Var nokkurt samráð haft við andstæðinga Icesave-III? – og um Helga Áss og Lagastofnun!

Pólitískt skipuð landskjörstjórn, með Ástráð Haraldsson innanborðs, hefur skipað 12 lögfræðinga í 6 kjördæmi sem umboðsmenn fyrir báða hópa kjósenda, þá sem ætla að segja já eða nei. Þetta þykir kannski henta í stjórnkerfinu, en hefði ekki verið rétt að hafa samráð við hin fjögur samtök andstæðinga Icesave um skipan fulltrúa andstæðinga ólaganna? Þau samtök eru, í aldursröð:

  1. InDefence
  2. Þjóðarheiður – samtök gegn Icesave,
  3. Samstaða þjóðar gegn Icesave (Kjósum.is),
  4. AdvIce

Hinir tilskipuðu lögfræðingar eru eftirfarandi: 

Norðausturkjördæmi:   Já: Arnbjörg Sigurðardóttir, hdl.  Nei: Ingvar Þóroddsson, hdl. – Norðvesturkjördæmi:   Já: Pétur Kristinsson, hdl.  Nei: Ingi Tryggvason, hdl. – Suðurkjördæmi:   Já: Andrés Valdimarsson, hrl.  Nei:  Sigurður Jónsson, hrl.  – Reykjavíkurkjördæmi norður:   Já: Ásdís J. Rafnar, hrl.  Nei:  Hulda Rós Rúriksdóttir, hrl. – Reykjavíkurkjördæmi suður:  Já: Inga Björg Hjaltadóttir, hdl.  Nei:  Björn Jóhannesson, hdl. – Suðvesturkjördæmi:   Já: Eva Margrét Ævarsdóttir, hdl.  Nei: Hjördís E. Harðardóttir, hrl.

Hér var í gær birtur pistill: Tímabær yfirlýsing Samstöðu – aðhald að Lagastofnun HÍ, þar sem Helgi Áss Grétarsson kom við sögu – maður sem mælt hefur með bæði Icesave-I og Icesave-III. Hann ritaði grein í Fréttablaðið 14. nóv. 2008 undir heitinu 'Hver er ábyrgð ríkisins?' og segist þar reifa "öndverð sjónarmið" við það, sem "hefur verið haldið fram af virtum lögfræðingum (sjá m.a. grein Stefáns Más Stefánssonar og Lárusar Blöndals í Morgunblaðinu 15. október 2008) að íslenska ríkinu beri ekki lagalegar skyldur til að greiða kröfur breskra og hollenskra yfirvalda vegna hagsmuna innlánseigenda í Icesave-reikningum Landsbanka Íslands hf."

Það er athyglisvert, að Helgi Áss, sem þarna er kynntur sem "sérfræðingur við Lagastofnun við Háskóla Íslands", hefur þar einn milliþátt, 'Jafnræðislögin', þar sem ekkert er minnzt á hin sterku gagnrök Stefáns Más og Lárusar í málinu, þess efnis að hér hafi ekki verið brotin nein jafnræðisákvæði um mismunun á grundvelli þjóðernis. Helgi Áss tíundar aðeins það sem hann kallar sínar "augljós[u] spurningar hvort það sé í samræmi við lagaleg jafnræðisrök að íslenska ríkisvaldið grípi til róttækra aðgerða til að bjarga hagsmunum innlánseigenda í útibúum bankans á Íslandi en ekki í útibúum bankans í öðrum ríkjum innan EES- svæðisins."

Ennfremur er hann í þessari Fréttablaðs-grein sinni með þær langsóttu fullyrðingar, að 90% af innlánum í bankakerfinu hefðu þurft að vera til staðar í innlánstryggingakerfinu (þ.e. i Tryggingasjóði innstæðueigenda, TIF), en "samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 98/1999 skal heildareign innstæðudeildar íslenska innlánatryggingakerfisins nema að lágmarki 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á næstliðnu ári." – Þetta setur hann fram með þeim einfeldnings- eða einfaldaða hætti að nefna það ekki aukateknu orði, að þetta var nákvæmlega í samræmi við tilskipun ESB, 94/19/EC, um þetta sama!

Þar að auki ber að minna á þetta: "ESB segir ESA hafa reglulega staðfest ágæti regluverks Íslands" um tryggingasjóð innistæðueigenda.

Ennfremur hefur oft verið minnt á þá staðreynd, að ef TIF ætti að vera með nánast fullan sjóð til að tryggja megnið af bankainnistæðum, þá þyrfti iðgjaldið að vera svo margfaldlega umfram það, sem ESB-tilskipunin kveður á um, að bankarnir ættu þá harla lítið sem ekki neitt eftir til útlána sinna og til að standa undir vaxtagreiðslum innlána, rekstrarkostnaði sínum og væntanlega arði!  (Frh. neðar!)

Helgi Áss Grétarsson, lögmaður, Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir, kynna Icesave-samninginn.  Helgi Áss var myndaður í lykilhlutverki með Steingrími og Jóhönnu við kynningu á Svavarssamningnum (myndartextinn var: "Helgi Áss Grétarsson, lögmaður, Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir, kynna Icesave-samninginn."). Í textanum hér fyrir ofan kemur fram, að jafnvel haustið 2008 var hann farinn að mæla með Icesave-greiðslu-málflutningnum. Og nú er hann farinn að mæla með Icesave-III-samningnum!

Ekki hefur þó frétzt af því, að hann, sóma síns vegna, ætli að sitja hjá í Lagastofnun, þegar kemur að gerð hlutlauss kynningarefnis fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 9. apríl !

Krafan á að vera: Enga hlutdræga menn í gerð þess kynningarefnis til almennings! 

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Fulltrúar já og nei kjósenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jón Valur, þessi útekt á stórfelldum þjóðsvikum ríkisstjórnarinnar er mjög góð og tímabær. Ég bendi á að greinin þeirra Stefáns og Lárusar er hægt að finna hér:

http://www.zimbio.com/Icesave/articles/Bo26ZzLOz8P/Stef+n+r+og+L+rus+Bl+ndal+byrg+r+kisins+innl

Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 23.3.2011 kl. 14:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband