Steingrímur vanmetur tjón af hryðjuverkalögunum ekki síður en mikla vexti sem "hefðu hlaðist upp" vegna Icesave

Kostnaður Íslands væri "þegar orðinn um 40 milljarðar króna," "hefði síðasti Icesave-samningur verið samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu og ríkisábyrgð verið veitt á greiðslum Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta (TIF) á greiðslum til ríkissjóða Bretlands og Hollands," segir Þórður Gunnarsson viðskiptablaðamaður í fróðlegri grein í viðskiptablaði Morgunblaðsins sl. fimmtudag, 15. september.

Hann segir þar einnig:

  • "Samkvæmt samningum átti að greiða Bretum og Hollendingum 26 milljarða strax eftir veitingu ríkisábyrgðar, vegna tímabilsins frá gjaldþroti Landsbankans og fram að árslokum 2010 (þar af hefðu 20 milljarðar komið frá TIF).
  • Áfallnir vextir 1,75 milljarðar á mánuði
  • Þar sem útgreiðslur hafa ekki hafist úr þrotabúi Landsbankans, hefðu talsverðar vextir fallið til vegna þessa. Miðað við núverandi gengisskráningu Seðlabanka Íslands nema áfallnir vextir, samkvæmt Icesave-samningi númer III, um 1,75 milljörðum króna á mánuði. Á fyrstu átta mánuðum ársins hefðu því áfallnir vextir numið um 14 milljörðum króna, sem ríkissjóður Íslands hefði þurft að standa undir."

Miðað við kostnaðaráætlun um byggingu nýs gæzluvarðhalds- og öryggisfangelsis á Hólmsheiði, upp á 2,1 milljarð króna (sjá hér) – fé sem ríkissjóður hefur ekki ráð á að reiða fram á byggingartímanum og verður því að fela verkið einkaaðilum og leigja síðan byggingarnar af þeim – þá nema þessar vaxtagreiðslur, sem verið hefðu, ef Icesave-III hefði verið samþykkt, á hverjum 36 dögum jafngildi heils slíks fangelsis fullbúins! – og það mánuð eftir mánuð og ár eftir ár!

Og vissi Steingrímur ekki hitt, að þessir vextir væru ÓAFTURKRÆFIR, þó að meira en nóg myndi reynast vera í eignasafni Landsbankans?! Þar myndi aldrei reynast svo mikið fé, að allar kröfur fengjust greiddar og sízt vextir, enda komast þeir ekki nálægt því að teljast forgangskröfur.

En lítum aftur á grein Þórðar:

  • Matið breytist með hverri fréttatilkynningu
  • Þegar Icesave-samningurinn var kynntur í desember miðuðust kostnaðarforsendur við að útgreiðslur hæfust í júní á þessu ári. Uppfært mat sem samninganefndin kynnti í mars gerði ráð fyrir því að útgreiðslur hæfust í ágúst á þessu ári. Í nýjustu frétt fjármálaráðuneytisins af þrotabúi Landsbankans segir loks að vonir séu bundnar við að útgreiðslur hefjist seint á þessu ári. Mat stjórnvalda á því hvenær útgreiðslur úr búinu hefur því breyst með hverri fréttatilkynningu, en ekki er útséð með hvenær greiðslur hefjast.

Öll hefði þessi frestun útgreiðslna úr búinu leitt til meiri kostnaðar vegna Icesave-III-samningsins heldur en ráðuneytið og matsaðilar höfðu reiknað með.

Bætum nú við smá-upprifun ofangreinds með því að skoða undirfyrirsagnir greinar Þórðar (sem sjálf nefnist Vextir hefðu hlaðist upp):

• Áætlanir gerðu ráð fyrir að útgreiðslur úr búi Landsbankans hæfust í júní • Útgreiðslur ekki hafnar • Hefði síðasti Icesave-samningur verið samþykktur væri kostnaður Íslands orðinn 40 milljarðar króna 

Þjóðin og forsetinn reyndust velja rétt, en Steingrími skjátlaðist enn einu sinni. Samt fór hann fram með rakalausar fullyrðingar í öndverðum þessum mánuði (sjá þessa grein HÉR) og barði sér á brjóst, því að betur hefðu (að hans mati) Íslendingar samþykkt Icesave-III!! Þetta varð reyndar upphaf mikilla yfilýsinga, orðahnippinga og árekstra milli forsetans og ýmissa ráðherra, eins og allir vita, því að herra Ólafur Ragnar lét það ekki viðgangast, að með þessum hætti væri staðreyndum umsnúið og ráðizt um leið á ákvörðun hans og þjóðarinnar í vetur (sbr. hér: Ólafur Ragnar: Rannsaka á hvernig ríki ESB gátu stutt kröfur Breta og Hollendinga, sem hann segir fáránlegar).

Mál þetta mun seint fjara út. Ráðherrar og flokkar hafa enn ekki bitið úr nálinni með það. 

Ný sýndarmennsku-yfirlýsing?

En nú hefur Steingrímur enn á ný gengið fram með yfirlýsingu, sem virðist, í fljótu bragði séð, ætlað að bæta ímynd hans í tengslum við bankamálin, enda virðist ekki vanþörf á, sbr. til dæmis Icesave og nú síðast SpKef-málið, þar sem álitið er, að ríkið hafi tapað 30 milljörðum króna (já, á síðarnefnda málinu! – sjá hér: Landsbanki metur kostnað ríkisins vegna SpKef á 30 milljarða – og að margra mati vegna ákvarðana fjármálaráðherrans).

Hin nýja yfirlýsing Steingríms eða ráðuneytis hans gengur út á, að "beint tjón, vegna þess að Bretar beittu hryðjuverkalögum til að frysta eignir Landsbankans, hafi verið á bilinu tveir til níu milljarðar króna og líklegasta gildið sé um 5,2 milljarðar fyrir fyrirtækin í landinu."

Allt í einu virðist Steingrímur þannig kominn með bein í nefið til að snúa vörn í sókn og krefja Breta um bætur vegna hinnar stórskaðlegu beitingar hryðjuverkalaga þeirra gegn íslenzlum bönkum og lýðveldinu sjálfu ...

En ekki er allt sem sýnist. Í 1. lagi gerði Steingrímur EKKERT í þessu máli í meira en tvö og hálft ár, eftir að hann náði sæti fjármálaráðherra. En í 2. lagi eru þessar tölur hans um skaða Íslands vegna hryðjuverkalaganna sennilega margfalt vanmat. (Að vísu er tekið fram í matinu, að "flest bendi til þess að óbeint tjón sé mun hærra".)

Hér erum við að vísu komin út fyrir Icesave-málið. Þó var ítrekað minnt á það hér á vefsetrinu, bæði af stjórnarmönnum og almennum félagsmönnum Þjóðarheiðurs, að ráðherrum okkar og Alþingi stæði miklu nær að krefja Breta um skaðabætur vegna hryðjuverkalaganna heldur en hitt, að borga þeim eitt einasta penný vegna Icesave-skulda einkabanka.

Þar að auki, með orðum skarpgreinds verkfræðings, sem skrifaði okkur Lofti og öðrum í Þjóðarheiðri í gær: "Skaði Íslands af efnahagsárás Breta sem hófst haustið 2008 nemur þúsundum milljarða, ekki einstöku milljörðum." – Á sama máli er bæði undirritaður og nefndur Loftur Þorsteinsson. Ef við höfum á réttu að standa, skuldar fjármálaráðherrann þjóðinni skýringar á þessu frumhlaupi sínu.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Milljarða tjón vegna hryðjuverkalaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Jón heiðurskall.

Sannleikurinn þarf ætíð sitt skjól.

Og í ICEsave er það skjól hér á síðu Heiðursmanna.

Hafðu þökk fyrir þína góðu grein.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.9.2011 kl. 16:26

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kærar þakkir fyrir þitt vinsamlega innlegg, Ómar.

Við höldum áfram uppi merkinu, annað kemur ekki til greina.

Jón Valur Jensson, 21.9.2011 kl. 15:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband