Bæði Bretastjórn og Icesave-stjórnvöld okkar plottuðu um að svipta okkur þjóðar­atkvæða­greiðslunni skv. bandarísku leyniskjali!

Þetta var að gerast um viku eftir synjun forsetans. Sam Watson, æðstráðandi í bandaríska sendiráðinu, fjallar um þetta í leyniskjali eftir við­ræður hans við brezka sendi­herrann hérlendis og fulltrúa stjórnvalda hér, m.a. Kristján Guy Burgess. Svo sagði Kristinn Hrafnsson frá rétt áðan í Speglinum á Rúv! Og þar kennir margra merkilegra grasa, svo sannarlega!

Samsæri Bretanna var sér á báti. Þeir vildu fá Norðmenn til að lána Íslendingum fyrir Icesave-gerviskuldinni, þá gætu allir lýst yfir sigri, Bretar og Hollendingar fengju sitt og Íslendingar sæmilega hagstætt lán í Noregi. Sem betur fer varð ekkert af þessu!

Annað stórt atriði í þessari frétt var, að íslenzk stjórnvöld leituðu til Banda­ríkja­manna og nánast sárbændu þá um að liðsinna okkur í deilunni, en þeir svöruðu, að þeir væru hlutlausir. Þá sögðu þeir Kristján Guy, að það gæti enginn verið hlutlaus í þessu máli, þar sem um ofbeldiseinelti væri að ræða

Jón Valur Jensson. 

Fylgiskjal:

Leyniskjal úr sendiráði Bandaríkjanna 18. febr. 2010 | 7:00 pm Ríkisútvarpið vefur
  • Inngangur:  Breski sendiherrann tjáði bandarískum starfsbróður sínum fyrir mánuði að bresk stjórnvöld gætu fallist á leiðir sem kæmu í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave.
  • Þetta kemur fram í leyniskjali úr bandaríska sendiráðinu sem fréttastofa hefur undir höndum. Það fjallar meðal annars um beiðni íslenskra stjórnvalda til Bandaríkjamanna um stuðning.
  • Breski sendiherrann á Íslandi reyndi fyrir mánuði að fá Norðmenn til að axla ábyrgð á Icesave-skuldinni. Þetta kom fram í viðræðum breska sendi­herr­ans við starfsbróður sinn í bandaríska sendiráðinu sem aftur gerði grein fyrir þessu í leynilegu minnisblaði sem sent var til Bandaríkjanna.
  • Þetta minnisblað ritaði Sam Watson, sem veitir bandaríska sendiráðinu forstöðu um þessar mundir þar sem Bandaríkjamenn hafa enn ekki skipað sendiherra á Íslandi. Minnisblaðið er merkt trúnaðarmál og á ekki að koma fyrir almenningssjónir. Það er dagsett 13. janúar, viku eftir að forsetinn neitaði að staðfesta Icesave-lögin og vísaði þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu.
  • Sam Watson greinir frá fundum sem hann á með fulltrúum íslenskra stjórnvalda um Icesave-málin og með Ian Whiting, sendiherra Bretlands á Íslandi. Fram kemur í endursögn af fundum þeirra að breski sendiherrann segi að eigin stjórn gæti verið reiðubúin til að skoða kosti sem yrðu til þess að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Whiting greindi Sam Watson frá því að hann væri að kanna lausn deilunnar sem fælist í að Norðmenn myndu veita lán til Íslendinga fyrir allri Icesave skuldinni; í raun axla ábyrgðina á henni. Norðmenn myndu svo semja við Íslendinga um endurgreiðslur. Breski sendiherrann taldi að með þessu gætu báðir deiluaðilar lýst yfir sigri; Bretar og Hollendingar fengju peningana sína og Íslendingar gætu greitt skuldir sínar á hagstæðari kjörum. Breski sendiherrann tjáði bandarískum starfsbróður sínum að hann myndi ræða þessa leið sama dag við Margit Fredrikke Tveiten, sendiherra Noregs.
  • Í þessu leynilega minnisblaði er einnig greint frá fundum sem bandaríski sendi­erindrekinn átti með Einari Gunnarssyni, ráðuneytisstjóra í utanríkis­ráðuneytinu og Kristjáni Guy Burgess, aðstoðarmanni utanríkis­ráðherra. Greinir hann frá því að þeir Einar og Kristján hafi lýst efnahagslegum hörmungum ef Icesave málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu og yrði fellt. Hafi þeir lagt ofuráherslu á að Banda­ríkja­menn myndu styðja Íslendinga opinberlega í málinu. Þegar því var hafnað og bent á að Banda­ríkja­menn væru hlutlausir í málinu svörðu þeir því til að hlutleysi væri ekki valkostur; það jafngilti því að fylgjast með einelti ofbeldis­hrotta án þess að grípa inn í. Þriðji fundurinn sem fjallað er um er með Bandaríska sendi­fulltrúanum og Hjálmari Hannessyni, sendiherrar Íslands í Bandaríkjunum. Hjálmar skóf ekkert af því og trúði Watson fyrir því að stjórnarkreppa yrði á Íslandi ef þjóðin felldi Icesave í þjóðar­atkvæða­greiðslu. Höfnun í þjóðar­atkvæða­greiðslu þýddi vantraust á ríkis­stjórnina og með því hefði forsetanum, sem ætti að vera ópólitískur, tekist að fella lýðkjörna ríkisstjórn. Hjálmar sagðist þekkja Ólaf Ragnar vel og sagði að hann væri óút­reikn­an­legur. Fréttastofa [Rúv] fékk þetta skjal fyrir milligöngu Wikileaks sem birtir það á vef sínum innan skamms.
  • Textavarp Textavarpssíða:  104 Texti fyrir Textavarp:  Breski sendiherrann á Íslandi reyndi fyrir mánuði að fá Norðmenn til að axla ábyrgð á Icesave-skuldinni. Þetta kom fram í viðræðum breska sendiherrans við starfsbróður sinn í bandaríska sendiráðinu sem aftur gerði grein fyrir þessu í leynilegu minnisblaði sem sent var til Bandaríkjanna. Þetta minnisblað ritaði Sam Watson, sem veitir bandaríska sendiráðinu forstöðu um þessar mundir þar sem Bandaríkjamenn hafa enn ekki skipað sendiherra á Íslandi. Minnisblaðið er merkt trúnaðarmál. Nánar á ruv.is 

Áður birt á krist.blog.is 18. febrúar 2010. Þetta á sannarlega heima hér ásamt fleiri sögulegum heimildum.


Bloggfærslur 13. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband