Stórmerk grein Gunnars Tómassonar hagfræðings í Mbl. í dag sýnir forsenduleysi fyrir fullyrðingum ESA í Icesave-máli

ESA stefndi íslenzkum stjórnvöldum fyrir EFTA-dómstólinn vegna meints brots á tilskipun Esb. um innstæðutryggingar, en ... 

  • "Það er mat undirritaðs að ákæra ESA stangist á við ákvæði tilskipunarinnar og sé liður í áframhaldandi þvingunaraðgerðum gegn Íslandi utan laga og réttar,"

segir hagfræðingurinn meðal annars í ýtarlegri, afar vel rökstuddri grein. Einnig síðar, í ályktun byggðri á góðri rökfærslu:

  • "Það skortir öll efnisrök fyrir fullyrðingu ESA að Ísland hafi vikist undan skuldbindingum sínum í sambandi við uppgjör Icesave-innstæðna."

Gunnar vekur í seinni hluta greinar sinnar athygli á því, að dagsetning á viðbrögðum Fjármálaeftirlitsins við hruni Landsbankans "skiptir höfuðmáli þar sem greiðsluskylda íslenzka innstæðutryggingarsjóðsins samkvæmt Directive 94/19/EC miðast við dagsetningu álits FME," og á þessu formlega atriði falla kröfur brezku og hollenzku ríkissjóðanna og afstaða ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) eins og spilaborg. Þetta er afar spennandi nálgun á málið, og á höfundur miklar þakkir skildar fyrir þessi skrif.

Í blálok greinar sinnar ritar hann:

  • "Sá vefur ósanninda sem rakinn er í 1-5 hér að ofan bendir eindregið til þess að yfirstjórn ESA hefur verið sér meðvitandi um eigin rangtúlkanir á tímasetningu atvika og ákvæðum Directive 94/19/EC. Ákæra ESA fyrir EFTA-dómstólnum væri því lokaþáttur þvingunaraðgerða Evrópustofnananna ..."

Hér er þessi grein Gunnars Tómassonar í heild: Ákæra ESA fyrir EFTA dómstólnum. Fáið ykkur þetta blað, ef þið fáið það ekki sem áskrifendur!

Jón Valur Jensson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Gunnar segir í raun í þessari grein aðeins það sama og við höfum lengi reynt að benda fólki á: það er ekki um að ræða að neinn innstæðueigandi hafi verið skilinn eftir úti í kuldanum. Þeir fengu allt greitt út miklu fyrr en efni stóðu til vegna frumhlaups Breta og Hollendinga. Með slíkum inngripum í skilameðferð fallandi fjármálafyrirtækis og beitingu hryðjuverkalaga, brutu þeir hinsvegar líklega flestar tilskipanir um fjármálastarfsemi og frjálst flæði fjármagnsviðskipta innan EES. Eftirleikurinn hefur aðeins þjónað þeim tilgangi að hylma yfir ábyrgð Breta og Hollendinga í málinu. Þeir hafa enga hagsmuni af því að dómur falli sem gefur fordæmi um hvort skuli vera ríkisábyrgð eða ekki, því þeir vilja geta ákveðið sem fyrr eftir geðþótta hver lifir og hver deyr, og það á líka við um bankarekstur. City of London mun ekki fórna því vegna einhvers tilstands á Íslandi.

Guðmundur Ásgeirsson, 30.1.2012 kl. 10:00

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Guðmundur, þú verður að lesa greinina betur, sýnist mér. Gunnar er þarna með mjög mikilvæg lagatæknileg atriði, sem ég hygg að muni sem slík og jafnvel ein sér fella þessa stefnu ESA. Segi þetta með fullri virðingu fyrir pósitívu punktunum í þínu máli.

Jón Valur Jensson, 30.1.2012 kl. 11:53

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Meðsekir dæma og innheimta ólöglegar skuldir! Það getur ekki verið löglegt í hinu "fullkomna og óspillta" EES-ESB? Eða hvað? Hvað segir hlutlausa ESB-upplýsinga-skrifstofan nýstofnaða í Reykjavík? Það verður fróðlegt að bera saman upplýsingarnar þaðan, og frá Gunnari Tómassyni.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 31.1.2012 kl. 00:36

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er alveg rétt Jón Valur, að þetta eru mjög mikilvæg lagatæknileg atriði sem Gunnar bendir á, og sem ég hafði sjálfur áttað mig á snemma. Það er gott að hann skuli halda þessu sjónarmiði á lofti, að samkvæmt pappírum stofnaðist líklega aldrei formleg greiðsluskylda TIF. Það sem það þýðir er að alveg sama hvernig reynt yrði að snúa þessu fyrir dómstólum, krafa Breta og Hollendinga á TIF er einfaldlega ekki til staðar. Eftir stendur réttmæt krafa FSCS og DNB á þrotabú LBI, en þetta eru ekki venjulegir viðskiptavinir heldur fagfjárfestar í skilningi laganna og falla þar með ekki undir innstæðutryggingu. Enn gildir að engin krafa hefur skapast á TIF.

Sé þetta réttur skilningur má draga tvær mikilvægar ályktanir:

  1. Aldrei hefur og mun ekki að óbreyttu reyna á útgreiðslu TIF í bráð.
  2. Enginn viðskiptavinur íslensks banka hefur tapað tryggðri innstæðu. 

Gangi þeim vel að færa rök fyrir því að brot hafi verið framið. Að fylgjast með tilraunum til þess verður sjálfsagt hin besta afþreying.

Guðmundur Ásgeirsson, 31.1.2012 kl. 02:48

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hafðu heilar þakkir fyrir þetta skýra og gagnlega innlegg þitt, Guðmundur, það er mjög upplýsandi fyrir allt þetta mál á sinn hátt, og ég mundi vilja með þínu leyfi fá að vitna í það í erindi mínu í Útvarpi Sögu í dag.

Jón Valur Jensson, 31.1.2012 kl. 11:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband