Icesave-lögin tryggja fullkomna niðurlægingu Íslands

Ef landsmenn vilja tryggja fullkomna niðurlægingu Íslands, þá skulu þeir endilega samþykkja Icesave-lögin í komandi þjóðaratkvæði. Engin frjáls þjóð hefur nokkru sinni afsalað sér lögsögu sinni, eins og gert er með Icesave-samningunum. Ekki er bara að Icesave-samningarnir sjálfir falli undir breska eða hollenska lögsögu, heldur öll atriði sem málinu tengjast. Afsal íslenskrar lögsögu er að finna í öllum 10 Icesave-samningunum og dæmigert afsalsákvæði hljóðar svona:
  
»Lögsaga og réttarframkvæmd. Þessi samningur og öll atriði, kröfur eða deilur sem rísa kunna vegna hans eða í tengslum við hann, hvort sem um er að ræða samningsbundin atriði eða ósamningsbundin, skulu lúta lögum Bretlands og vera túlkuð samkvæmt lögum Bretlands.« 
 
Engrar undankomu er því auðið frá ránsklóm nýlenduveldanna. Almenningur á Íslandi skal mjólkaður til síðasta blóðdropa og engin grið gefin. Bretland og Holland hafa í margar aldir stundað ránskap um allan heim, en þeim er nýlunda að hitta fyrir þjóð sem er jafn áköf að láta mergsjúga sig. Íslendingar virðist vera nýr kynstofn þræla og hugleysingja.
 
Útlendingar fordæma heigulshátt stjórnvalda
Útlendingar sem ég hef rætt við eru furðu lostnir yfir þeirri stöðu mála, að valdhafar á Íslandi skuli ganga harðar fram í að niðurlægja þjóð sína, en hin gírugu nýlenduveldi. Jafnvel fólk í svörtustu Afríku sem ýmsu er vant lýsir undrun og hikar ekki við að fordæma aðfarir þjóðsvikaranna. Frá Hollandi fékk ég eftirfarandi boð: 
 
»Ég get ekki ímyndað mér að nokkur eðlileg manneskja kjósi að greiða forsendulausar kröfur, sem settar eru fram af gömlum nýlenduveldum eins og Bretlandi og Hollandi. Ef Bretland og Holland hóta að stöðva aðlögunarferlið að ESB, þá eru slíkar hótanir marklausar. Eftir eitt ár verða kröfurnar grafnar og gleymdar. Hafið ekki áhyggjur af ógreiddum Icesave-kröfum. Hafðu frekar áhyggjur, ef Íslendingar undirgangast að greiða Icesave-kröfurnar, vegna þess að þá eruð þið vangefin og við í Evrópu höfum ekki þörf fyrir fleiri hálfvita, nóg er af þeim nú þegar.«  
 
Frjálshuga Íslendingar munu ekki greiða Icesave-kúguninni atkvæði. Sjálfstæði landsins er meira virði en flest annað og þá er persónulegur fjárhagur ekki undanskilinn. Lögsagan er helsta tjáning sjálfstæðisins og hún tekur yfir bæði lög landsins og réttarframkvæmd sem byggir á þeim. Mikilvægi lögsögu landsins er sambærilegt við fullveldi þjóðarinnar, sem einnig ræður úrslitum í Icesave-málinu.  
 
Forsetinn stendur vörð um fullveldisréttinn
Forseti lýðveldisins Ólafur Ragnar Grímsson hefur lengi haft skilning á mikilvægi fullveldisins og vaxandi hluti þjóðarinnar er að öðlast sama skilning. Hugtakið »fullveldi« er stjórnarfarslegt grundvallaratriði. Fullveldi (fullveldi = fullt vald) merkir endanlegt og ótakmarkað vald um málefni landsins. Endanlegt er fullveldið, vegna þess að ákvörðunum fullveldishafans verður ekki vísað til annars aðila. Ótakmarkað er fullveldið, vegna þess að það tekur til allra þátta sem fullveldishafinn ákveður. 
 
Með beitingu 26. greinar Stjórnarskrárinnar er forsetinn að veita almenningi það vald sem fólgið er í fullveldisréttinum. Alþingi hefur brugðist í hverju málinu á fætur öðru, en sem betur fer búum við í lýðveldi, þannig að landsmenn geta stöðvað þá fullkomnu flónsku sem stjórnvöld hafa viðhaft. Í yfirlýsingu forsetans frá 5. janúar 2010, kemur vel fram hverjar staðreyndir málsins eru: 
 

»Hornsteinn stjórnskipunar íslenska lýðveldisins er að þjóðin er æðsti dómari um gildi laga. Stjórnarskráin sem samþykkt var við lýðveldisstofnun 1944 og yfir 90% atkvæðisbærra landsmanna studdu í þjóðaratkvæðagreiðslu felur í sér að það vald sem áður var hjá Alþingi og konungi er fært þjóðinni. Forseta lýðveldisins er svo ætlað að tryggja þjóðinni þann rétt.« 
 
Icesave-draugnum er unnt að bægja burt, ef fullveldisrétturinn er í höndum almennings og hann er notaður til að standa vörð um lögsöguna, mikilvægasta þátt sjálfstæðisins. Forsetinn á miklar þakkir skildar fyrir að sýna festu, byggða á traustum röksemdum. Nú er komið að okkur landsmönnum að mæta á kjörstað og varpa Icesave-draugnum endanlega á dyr.
 

>> Mikilvægi lögsögu landsins er sambærilegt við fullveldi þjóðarinnar, >> sem einnig ræður úrslitum í Icesave-málinu.

 

 

Morgunblaðið

Fimmtudaginn 03. marz, 2011.

Loftur Altice Þorsteinsson


mbl.is Augu umheimsins á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband