Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

Afturgenginn Frankenstein: Icesave IV

  • Eftir Daníel Sigurðsson: "Ljóst er að aðeins galdramaður ættaður af Vestfjörðum mun vera í stakk búinn til að kveða þennan draug niður."

mynd 2012/02/23/G87ON70O.jpg 

Því miður virðist Frankenstein í gervi Icesave IV vera á teikniborði ríkisstjórnarinnar og eiga að sjá til þess að ríkisstjórnin fái nokkra uppreist æru eftir hraksmánarlega frammistöðu sína í málinu.
 
Ráðning þeirra tveggja lögmanna (annar breskur!) sem halda eiga uppi vörnum Íslands fyrir EFTA-dómstólnum bendir til að ríkisstjórnin sé staðráðin í að tapa málinu þar.
 

Furðuviðtal á RÚV við annan lögmanninn, Jóhannes Karl Sveinsson, sem sat í samninganefndinni í Icesave-málinu virðist staðfesta þetta (Spegill RÚV 14.12. sl.) Þar segist hann naga sig enn meira í handarbökin út af því en áður að Íslendingar skyldu ekki hafa borið gæfu til að samþykkja Icesave III við Breta og Hollendinga. M.ö.o. lýsir þessi málpípa ríkisstjórnarinnar því yfir að málið sé fyrir fram tapað fyrir EFTA-dómstólnum. Þessi ummæli endurspegla annarlegar hvatir ríkisstjórnarinnar í málinu og eru þeim mun dapurlegri í ljósi þess að með samþykki Icesave III væri þjóðarbúið nú þegar búið að sjá af nær 50 milljarða óafturkræfri vaxtagreiðslu í beinhörðum gjaldeyri í þetta svarthol sem væri aðeins byrjunin.

Eftirfarandi ummæli lögmannsins í viðtalinu, um þá stöðu sem upp kæmi ef dómsmál tapaðist, eru þó sýnu alvarlegri:

„Að mínu mati væri það óðs manns æði að reyna ekki að ná samningum.“

Það liggur sem sé fyrir að ríkisstjórnin ætlar að berjast um á hæl og hnakka fyrir því að málið endi ekki fyrir Hæstarétti Íslands (sem myndi gera uppreistaráform hennar að engu) þó svo fyrir liggi lögfræðiálit virtustu lögspekinga um að yfirgnæfandi líkur séu á að B&H gjörtapi skaðabótamáli þar. Þvert á móti ætlar ríkisstjórnin sér í framhaldinu að grátbiðja bresk og hollensk stjórnvöld um að setjast enn á ný að samningaborði um nýja hrollvekju, Icesave IV.

Ríkisstjórnin mun ekki fella stór tár þó svo hin nýja afturganga, Frankenstein fjórði, yrði enn ógnvænlegri þjóðinni en Frankenstein þriðji sem felldur var í þjóðaratkvæðagreiðslunni sl. vor, enda á þjóðin og forsetinn ekkert betra skilið að mati ríkisstjórnarinnar fyrir að þverskallast gegn vilja hennar í málinu.

Í millitíðinni mun svo ríkisstjórnin auðvitað gera allt sem í hennar valdi stendur til að koma auðsveipum handlangara að á Bessastöðum í vor til að leggja blessun sína yfir hinn nýja uppvakning þegar hann bankar þar á dyr eftir að hafa riðið húsum á Alþingi og knúið þingheim til uppgjafar.

Ljóst er að aðeins galdramaður ættaður af Vestfjörðum mun vera í stakk búinn til að kveða þennan draug niður og þar með þráhyggjuáform ríkisstjórnarinnar að láta þjóðina axla Icesave-klafann. Maður þessi hefur sagt þjóðina hafa lögsöguna í málinu. Hann mun vonandi tryggja að svo verði áfram þar til afturganga þessi hefur endanlega verið kveðin niður.

Því miður virðist martröðin um einbeittan ásetning forystumanna ríkisstjórnarinnar um að koma Icesave-klafanum á þjóðina enn geta orðið að ísköldum veruleika.

Stöndum saman að áskorun til núverandi forseta um að standa áfram vaktina: http://askoruntilforseta.is/

Höfundur er véltæknifræðingur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í fyrradag; endurbirt hér með góðfúslegu leyfi höfundar. 

 


mbl.is „Björguðum Íslandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn hægt að skrifa undir áskorun á forsetann að gefa áfram kost á sér

Á mánudag, 20. febrúar, hefur átak stuðningsmanna Ólafs Ragnars staðið yfir í réttan mánuð. Þetta er það sem Icesave-stefnumenn óttast allra mest: að forsetinn haldi áfram!

Smellið hér á askoruntilforseta.is til að skoða stöðuna (mynd er þar af Ólafi Ragnari og Dorrit forsetafrú) og til að taka þátt í þeim tilmælum til herra Ólafs Ragnars Grímssonar, að hann gefi áfram kost á sér í embættið. Vefsíðan verður opin fram yfir helgina.

Athugið, að þeir, sem ekki eru sjálfir með tölvu, geta hringt í undirritaðan í síma 616-9070 og fengið aðstoð við að skrá nafn sitt á listann. Fjöldi manns, meiri hlutinn tölvulaust fólk, roskið eða aldrað, hefur þegið boð um þessa aðstoð frá því í síðustu viku.

Jón Valur Jensson. 


Undirskriftir stuðningsmanna Ólafs Ragnars Grímssonar nálgast 31.000

Glæsileg hefur þátttakan verið í undirskriftum á vefsíðunni ÁSKORUN TIL FORSETA (askoruntilforseta.is) um að sitjandi forseti þjóðarinnar gefi áfram kost á sér í embættið. Um 30.700 hafa nú skrifað undir eftirfarandi hvatningu til hans:

  • Við undirrituð skorum á þig, herra Ólafur Ragnar Grímsson, að gefa kost á þér til forsetakjörs í sumar. Við treystum þér betur en nokkrum öðrum manni til að standa vörð um hagsmuni fólksins í landinu á þeim erfiðu tímum sem fram undan eru.

Félagar í Þjóðarheiðri – samtökum gegn Icesave – standa í ævarandi þakkarskuld við Ólaf Ragnar. Það sama á við um íslenzka þjóð. Forsetaembættið hefur vegna aðgerða hans borgað sig næstu þúsund árin eða svo vegna fyrra málskots hans á Icesave-ólögum til þjóðarinnar, en samkvæmt þeim væri nú búið að gjalda yfir 120 milljarða króna í óendurkræfa vexti af gerviskuldinni. Þessi fjárhæð hefði valdið hér efnahagslegu fárviðri – stórfelldum niðurskurði, kjararýrnun og fátækt alþýðu.

Hefur þjóðin efni á því að fá óvissu um þessi mál í stað þessa forseta? NEI. Þess vegna sameinast nú menn og konur úr öllum flokkum um að leita eftir því við Ólaf Ragnar Grímsson, að hann haldi áfram að þjóna landi sínu og þjóð.

Við höfum ekki efni á því að sýna neitt andvaraleysi, meðan enn geta vofað yfir okkur smánarsamningar stjórnmálamanna við útlendinga veifandi ranglátum, löglausum kröfum sínum

Það er enn hægt að fara inn á þessa vefsíðu til að styðja ákallið til Ólafs Ragnars. Þeir, sem ekki eru sjálfir með tölvu, geta hringt í undirritaðan í síma 616-9070 og fengið aðstoð við að skrá nafn sitt á listann. Fjöldi manns, meiri hlutinn tölvulaust fólk, roskið og aldrað, hefur þegið boð um þessa aðstoð frá því í síðustu viku, flestir síðan á mánudag. Það er gefandi að hlusta á það fólk og einlægan stuðning þess við okkar framúrskarandi hæfa forseta.

Jón Valur Jensson. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband