja yfir ódæðisverkum hennar. Jóhanna var auðmýkt aftur og aftur í Icesave-málinu, en komst upp með að brjóta ákvæði Stjórnarskrárinnar með umsókninni um innlimun Íslands í Evrópusambandið. Margir nefna Samfylkinguna landráða-lið og ekki ætla ég að verða til að andmæla því.

 

Loftur Altice Þorsteinsson.



mbl.is Hollenska Icesave-krafan seld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftur hafði rétt fyrir sér - og minnt á sannindi í Icesave-máli

Frétt á Mbl.is staðfestir réttmæti hinna þungvægu áherzlna Lofts Altice Þorsteinssonar verkfræðings á beina lagaskyldu brezka innistæðutrygginga-sjóðsins FSCS að ábyrgjast bankainnistæður þar í landi, líka á íslenzku bönkunum og þar með Icesave-reikningunum ... Nánar H É R !

Það var þá helzt - að við gætum "treyst á Bretland sem bandamann"!

David Lidington, Evrópumálaráðherra Bretlands, virðist gera ráð fyrir því, að óminnishegrinn hafi leikið Íslendinga svo grátt, að við munum ekki ýmsar árásir Breta á lífshagsmuni okkar í meira en öld, þegar hann segir: „Ég vil fullvissa ykkur um að sama hvaða leið þið veljið [að ganga í Evrópusambandið eða standa áfram utan þess], getið þið treyst á Bretland sem bandamann og vin.“ En þessi orð lét hann falla í ræðu sem hann flutti -- greinilega bæði fyrir Bretland og Evrópusambandið -- á opnum umræðufundi í Háskóla Íslands í dag (undirritaður sótti þann fund).

Lidington fjallaði ekki um freklega ásókn Breta í íslenzk fiskimið í byrjun 20. aldar í þessari ræðu sinni, en hefði auðveldlega getað fengið upplýsingar þar um hjá einum í panelumræðu dagsins, Guðna Jóhannessyni sagnfræðingi, sem skrifaði doktorsritgerð sína um landhelgisstríðin.

David Lidington, Evrópuráðherra Bretlands.
  • Ráðherrann lagði áherslu á að Bretland og Ísland ættu samleið í ýmsum málum eins og til dæmis sjávarútvegi. Bæði Íslendingar og Bretar gerðu sér grein fyrir mikilvægi þess að ákvarðanir í þeim efnum væru teknar sem næst þeim sem þær hefðu áhrif á. Þá gerðu Bretar sér grein fyrir því að það skipti Íslendinga máli að tekið væri tillit til sérstöðu þeirra. Bretar hafi fyrir vikið stutt umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið og hvatt sambandið til þess að sýna Íslendingum eins mikinn skilning og hægt væri í samningsafstöðu sinni.
  • „Það þýðir ekki að það þurfi ekki að fara eftir einhverjum reglum en það samrýmist því mati okkar á Evrópusambandinu að þær reglur ættu að þjóna þeim tilgangi að stýra skilvirkum innri markaði en ekki kæfa niður framtaksemi og staðbundna hagsmuni eins og raunin virðist hafa verið til þessa,“ sagði Lidington. Finna þyrfti jafnvægið á milli frekari samruna innan sambandsins og sveigjanleika og þar væru Ísland og Bretland í sama liði.

Það er eitthvað nýtt, að Ísland og Bretland séu "í sama liði" í þessum efnum! Öll okkar langhelgisstríð háðum við við Bretland, sem barðist til dæmis svo harkalega gegn einkarétti okkar á fiskimiðunum innan 50 og 200 mílna, að það sendi hingað vígdreka sína; m.a. tóku 22 brezkar freigátur þátt í síðasta þorskastríðinu 1975-1976, og að minnsta kosti 54 árekstrar áttu sér þá stað við varðskip okkar, eins og lesa má um í bók dr. Guðna Th. Jóhannessonar, Þorskastríðin þrjú, Rvík 2006 (Hafréttarstofnun Íslands).

Eftir fullan sigur okkar yfir gamla heimsveldinu Bretlandi í landhelgismálunum gætti lengi óvildar í okkar garð þar í landi, m.a. í sjávarbyggðum, enda misstu þar margir atvinnuna. Þegar bankakreppan reið yfir og Icesave-málið komst á skrið, mátti víða á brezkum vefsíðum sjá uppblossaða reiði, hefnigirni og heitstrengingar vegna þroskastríðanna, þar sem brezka ljónið varð að hörfa með skottið á milli lappanna.

En Icsave-málið sjálft varð endurnýjað árásartilfelli Breta á hendur okkur. Ekki nægði brezku stjórninni minna en hryðjuverkalög gegn Íslandi, sem komu landinu í mikil vandræði og áttu að verða okkur til áfellisdóms í augum heimsbyggðarinnar, heldur hóf ríkisstjórn Gordons Brown árás á okkur með ólögvörðum milljarðahundraða-fjárkröfum á hendur ríkissjóði Íslands. Alger ósigur Breta í því kröfumáli blasti við, þegar EFTA-dómstóllinn kvað upp sinn dómsúrskurð í febrúar síðastliðnum, en ekki fyrr en brezkum stjórnvöldum hafði tekizt að skekja hér allt samfélagið árum saman með sínum ólögmætu kröfum og þrengt svo að stjórnvöldum hér í krafti þeirrar lögleysu, að hinir aumustu í stjórnmálastétt Íslands létu undan ásókninni. Það var ekki fyrr en eftir frækilegar varnir grasrótarhreyfinga, herra Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta landsins, og öfluga mótspyrnu mikils meirihluta kjósenda, sem stjórnvöld hér fóru að gefa því gaum, að það rétta fyrir þau væri einfaldlega að verjast á grundvelli laganna og byrja a.m.k. á slíkri aðgerð fyrir EFTA-dómstólnum. Niðurstaðan varð einmitt sú sem þjóðhollustu menn og gleggstu á texta laganna höfðu sagt fyrir: að réttur okkar yrði sannaður og varinn í slíku dómsmáli.

En það var svo sannarlega ekki Bretum að þakka og heldur ekki Evrópusambandinu, sem gerðist aðili að dómsmálinu fyrir EFTA-réttinum gegn hagsmunum Íslands!

Þegar þessi Evrópumálaráðherra Breta býður nú Ísland "hjartanlega velkomið" í Evrópusambandið og segir Bretland munu styðja inngöngu lands okkar, þá er í hæsta máta eðlilegt og tímabært, að Íslendingar rifji upp hina gömlu samskiptasögu og hvort við höfum nokkurn tímann getað gengið að stuðningi brezka ríkisins við lífshagsmuni okkar vísum. Dómur sögunnar svíkur engan þrátt fyrir viðleitni erlendra sendimanna. Við getum ennfremur verið viss um, að Bretar hyggja einmitt á að komast yfir að gramsa í íslenzkum fiskistofnum í stórum stíl og bæta sér margfaldlega allt tap sitt af því að glata einokun sinni í eigin landhelgi í Norðursjó við ESB-inngönguna, þ.e.a.s. ef þeim og öðrum miður vinsamlegum tekst að narra okkur inn í Evrópusambandið. (Þetta allra síðasta hér skrifar undirritaður í eigin nafni, ekki Þjóðarheiðurs, sem tekur ekki afstöðu til ESB nema að því leyti sem það hefur beitt sér gegn okkur í Icesave-málinu.)

Jón Valur Jensson.


mbl.is „Getið treyst á Bretland sem bandamann“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband