Færsluflokkur: Evrópumál

Loftur hafði rétt fyrir sér - og minnt á sannindi í Icesave-máli

Frétt á Mbl.is staðfestir réttmæti hinna þungvægu áherzlna Lofts Altice Þorsteinssonar verkfræðings á beina lagaskyldu brezka innistæðutrygginga-sjóðsins FSCS að ábyrgjast bankainnistæður þar í landi, líka á íslenzku bönkunum og þar með Icesave-reikningunum ... Nánar H É R !

Baldur Þórhallsson telur vinstri flokkana ekki hafa talað (nógu mikið) fyrir Icesave-svikasamningunum!

ESB-innlimunarsinninn (og óbeini ESB-starfsmaðurinn) Baldur Þórhallsson, Jean Monet-prófessor, átti grein í ESB-Fréttablaðinu í gær, tilraun ESB-manns til að endurrita söguna. Hann drepur þar aðeins á Icesave-málið, sem allir vita að átti þátt í hruni vinstri flokkanna í kosningunum, en Baldur er þarna að reyna að skýra afhroð þeirra. Reyndar var Baldur Þórhallsson allan tímann á vitlausa vængnum í Icesave-málinu, þ.e.a.s. á bandi Samfylkingarsvikanna, enda varaþingmaður flokksins. Og svo hefur hann nú, í þessari grein sinni, helzt yfir því að kvarta um Icesave-samninga vinstri flokkanna, að "ekki var einu sinni talað fyrir þeim þegar á reyndi"!!

Icesave-sinnum er fæstum við bjargandi, en sumir þeirra skammast sín þó, og einn þeirra reyndi að draga nokkuð í land með fyrri yfirlýsingar með óbeinni afsökunargrein í sama Fréttablaði (og þó semingi, þegar á leið), Guðmundur Andri Thorsson.

En Baldri er það trúlega um megn, enda virðist hjarta hans slá í takt með Brusselmönnum sem beittu sér harkalega gegn Íslandi í Icesave-málinu rétt eins og í makrílmálinu.

Jón Valur Jensson.


Það var þá helzt - að við gætum "treyst á Bretland sem bandamann"!

David Lidington, Evrópumálaráðherra Bretlands, virðist gera ráð fyrir því, að óminnishegrinn hafi leikið Íslendinga svo grátt, að við munum ekki ýmsar árásir Breta á lífshagsmuni okkar í meira en öld, þegar hann segir: „Ég vil fullvissa ykkur um að sama hvaða leið þið veljið [að ganga í Evrópusambandið eða standa áfram utan þess], getið þið treyst á Bretland sem bandamann og vin.“ En þessi orð lét hann falla í ræðu sem hann flutti -- greinilega bæði fyrir Bretland og Evrópusambandið -- á opnum umræðufundi í Háskóla Íslands í dag (undirritaður sótti þann fund).

Lidington fjallaði ekki um freklega ásókn Breta í íslenzk fiskimið í byrjun 20. aldar í þessari ræðu sinni, en hefði auðveldlega getað fengið upplýsingar þar um hjá einum í panelumræðu dagsins, Guðna Jóhannessyni sagnfræðingi, sem skrifaði doktorsritgerð sína um landhelgisstríðin.

David Lidington, Evrópuráðherra Bretlands.
  • Ráðherrann lagði áherslu á að Bretland og Ísland ættu samleið í ýmsum málum eins og til dæmis sjávarútvegi. Bæði Íslendingar og Bretar gerðu sér grein fyrir mikilvægi þess að ákvarðanir í þeim efnum væru teknar sem næst þeim sem þær hefðu áhrif á. Þá gerðu Bretar sér grein fyrir því að það skipti Íslendinga máli að tekið væri tillit til sérstöðu þeirra. Bretar hafi fyrir vikið stutt umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið og hvatt sambandið til þess að sýna Íslendingum eins mikinn skilning og hægt væri í samningsafstöðu sinni.
  • „Það þýðir ekki að það þurfi ekki að fara eftir einhverjum reglum en það samrýmist því mati okkar á Evrópusambandinu að þær reglur ættu að þjóna þeim tilgangi að stýra skilvirkum innri markaði en ekki kæfa niður framtaksemi og staðbundna hagsmuni eins og raunin virðist hafa verið til þessa,“ sagði Lidington. Finna þyrfti jafnvægið á milli frekari samruna innan sambandsins og sveigjanleika og þar væru Ísland og Bretland í sama liði.

Það er eitthvað nýtt, að Ísland og Bretland séu "í sama liði" í þessum efnum! Öll okkar langhelgisstríð háðum við við Bretland, sem barðist til dæmis svo harkalega gegn einkarétti okkar á fiskimiðunum innan 50 og 200 mílna, að það sendi hingað vígdreka sína; m.a. tóku 22 brezkar freigátur þátt í síðasta þorskastríðinu 1975-1976, og að minnsta kosti 54 árekstrar áttu sér þá stað við varðskip okkar, eins og lesa má um í bók dr. Guðna Th. Jóhannessonar, Þorskastríðin þrjú, Rvík 2006 (Hafréttarstofnun Íslands).

Eftir fullan sigur okkar yfir gamla heimsveldinu Bretlandi í landhelgismálunum gætti lengi óvildar í okkar garð þar í landi, m.a. í sjávarbyggðum, enda misstu þar margir atvinnuna. Þegar bankakreppan reið yfir og Icesave-málið komst á skrið, mátti víða á brezkum vefsíðum sjá uppblossaða reiði, hefnigirni og heitstrengingar vegna þroskastríðanna, þar sem brezka ljónið varð að hörfa með skottið á milli lappanna.

En Icsave-málið sjálft varð endurnýjað árásartilfelli Breta á hendur okkur. Ekki nægði brezku stjórninni minna en hryðjuverkalög gegn Íslandi, sem komu landinu í mikil vandræði og áttu að verða okkur til áfellisdóms í augum heimsbyggðarinnar, heldur hóf ríkisstjórn Gordons Brown árás á okkur með ólögvörðum milljarðahundraða-fjárkröfum á hendur ríkissjóði Íslands. Alger ósigur Breta í því kröfumáli blasti við, þegar EFTA-dómstóllinn kvað upp sinn dómsúrskurð í febrúar síðastliðnum, en ekki fyrr en brezkum stjórnvöldum hafði tekizt að skekja hér allt samfélagið árum saman með sínum ólögmætu kröfum og þrengt svo að stjórnvöldum hér í krafti þeirrar lögleysu, að hinir aumustu í stjórnmálastétt Íslands létu undan ásókninni. Það var ekki fyrr en eftir frækilegar varnir grasrótarhreyfinga, herra Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta landsins, og öfluga mótspyrnu mikils meirihluta kjósenda, sem stjórnvöld hér fóru að gefa því gaum, að það rétta fyrir þau væri einfaldlega að verjast á grundvelli laganna og byrja a.m.k. á slíkri aðgerð fyrir EFTA-dómstólnum. Niðurstaðan varð einmitt sú sem þjóðhollustu menn og gleggstu á texta laganna höfðu sagt fyrir: að réttur okkar yrði sannaður og varinn í slíku dómsmáli.

En það var svo sannarlega ekki Bretum að þakka og heldur ekki Evrópusambandinu, sem gerðist aðili að dómsmálinu fyrir EFTA-réttinum gegn hagsmunum Íslands!

Þegar þessi Evrópumálaráðherra Breta býður nú Ísland "hjartanlega velkomið" í Evrópusambandið og segir Bretland munu styðja inngöngu lands okkar, þá er í hæsta máta eðlilegt og tímabært, að Íslendingar rifji upp hina gömlu samskiptasögu og hvort við höfum nokkurn tímann getað gengið að stuðningi brezka ríkisins við lífshagsmuni okkar vísum. Dómur sögunnar svíkur engan þrátt fyrir viðleitni erlendra sendimanna. Við getum ennfremur verið viss um, að Bretar hyggja einmitt á að komast yfir að gramsa í íslenzkum fiskistofnum í stórum stíl og bæta sér margfaldlega allt tap sitt af því að glata einokun sinni í eigin landhelgi í Norðursjó við ESB-inngönguna, þ.e.a.s. ef þeim og öðrum miður vinsamlegum tekst að narra okkur inn í Evrópusambandið. (Þetta allra síðasta hér skrifar undirritaður í eigin nafni, ekki Þjóðarheiðurs, sem tekur ekki afstöðu til ESB nema að því leyti sem það hefur beitt sér gegn okkur í Icesave-málinu.)

Jón Valur Jensson.


mbl.is „Getið treyst á Bretland sem bandamann“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Angurgapinn Steingrímur J. Sigfússon saknar Svavarssamningsins!

Hann hefði svo gjarnan viljað sjá hann verða að veruleika! Þá gætum við nú 1) enn verið að rífast út af því máli, 2) staðið í margra áratuga níðþungum ofurgreiðslum eins og Fiji-eyþjóðin, 3) verið án þess heilnæma, hjartastyrkjandi dóms fyrir marga, sem EFTA-dómstóllinn kvað upp, þ.e. að ríkissjóður Íslands bæri hér enga skuld (og ætti alls ekkert að borga í málskostnað) og íslenzka þjóðin væri gersamlega saklaus í málinu.

En nei, þetta er alveg kolómögulegt að mati fyrrverandi "hæstvirts" Steingríms Joð. Hann 

  • "ræddi störf sín síðastliðin fjögur ár í útvarpsviðtali í gær og þó að fátt hafi komið á óvart var forvitnilegt að heyra hve langt hann gengur í að verja gjörðir sínar. [...] hann er enn þeirrar skoðunar að farsælt hefði verið að samþykkja fyrsta Icesave-samninginn, Svavars-samninginn svonefnda.
  • Nú vill svo til að ekki gæti legið skýrar fyrir hvílík mistök sá samningur var og hvílík gæfa það var að landsmenn hindruðu að þau mistök yrðu að veruleika.
  • Hvernig má það vera að Steingrímur sé enn að reyna að réttlæta þann óskapnað? Og hvað segir það um trúverðugleikann þegar kemur að réttlætingum hans á öðrum verkum síðustu ríkisstjórnar?"

Þannig var ritað í Staksteinum Morgunblaðsins í gær og ráðherrann með afhroð úr síðustu kosningum á bakinu og tvær dæmandi þjóðaratkvæðagreiðslur réttilega gagnrýndur, ef ekki spottaður.

Samkvæmt Buchheit-samningnum, margfalt léttari en Svavars-samningnum illræmda, værum við frá aprílbyrjun þessa árs búin að borga Bretum og Hollendingum 65 milljarða króna í vaxtakostnað einan saman, og allt það fé væri í 1. lagi í pundum og evrum, sem við eigum ekki til, og í 2. lagi óendurkræft. Svo mætir þessi uppmálaði angurgapi í þáttinn hans Sigurjóns M. Egilssonar til að réttlæta einhver sín verstu afglöp um dagana!

Hann hefði nú kannski átt þangað erindi, ef hann hefði haft vit á því að iðrast gerða sinna.

Jón Valur Jensson. 


Forsetinn um Icesave-hótanir Browns: "the most elaborate high level financial blackmail I have ever witnessed in recent history"

Herra Ólafur Ragnar Grímsson var á málþingi LSE í gær og viðtali á CNN og "skaut föstum skotum að Gordon Brown," forsætisráðherra Bretlands 2007-2010. "Margbrotnustu fjárkúgunarleið" seinni tíma hefði Gordon Brown beitt "í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn," sagði Ólafur.

  • Fór þá kliður um salinn. (Mbl.is).

Og takið eftir þessu (leturbr. hér):

  • Rifjaði Ólafur Ragnar upp að Bretar hefðu stillt málinu þannig upp að ef íslenskur almenningur borgaði ekki Icesave-skuldina myndi samstarfið við AGS vera stöðvað. Sú afstaða Browns hefði verið efnahagslega og lýðræðislega röng og jafnframt lagalega röng, líkt og dómur EFTA-dómstólsins í janúar vitnaði um. Það hefði engu að síður verið afstaða sem allar ríkisstjórnir í ESB studdu á þeim tíma. (Mbl.is í frásögn af fundinum.)

Og lesið þetta:

  • Forsetinn sagðist hafa verið meira en reiður í garð Browns og rifjaði upp beitingu bresku ríkisstjórnarinnar á hryðjuverkalögum gegn Íslendingum. Það hefði valdið íslenskum fyrirtækjum miklum skaða. (Mbl.is.)

 Og hér er góð rúsína í pylsuendanum (sama frétt, leturbr. jvj):

  • Ólafur Ragnar rifjaði því næst upp að Bretar og Hollendingar hefðu notið stuðnings ESB-ríkjanna í Icesave-deilunni. Þar hefði þeim rökum verið teflt fram að ef íslenska ríkið tæki ekki á sig skuldbindingar einkabanka myndi bankakerfið allt hrynja.
  • „Ég fellst ekki á þau rök,“ sagði forsetinn ...

Það er gott að færa þetta allt til bókar hér á vefsíðunni. Herra Ólafur Ragnar á enn og aftur þakkir skildar fyrir að halda uppi háum standard í samskiptum við gamla nýlenduveldið. Hann er þar líka á e.k. heimavelli, þar sem hann stundaði þar sitt framhaldsnám og náði sinni doktorsgráðu.

Ekki hefur heyrzt mikið af garminum Gordon Brown upp á síðkastið. Er hann kannski kominn með lávarðstign að launum fyrir sína illa grunduðu heimsvaldastefnutakta í bankakreppunni? 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Forsetinn hreifst af Sigmundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-innistæðutryggingasjóður fyrir bí ?! - og horft hingað heim!

Mjög er athyglisvert að Angela Merkel kanzlari er farin að leggjast gegn hugmyndum um eitt innistæðutryggingakerfi fyrir allt Evrópusambandið eins og þó hafði verið stefnt á. "Í það minnsta um sinn" virðist hún afhuga slíku nýju kerfi og viðraði þessar áhyggjur sínar í Dresden sumardaginn fyrsta.

  • Fréttaveitan Reuters segir að ástæðan sé ótti ráðamanna í Þýskalandi við það að þýskum skattgreiðendum verði í gegnum slíkt kerfi gert að greiða fyrir mistök banka í öðrum ríkjum innan Evrópusambandsins. (Mbl.is.)

Já, ekki ætlar hún að taka á sína þjóð mistök banka í öðrum löndum, þrátt fyrir meinta samstöðu, jafnrétti og bræðralag "ESB-borgara" í þessu Evrópusambandi!

Hitt gátu þeir í Brussel, útsendarar voldugustu ESB-ríkjanna þar, þrýst á áhrifaðila eins og AGS og gegnum þær á ríkisstjórnir Norðurlanda um að knébeygja litla þjóð í norðri, að hún tæki á sig ólögvarðar kröfur Hollendinga og Breta um greiðslu innistæðna í einkabanka, sem tryggingasjóðir í Bretlandi og Hollandi áttu að bera ábyrgð á, en íslenzka þjóðin enga! Þetta síðastnefnda var endanlega staðfest með EFTA-dómstóls-úrskurðinum í febrúar sl.

Margsinnis hefur verið varað hér við því nýja innistæðutrygginga-kerfi, sem til hefur staðið í ESB að taka upp þar og á EES-svæðinu. En Árni Páll, leiðtogi Samfylkingar, er nú ekki meiri gæfumaður í þessum efnum en svo, að hann hefur agiterað fyrir þessu fyrirbæri! Samt yrði það kerfi stórhættulegt okkur, lágmarksinnistæðu- tryggða upphæðin yrði 100.000 evrur í stað 20.887 evra og gerð ríkistryggð! og greiðsluskyldan höfð með nánast engum fyrirvara!

Frábæra grein er að finna í Mbl. í dag eftir einn af okkar félögum i Þjóðarheiðri – samtökum gegn Icesave, þ.e. Daníel Sigurðsson véltæknifræðing. Greinin kemur inn á ýma hluti, ekki sízt ESB (sjá aths. hér neðar), en hér er til hennar vísað og mönnum bent á að lesa hana vegna þess mikilvæga fróðleiks, sem þar kemur fram um Icesave-málið (og í leiðinni vikið þar að Kúbu-Gylfa Magnússyni).

65 milljarða króna, óafturkræfa, væri búið að borga Bretum og Hollendingum skv. Buchheit-samningnum (ICESAVE III), í beinhörðum, erlendum gjaldeyri, hinn 1. apríl sl., og áfram tikkar teljarinn, meðan þrotabú Landsbankans hefur ekki lokið útgreiðslum sínum. Upphæðin hefði aldrei endurgreiðzt, sama hvað komið hefði út úr þrotabúinu í framhaldi af þessu – svo "glæsilegur" var þessi Buchheit-samningur sem vinstri flokkarnir og tíu þingmenn Sjálfstæðisflokks undir forystu hins "ískalda" Bjarna Ben. báru ábyrgð á að samþykkja í Alþingi!

En í dag getur þjóðin haldið upp á það að hafa völdin, um hálfan sólarhring vegna næstu fjögurra ára, og þá verður bæði horft fram á veg og til baka, meðal annars um þá hluti, sem hér hafa verið ræddir. Sem betur fer höfðum við stjórnarskrána með sinni 26. grein og ábyrgðarfullan forseta, þegar að okkur var sótt með hundraða milljarða króna kröfu Svavarssamningsins og 65 milljarða plús-kröfu Buchheit-samningsins, og sem betur fer tókst að ná breiðri þjóðarsamstöðu, í baráttunni og þjóðaratkvæðagreiðslunum, þótt innri eyðingaröflin sæktu þá að okkur, þau sem fengið hafa áminningu um ábyrgð sína í nýlegum greinum hér á vefsetrinu og munu áfram fá, m.a. Gylfi Magnússon, sem enn heldur uppi vanþekkingar-blekkingum og fær á baukinn hjá Daníel í hans frábæru grein.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vilja ekki eitt innistæðutryggingakerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinaþjóðir? - spurt að gefnu tilefni vegna íhlutunar Elleman-Jensens og Carls Bildt í Icesave-málinu

"Í Icesave-málinu kom í öllu falli vel í ljós hverra vinir Norðurlöndin og ESB voru og gilti þá einu þó að „vinaþjóðirnar“ Bretland og Holland héldu uppi löglausum kröfum á hendur Íslandi sem að auki hefðu sett þjóðina í gjaldþrot hefðu jámenn fengið að ráða." Þannig ritar Arnar Sigurðsson, sem starfar á fjármálamarkaði, í Morgunblaðið í dag. Grein hans er hér: Vinaþjóðir?mm

Þar fjallar hann fyrst og frest um Evrópusambandsmálið og tekur Þorstein Pálsson sérstaklega á teppið vegna skrifa hans í þeim efnum, en hér víkur hann einnig að Icesave-málinu:

  • "Þorsteinn virðist telja að upphefðin komi að utan og telur óþarft að minnast á hlut stórmennisins Carls Bildt í að kúga Íslendinga til undirgefni gagnvart Bretum og Hollendingum. Carl Bildt fór fyrir hópi norrænna vinaþjóða Breta og Hollendinga í ræðu og riti með því að skilyrða lán frá AGS við að Íslendingar undirgengjust löglausar kröfur sinna vinaþjóða. Á sama tíma sagði Uffe Elleman-Jensen að veruleikaskynið virtist hafa yfirgefið Íslendinga og tók undir með varaformanni VG um að forseti þjóðarinnar væri fífl. „Þetta segi ég, sem hef lengi verið Íslandsvinur. Ímyndið ykkur þá hvernig aðrir upplifa þessar aðstæður.“
  • Það er sjálfsagt að eiga í samstarfi við vini sína og gaman þegar erlend fyrirmenni klæðast íslenskum lopapeysum en Icesave-málið sýnir að enginn lítur jafn vel eftir hagsmunum íslensku þjóðarinnar og hún sjálf," segir Arnar í framhaldi af þessu. 

Vel mælt um þetta og fleiri mál hjá honum, sjá Morgunblaðið í dag. En af orðunum hér ofar má sjá, hve freklega langt ýmsir norrænir leiðtogar eins og Elleman-Jensen og Carl Bildt gengu, þegar þeir þjónuðu Bretum og Hollendingum í Icesave-málinu. Og ekki voru þeir hænufeti framar í skilningi á lagalegu réttlæti heldur en Icesave-dindlarnir í íslenzkri stjórnmálastétt og viðskiptalífi eða álitsgjafarnir rugluðu í háskólasamfélaginu og í fjölmiðlum -- sbr. greinar hér á síðunni (efnisyfirlit um NÝJUSTU FÆRSLUR í dálkinum til vinstri, neðar) og væntanlega grein um nýjustu aulayfirlýsingar Gylfa Magnússonar.

Jón Valur Jensson.


Áfram-hópurinn og hans hættulegi blekkingaráróður gekk beint gegn ótvíræðum rétti Íslands

Fáránlegt lið, Áfram-hópurinn (sjá mynd), vildi láta Íslendinga borga Icesave! m.a. Benedikt Jóhannesson í Vísbendingu, aðalspíran í Já Ísland! (ESB-innlimunarsinnafélagi), Heiða Kristín Helgadóttir í "Bjartri framtíð" og Guðm. Gunnarsson fv. form. Rafiðnaðarsambands Íslands. Guðmundur taldi já við Icesave-samningnum "forsendu þess að hægt sé að vinna upp þann kaupmátt sem hefur tapast"!!! Einnig var þarna Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff og framákona í Samtökum verslunar og þjónustu, sem bætti við að "farsæl lausn á Icesave snérist um lífskjör þjóðarinnar á komandi árum," "nauðsynlegt væri að huga að komandi kynslóðum þegar tekin verður ákvörðun um Icesave"!!!

Þá voru þarna Árni Finnsson, formaður "Náttúruverndarsamtaka Íslands", Sveinn Hannesson í Samtökum iðnaðarins og Hörður Torfason söngvari og mótmælandi og leiðandi nýs Austurvallarhóps (pínulítils) sem á að bakka upp stjórnarskrárdrög "stjórnlagaráðs", en Hörður var þó nógu bíræfinn að láta sjá sig á sigurhátíð InDefence-hópsins í Slipphúsinu að kvöldi þess dags þegar EFTA-dómstóllinn úrskurðaði Ísland með öllu saklaust af Icesave-kröfum Breta og Hollendinga! Hann hefur kannski talið sér það óhætt í ljósi þess, að vefsíða Áfram-hópsins hafði verið látin hverfa! (Frh. neðar.)

Áfram hópurinn 24.03.2011

Þetta rammskeikula lið og margir fleiri í hópnum, t.d. Vilhjálmur Þorsteinsson í CCP (einn af mörgum ESB-innlimunarsinnum í stjórnlagaráðinu sáluga) sóttu að sannfæringu Íslendinga, m.a. með frægri heilsíðumynd að endemum: af risahákarli ógnandi því að gleypa hnípna íslenzka fjölskyldu á bátskektu, ef við greiddum ekki icesave skv. Buchheit-samningnum!!!

Icesave hákarlinn 

Nánari upplýsingar um hópinn fáránlega er að finna á þessari vefsíðu félagsskaparins Samstöðu þjóðar. En þar segir Loftur Altice Þorsteinsson m.a.:

  • Skömmu eftir stofnun Áfram-hópsins bárust fréttir af því, að heldstu styrktaraðilar Icesave-vinanna væru Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), Samtök atvinnulífsins (SA) og Samtök iðnaðarins (SI). Sem start-gjald, veittu þessi samtök Áfram-hópnum milljón krónur, hvert fyrir sig. Alls munu styrkir sem Áfram-hópurinn þáði hjá fyrirtækjum og almanna-samtökum hafa numið 20 milljónum króna. Til samanburðar fekk Samstaða þjóðar gegn Icesave um 20 þúsund krónur frá fyrirtækjum og almanna-samtökum.

Það á ekki að þegja um hneisu og ill verk þessa hóps. Samstaða þjóðar á þakkir skildar fyrir að koma upplýsingum sínum á framfæri.

Jón Valur Jensson.


Vel mælt hjá forsetanum um Icsave-mál á OECD-fundi

  • „Þegar EFTA-dómstóllinn úrskurðaði í síðasta mánuði að málsókn Breta, Hollendinga og ESB hefði ekki haft neina lagalega stoð, varð ljóst að til viðbótar við lýðræðislegan vilja þjóðarinnar voru réttlætið og lögin einnig á okkar bandi.“ 

Svo mælti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í lok ræðu sem hann flutti á fundi með sendiherrum aðildarríkja OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, í París í morgun. Eins og segir í frétt á Mbl.is: 

  • Framan af fjallaði ræða forsetans um hagkerfi hreinnar orku og sjálfbærni, en í lok hennar rakti hann Icesave-deiluna.
  • „Þegar hin svokallaða Icesave-deila kom upp, þar sem stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi, studd af stjórnvöldum allra ESB-ríkja og öðrum, kröfðust þess að almennir borgarar á Íslandi; fiskimenn, bændur, kennarar, hjúkrunarfræðingar, myndu taka á sig ábyrgðina vegna hinna föllnu banka með hærri sköttum, þá þurftum við að velja á milli annars vegar fjárhagslegra hagsmuna eins og þeir voru kynntir fyrir okkur af stjórnvöldum í Evrópu og hins vegar lýðræðislegs vilja íslensku þjóðarinnar. Við völdum lýðræðið.“

Hreinar línur og hreinskiptni hjá forsetanum. Þessi leið – og hans eigin gjörðir í takt við þjóðarvilja – burgu okkur frá hneisunni, samvizkubitinu og þjóðarskaðanum, sem hér var stefnt að með undanlátssemi nefbeinslausra stjórnvalda.- 

  • Forsetinn sagði að eftir þjóðaratkvæðagreiðslurnar tvær, þar sem þjóðin hafnaði Icesave-samningunum, hefði efnahagur landsins farið að taka við sér. Þeir sem hefðu ráðið frá atkvæðagreiðslunum, hefðu haft algerlega rangt fyrir sér. (Mbl.is.)

Já, það sýndi sig. Hrakspárnar rættust ekki, hræðsluáróður manna eins og Gylfa Magnússonar, Þórólfs Matthíassonar og ríkisstjórnarráðherra reyndist innantóm lygi. Eigum við svo bara að gleyma því, sem þeir ætluðu sér?

Hugsum þó fyrst og fremst jákvætt, minnumst þeirrar blessunar sem fólst í því að nægur meirihluti þjóðarinnar sýndi fulla einurð í þessari baráttu, lét hvorki kúgast af hótunum útlendinga né blekkjast af innlendri stjórnmálastétt, sem og, að stjórnarskrá okkar varð hér varnarmúr þjóðarinnar gegn þeirri ásókn. Þökk sé þar forseta Íslands, að hann reyndist okkur svo vel, að ekki varð betur gert með neinni þjóð.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Tjáði sig um Icesave-dóminn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alain Lipietz sagði sannleikann um Icesave (jan. 2010)

Engin ábyrgð tilheyrði íslenzka ríkinu vegna Icesave-reikninganna, sagði hann m.a. Brezku og hollenzku ríkisstjórnunum bar að láta Landsbankann tryggja Icesave-reikningana í tryggingasjóðum þeirra landa. Það var einmitt gert í Bretlandi, með fullri vissu, eins og Lofti Þorsteinssyni, varaformanni Þjóðarheiðurs, tókst þá brátt að leiða í ljós. En hér er þetta myndband með Alain Lipietz, þar sem hann sagði Íslendingum sannleikann í málinu í Silfri Egils 10. janúar 2010:

 

Það tók langan tíma og tvær þjóðaratkvæðagreiðslur og loks EFTA-dóm til að fá ráðamenn hér til að verða að sætta sig við sannleikann í málinu: það sakleysi Íslands, sem Lipietz átti ekki í erfiðleikum með að kynna okkur. Hann var, vel að merkja sérfræðingur á þessu sviði. Merkilegt, að Steingrímur og Jóhanna (sem við horfum nú á eftir sem leiðtogum stjórnmálaflokka, flestir með næsta litlum trega) skyldu telja sig bóga til að ganga gegn sérfræðiáliti þessa manns.

Sjá einng hér:

ÍSLENDINGAR SKULDA EKKERT: Alain Lipietz (grein hans, birt hér 3.3. 2011)

Geta má þess, að settur hefur verið inn leitarhnappur og -reitur hér inn á vefsíðuna (LEITA Í ÞESSU BLOGGI), í dálkinum hér til vinstri.

JVJ. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband