Yfirlýsing Þjóðarheiðurs – eða: sjaldan er góð vísa of oft kveðin

Stjórn Þjóðarheiðurs – samtaka gegn Icesave samþykkti eftirfarandi yfirlýsingu vegna Icesave-III-frumvarpsins og sendi hana fjárlaganefnd, öðrum alþingismönnum og öllum helztu fjölmiðlum til birtingar, en tregir voru þeir að birta hana!

 

 

 

 

YFIRLÝSING: Þjóðarheiður – samtök gegn Icesave 

hvetur til samstöðu Íslendinga gegn Icesave-kröfunum.

 

Fulltrúar erlends valds og framandi hugmyndafræði hafa hreiðrað um sig í óðali Jóns Sigurðssonar. Þrátt fyrir að Íslendingar hafi með eftirminnilegum hætti hafnað forsendulausum kröfum hinna gamalgrónu nýlenduvelda Bretlands og Hollands, er ríkisstjórn landsins ennþá að störfum fyrir hið erlenda vald. Velferðarstjórnin er enn á ný búin að gera samning um Icesave-kröfurnar, sem almenningur hafnaði í þjóðaratkvæðinu 6. marz 2010. Velferðarstjórnin, sem við ófá tækifæri hyllir framandi hugmyndafræði, hefur í þriðja skipti á sex mánuðum gert samning um að almenningur á Íslandi taki á sig forsendulausar drápsklyfjar.


Atlaga ríkisstjórnarinnar að hagsmunum Íslendinga er svo umfangsmikil og harkaleg að lengi mun höfð í minnum. Þjóðarheiður krefst þess að framganga núverandi ríkisstjórnar í Icesave-málinu sæti opinberri rannsókn og ráðherrarnir hljóti dóma fyrir Landsdómi eða almennum dómstólum. Fyrir alla framtíð verður að hindra að valdstjórnin láti sér detta í hug að ganga erinda erlendra hagsmunaaðila. Ströngustu refsingar að lögum verður að krefjast yfir þeim mönnum sem haft hafa forgöngu um Icesave-kúgunina.


Þjóðarheiður -- samtök gegn Icesave hefur frá upphafi Icesave-deilunnar barist gegn tilraunum valdstjórnarinnar að koma ólöglegum skuldahlekkjum á almenning í þessu landi. Allir réttsýnir menn skilja að Icesave-kröfurnar eru án lagalegra forsendna. Icesave-kröfurnar eru efnahagslegur hernaður af verstu tegund. Hin gamalgrónu nýlenduveldi eru að sýna smáþjóð mátt sinn. Þjóðarheiður -- samtök gegn Icesave skorar á alla Íslendinga að samfylkja liði gegn nýlenduveldunum gömlu og innlendum þjónum þeirra.


Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, hefur sannað að fullveldi þjóðarinnar er í höndum hennar sjálfrar og hann kom í veg fyrir að Ísland yrði gert að skattlandi tveggja gamalgróinna nýlenduvelda. Með þjóðaratkvæðinu 6. marz 2010 var stjórnarskrá lýðveldisins heiðruð. Staðfest hefur verið að stjórnarfar á Íslandi er lýðveldi og ólýðræðislegu þingræði hefur endanlega verið hafnað. Lýðræði byggir á þeirri forsendu að ótakmarkað og endanlegt vald í samfélaginu er í höndum lýðsins -- alþýðunnar í landinu. Lýðræðið mun ekki verða látið af hendi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Nei, lýðræðið og réttur þjóðarinnar verður ekki látinn af hendi.

Hafið mikla þökk Þjóðverðir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.2.2011 kl. 09:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband